1 Móse 1
1.1 Í upphafi skapaði Guð himin og jörð. 1.2 Jörðin var þá auð og tóm, og myrkur grúfði yfir djúpinu, og andi Guðs sveif yfir vötnunum. 1.3 Guð sagði: 'Verði ljós!' Og það varð ljós. 1.4 Guð sá, að ljósið var gott, og Guð greindi ljósið frá myrkrinu. 1.5 Og Guð kallaði ljósið dag, en myrkrið kallaði hann nótt. Það varð kveld og það varð morgunn, hinn fyrsti dagur. 1.6 Guð sagði: 'Verði festing milli vatnanna, og hún greini vötn frá vötnum.' 1.7 Þá gjörði Guð festinguna og greindi vötnin, sem voru undir festingunni, frá þeim vötnum, sem voru yfir henni. Og það varð svo. 1.8 Og Guð kallaði festinguna himin. Það varð kveld og það varð morgunn, hinn annar dagur. 1.9 Guð sagði: 'Safnist vötnin undir himninum í einn stað, svo að þurrlendið sjáist.' Og það varð svo. 1.10 Guð kallaði þurrlendið jörð, en safn vatnanna kallaði hann sjó. Og Guð sá, að það var gott. 1.11 Guð sagði: 'Láti jörðin af sér spretta græn grös, sáðjurtir og aldintré, sem hvert beri ávöxt eftir sinni tegund með sæði í á jörðinni.' Og það varð svo. 1.12 Jörðin lét af sér spretta græn grös, jurtir með sæði í, hverja eftir sinni tegund, og aldintré með sæði í sér, hvert eftir sinni tegund. Og Guð sá, að það var gott. 1.13 Það varð kveld og það varð morgunn, hinn þriðji dagur. 1.14 Guð sagði: 'Verði ljós á festingu himinsins, að þau greini dag frá nóttu og séu til tákns og til að marka tíðir, daga og ár. 1.15 Og þau séu ljós á festingu himinsins til að lýsa jörðina.' Og það varð svo. 1.16 Guð gjörði tvö stóru ljósin: hið stærra ljósið til að ráða degi og hið minna ljósið til að ráða nóttu, svo og stjörnurnar. 1.17 Og Guð setti þau á festingu himinsins, að þau skyldu lýsa jörðinni 1.18 og ráða degi og nóttu og greina sundur ljós og myrkur. Og Guð sá, að það var gott. 1.19 Það varð kveld og það varð morgunn, hinn fjórði dagur. 1.20 Guð sagði: 'Vötnin verði kvik af lifandi skepnum, og fuglar fljúgi yfir jörðina undir festingu himinsins.' 1.21 Þá skapaði Guð hin stóru lagardýr og allar hinar lifandi skepnur, sem hrærast og vötnin eru kvik af, eftir þeirra tegund, og alla fleyga fugla eftir þeirra tegund. Og Guð sá, að það var gott. 1.22 Og Guð blessaði þau og sagði: 'Frjóvgist og vaxið og fyllið vötn sjávarins, og fuglum fjölgi á jörðinni.' 1.23 Það varð kveld og það varð morgunn, hinn fimmti dagur. 1.24 Guð sagði: 'Jörðin leiði fram lifandi skepnur, hverja eftir sinni tegund: fénað, skriðkvikindi og villidýr, hvert eftir sinni tegund.' Og það varð svo. 1.25 Guð gjörði villidýrin, hvert eftir sinni tegund, fénaðinn eftir sinni tegund og alls konar skriðkvikindi jarðarinnar eftir sinni tegund. Og Guð sá, að það var gott. 1.26 Guð sagði: 'Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd, líkan oss, og hann skal drottna yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir fénaðinum og yfir villidýrunum og yfir öllum skriðkvikindum, sem skríða á jörðinni.' 1.27 Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu. 1.28 Og Guð blessaði þau, og Guð sagði við þau: 'Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.' 1.29 Og Guð sagði: 'Sjá, ég gef ykkur alls konar sáðberandi jurtir á allri jörðinni og alls konar tré, sem bera ávöxtu með sæði í. Það sé ykkur til fæðu. 1.30 Og öllum villidýrum og öllum fuglum loftsins og öllum skriðkvikindum á jörðinni, öllu því, sem hefir lifandi sál, gef ég öll grös og jurtir til fæðu.' Og það varð svo. 1.31 Og Guð leit allt, sem hann hafði gjört, og sjá, það var harla gott. Það varð kveld og það varð morgunn, hinn sjötti dagur.
1 Móse 2
2.1 Þannig algjörðist himinn og jörð og öll þeirra prýði. 2.2 Guð lauk á hinum sjöunda degi verki sínu, er hann hafði gjört, og hvíldist hinn sjöunda dag af öllu verki sínu, er hann hafði gjört. 2.3 Og Guð blessaði hinn sjöunda dag og helgaði hann, því að á honum hvíldist Guð af verki sínu, sem hann hafði skapað og gjört.
1 Móse 3
3.1 Höggormurinn var slægari en öll önnur dýr merkurinnar, sem Drottinn Guð hafði gjört. Og hann mælti við konuna: 'Er það satt, að Guð hafi sagt: ,Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum`?' 3.2 Þá sagði konan við höggorminn: 'Af ávöxtum trjánna í aldingarðinum megum við eta, 3.3 en af ávexti trésins, sem stendur í miðjum aldingarðinum, ,af honum,` sagði Guð, ,megið þið ekki eta og ekki snerta hann, ella munuð þið deyja.'` 3.4 Þá sagði höggormurinn við konuna: 'Vissulega munuð þið ekki deyja! 3.5 En Guð veit, að jafnskjótt sem þið etið af honum, munu augu ykkar upp ljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills.' 3.6 En er konan sá, að tréð var gott að eta af, fagurt á að líta og girnilegt til fróðleiks, þá tók hún af ávexti þess og át, og hún gaf einnig manni sínum, sem með henni var, og hann át. 3.7 Þá lukust upp augu þeirra beggja, og þau urðu þess vör, að þau voru nakin, og þau festu saman fíkjuviðarblöð og gjörðu sér mittisskýlur. 3.8 En er þau heyrðu til Drottins Guðs, sem var á gangi í aldingarðinum í kveldsvalanum, þá reyndi maðurinn og kona hans að fela sig fyrir Drottni Guði millum trjánna í aldingarðinum. 3.9 Drottinn Guð kallaði á manninn og sagði við hann: 'Hvar ertu?' 3.10 Hann svaraði: 'Ég heyrði til þín í aldingarðinum og varð hræddur, af því að ég er nakinn, og ég faldi mig.' 3.11 En hann mælti: 'Hver hefir sagt þér, að þú værir nakinn? Hefir þú etið af trénu, sem ég bannaði þér að eta af?' 3.12 Þá svaraði maðurinn: 'Konan, sem þú gafst mér til sambúðar, hún gaf mér af trénu, og ég át.' 3.13 Þá sagði Drottinn Guð við konuna: 'Hvað hefir þú gjört?' Og konan svaraði: 'Höggormurinn tældi mig, svo að ég át.' 3.14 Þá sagði Drottinn Guð við höggorminn: 'Af því að þú gjörðir þetta, skalt þú vera bölvaður meðal alls fénaðarins og allra dýra merkurinnar. Á kviði þínum skalt þú skríða og mold eta alla þína lífdaga. 3.15 Og fjandskap vil ég setja milli þín og konunnar, milli þíns sæðis og hennar sæðis. Það skal merja höfuð þitt, og þú skalt merja hæl þess.' 3.16 En við konuna sagði hann: 'Mikla mun ég gjöra þjáningu þína, er þú verður barnshafandi. Með þraut skalt þú börn fæða, og þó hafa löngun til manns þíns, en hann skal drottna yfir þér.' 3.17 Og við manninn sagði hann: 'Af því að þú hlýddir röddu konu þinnar og ást af því tré, sem ég bannaði þér, er ég sagði: ,Þú mátt ekki eta af því,` þá sé jörðin bölvuð þín vegna. Með erfiði skalt þú þig af henni næra alla þína lífdaga. 3.18 Þyrna og þistla skal hún bera þér, og þú skalt eta jurtir merkurinnar. 3.19 Í sveita andlitis þíns skalt þú neyta brauðs þíns, þangað til þú hverfur aftur til jarðarinnar, því að af henni ert þú tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!' 3.20 Og maðurinn nefndi konu sína Evu, því að hún varð móðir allra, sem lifa. 3.21 Og Drottinn Guð gjörði manninum og konu hans skinnkyrtla og lét þau klæðast þeim. 3.22 Drottinn Guð sagði: 'Sjá, maðurinn er orðinn sem einn af oss, þar sem hann veit skyn góðs og ills. Aðeins að hann rétti nú ekki út hönd sína og taki einnig af lífsins tré og eti, og lifi eilíflega!' 3.23 Þá lét Drottinn Guð hann í burt fara úr aldingarðinum Eden til að yrkja jörðina, sem hann var tekinn af. 3.24 Og hann rak manninn burt og setti kerúbana fyrir austan Edengarð og loga hins sveipanda sverðs til að geyma vegarins að lífsins tré.
1 Móse 4
4.1 Maðurinn kenndi konu sinnar Evu, og hún varð þunguð og fæddi Kain og mælti: 'Sveinbarn hefi ég eignast með hjálp Drottins.' 4.2 Og hún fæddi annað sinn, bróður hans, Abel. Abel varð hjarðmaður, en Kain jarðyrkjumaður. 4.3 Og er fram liðu stundir, færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar. 4.4 En Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og af feiti þeirra. 4.5 Og Drottinn leit með velþóknun til Abels og fórnar hans, en til Kains og fórnar hans leit hann ekki með velþóknun. Þá reiddist Kain ákaflega og varð niðurlútur. 4.6 Þá mælti Drottinn til Kains: 'Hví reiðist þú, og hví ert þú niðurlútur? 4.7 Er því ekki þannig farið: Ef þú gjörir rétt, þá getur þú verið upplitsdjarfur, en ef þú gjörir ekki rétt, þá liggur syndin við dyrnar og hefir hug á þér, en þú átt að drottna yfir henni?' 4.8 Þá sagði Kain við Abel bróður sinn: 'Göngum út á akurinn!' Og er þeir voru á akrinum, réðst Kain á Abel bróður sinn og drap hann. 4.9 Þá sagði Drottinn við Kain: 'Hvar er Abel bróðir þinn?' En hann mælti: 'Það veit ég ekki. Á ég að gæta bróður míns?' 4.10 Og Drottinn sagði: 'Hvað hefir þú gjört? Heyr, blóð bróður þíns hrópar til mín af jörðinni! 4.11 Og skalt þú nú vera bölvaður og burt rekinn af akurlendinu, sem opnaði munn sinn til að taka á móti blóði bróður þíns af þinni hendi. 4.12 Þegar þú yrkir akurlendið, skal það eigi framar gefa þér gróður sinn. Landflótta og flakkandi skalt þú vera á jörðinni.' 4.13 Og Kain sagði við Drottin: 'Sekt mín er meiri en svo, að ég fái borið hana! 4.14 Sjá, nú rekur þú mig burt af akurlendinu, og ég verð að felast fyrir augliti þínu og vera landflótta og flakkandi á jörðinni, og hver, sem hittir mig, mun drepa mig.' 4.15 Þá sagði Drottinn við hann: 'Fyrir því skal hver, sem drepur Kain, sæta sjöfaldri hegningu.' Og Drottinn setti Kain merki þess, að enginn, sem hitti hann, skyldi drepa hann. 4.16 Þá gekk Kain burt frá augliti Drottins og settist að í landinu Nód fyrir austan Eden. 4.17 Kain kenndi konu sinnar, og hún varð þunguð og fæddi Henok. En hann var að byggja borg og nefndi borgina eftir nafni sonar síns Henok. 4.18 Og Henoki fæddist Írad, og Írad gat Mehújael, og Mehújael gat Metúsael, og Metúsael gat Lamek. 4.19 Lamek tók sér tvær konur. Hét önnur Ada, en hin Silla. 4.20 Og Ada ól Jabal. Hann varð ættfaðir þeirra, sem í tjöldum búa og fénað eiga. 4.21 En bróðir hans hét Júbal. Hann varð ættfaðir allra þeirra, sem leika á gígjur og hjarðpípur. 4.22 Og Silla ól einnig son, Túbal-Kain, sem smíðaði úr kopar og járni alls konar tól. Og systir Túbal-Kains var Naama. 4.23 Lamek sagði við konur sínar: Ada og Silla, heyrið orð mín, konur Lameks, gefið gaum ræðu minni! Mann drep ég fyrir hvert mitt sár og ungmenni fyrir hverja þá skeinu, sem ég fæ. 4.24 Verði Kains hefnt sjö sinnum, þá skal Lameks hefnt verða sjö og sjötíu sinnum! 4.25 Og Adam kenndi enn að nýju konu sinnar, og hún ól son og kallaði hann Set. 'Því að nú hefir Guð,' kvað hún, 'gefið mér annað afkvæmi í stað Abels, þar eð Kain drap hann.' 4.26 En Set fæddist og sonur, og nefndi hann nafn hans Enos. Þá hófu menn að ákalla nafn Drottins.
1 Móse 5
5.1 Þetta er ættarskrá Adams: Þegar Guð skapaði Adam, gjörði Guð hann sér líkan. 5.2 Hann skóp þau mann og konu og blessaði þau og nefndi þau menn, er þau voru sköpuð. 5.3 Adam lifði hundrað og þrjátíu ár. Þá gat hann son í líking sinni, eftir sinni mynd, og nefndi hann Set. 5.4 Og dagar Adams, eftir að hann gat Set, voru átta hundruð ár, og hann gat sonu og dætur. 5.5 Og allir dagar Adams, sem hann lifði, voru níu hundruð og þrjátíu ár. Þá dó hann. 5.6 Þegar Set var orðinn hundrað og fimm ára gamall gat hann Enos. 5.7 Eftir að Set gat Enos lifði hann átta hundruð og sjö ár og gat sonu og dætur. 5.8 Og allir dagar Sets voru níu hundruð og tólf ár, þá andaðist hann. 5.9 Enos var níutíu ára, er hann gat Kenan. 5.10 Og eftir að Enos gat Kenan lifði hann átta hundruð og fimmtán ár og gat sonu og dætur. 5.11 Og allir dagar Enoss voru níu hundruð og fimm ár, þá andaðist hann. 5.12 Þá er Kenan var sjötíu ára, gat hann Mahalalel. 5.13 Og Kenan lifði, eftir að hann gat Mahalalel, átta hundruð og fjörutíu ár og gat sonu og dætur. 5.14 Og allir dagar Kenans urðu níu hundruð og tíu ár, þá andaðist hann. 5.15 Er Mahalalel var sextíu og fimm ára, gat hann Jared. 5.16 Og Mahalalel lifði, eftir að hann gat Jared, átta hundruð og þrjátíu ár og gat sonu og dætur. 5.17 Og allir dagar Mahalalels voru átta hundruð níutíu og fimm ár, þá andaðist hann. 5.18 Er Jared var hundrað sextíu og tveggja ára, gat hann Enok. 5.19 Og Jared lifði, eftir að hann gat Enok, átta hundruð ár og gat sonu og dætur. 5.20 Og allir dagar Jareds voru níu hundruð sextíu og tvö ár, þá andaðist hann. 5.21 Er Enok var sextíu og fimm ára, gat hann Metúsala. 5.22 Og eftir að Enok gat Metúsala gekk hann með Guði þrjú hundruð ár og gat sonu og dætur. 5.23 Og allir dagar Enoks voru þrjú hundruð sextíu og fimm ár. 5.24 Og Enok gekk með Guði og hvarf, af því að Guð nam hann burt. 5.25 Er Metúsala var hundrað áttatíu og sjö ára, gat hann Lamek. 5.26 Og Metúsala lifði, eftir að hann gat Lamek, sjö hundruð áttatíu og tvö ár og gat sonu og dætur. 5.27 Og allir dagar Metúsala voru níu hundruð sextíu og níu ár, þá andaðist hann. 5.28 Er Lamek var hundrað áttatíu og tveggja ára, gat hann son. 5.29 Og hann nefndi hann Nóa og mælti: 'Þessi mun hugga oss í erfiði voru og striti handa vorra, er jörðin, sem Drottinn bölvaði, bakar oss.' 5.30 Og Lamek lifði, eftir að hann gat Nóa, fimm hundruð níutíu og fimm ár og gat sonu og dætur. 5.31 Og allir dagar Lameks voru sjö hundruð sjötíu og sjö ár, þá andaðist hann. 5.32 Og er Nói var fimm hundruð ára, gat hann Sem, Kam og Jafet.
1 Móse 6
6.1 Er mönnunum tók að fjölga á jörðinni og þeim fæddust dætur, 6.2 sáu synir Guðs, að dætur mannanna voru fríðar, og tóku sér konur meðal þeirra, allar sem þeim geðjuðust. 6.3 Þá sagði Drottinn: 'Andi minn skal ekki ævinlega búa í manninum, með því að hann einnig er hold. Veri dagar hans nú hundrað og tuttugu ár.' 6.4 Á þeim tímum voru risarnir á jörðinni, og einnig síðar, er synir Guðs höfðu samfarir við dætur mannanna og þær fæddu þeim sonu. Það eru kapparnir, sem í fyrndinni voru víðfrægir. 6.5 Er Drottinn sá, að illska mannsins var mikil á jörðinni og að allar hugrenningar hjarta hans voru ekki annað en illska alla daga, 6.6 þá iðraðist Drottinn þess, að hann hafði skapað mennina á jörðinni, og honum sárnaði það í hjarta sínu. 6.7 Og Drottinn sagði: 'Ég vil afmá af jörðinni mennina, sem ég skapaði, bæði mennina, fénaðinn, skriðkvikindin og fugla loftsins, því að mig iðrar, að ég hefi skapað þau.' 6.8 En Nói fann náð í augum Drottins. 6.9 Þetta er saga Nóa: Nói var maður réttlátur og vandaður á sinni öld. Nói gekk með Guði. 6.10 Og Nói gat þrjá sonu: Sem, Kam og Jafet. 6.11 Jörðin var spillt í augsýn Guðs, og jörðin fylltist glæpaverkum. 6.12 Og Guð leit á jörðina, og sjá, hún var spillt orðin, því að allt hold hafði spillt vegum sínum á jörðinni. 6.13 Þá mælti Guð við Nóa: 'Endir alls holds er kominn fyrir minni augsýn, því að jörðin er full af glæpaverkum þeirra. Sjá, ég vil afmá þá af jörðinni. 6.14 Gjör þú þér örk af góferviði. Smáhýsi skalt þú gjöra í örkinni og bræða hana biki utan og innan. 6.15 Og gjör hana svo: Lengd arkarinnar sé þrjú hundruð álnir, breidd hennar fimmtíu álnir og hæð hennar þrjátíu álnir. 6.16 Glugga skalt þú gjöra á örkinni og búa hann til á henni ofanverðri, allt að alin á hæð, og dyr arkarinnar skalt þú setja á hlið hennar og búa til þrjú loft í henni: neðst, í miðju og efst. 6.17 Því sjá, ég læt vatnsflóð koma yfir jörðina til að tortíma öllu holdi undir himninum, sem lífsandi er í. Allt, sem á jörðinni er, skal deyja. 6.18 En við þig mun ég gjöra sáttmála minn, og þú skalt ganga í örkina, þú og synir þínir, og kona þín og sonakonur þínar með þér. 6.19 Af öllum lifandi skepnum, af öllu holdi, skalt þú láta inn í örkina tvennt af hverju, svo að það haldi lífi með þér. Karldýr og kvendýr skulu þau vera: 6.20 Af fuglunum eftir þeirra tegund, af fénaðinum eftir hans tegund og af öllum skriðkvikindum jarðarinnar eftir þeirra tegund. Tvennt af öllu skal til þín inn ganga, til þess að það haldi lífi. 6.21 En tak þú þér af allri fæðu, sem etin er, og safna að þér, að það sé þér og þeim til viðurværis.' 6.22 Og Nói gjörði svo. Allt gjörði hann eins og Guð bauð honum.
1 Móse 7
7.1 Drottinn sagði við Nóa: 'Gakk þú og allt fólk þitt í örkina, því að þig hefi ég séð réttlátan fyrir augliti mínu í þessari kynslóð. 7.2 Tak þú til þín af öllum hreinum dýrum sjö og sjö, karldýr og kvendýr, en af þeim dýrum, sem ekki eru hrein, tvö og tvö, karldýr og kvendýr. 7.3 Einnig af fuglum loftsins sjö og sjö, karlkyns og kvenkyns, til að viðhalda lífsstofni á allri jörðinni. 7.4 Því að sjö dögum liðnum mun ég láta rigna á jörðina fjörutíu daga og fjörutíu nætur, og ég mun afmá af jörðinni sérhverja skepnu, sem ég hefi gjört.' 7.5 Og Nói gjörði allt eins og Drottinn bauð honum. 7.6 En Nói var sex hundruð ára gamall, þegar vatnsflóðið kom yfir jörðina. 7.7 Og Nói gekk í örkina, og synir hans og kona hans og sonakonur hans með honum, undan vatnsflóðinu. 7.8 Af hreinum dýrum og af þeim dýrum, sem ekki voru hrein, og af fuglum og af öllu, sem skríður á jörðinni, 7.9 kom tvennt og tvennt til Nóa í örkina, karlkyns og kvenkyns, eins og Guð hafði boðið Nóa. 7.10 Eftir sjö daga kom vatnsflóðið yfir jörðina. 7.11 Á sexhundraðasta aldursári Nóa, í öðrum mánuðinum, á seytjánda degi mánaðarins, á þeim degi opnuðust allar uppsprettur hins mikla undirdjúps og flóðgáttir himinsins lukust upp. 7.12 Og steypiregn dundi yfir jörðina fjörutíu daga og fjörutíu nætur. 7.13 Einmitt á þeim degi gekk Nói og Sem, Kam og Jafet, synir Nóa, og kona Nóa og þrjár sonakonur hans með þeim í örkina, 7.14 þau og öll villidýrin eftir sinni tegund og allur fénaðurinn eftir sinni tegund og öll skriðkvikindin, sem skríða á jörðinni, eftir sinni tegund, og allir fuglarnir eftir sinni tegund, allir smáfuglar, allt fleygt. 7.15 Og þau komu til Nóa í örkina tvö og tvö af öllu holdi, sem lífsandi var í. 7.16 Og þau, sem komu, gengu inn, karlkyns og kvenkyns af öllu holdi, eins og Guð hafði boðið honum. Og Drottinn læsti eftir honum. 7.17 Og flóðið var á jörðinni fjörutíu daga. Vatnið óx og lyfti örkinni, og hún hófst yfir jörðina. 7.18 Og vötnin mögnuðust og uxu stórum á jörðinni, en örkin flaut ofan á vatninu. 7.19 Og vötnin mögnuðust ákaflega á jörðinni, svo að öll hin háu fjöll, sem eru undir öllum himninum, fóru í kaf. 7.20 Fimmtán álna hátt óx vatnið, svo að fjöllin fóru í kaf. 7.21 Þá dó allt hold, sem hreyfðist á jörðinni, bæði fuglar, fénaður, villidýr og allir ormar, sem skriðu á jörðinni, og allir menn. 7.22 Allt sem hafði lífsanda í nösum sínum, allt sem var á þurrlendinu, það dó. 7.23 Og þannig afmáði hann sérhverja skepnu, sem var á jörðinni, bæði menn og fénað, skriðkvikindi og fugla loftsins. Það var afmáð af jörðinni. En Nói einn varð eftir, og það sem með honum var í örkinni. 7.24 Og vötnin mögnuðust á jörðinni hundrað og fimmtíu daga.
1 Móse 8
8.1 Þá minntist Guð Nóa og allra dýranna og alls fénaðarins, sem með honum var í örkinni, og Guð lét vind blása yfir jörðina, svo að vatnið sjatnaði. 8.2 Og uppsprettur undirdjúpsins luktust aftur og flóðgáttir himinsins, og steypiregninu úr loftinu linnti. 8.3 Og vatnið rénaði meir og meir á jörðinni og þvarr eftir hundrað og fimmtíu daga. 8.4 Og örkin nam staðar í sjöunda mánuðinum, á seytjánda degi mánaðarins, á Araratsfjöllunum. 8.5 Og vatnið var að réna allt til hins tíunda mánaðar. Í tíunda mánuðinum, á fyrsta degi mánaðarins, sáust fjallatindarnir. 8.6 Eftir fjörutíu daga lauk Nói upp glugga arkarinnar, sem hann hafði gjört, 8.7 og lét út hrafn. Hann flaug fram og aftur, þangað til vatnið þornaði á jörðinni. 8.8 Þá sendi hann út frá sér dúfu til að vita, hvort vatnið væri þorrið á jörðinni. 8.9 En dúfan fann ekki hvíldarstað fæti sínum og hvarf til hans aftur í örkina, því að vatn var enn yfir allri jörðinni. Og hann rétti út hönd sína og tók hana og fór með hana inn til sín í örkina. 8.10 Og hann beið enn aðra sjö daga og sendi svo dúfuna aftur úr örkinni. 8.11 Þá kom dúfan til hans aftur undir kveld og var þá með grænt olíuviðarblað í nefinu. Þá sá Nói, að vatnið var þorrið á jörðinni. 8.12 Og enn beið hann aðra sjö daga og lét þá dúfuna út, en hún hvarf ekki framar til hans aftur. 8.13 Og á sexhundraðasta og fyrsta ári, í fyrsta mánuðinum, á fyrsta degi mánaðarins, var vatnið þornað á jörðinni. Og Nói tók þakið af örkinni og litaðist um, og var þá yfirborð jarðarinnar orðið þurrt. 8.14 Í öðrum mánuðinum, á tuttugasta og sjöunda degi mánaðarins, var jörðin þurr. 8.15 Þá talaði Guð við Nóa og mælti: 8.16 'Gakk þú úr örkinni, þú og kona þín og synir þínir og sonakonur þínar með þér. 8.17 Og láttu fara út með þér öll dýr, sem með þér eru, af öllu holdi, bæði fuglana og fénaðinn og öll skriðkvikindin, sem skríða á jörðinni. Verði krökkt af þeim á jörðinni, verði þau frjósöm og fjölgi á jörðinni.' 8.18 Þá gekk Nói út og synir hans og kona hans og sonakonur hans með honum. 8.19 Öll dýr, öll skriðkvikindi, allir fuglar, allt, sem bærist á jörðinni, hvað eftir sinni tegund, gekk út úr örkinni. 8.20 Nói reisti þá Drottni altari og tók af öllum hreinum dýrum og hreinum fuglum og fórnaði brennifórn á altarinu. 8.21 Og Drottinn kenndi þægilegan ilm, og Drottinn sagði við sjálfan sig: 'Ég vil upp frá þessu ekki bölva jörðinni framar vegna mannsins, því að hugrenningar mannshjartans eru illar frá bernsku hans, og ég mun upp frá þessu ekki framar deyða allt, sem lifir, eins og ég hefi gjört. 8.22 Meðan jörðin stendur, skal ekki linna sáning og uppskera, frost og hiti, sumar og vetur, dagur og nótt.'
1 Móse 9
9.1 Guð blessaði Nóa og sonu hans og sagði við þá: 'Verið frjósamir, margfaldist og uppfyllið jörðina. 9.2 Ótti við yður og skelfing skal vera yfir öllum dýrum jarðarinnar, yfir öllum fuglum loftsins, yfir öllu, sem hrærist á jörðinni, og yfir öllum fiskum sjávarins. Á yðar vald er þetta gefið. 9.3 Allt sem hrærist og lifir, skal vera yður til fæðu, ég gef yður það allt, eins og grænu jurtirnar. 9.4 Aðeins hold, sem sálin, það er blóðið, er í, skuluð þér ekki eta. 9.5 En yðar eigin blóðs mun ég hins vegar krefjast. Af hverri skepnu mun ég þess krefjast, og af manninum, af bróður hans, mun ég krefjast lífs mannsins. 9.6 Hver sem úthellir mannsblóði, hans blóði skal af manni úthellt verða. Því að eftir Guðs mynd gjörði hann manninn. 9.7 En ávaxtist þér og margfaldist og vaxið stórum á jörðinni og margfaldist á henni.' 9.8 Og Guð mælti þannig við Nóa og sonu hans, sem voru með honum: 9.9 'Sjá, ég gjöri minn sáttmála við yður og við niðja yðar eftir yður 9.10 og við allar lifandi skepnur, sem með yður eru, bæði við fuglana og fénaðinn og öll villidýrin, sem hjá yður eru, allt, sem út gekk úr örkinni, það er öll dýr jarðarinnar. 9.11 Minn sáttmála vil ég gjöra við yður: Aldrei framar skal allt hold tortímast af vatnsflóði, og aldrei framar mun flóð koma til að eyða jörðina.' 9.12 Og Guð sagði: 'Þetta er merki sáttmálans, sem ég gjöri milli mín og yðar og allra lifandi skepna, sem hjá yður eru, um allar ókomnar aldir: 9.13 Boga minn set ég í skýin, að hann sé merki sáttmálans milli mín og jarðarinnar. 9.14 Og þegar ég dreg ský saman yfir jörðinni og boginn sést í skýjunum, 9.15 þá mun ég minnast sáttmála míns, sem er milli mín og yðar og allra lifandi sálna í öllu holdi, og aldrei framar skal vatnið verða að flóði til að tortíma öllu holdi. 9.16 Og boginn skal standa í skýjunum, og ég mun horfa á hann til þess að minnast hins eilífa sáttmála milli Guðs og allra lifandi sálna í öllu holdi, sem er á jörðinni.' 9.17 Og Guð sagði við Nóa: 'Þetta er teikn sáttmálans, sem ég hefi gjört milli mín og alls holds, sem er á jörðinni.' 9.18 Synir Nóa, sem gengu úr örkinni, voru þeir Sem, Kam og Jafet, en Kam var faðir Kanaans. 9.19 Þessir eru synir Nóa þrír, og frá þeim byggðist öll jörðin. 9.20 Nói gjörðist akuryrkjumaður og plantaði víngarð. 9.21 Og hann drakk af víninu og varð drukkinn og lá nakinn í tjaldi sínu. 9.22 Og Kam, faðir Kanaans, sá nekt föður síns og sagði báðum bræðrum sínum frá, sem úti voru. 9.23 Þá tóku þeir Sem og Jafet skikkjuna og lögðu á herðar sér og gengu aftur á bak og huldu nekt föður síns, en andlit þeirra sneru undan, svo að þeir sáu ekki nekt föður síns. 9.24 Er Nói vaknaði af vímunni, varð hann þess áskynja, hvað sonur hans hinn yngri hafði gjört honum. 9.25 Þá mælti hann: Bölvaður sé Kanaan, auvirðilegur þræll sé hann bræðra sinna. 9.26 Og hann sagði: Lofaður sé Drottinn, Sems Guð, en Kanaan sé þræll þeirra. 9.27 Guð gefi Jafet mikið landrými, og hann búi í tjaldbúðum Sems, en Kanaan sé þræll þeirra. 9.28 Nói lifði eftir flóðið þrjú hundruð og fimmtíu ár. 9.29 Og allir dagar Nóa voru níu hundruð og fimmtíu ár. Þá andaðist hann.
1 Móse 10
10.1 Þetta er ættartala Nóa sona, Sems, Kams og Jafets. Þeim fæddust synir eftir flóðið. 10.2 Synir Jafets: Gómer, Magog, Madaí, Javan, Túbal, Mesek og Tíras. 10.3 Og synir Gómers: Askenas, Rífat og Tógarma. 10.4 Og synir Javans: Elísa, Tarsis, Kittar og Ródanítar. 10.5 Út frá þeim kvísluðust þeir, sem byggja eylönd heiðingjanna. Þetta eru synir Jafets eftir löndum þeirra, hver eftir sinni tungu, eftir kynþáttum þeirra og samkvæmt þjóðerni þeirra. 10.6 Synir Kams: Kús, Mísraím, Pút og Kanaan. 10.7 Og synir Kúss: Seba, Havíla, Sabta, Raema og Sabteka. Og synir Raema: Séba og Dedan. 10.8 Kús gat Nimrod. Hann tók að gjörast voldugur á jörðinni. 10.9 Hann var mikill veiðimaður fyrir Drottni. Því er máltækið: 'Mikill veiðimaður fyrir Drottni eins og Nimrod.' 10.10 Og upphaf ríkis hans var Babel, Erek, Akkad og Kalne í Sínearlandi. 10.11 Frá þessu landi hélt hann til Assýríu og byggði Níníve, Rehóbót-Ír og Kala, 10.12 og Resen milli Níníve og Kala, það er borgin mikla. 10.13 Mísraím gat Lúdíta, Anamíta, Lekabíta, Naftúkíta, 10.14 Patrúsíta, Kaslúkíta (þaðan eru komnir Filistar) og Kaftóríta. 10.15 Kanaan gat Sídon, frumgetning sinn, og Het 10.16 og Jebúsíta, Amoríta, Gírgasíta, 10.17 Hevíta, Arkíta, Síníta, 10.18 Arvadíta, Semaríta og Hamatíta. Og síðan breiddust út kynkvíslir Kanaanítanna. 10.19 Landamerki Kanaanítanna eru frá Sídon um Gerar allt til Gasa, þá er stefnan til Sódómu og Gómorru og Adma og Sebóím, allt til Lasa. 10.20 Þetta eru synir Kams eftir kynþáttum þeirra, eftir tungum þeirra, samkvæmt löndum þeirra og þjóðerni. 10.21 En Sem, ættfaðir allra Ebers sona, eldri bróðir Jafets, eignaðist og sonu. 10.22 Synir Sems: Elam, Assúr, Arpaksad, Lúd og Aram. 10.23 Og synir Arams: Ús, Húl, Geter og Mas. 10.24 Arpaksad gat Sela, og Sela gat Eber. 10.25 Og Eber fæddust tveir synir. Hét annar Peleg, því að á hans dögum greindist fólkið á jörðinni, en bróðir hans hét Joktan. 10.26 Og Joktan gat Almódad, Salef, Hasarmavet, Jara, 10.27 Hadóram, Úsal, Dikla, 10.28 Óbal, Abímael, Seba, 10.29 Ófír, Havíla og Jóbab. Þessir allir eru synir Joktans. 10.30 Og bústaður þeirra var frá Mesa til Sefar, til austurfjallanna. 10.31 Þetta eru synir Sems, eftir ættkvíslum þeirra, eftir tungum þeirra, samkvæmt löndum þeirra, eftir þjóðerni þeirra. 10.32 Þetta eru ættkvíslir Nóa sona eftir ættartölum þeirra, samkvæmt þjóðerni þeirra, og frá þeim kvísluðust þjóðirnar út um jörðina eftir flóðið.
1 Móse 11
11.1 Öll jörðin hafði eitt tungumál og ein og sömu orð. 11.2 Og svo bar við, er þeir fóru stað úr stað í austurlöndum, að þeir fundu láglendi í Sínearlandi og settust þar að. 11.3 Og þeir sögðu hver við annan: 'Gott og vel, vér skulum hnoða tigulsteina og herða í eldi.' Og þeir notuðu tigulsteina í stað grjóts og jarðbik í stað kalks. 11.4 Og þeir sögðu: 'Gott og vel, vér skulum byggja oss borg og turn, sem nái til himins, og gjörum oss minnismerki, svo að vér tvístrumst ekki um alla jörðina.' 11.5 Þá steig Drottinn niður til þess að sjá borgina og turninn, sem mannanna synir voru að byggja. 11.6 Og Drottinn mælti: 'Sjá, þeir eru ein þjóð og hafa allir sama tungumál, og þetta er hið fyrsta fyrirtæki þeirra. Og nú mun þeim ekkert ófært verða, sem þeir taka sér fyrir hendur að gjöra. 11.7 Gott og vel, stígum niður og ruglum þar tungumál þeirra, svo að enginn skilji framar annars mál.' 11.8 Og Drottinn tvístraði þeim þaðan út um alla jörðina, svo að þeir urðu af að láta að byggja borgina. 11.9 Þess vegna heitir hún Babel, því að þar ruglaði Drottinn tungumál allrar jarðarinnar, og þaðan tvístraði hann þeim um alla jörðina. 11.10 Þetta er ættartala Sems: Sem var hundrað ára gamall, er hann gat Arpaksad, tveim árum eftir flóðið. 11.11 Og Sem lifði, eftir að hann gat Arpaksad, fimm hundruð ár og gat sonu og dætur. 11.12 Er Arpaksad var þrjátíu og fimm ára, gat hann Sela. 11.13 Og Arpaksad lifði, eftir að hann gat Sela, fjögur hundruð og þrjú ár og gat sonu og dætur. 11.14 Er Sela var þrjátíu ára, gat hann Eber. 11.15 Og Sela lifði, eftir að hann gat Eber, fjögur hundruð og þrjú ár og gat sonu og dætur. 11.16 Er Eber var þrjátíu og fjögurra ára, gat hann Peleg. 11.17 Og Eber lifði, eftir að hann gat Peleg, fjögur hundruð og þrjátíu ár og gat sonu og dætur. 11.18 Er Peleg var þrjátíu ára, gat hann Reú. 11.19 Og Peleg lifði, eftir að hann gat Reú, tvö hundruð og níu ár og gat sonu og dætur. 11.20 Er Reú var þrjátíu og tveggja ára, gat hann Serúg. 11.21 Og Reú lifði, eftir að hann gat Serúg, tvö hundruð og sjö ár og gat sonu og dætur. 11.22 Er Serúg var þrjátíu ára, gat hann Nahor. 11.23 Og Serúg lifði, eftir að hann gat Nahor, tvö hundruð ár og gat sonu og dætur. 11.24 Er Nahor var tuttugu og níu ára, gat hann Tara. 11.25 Og Nahor lifði, eftir að hann gat Tara, hundrað og nítján ár og gat sonu og dætur. 11.26 Er Tara var sjötíu ára, gat hann Abram, Nahor og Haran. 11.27 Þetta er saga Tara: Tara gat Abram, Nahor og Haran, en Haran gat Lot. 11.28 Og Haran dó á undan Tara föður sínum í ættlandi sínu, í Úr í Kaldeu. 11.29 Og Abram og Nahor tóku sér konur. Kona Abrams hét Saraí, en kona Nahors Milka, dóttir Harans, föður Milku og föður Ísku. 11.30 En Saraí var óbyrja, hún átti eigi börn. 11.31 Þá tók Tara Abram son sinn og Lot Haransson, sonarson sinn, og Saraí tengdadóttur sína, konu Abrams sonar síns, og lagði af stað með þau frá Úr í Kaldeu áleiðis til Kanaanlands, og þau komu til Harran og settust þar að. 11.32 Og dagar Tara voru tvö hundruð og fimm ár. Þá andaðist Tara í Harran.
1 Móse 12
12.1 Drottinn sagði við Abram: 'Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns, til landsins, sem ég mun vísa þér á. 12.2 Ég mun gjöra þig að mikilli þjóð og blessa þig og gjöra nafn þitt mikið, og blessun skalt þú vera. 12.3 Ég mun blessa þá, sem þig blessa, en bölva þeim, sem þér formælir, og af þér skulu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta.' 12.4 Þá lagði Abram af stað, eins og Drottinn hafði sagt honum, og Lot fór með honum. En Abram var sjötíu og fimm ára að aldri, er hann fór úr Harran. 12.5 Abram tók Saraí konu sína og Lot bróðurson sinn og alla fjárhluti, sem þeir höfðu eignast, og þær sálir, er þeir höfðu fengið í Harran. Og þeir lögðu af stað og héldu til Kanaanlands. Þeir komu til Kanaanlands. 12.6 Og Abram fór um landið, allt þangað er Síkem heitir, allt til Mórelundar. En þá voru Kanaanítar í landinu. 12.7 Þá birtist Drottinn Abram og sagði við hann: 'Niðjum þínum vil ég gefa þetta land.' Og hann reisti þar altari Drottni, sem hafði birst honum. 12.8 Þaðan hélt hann til fjallanna fyrir austan Betel og setti þar tjöld sín, svo að Betel var í vestur, en Aí í austur. Og hann reisti þar Drottni altari og ákallaði nafn Drottins. 12.9 Og Abram færði sig smátt og smátt til Suðurlandsins. 12.10 En hallæri varð í landinu. Þá fór Abram til Egyptalands til að dveljast þar um hríð, því að hallærið var mikið í landinu. 12.11 Og er hann var kominn langt á leið til Egyptalands, sagði hann við Saraí konu sína: 'Sjá, ég veit að þú ert kona fríð sýnum. 12.12 Það mun því fara svo, að þegar Egyptar sjá þig, þá munu þeir segja: ,Þetta er kona hans,` og drepa mig, en þig munu þeir láta lífi halda. 12.13 Segðu fyrir hvern mun, að þú sért systir mín, svo að mér megi líða vel fyrir þínar sakir og ég megi lífi halda þín vegna.' 12.14 Er Abram kom til Egyptalands, sáu Egyptar, að konan var mjög fríð. 12.15 Og höfðingjar Faraós sáu hana og létu mikið af henni við Faraó, og konan var tekin í hús Faraós. 12.16 Og hann gjörði vel við Abram hennar vegna, og hann eignaðist sauði, naut og asna, þræla og ambáttir, ösnur og úlfalda. 12.17 En Drottinn þjáði Faraó og hús hans með miklum plágum vegna Saraí, konu Abrams. 12.18 Þá kallaði Faraó Abram til sín og mælti: 'Hví hefir þú gjört mér þetta? Hví sagðir þú mér ekki, að hún væri kona þín? 12.19 Hví sagðir þú: ,Hún er systir mín,` svo að ég tók hana mér fyrir konu? En þarna er nú konan þín, tak þú hana og far burt.' 12.20 Og Faraó skipaði svo fyrir um Abram, að menn sínir skyldu fylgja honum á braut og konu hans með öllu, sem hann átti.
1 Móse 13
13.1 Og Abram fór frá Egyptalandi með konu sína og allt, sem hann átti, og Lot fór með honum, til Suðurlandsins. 13.2 Abram var stórauðugur að kvikfé, silfri og gulli. 13.3 Og hann flutti sig smátt og smátt sunnan að allt til Betel, til þess staðar, er tjald hans hafði áður verið, milli Betel og Aí, 13.4 til þess staðar, þar sem hann áður hafði reist altarið. Og Abram ákallaði þar nafn Drottins. 13.5 Lot, sem fór með Abram, átti og sauði, naut og tjöld. 13.6 Og landið bar þá ekki, svo að þeir gætu saman verið, því að eign þeirra var mikil, og þeir gátu ekki saman verið. 13.7 Og sundurþykkja reis milli fjárhirða Abrams og fjárhirða Lots. _ En Kanaanítar og Peresítar bjuggu þá í landinu. 13.8 Þá mælti Abram við Lot: 'Engin misklíð sé milli mín og þín og milli minna og þinna fjárhirða, því að við erum frændur. 13.9 Liggur ekki allt landið opið fyrir þér? Skil þig heldur við mig. Viljir þú fara til vinstri handar, þá fer ég til hægri; og viljir þú fara til hægri handar, þá fer ég til vinstri.' 13.10 Þá hóf Lot upp augu sín og sá, að allt Jórdansléttlendið, allt til Sóar, var vatnsríkt land, eins og aldingarður Drottins, eins og Egyptaland. (Þetta var áður en Drottinn eyddi Sódómu og Gómorru.) 13.11 Og Lot kaus sér allt Jórdansléttlendið, og Lot flutti sig austur á við, og þannig skildu þeir. 13.12 Abram bjó í Kanaanlandi, en Lot bjó í borgunum á sléttlendinu og færði tjöld sín allt til Sódómu. 13.13 En mennirnir í Sódómu voru vondir og stórsyndarar fyrir Drottni. 13.14 Drottinn sagði við Abram, eftir að Lot hafði skilið við hann: 'Hef þú upp augu þín, og litast um frá þeim stað, sem þú ert á, til norðurs, suðurs, austurs og vesturs. 13.15 Því að allt landið, sem þú sér, mun ég gefa þér og niðjum þínum ævinlega. 13.16 Og ég mun gjöra niðja þína sem duft jarðar, svo að geti nokkur talið duft jarðarinnar, þá skulu einnig niðjar þínir verða taldir. 13.17 Tak þig nú upp og far þú um landið þvert og endilangt, því að þér mun ég gefa það.' 13.18 Og Abram færði sig með tjöld sín og kom og settist að í Mamrelundi, sem er í Hebron, og reisti Drottni þar altari.
1 Móse 14
14.1 Þegar Amrafel var konungur í Sínear, Aríok konungur í Ellasar, Kedorlaómer konungur í Elam og Tídeal konungur í Gojím, bar það til, 14.2 að þeir herjuðu á Bera, konung í Sódómu, á Birsa, konung í Gómorru, á Síneab, konung í Adma, á Semeber, konung í Sebóím, og konunginn í Bela (það er Sóar). 14.3 Allir þessir hittust á Siddímsvöllum. (Þar er nú Saltisjór.) 14.4 Í tólf ár höfðu þeir verið lýðskyldir Kedorlaómer, en á hinu þrettánda ári höfðu þeir gjört uppreisn. 14.5 Og á fjórtánda ári kom Kedorlaómer og þeir konungar, sem með honum voru, og sigruðu Refaítana í Astarot Karnaím, Súsítana í Ham, Emítana á Kírjataímsvöllum 14.6 og Hórítana á fjalli þeirra Seír allt til El-Paran, sem er við eyðimörkina. 14.7 Síðan sneru þeir við og komu til En-Mispat (það er Kades), og fóru herskildi yfir land Amalekíta og sömuleiðis Amoríta, sem bjuggu í Hasason Tamar. 14.8 Þá lögðu þeir af stað, konungurinn í Sódómu, konungurinn í Gómorru, konungurinn í Adma, konungurinn í Sebóím og konungurinn í Bela (það er Sóar), og þeir fylktu liði sínu móti þeim á Síddímsvöllum, 14.9 móti Kedorlaómer, konungi í Elam, Tídeal, konungi í Gojím, Amrafel, konungi í Sínear, og Aríok, konungi í Ellasar, fjórir konungar móti fimm. 14.10 En á Siddímsvöllum var hver jarðbiksgröfin við aðra. Og konungarnir í Sódómu og Gómorru lögðu á flótta og féllu ofan í þær, en þeir, sem af komust, flýðu til fjalla. 14.11 Þá tóku hinir alla fjárhluti, sem voru í Sódómu og Gómorru, og öll matvæli og fóru burt. 14.12 Þeir tóku og Lot, bróðurson Abrams, og fjárhluti hans og fóru burt, en hann átti heima í Sódómu. 14.13 Þá kom maður af flóttanum og sagði Hebreanum Abram tíðindin, en hann bjó þá í lundi Amorítans Mamre, bróður Eskols og Aners, og þeir voru bandamenn Abrams. 14.14 En er Abram frétti, að frændi hans var hertekinn, bjó hann í skyndi þrjú hundruð og átján reynda menn sína, fædda í húsi hans, og elti þá allt til Dan. 14.15 Skipti hann liði sínu í flokka og réðst á þá á náttarþeli, hann og menn hans, og sigraði þá og rak flóttann allt til Hóba, sem er fyrir norðan Damaskus. 14.16 Sneri hann því næst heimleiðis með alla fjárhlutina og bróðurson sinn Lot, og fjárhluti hans hafði hann einnig heim með sér, sömuleiðis konurnar og fólkið. 14.17 En er hann hafði unnið sigur á Kedorlaómer konungi og þeim konungum, sem með honum voru, og hélt heimleiðis, fór konungurinn í Sódómu til fundar við hann í Savedal. (Þar heitir nú Kóngsdalur.) 14.18 Og Melkísedek konungur í Salem kom með brauð og vín, en hann var prestur Hins Hæsta Guðs. 14.19 Og hann blessaði Abram og sagði: 'Blessaður sé Abram af Hinum Hæsta Guði, skapara himins og jarðar! 14.20 Og lofaður sé Hinn Hæsti Guð, sem gaf óvini þína þér í hendur!' Og Abram gaf honum tíund af öllu. 14.21 Konungurinn í Sódómu sagði við Abram: 'Gef mér mennina, en tak þú fjárhlutina.' 14.22 Þá mælti Abram við konunginn í Sódómu: 'Ég upplyfti höndum mínum til Drottins, Hins Hæsta Guðs, skapara himins og jarðar: 14.23 Ég tek hvorki þráð né skóþveng, né nokkuð af öllu sem þér tilheyrir, svo að þú skulir ekki segja: ,Ég hefi gjört Abram ríkan.` 14.24 Ekkert handa mér! Aðeins það, sem sveinarnir hafa neytt, og hlut þeirra manna, sem með mér fóru, Aners, Eskols og Mamre. Þeir mega taka sinn hlut.'
1 Móse 15
15.1 Eftir þessa atburði kom orð Drottins til Abrams í sýn: 'Óttast þú ekki, Abram, ég er þinn skjöldur, laun þín munu mjög mikil verða.' 15.2 Og Abram mælti: 'Drottinn Guð, hvað ætlar þú að gefa mér? Ég fer héðan barnlaus, og Elíeser frá Damaskus verður erfingi húss míns.' 15.3 Og Abram mælti: 'Sjá, mér hefir þú ekkert afkvæmi gefið, og húskarl minn mun erfa mig.' 15.4 Og sjá, orð Drottins kom til hans: 'Ekki skal hann erfa þig, heldur sá, sem af þér mun getinn verða, hann mun erfa þig.' 15.5 Og hann leiddi hann út og mælti: 'Lít þú upp til himins og tel þú stjörnurnar, ef þú getur talið þær.' Og hann sagði við hann: 'Svo margir skulu niðjar þínir verða.' 15.6 Og Abram trúði Drottni, og hann reiknaði honum það til réttlætis. 15.7 Þá sagði hann við hann: 'Ég er Drottinn, sem leiddi þig út frá Úr í Kaldeu til þess að gefa þér þetta land til eignar.' 15.8 Og Abram mælti: 'Drottinn Guð, hvað skal ég hafa til marks um, að ég muni eignast það?' 15.9 Og hann mælti við hann: 'Fær mér þrevetra kvígu, þrevetra geit, þrevetran hrút, turtildúfu og unga dúfu.' 15.10 Og hann færði honum öll þessi dýr og hlutaði þau sundur í miðju og lagði hvern hlutinn gegnt öðrum. En fuglana hlutaði hann ekki sundur. 15.11 Og hræfuglar flugu að ætinu, en Abram fældi þá burt. 15.12 Er sól var að renna, leið þungur svefnhöfgi á Abram, og sjá: felmti og miklu myrkri sló yfir hann. 15.13 Þá sagði hann við Abram: 'Vit það fyrir víst, að niðjar þínir munu lifa sem útlendingar í landi, sem þeir eiga ekki, og þeir munu þjóna þeim, og þeir þjá þá í fjögur hundruð ár. 15.14 En þá þjóð, sem þeir munu þjóna, mun ég dæma, og síðar munu þeir þaðan fara með mikinn fjárhlut. 15.15 En þú skalt fara í friði til feðra þinna, þú skalt verða jarðaður í góðri elli. 15.16 Hinn fjórði ættliður þeirra mun koma hingað aftur, því að enn hafa Amorítar eigi fyllt mæli synda sinna.' 15.17 En er sól var runnin og myrkt var orðið, kom reykur sem úr ofni og eldslogi, er leið fram á milli þessara fórnarstykkja. 15.18 Á þeim degi gjörði Drottinn sáttmála við Abram og mælti: 'Þínu afkvæmi gef ég þetta land, frá Egyptalandsánni til árinnar miklu, árinnar Efrat: 15.19 land Keníta, Kenissíta, Kadmóníta, 15.20 Hetíta, Peresíta, Refaíta, 15.21 Amoríta, Kanaaníta, Gírgasíta og Jebúsíta.'
1 Móse 16
16.1 Saraí kona Abrams ól honum ekki börn. En hún hafði egypska ambátt, sem hét Hagar. 16.2 Og Saraí sagði við Abram: 'Heyrðu, Drottinn hefir varnað mér barngetnaðar. Gakk því inn til ambáttar minnar, vera má að hún afli mér afkvæmis.' Og Abram hlýddi orðum Saraí. 16.3 Saraí, kona Abrams, tók Hagar hina egypsku, ambátt sína, er Abram hafði búið tíu ár í Kanaanlandi, og gaf manni sínum Abram hana fyrir konu. 16.4 Og hann gekk inn til Hagar, og hún varð þunguð. En er hún vissi, að hún var með barni, fyrirleit hún húsmóður sína. 16.5 Þá sagði Saraí við Abram: 'Sá óréttur, sem ég verð að þola, bitni á þér! Ég hefi gefið ambátt mína þér í faðm, en er hún nú veit, að hún er með barni, fyrirlítur hún mig. Drottinn dæmi milli mín og þín!' 16.6 En Abram sagði við Saraí: 'Sjá, ambátt þín er á þínu valdi. Gjör þú við hana sem þér gott þykir.' Þá þjáði Saraí hana, svo að hún flýði í burtu frá henni. 16.7 Þá fann engill Drottins hana hjá vatnslind í eyðimörkinni, hjá lindinni á veginum til Súr. 16.8 Og hann mælti: 'Hagar, ambátt Saraí, hvaðan kemur þú og hvert ætlar þú að fara?' Hún svaraði: 'Ég er á flótta frá Saraí, húsmóður minni.' 16.9 Og engill Drottins sagði við hana: 'Hverf þú heim aftur til húsmóður þinnar og gef þig undir hennar vald.' 16.10 Engill Drottins sagði við hana: 'Ég mun margfalda afkvæmi þitt, svo að það verði eigi talið fyrir fjölda sakir.' 16.11 Engill Drottins sagði við hana: 'Sjá, þú ert þunguð og munt son fæða. Hans nafn skalt þú kalla Ísmael, því að Drottinn hefir heyrt kveinstafi þína. 16.12 Hann mun verða maður ólmur sem villiasni, hönd hans mun vera uppi á móti hverjum manni og hvers manns hönd uppi á móti honum, og hann mun búa andspænis öllum bræðrum sínum.' 16.13 Og hún nefndi Drottin, sem við hana talaði, 'Þú ert Guð, sem sér.' Því að hún sagði: 'Ætli ég hafi einnig hér horft á eftir honum, sem hefir séð mig?' 16.14 Þess vegna heitir brunnurinn Beer-lahaj-róí, en hann er á milli Kades og Bered. 16.15 Hagar ól Abram son, og Abram nefndi son sinn, sem Hagar ól honum, Ísmael. 16.16 En Abram var áttatíu og sex ára gamall, þegar Hagar ól honum Ísmael.
1 Móse 17
17.1 Er Abram var níutíu og níu ára gamall, birtist Drottinn honum og sagði: 'Ég er Almáttugur Guð. Gakk þú fyrir mínu augliti og ver grandvar, 17.2 þá vil ég gjöra sáttmála milli mín og þín, og margfalda þig mikillega.' 17.3 Þá féll Abram fram á ásjónu sína, og Guð talaði við hann og sagði: 17.4 'Sjá, það er ég, sem hefi gjört við þig sáttmála, og þú skalt verða faðir margra þjóða. 17.5 Því skalt þú eigi lengur nefnast Abram, heldur skalt þú heita Abraham, því að föður margra þjóða gjöri ég þig. 17.6 Og ég mun gjöra þig mjög frjósaman og gjöra þig að þjóðum, og af þér skulu konungar koma. 17.7 Og ég gjöri sáttmála milli mín og þín og þinna niðja eftir þig, frá einum ættlið til annars, ævinlegan sáttmála: að vera þinn Guð og þinna niðja eftir þig. 17.8 Og ég mun gefa þér og niðjum þínum eftir þig það land, sem þú nú býr í sem útlendingur, allt Kanaanland til ævinlegrar eignar, og ég skal vera Guð þeirra.' 17.9 Guð sagði við Abraham: 'Þú skalt halda minn sáttmála, þú og niðjar þínir eftir þig, frá einum ættlið til annars. 17.10 Þetta er minn sáttmáli, sem þér skuluð halda, milli mín og yðar og niðja þinna eftir þig: Allt karlkyn meðal yðar skal umskera. 17.11 Yður skal umskera á holdi yfirhúðar yðar, og það sé merki sáttmálans milli mín og yðar. 17.12 Átta daga gömul skal öll sveinbörn umskera meðal yðar, ættlið eftir ættlið, bæði þau, er heima eru fædd, og eins hin, sem keypt eru verði af einhverjum útlendingi, er eigi er af þínum ættlegg. 17.13 Umskera skal bæði þann, sem fæddur er í húsi þínu, og eins þann, sem þú hefir verði keyptan, og þannig sé minn sáttmáli í yðar holdi sem ævinlegur sáttmáli. 17.14 En óumskorinn karlmaður, sá er ekki er umskorinn á holdi yfirhúðar sinnar, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni. Sáttmála minn hefir hann rofið.' 17.15 Guð sagði við Abraham: 'Saraí konu þína skalt þú ekki lengur nefna Saraí, heldur skal hún heita Sara. 17.16 Og ég mun blessa hana, og með henni mun ég einnig gefa þér son. Og ég mun blessa hana, og hún skal verða ættmóðir heilla þjóða, hún mun verða ættmóðir þjóðkonunga.' 17.17 Þá féll Abraham fram á ásjónu sína og hló og hugsaði með sjálfum sér: 'Mun hundrað ára gamall maður eignast barn, og mun Sara níræð barn ala?' 17.18 Og Abraham sagði við Guð: 'Ég vildi að Ísmael mætti lifa fyrir þínu augliti!' 17.19 Og Guð mælti: 'Vissulega skal Sara kona þín fæða þér son, og þú skalt nefna hann Ísak, og ég mun gjöra sáttmála við hann sem ævinlegan sáttmála fyrir niðja hans eftir hann. 17.20 Og að því er Ísmael snertir hefi ég bænheyrt þig. Sjá, ég mun blessa hann og gjöra hann frjósaman og margfalda hann mikillega. Tólf þjóðhöfðingja mun hann geta, og ég mun gjöra hann að mikilli þjóð. 17.21 En minn sáttmála mun ég gjöra við Ísak, sem Sara mun fæða þér um þessar mundir á næsta ári.' 17.22 Og er Guð hafði lokið tali sínu við Abraham, sté hann upp frá honum. 17.23 Þá tók Abraham son sinn Ísmael og alla, sem fæddir voru í hans húsi, og alla, sem hann hafði verði keypta, allt karlkyn meðal heimamanna Abrahams, og umskar hold yfirhúðar þeirra á þessum sama degi, eins og Guð hafði boðið honum. 17.24 Abraham var níutíu og níu ára gamall, er hann var umskorinn á holdi yfirhúðar sinnar. 17.25 Og Ísmael sonur hans var þrettán ára, er hann var umskorinn á holdi yfirhúðar sinnar. 17.26 Á þessum sama degi voru þeir umskornir Abraham og Ísmael sonur hans, 17.27 og allir hans heimamenn. Bæði þeir, er heima voru fæddir, og eins þeir, sem verði voru keyptir af útlendingum, voru umskornir með honum.
1 Móse 18
18.1 Drottinn birtist Abraham í Mamrelundi, er hann sat í tjalddyrum sínum í miðdegishitanum. 18.2 Og hann hóf upp augu sín og litaðist um, og sjá, þrír menn stóðu gagnvart honum. Og er hann sá þá, skundaði hann til móts við þá úr tjalddyrum sínum og laut þeim til jarðar 18.3 og mælti: 'Herra minn, hafi ég fundið náð í augum þínum, þá gakk eigi fram hjá þjóni þínum. 18.4 Leyfið, að sótt sé lítið eitt af vatni, að þér megið þvo fætur yðar, og hvílið yður undir trénu. 18.5 Og ég ætla að sækja brauðbita, að þér megið styrkja hjörtu yðar, _ síðan getið þér haldið áfram ferðinni, _ úr því að þér fóruð hér um hjá þjóni yðar.' Og þeir svöruðu: 'Gjörðu eins og þú hefir sagt.' 18.6 Þá flýtti Abraham sér inn í tjaldið til Söru og mælti: 'Sæktu nú sem skjótast þrjá mæla hveitimjöls, hnoðaðu það og bakaðu kökur.' 18.7 Og Abraham skundaði til nautanna og tók kálf, ungan og vænan, og fékk sveini sínum, og hann flýtti sér að matbúa hann. 18.8 Og hann tók áfir og mjólk og kálfinn, sem hann hafði matbúið, og setti fyrir þá, en sjálfur stóð hann frammi fyrir þeim undir trénu, meðan þeir mötuðust. 18.9 Þá sögðu þeir við hann: 'Hvar er Sara kona þín?' Hann svaraði: 'Þarna inni í tjaldinu.' 18.10 Og Drottinn sagði: 'Vissulega mun ég aftur koma til þín að ári liðnu í sama mund, og mun þá Sara kona þín hafa eignast son.' En Sara heyrði þetta í dyrum tjaldsins, sem var að baki hans. 18.11 En Abraham og Sara voru gömul og hnigin á efra aldur, svo að kvenlegir eðlishættir voru horfnir frá Söru. 18.12 Og Sara hló með sjálfri sér og mælti: 'Eftir að ég er gömul orðin, skyldi ég þá á munúð hyggja, þar sem bóndi minn er einnig gamall?' 18.13 Þá sagði Drottinn við Abraham: 'Hví hlær Sara og segir: ,Mun það satt, að ég skuli barn fæða svo gömul?` 18.14 Er Drottni nokkuð ómáttugt? Á sinni tíð að vori mun ég aftur koma til þín, og Sara hefir þá eignast son.' 18.15 Og Sara neitaði því og sagði: 'Eigi hló ég,' því að hún var hrædd. En hann sagði: 'Jú, víst hlóst þú.' 18.16 Því næst tóku mennirnir sig upp þaðan og horfðu niður til Sódómu, en Abraham gekk með þeim til að fylgja þeim á veg. 18.17 Þá sagði Drottinn: 'Skyldi ég dylja Abraham þess, sem ég ætla að gjöra, 18.18 þar sem Abraham mun verða að mikilli og voldugri þjóð, og allar þjóðir jarðarinnar munu af honum blessun hljóta? 18.19 Því að ég hefi útvalið hann, til þess að hann bjóði börnum sínum og húsi sínu eftir sig, að þau varðveiti vegu Drottins með því að iðka rétt og réttlæti, til þess að Drottinn láti koma fram við Abraham það, sem hann hefir honum heitið.' 18.20 Og Drottinn mælti: 'Hrópið yfir Sódómu og Gómorru er vissulega mikið, og synd þeirra er vissulega mjög þung. 18.21 Ég ætla því að stíga niður þangað til þess að sjá, hvort þeir hafa fullkomlega aðhafst það, sem hrópað er um. En sé eigi svo, þá vil ég vita það.' 18.22 Og mennirnir sneru í brott þaðan og héldu til Sódómu, en Abraham stóð enn þá frammi fyrir Drottni. 18.23 Og Abraham gekk fyrir hann og mælti: 'Hvort munt þú afmá hina réttlátu með hinum óguðlegu? 18.24 Vera má, að fimmtíu réttlátir séu í borginni. Hvort munt þú afmá þá og ekki þyrma staðnum vegna þeirra fimmtíu réttlátu, sem þar eru? 18.25 Fjarri sé það þér að gjöra slíkt, að deyða hina réttlátu með hinum óguðlegu, svo að eitt gangi yfir réttláta og óguðlega. Fjarri sé það þér! Mun dómari alls jarðríkis ekki gjöra rétt?' 18.26 Og Drottinn mælti: 'Finni ég í Sódómu fimmtíu réttláta innan borgar, þá þyrmi ég öllum staðnum þeirra vegna.' 18.27 Abraham svaraði og sagði: 'Æ, ég hefi dirfst að tala við Drottin, þótt ég sé duft eitt og aska. 18.28 Vera má, að fimm skorti á fimmtíu réttláta. Munt þú eyða alla borgina vegna þessara fimm?' Þá mælti hann: 'Eigi mun ég eyða hana, finni ég þar fjörutíu og fimm.' 18.29 Og Abraham hélt áfram að tala við hann og mælti: 'Vera má, að þar finnist ekki nema fjörutíu.' En hann svaraði: 'Vegna þeirra fjörutíu mun ég láta það ógjört.' 18.30 Og hann sagði: 'Ég bið þig, Drottinn, að þú reiðist ekki, þó að ég tali. Vera má að þar finnist ekki nema þrjátíu.' Og hann svaraði: 'Ég mun ekki gjöra það, finni ég þar þrjátíu.' 18.31 Og hann sagði: 'Æ, ég hefi dirfst að tala við Drottin! Vera má, að þar finnist ekki nema tuttugu.' Og hann mælti: 'Ég mun ekki eyða hana vegna þeirra tuttugu.' 18.32 Og hann mælti: 'Ég bið þig, Drottinn, að þú reiðist ekki, þó að ég tali enn aðeins í þetta sinn. Vera má að þar finnist aðeins tíu.' Og hann sagði: 'Ég mun ekki eyða hana vegna þeirra tíu.' 18.33 Og Drottinn fór í brott, er hann hafði lokið tali sínu við Abraham, en Abraham hvarf aftur heimleiðis.
1 Móse 19
19.1 Englarnir tveir komu um kveldið til Sódómu. Sat Lot í borgarhliði. Og er hann sá þá, stóð hann upp í móti þeim og hneigði ásjónu sína til jarðar. 19.2 Því næst mælti hann: 'Heyrið, herrar mínir, sýnið lítillæti og komið inn í hús þjóns ykkar, og verið hér í nótt og þvoið fætur ykkar. Getið þið þá risið árla á morgun og farið leiðar ykkar.' En þeir sögðu: 'Nei, við ætlum að hafast við á strætinu í nótt.' 19.3 Þá lagði hann mikið að þeim, uns þeir fóru inn til hans og gengu inn í hús hans. Og hann bjó þeim máltíð og bakaði ósýrt brauð, og þeir neyttu. 19.4 En áður en þeir gengu til hvíldar, slógu borgarmenn, mennirnir í Sódómu, hring um húsið, bæði ungir og gamlir, allur múgurinn hvaðanæva. 19.5 Og þeir kölluðu á Lot og sögðu við hann: 'Hvar eru mennirnir, sem komu til þín í kveld? Leið þú þá út til vor, að vér megum kenna þeirra.' 19.6 Lot gekk þá út til þeirra, út fyrir dyrnar, og lokaði hurðinni að baki sér. 19.7 Og hann sagði: 'Fyrir hvern mun, bræður mínir, fremjið ekki óhæfu. 19.8 Sjá, ég á tvær dætur, sem ekki hafa karlmanns kennt. Ég skal leiða þær út til yðar, gjörið við þær sem yður gott þykir. Aðeins megið þér ekkert gjöra þessum mönnum, úr því að þeir eru komnir undir skugga þaks míns.' 19.9 Þá æptu þeir: 'Haf þig á burt!' og sögðu: 'Þessi náungi er hingað kominn sem útlendingur og vill nú stöðugt vera að siða oss. Nú skulum vér leika þig enn verr en þá.' Og þeir gjörðu ákaflega þröng að honum, að Lot, og gengu nær til að brjóta upp dyrnar. 19.10 Þá seildust mennirnir út og drógu Lot til sín inn í húsið og lokuðu dyrunum. 19.11 En þá, sem voru úti fyrir dyrum hússins, slógu þeir með blindu, smáa og stóra, svo að þeir urðu að gefast upp við að finna dyrnar. 19.12 Mennirnir sögðu við Lot: 'Átt þú hér nokkra fleiri þér nákomna? Tengdasyni, syni, dætur? Alla í borginni, sem þér eru áhangandi, skalt þú hafa á burt héðan, 19.13 því að við munum eyða þennan stað, af því að hrópið yfir þeim fyrir Drottni er mikið, og Drottinn hefir sent okkur til að eyða borgina.' 19.14 Þá gekk Lot út og talaði við tengdasyni sína, sem ætluðu að ganga að eiga dætur hans, og mælti: 'Standið upp skjótt og farið úr þessum stað, því að Drottinn mun eyða borgina.' En tengdasynir hans hugðu, að hann væri að gjöra að gamni sínu. 19.15 En er dagur rann, ráku englarnir eftir Lot og sögðu: 'Statt þú upp skjótt! Tak þú konu þína og báðar dætur þínar, sem hjá þér eru, svo að þú fyrirfarist ekki vegna syndar borgarinnar.' 19.16 En er hann hikaði við, tóku mennirnir í hönd honum og í hönd konu hans og í hönd báðum dætrum hans, af því að Drottinn vildi þyrma honum, og leiddu hann út og létu hann út fyrir borgina. 19.17 Og er þeir höfðu leitt þau út, sögðu þeir: 'Forða þér, líf þitt liggur við! Lít ekki aftur fyrir þig og nem hvergi staðar á öllu sléttlendinu, forða þér á fjöll upp, að þú farist eigi.' 19.18 Þá sagði Lot við þá: 'Æ nei, herra! 19.19 Sjá, þjónn þinn hefir fundið náð í augum þínum, og þú hefir sýnt á mér mikla miskunn að láta mig halda lífi. En ég get ekki forðað mér á fjöll upp, ógæfan getur komið yfir mig og ég dáið. 19.20 Sjá, þarna er borg í nánd, þangað gæti ég flúið, og hún er lítil. Ég vil forða mér þangað _ er hún ekki lítil? _ og ég mun halda lífi.' 19.21 Drottinn sagði við hann: 'Sjá, ég hefi einnig veitt þér þessa bæn, að leggja ekki í eyði borgina, sem þú talaðir um. 19.22 Flýt þér! Forða þér þangað, því að ég get ekkert gjört, fyrr en þú kemst þangað.' Vegna þessa nefna menn borgina Sóar. 19.23 Sólin var runnin upp yfir jörðina, er Lot kom til Sóar. 19.24 Og Drottinn lét rigna yfir Sódómu og Gómorru brennisteini og eldi frá Drottni, af himni. 19.25 Og hann gjöreyddi þessar borgir og allt sléttlendið og alla íbúa borganna og gróður jarðarinnar. 19.26 En kona hans leit við að baki honum og varð að saltstöpli. 19.27 Abraham gekk snemma morguns þangað, er hann hafði staðið frammi fyrir Drottni. 19.28 Og hann horfði niður á Sódómu og Gómorru og yfir allt sléttlendið og sá, að reyk lagði upp af jörðinni, því líkast sem reykur úr ofni. 19.29 En er Guð eyddi borgirnar á sléttlendinu, minntist Guð Abrahams og leiddi Lot út úr eyðingunni, þá er hann lagði í eyði borgirnar, sem Lot hafði búið í. 19.30 Lot fór frá Sóar upp á fjöllin og staðnæmdist þar og báðar dætur hans með honum, því að hann óttaðist að vera kyrr í Sóar, og hann hafðist við í helli, hann og báðar dætur hans. 19.31 Þá sagði hin eldri við hina yngri: 'Faðir okkar er gamall, og enginn karlmaður er eftir á jörðinni, sem samfarir megi við okkur hafa, eins og siðvenja er til alls staðar á jörðinni. 19.32 Kom þú, við skulum gefa föður okkar vín að drekka og leggjast hjá honum, að við megum kveikja kyn af föður okkar.' 19.33 Síðan gáfu þær föður sínum vín að drekka þá nótt, og hin eldri fór og lagðist hjá föður sínum. En hann varð hvorki var við, að hún lagðist niður, né að hún reis á fætur. 19.34 Og morguninn eftir sagði hin eldri við hina yngri: 'Sjá, í nótt lá ég hjá föður mínum. Við skulum nú einnig í nótt gefa honum vín að drekka. Far þú síðan inn og leggst hjá honum, að við megum kveikja kyn af föður okkar.' 19.35 Síðan gáfu þær föður sínum vín að drekka einnig þá nótt, og hin yngri tók sig til og lagðist hjá honum. En hann varð hvorki var við, að hún lagðist niður, né að hún reis á fætur. 19.36 Þannig urðu báðar dætur Lots þungaðar af völdum föður síns. 19.37 Hin eldri ól son og nefndi hann Móab. Hann er ættfaðir Móabíta allt til þessa dags. 19.38 Og hin yngri ól einnig son og nefndi hann Ben-Ammí. Hann er ættfaðir Ammóníta allt til þessa dags.
1 Móse 20
20.1 Nú flutti Abraham sig þaðan til Suðurlandsins og settist að milli Kades og Súr og dvaldist um hríð í Gerar. 20.2 Og Abraham sagði um Söru konu sína: 'Hún er systir mín.' Þá sendi Abímelek konungur í Gerar menn og lét sækja Söru. 20.3 En Guð kom til Abímeleks í draumi um nóttina og sagði við hann: 'Sjá, þú skalt deyja vegna konu þeirrar, sem þú hefir tekið, því að hún er gift kona.' 20.4 En Abímelek hafði ekki komið nærri henni. Og hann sagði: 'Drottinn, munt þú einnig vilja deyða saklaust fólk? 20.5 Hefir hann ekki sagt við mig: ,Hún er systir mín`? og hún sjálf hefir einnig sagt: ,Hann er bróðir minn?` Í einlægni hjarta míns og með hreinum höndum hefi ég gjört þetta.' 20.6 Og Guð sagði við hann í draumnum: 'Víst veit ég, að þú gjörðir þetta í einlægni hjarta þíns, og ég hefi einnig varðveitt þig frá að syndga gegn mér. Fyrir því leyfði ég þér ekki að snerta hana. 20.7 Fá því nú manninum konu hans aftur, því að hann er spámaður, og mun hann biðja fyrir þér, að þú megir lífi halda. En ef þú skilar henni ekki aftur, þá skalt þú vita, að þú munt vissulega deyja, þú og allir, sem þér tilheyra.' 20.8 Abímelek reis árla um morguninn og kallaði til sín alla þjóna sína og greindi þeim frá öllu þessu. Og mennirnir urðu mjög óttaslegnir. 20.9 Og Abímelek lét kalla Abraham til sín og sagði við hann: 'Hvað hefir þú gjört oss? Og hvað hefi ég misgjört við þig, að þú skyldir leiða svo stóra synd yfir mig og ríki mitt? Verk, sem enginn skyldi fremja, hefir þú framið gegn mér.' 20.10 Og Abímelek sagði við Abraham: 'Hvað gekk þér til að gjöra þetta?' 20.11 Þá mælti Abraham: 'Ég hugsaði: ,Vart mun nokkur guðsótti vera á þessum stað, og þeir munu drepa mig vegna konu minnar.` 20.12 Og þar að auki er hún sannlega systir mín, samfeðra, þótt eigi séum við sammæðra, og hún varð kona mín. 20.13 Og þegar Guð lét mig fara úr húsi föður míns, sagði ég við hana: ,Þessa góðsemi verður þú að sýna mér: Hvar sem við komum, þá segðu um mig: Hann er bróðir minn.'` 20.14 Þá tók Abímelek sauði, naut, þræla og ambáttir og gaf Abraham og fékk honum aftur Söru konu hans. 20.15 Og Abímelek sagði: 'Sjá, land mitt stendur þér til boða. Bú þú þar sem þér best líkar.' 20.16 Og við Söru sagði hann: 'Sjá, ég gef bróður þínum þúsund sikla silfurs. Sjá, það sé þér uppreist í augum allra þeirra, sem með þér eru, og ert þú þannig réttlætt fyrir öllum.' 20.17 Og Abraham bað til Guðs fyrir honum, og Guð læknaði Abímelek og konu hans og ambáttir, svo að þær ólu börn. 20.18 Því að Drottinn hafði lokað sérhverjum móðurkviði í húsi Abímeleks sakir Söru, konu Abrahams.
1 Móse 21
21.1 Drottinn vitjaði Söru, eins og hann hafði lofað, og Drottinn gjörði við Söru eins og hann hafði sagt. 21.2 Og Sara varð þunguð og fæddi Abraham son í elli hans, um þær mundir, sem Guð hafði sagt honum. 21.3 Og Abraham gaf nafn syni sínum, þeim er honum fæddist, sem Sara fæddi honum, og kallaði hann Ísak. 21.4 Abraham umskar Ísak son sinn, þá er hann var átta daga gamall, eins og Guð hafði boðið honum. 21.5 En Abraham var hundrað ára gamall, þegar Ísak sonur hans fæddist honum. 21.6 Sara sagði: 'Guð hefir gjört mig að athlægi. Hver sem heyrir þetta, mun hlæja að mér.' 21.7 Og hún mælti: 'Hver skyldi hafa sagt við Abraham, að Sara mundi hafa börn á brjósti, og þó hefi ég alið honum son í elli hans.' 21.8 Sveinninn óx og var vaninn af brjósti, og Abraham gjörði mikla veislu þann dag, sem Ísak var tekinn af brjósti. 21.9 En Sara sá son Hagar hinnar egypsku, er hún hafði fætt Abraham, að leik með Ísak, syni hennar. 21.10 Þá sagði hún við Abraham: 'Rek þú burt ambátt þessa og son hennar, því að ekki skal sonur þessarar ambáttar taka arf með syni mínum, með Ísak.' 21.11 En Abraham sárnaði þetta mjög vegna sonar síns. 21.12 Þá sagði Guð við Abraham: 'Lát þig ekki taka sárt til sveinsins og ambáttar þinnar. Hlýð þú Söru í öllu því, er hún segir þér, því að afkomendur þínir munu verða kenndir við Ísak. 21.13 En ég mun einnig gjöra ambáttarsoninn að þjóð, því að hann er þitt afkvæmi.' 21.14 Og Abraham reis árla næsta morgun, tók brauð og vatnsbelg og fékk Hagar, en sveininn lagði hann á herðar henni og lét hana í burtu fara. Hún hélt þá af stað og reikaði um eyðimörkina Beerseba. 21.15 En er vatnið var þrotið á leglinum, lagði hún sveininn inn undir einn runnann. 21.16 Því næst gekk hún burt og settist þar gegnt við, svo sem í örskots fjarlægð, því að hún sagði: 'Ég get ekki horft á að barnið deyi.' Og hún settist þar gegnt við og tók að gráta hástöfum. 21.17 En er Guð heyrði hljóð sveinsins, þá kallaði engill Guðs til Hagar af himni og mælti til hennar: 'Hvað gengur að þér, Hagar? Vertu óhrædd, því að Guð hefir heyrt til sveinsins, þar sem hann liggur. 21.18 Statt þú upp, reistu sveininn á fætur og leiddu hann þér við hönd, því að ég mun gjöra hann að mikilli þjóð.' 21.19 Og Guð lauk upp augum hennar, svo að hún sá vatnsbrunn. Fór hún þá og fyllti belginn vatni og gaf sveininum að drekka. 21.20 Og Guð var með sveininum, og hann óx upp og hafðist við í eyðimörkinni og gjörðist bogmaður. 21.21 Og hann hafðist við í Paraneyðimörk, og móðir hans tók honum konu af Egyptalandi. 21.22 Um sömu mundir bar svo til, að Abímelek og hershöfðingi hans Píkól mæltu þannig við Abraham: 'Guð er með þér í öllu, sem þú gjörir. 21.23 Vinn mér nú eið að því hér við Guð, að þú skulir eigi breyta sviksamlega, hvorki við mig né afkomendur mína. Þú skalt auðsýna mér og landinu, sem þú dvelst í sem útlendingur, hina sömu góðsemi og ég hefi auðsýnt þér.' 21.24 Og Abraham mælti: 'Ég skal vinna þér eið að því.' 21.25 En Abraham átaldi Abímelek fyrir vatnsbrunninn, sem þrælar Abímeleks höfðu tekið með ofríki. 21.26 Þá sagði Abímelek: 'Ekki veit ég, hver það hefir gjört. Hvorki hefir þú sagt mér það né hefi ég heldur heyrt það fyrr en í dag.' 21.27 Þá tók Abraham sauði og naut og gaf Abímelek, og þeir gjörðu sáttmála sín í milli. 21.28 Og Abraham tók frá sjö gimbrar af hjörðinni. 21.29 Þá mælti Abímelek til Abrahams: 'Hvað skulu þessar sjö gimbrar, sem þú hefir tekið frá?' 21.30 Hann svaraði: 'Við þessum sjö gimbrum skalt þú taka af minni hendi, til vitnis um að ég hefi grafið þennan brunn.' 21.31 Þess vegna heitir sá staður Beerseba, af því að þeir sóru þar báðir. 21.32 Þannig gjörðu þeir sáttmála í Beerseba. Síðan tók Abímelek sig upp og Píkól hershöfðingi hans og sneru aftur til Filistalands. 21.33 Abraham gróðursetti tamarisk-runn í Beerseba og ákallaði þar nafn Drottins, Hins Eilífa Guðs. 21.34 Og Abraham dvaldist lengi í Filistalandi.
1 Móse 22
22.1 Eftir þessa atburði freistaði Guð Abrahams og mælti til hans: 'Abraham!' Hann svaraði: 'Hér er ég.' 22.2 Hann sagði: 'Tak þú einkason þinn, sem þú elskar, hann Ísak, og far þú til Móríalands og fórna honum þar að brennifórn á einu af fjöllunum, sem ég mun segja þér til.' 22.3 Abraham var árla á fótum næsta morgun og lagði á asna sinn, og tók með sér tvo sveina sína og Ísak son sinn. Og hann klauf viðinn til brennifórnarinnar, tók sig upp og hélt af stað, þangað sem Guð sagði honum. 22.4 Á þriðja degi hóf Abraham upp augu sín og sá staðinn álengdar. 22.5 Þá sagði Abraham við sveina sína: 'Bíðið hér hjá asnanum, en við smásveinninn munum ganga þangað til að biðjast fyrir, og komum svo til ykkar aftur.' 22.6 Og Abraham tók brennifórnarviðinn og lagði syni sínum Ísak á herðar, en tók eldinn og hnífinn sér í hönd. Og svo gengu þeir báðir saman. 22.7 Þá mælti Ísak við Abraham föður sinn: 'Faðir minn!' Hann svaraði: 'Hér er ég, sonur minn!' Hann mælti: 'Hér er eldurinn og viðurinn, en hvar er sauðurinn til brennifórnarinnar?' 22.8 Og Abraham sagði: 'Guð mun sjá sér fyrir sauð til brennifórnarinnar, sonur minn.' Og svo gengu þeir báðir saman. 22.9 En er þeir komu þangað, er Guð hafði sagt honum, reisti Abraham þar altari og lagði viðinn á, og batt son sinn Ísak og lagði hann upp á altarið, ofan á viðinn. 22.10 Og Abraham rétti út hönd sína og tók hnífinn til að slátra syni sínum.
22.11 Þá kallaði engill Drottins til hans af himni og mælti: 'Abraham! Abraham!' Hann svaraði: 'Hér er ég.' 22.12 Hann sagði: 'Legg þú ekki hönd á sveininn og gjör þú honum ekkert, því að nú veit ég, að þú óttast Guð, þar sem þú synjaðir mér ekki um einkason þinn.' 22.13 Þá varð Abraham litið upp, og hann sá hrút bak við sig, sem var fastur á hornunum í hrísrunni. Og Abraham fór og tók hrútinn og bar hann fram að brennifórn í stað sonar síns. 22.14 Og Abraham kallaði þennan stað 'Drottinn sér,' svo að það er máltæki allt til þessa dags: 'Á fjallinu, þar sem Drottinn birtist.' 22.15 Engill Drottins kallaði annað sinn af himni til Abrahams 22.16 og mælti: 'Ég sver við sjálfan mig,' segir Drottinn, 'að fyrst þú gjörðir þetta og synjaðir mér eigi um einkason þinn, 22.17 þá skal ég ríkulega blessa þig og stórum margfalda kyn þitt, sem stjörnur á himni, sem sand á sjávarströnd. Og niðjar þínir skulu eignast borgarhlið óvina sinna. 22.18 Og af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta, vegna þess að þú hlýddir minni röddu.' 22.19 Eftir það fór Abraham aftur til sveina sinna, og þeir tóku sig upp og fóru allir saman til Beerseba. Og Abraham bjó enn um hríð í Beerseba. 22.20 Eftir þetta bar svo við, að Abraham var sagt: 'Sjá, Milka hefir og fætt bróður þínum Nahor sonu: 22.21 Ús, frumgetning hans, og Bús, bróður hans, og Kemúel, ættföður Aramea, 22.22 og Kesed, Kasó, Píldas, Jídlaf og Betúel.' En Betúel gat Rebekku. 22.23 Þessa átta fæddi Milka Nahor, bróður Abrahams. 22.24 Og hann átti hjákonu, sem hét Reúma. Hún ól honum og sonu, þá Teba, Gaham, Tahas og Maaka.
1 Móse 23
23.1 Dagar Söru voru hundrað tuttugu og sjö ár, það var aldur Söru. 23.2 Og Sara dó í Kirjat Arba (það er Hebron) í Kanaanlandi. Og Abraham fór til að harma Söru og gráta hana. 23.3 Síðan gekk hann burt frá líkinu og kom að máli við Hetíta og sagði: 23.4 'Ég er aðkomandi og útlendingur meðal yðar. Látið mig fá legstað til eignar hjá yður, að ég megi koma líkinu frá mér og jarða það.' 23.5 Þá svöruðu Hetítar Abraham og sögðu: 23.6 'Heyr oss fyrir hvern mun, herra minn. Þú ert Guðs höfðingi vor á meðal. Jarða þú líkið í hinum besta af legstöðum vorum. Enginn meðal vor skal meina þér legstað sinn, að þú megir jarða líkið.' 23.7 Þá stóð Abraham upp og hneigði sig fyrir landslýðnum, fyrir Hetítum, 23.8 og mælti við þá: 'Ef það er yðar vilji, að ég megi jarða líkið og koma því frá mér, þá heyrið mig og biðjið fyrir mig Efron Sóarsson, 23.9 að hann láti mig fá Makpelahelli, sem hann á og er yst í landeign hans. Hann láti mig fá hann fyrir fullt verð til grafreits meðal yðar.' 23.10 En Efron sat þar meðal Hetíta. Þá svaraði Hetítinn Efron Abraham, í viðurvist Hetíta, frammi fyrir öllum þeim, sem gengu út og inn um borgarhlið hans, og mælti: 23.11 'Nei, herra minn, heyr mig! Landið gef ég þér, og hellinn, sem í því er, hann gef ég þér líka. Í augsýn samlanda minna gef ég þér hann. Jarða þú þar líkið.' 23.12 Þá hneigði Abraham sig fyrir landslýðnum, 23.13 mælti því næst til Efrons í viðurvist landslýðsins á þessa leið: 'Heyr nú, gef gaum að máli mínu! Ég greiði fé fyrir landið. Tak þú við því af mér, að ég megi jarða líkið þar.' 23.14 Þá svaraði Efron Abraham og mælti: 23.15 'Herra minn, gef fyrir hvern mun gaum að máli mínu! Jörð, sem er fjögur hundruð silfursikla virði, hvað er það okkar í milli? Jarða þú líkið.' 23.16 Og Abraham lét að orðum Efrons, og Abraham vó Efron silfrið, sem hann hafði til tekið í viðurvist Hetíta, fjögur hundruð sikla í gangsilfri. 23.17 Þannig var landeign Efrons, sem er hjá Makpela gegnt Mamre, landeignin og hellirinn, sem í henni var, og öll trén, er í landeigninni voru, innan takmarka hennar hringinn í kring, 23.18 fest Abraham til eignar, í viðurvist Hetíta, frammi fyrir öllum, sem út og inn gengu um borgarhlið hans. 23.19 Eftir það jarðaði Abraham Söru konu sína í helli Makpelalands gegnt Mamre (það er Hebron) í Kanaanlandi. 23.20 Þannig fékk Abraham landið og hellinn, sem í því var, hjá Hetítum til eignar fyrir grafreit.
1 Móse 24
24.1 Abraham var gamall og hniginn að aldri, og Drottinn hafði blessað Abraham í öllu. 24.2 Þá sagði Abraham við þjón sinn, þann er elstur var í húsi hans og umsjónarmaður yfir öllu, sem hann átti: 24.3 'Legg þú hönd þína undir lend mína, og vinn mér eið að því við Drottin, Guð himinsins og Guð jarðarinnar, að þú skulir ekki taka syni mínum til handa konu af dætrum Kanaaníta, er ég bý á meðal, 24.4 heldur skaltu fara til föðurlands míns og til ættfólks míns, og taka konu handa Ísak syni mínum.' 24.5 Þjónninn svaraði honum: 'En ef konan vill ekki fara með mér til þessa lands, á ég þá að fara með son þinn aftur í það land, sem þú fórst úr?' 24.6 Og Abraham sagði við hann: 'Varastu að fara með son minn þangað! 24.7 Drottinn, Guð himinsins, sem tók mig úr húsi föður míns og úr ættlandi mínu, hann sem hefir talað við mig og svarið mér og sagt: ,Þínum niðjum mun ég gefa þetta land,` hann mun senda engil sinn á undan þér, að þú megir þaðan fá syni mínum konu. 24.8 Og vilji konan ekki fara með þér, þá ertu leystur af eiðnum. En með son minn mátt þú ekki fyrir nokkurn mun fara þangað aftur.' 24.9 Þá lagði þjónninn hönd sína undir lend Abrahams húsbónda síns og vann honum eið að þessu. 24.10 Þá tók þjónninn tíu úlfalda af úlföldum húsbónda síns og lagði af stað, og hafði með sér alls konar dýrgripi húsbónda síns. Og hann tók sig upp og hélt til Mesópótamíu, til borgar Nahors. 24.11 Og hann áði úlföldunum utan borgar hjá vatnsbrunni að kveldi dags, í það mund, er konur voru vanar að ganga út að ausa vatn. 24.12 Og hann mælti: 'Drottinn, Guð húsbónda míns Abrahams. Lát mér heppnast erindi mitt í dag og auðsýn miskunn húsbónda mínum Abraham. 24.13 Sjá, ég stend við vatnslind, og dætur bæjarmanna ganga út að ausa vatn. 24.14 Og ef sú stúlka, sem ég segi við: ,Tak niður skjólu þína, að ég megi drekka,` svarar: ,Drekk þú, og ég vil líka brynna úlföldum þínum,` _ hún sé sú, sem þú hefir fyrirhugað þjóni þínum Ísak, og af því mun ég marka, að þú auðsýnir miskunn húsbónda mínum.' 24.15 Áður en hann hafði lokið máli sínu, sjá, þá kom Rebekka, dóttir Betúels, sonar Milku, konu Nahors, bróður Abrahams, og bar hún skjólu sína á öxlinni.
1 Móse 25
25.1 Abraham tók sér enn konu. Hún hét Ketúra. 25.2 Og hún ól honum Símran, Joksan, Medan, Midían, Jísbak og Súa. 25.3 Og Joksan gat Séba og Dedan, og synir Dedans voru Assúrítar, Letúsítar og Leúmmítar. 25.4 Og synir Midíans voru: Efa, Efer, Hanok, Abída og Eldaa. Allir þessir eru niðjar Ketúru. 25.5 Abraham gaf Ísak allt, sem hann átti. 25.6 En sonum þeim, sem Abraham hafði átt með hjákonunum, gaf hann gjafir og lét þá, meðan hann enn var á lífi, fara burt frá Ísak syni sínum í austurátt, til austurlanda. 25.7 Þetta eru ævidagar Abrahams, sem hann lifði, hundrað sjötíu og fimm ár. 25.8 Og Abraham andaðist og dó í góðri elli, gamall og saddur lífdaga, og safnaðist til síns fólks. 25.9 Og Ísak og Ísmael synir hans jörðuðu hann í Makpelahelli í landi Efrons, sonar Hetítans Sóars, sem er gegnt Mamre, 25.10 í landi því, sem Abraham hafði keypt af Hetítum, þar var Abraham jarðaður og Sara kona hans. 25.11 Og eftir andlát Abrahams blessaði Guð Ísak son hans. En Ísak bjó hjá Beer-lahaj-róí. 25.12 Þetta er ættartal Ísmaels Abrahamssonar, sem Hagar hin egypska, ambátt Söru, ól honum. 25.13 Og þessi eru nöfn Ísmaels sona, samkvæmt nöfnum þeirra, eftir kynþáttum þeirra. Nebajót var hans frumgetinn son, þá Kedar, Adbeel, Míbsam, 25.14 Misma, Dúma, Massa, 25.15 Hadar, Tema, Jetúr, Nafis og Kedma. 25.16 Þessir eru synir Ísmaels, og þessi eru nöfn þeirra, eftir þorpum þeirra og tjaldbúðum, tólf höfðingjar, eftir ættkvíslum þeirra. 25.17 Og þetta voru æviár Ísmaels: hundrað þrjátíu og sjö ár, _ þá andaðist hann og dó, og safnaðist til síns fólks. 25.18 Og þeir bjuggu frá Havíla til Súr, sem er fyrir austan Egyptaland, í stefnu til Assýríu. Fyrir austan alla bræður sína tók hann sér bústað. 25.19 Þetta er saga Ísaks Abrahamssonar. Abraham gat Ísak. 25.20 Ísak var fertugur að aldri, er hann gekk að eiga Rebekku, dóttur Betúels hins arameíska frá Paddan-aram, systur Labans hins arameíska. 25.21 Ísak bað Drottin fyrir konu sinni, því að hún var óbyrja, og Drottinn bænheyrði hann, og Rebekka kona hans varð þunguð. 25.22 Og er börnin hnitluðust í kviði hennar, sagði hún: 'Sé það svona, hví lifi ég þá?' Gekk hún þá til frétta við Drottin. 25.23 En Drottinn svaraði henni: Þú gengur með tvær þjóðir, og tveir ættleggir munu af skauti þínu kvíslast. Annar verður sterkari en hinn, og hinn eldri mun þjóna hinum yngri. 25.24 Er dagar hennar fullnuðust, að hún skyldi fæða, sjá, þá voru tvíburar í kviði hennar. 25.25 Og hinn fyrri kom í ljós, rauður að lit og allur sem loðfeldur, og var hann nefndur Esaú. 25.26 Og eftir það kom bróðir hans í ljós, og hélt hann um hælinn á Esaú, og var hann nefndur Jakob. En Ísak var sextíu ára, er hún ól þá. 25.27 Er sveinarnir voru vaxnir, gjörðist Esaú slyngur veiðimaður og hafðist við á heiðum, en Jakob var maður gæfur og bjó í tjöldum. 25.28 Og Ísak unni Esaú, því að villibráð þótti honum góð, en Rebekka unni Jakob. 25.29 Einu sinni hafði Jakob soðið rétt nokkurn. Kom þá Esaú af heiðum og var dauðþreyttur. 25.30 Þá sagði Esaú við Jakob: 'Gef mér fljótt að eta hið rauða, þetta rauða þarna, því að ég er dauðþreyttur.' Fyrir því nefndu menn hann Edóm. 25.31 En Jakob mælti: 'Seldu mér fyrst frumburðarrétt þinn.' 25.32 Og Esaú mælti: 'Ég er kominn í dauðann, hvað stoðar mig frumburðarréttur minn?' 25.33 Og Jakob mælti: 'Vinn þú mér þá fyrst eið að því!' Og hann vann honum eiðinn og seldi Jakob frumburðarrétt sinn. 25.34 En Jakob gaf Esaú brauð og baunarétt, og hann át og drakk og stóð upp og gekk burt. Þannig lítilsvirti Esaú frumburðarrétt sinn.
1 Móse 26
26.1 Hallæri varð í landinu, annað hallæri en hið fyrra, sem var á dögum Abrahams. Fór þá Ísak til Abímeleks Filistakonungs í Gerar. 26.2 Og Drottinn birtist honum og mælti: 'Far þú ekki til Egyptalands. Ver þú kyrr í því landi, sem ég segi þér. 26.3 Dvel þú um hríð í þessu landi, og ég mun vera með þér og blessa þig, því að þér og niðjum þínum mun ég gefa öll þessi lönd, og ég mun halda þann eið, sem ég sór Abraham, föður þínum. 26.4 Og ég mun margfalda niðja þína sem stjörnur himinsins og gefa niðjum þínum öll þessi lönd, og af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta, 26.5 af því að Abraham hlýddi minni röddu og varðveitti boðorð mín, skipanir mínar, ákvæði og lög.' 26.6 Og Ísak staðnæmdist í Gerar. 26.7 Og er menn þar spurðu um konu hans, sagði hann: 'Hún er systir mín,' því að hann þorði ekki að segja: 'Hún er kona mín.' 'Ella kynnu,' hugsaði hann, 'menn þar að myrða mig vegna Rebekku, af því að hún er fríð sýnum.' 26.8 Og svo bar við, er hann hafði verið þar um hríð, að Abímelek Filistakonungur leit út um gluggann og sá, að Ísak lét vel að Rebekku konu sinni. 26.9 Þá kallaði Abímelek á Ísak og mælti: 'Sjá, vissulega er hún kona þín. Og hvernig gast þú sagt: ,Hún er systir mín`?' Og Ísak sagði við hann: 'Ég hugsaði, að ella mundi ég láta lífið fyrir hennar sakir.' 26.10 Og Abímelek mælti: 'Hví hefir þú gjört oss þetta? Hæglega gat það viljað til, að einhver af lýðnum hefði lagst með konu þinni, og hefðir þú þá leitt yfir oss syndasekt.' 26.11 Síðan bauð Abímelek öllum landslýðnum og mælti: 'Hver sem snertir þennan mann og konu hans, skal vissulega deyja.' 26.12 Og Ísak sáði í þessu landi og uppskar hundraðfalt á því ári, því að Drottinn blessaði hann. 26.13 Og maðurinn efldist og auðgaðist meir og meir, uns hann var orðinn stórauðugur. 26.14 Og hann átti sauðahjarðir og nautahjarðir og margt þjónustufólk, svo að Filistar öfunduðu hann. 26.15 Alla þá brunna, sem þjónar föður Ísaks höfðu grafið á dögum Abrahams, föður hans, byrgðu Filistar og fylltu með mold. 26.16 Og Abímelek sagði við Ísak: 'Far þú burt frá oss, því að þú ert orðinn miklu voldugri en vér.' 26.17 Þá fór Ísak þaðan og tók sér bólfestu í Gerardal og bjó þar. 26.18 Og Ísak lét aftur grafa upp brunnana, sem þeir höfðu grafið á dögum Abrahams föður hans og Filistar höfðu aftur byrgt eftir dauða Abrahams, og gaf þeim hin sömu heiti sem faðir hans hafði gefið þeim. 26.19 Þrælar Ísaks grófu í dalnum og fundu þar brunn lifandi vatns. 26.20 En fjárhirðar í Gerar deildu við fjárhirða Ísaks og sögðu: 'Vér eigum vatnið.' Og hann nefndi brunninn Esek, af því að þeir höfðu þráttað við hann. 26.21 Þá grófu þeir annan brunn, en deildu einnig um hann, og hann nefndi hann Sitna. 26.22 Eftir það fór hann þaðan og gróf enn brunn. En um hann deildu þeir ekki, og hann nefndi hann Rehóbót og sagði: 'Nú hefir Drottinn rýmkað um oss, svo að vér megum vaxa í landinu.' 26.23 Og þaðan fór hann upp til Beerseba. 26.24 Þá hina sömu nótt birtist Drottinn honum og mælti: 'Ég er Guð Abrahams, föður þíns. Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Og ég mun blessa þig og margfalda afkvæmi þitt fyrir sakir Abrahams, þjóns míns.' 26.25 Og hann reisti þar altari og ákallaði nafn Drottins og setti þar tjald sitt, og þrælar Ísaks grófu þar brunn. 26.26 Þá kom Abímelek til hans frá Gerar og Akúsat, vinur hans, og Píkól, hershöfðingi hans. 26.27 Þá sagði Ísak við þá: 'Hví komið þér til mín, þar sem þér þó hatið mig og hafið rekið mig burt frá yður?' 26.28 En þeir svöruðu: 'Vér höfum berlega séð, að Drottinn er með þér. Fyrir því sögðum vér: ,Eiður sé milli vor, milli vor og þín,` og vér viljum gjöra við þig sáttmála: 26.29 Þú skalt oss ekki mein gjöra, svo sem vér höfum eigi snortið þig og svo sem vér höfum eigi gjört þér nema gott og látið þig fara í friði, því að þú ert nú blessaður af Drottni.' 26.30 Eftir það gjörði hann þeim veislu, og þeir átu og drukku. 26.31 Og árla morguninn eftir unnu þeir hver öðrum eiða. Og Ísak lét þá í burt fara, og þeir fóru frá honum í friði. 26.32 Þann sama dag bar svo við, að þrælar Ísaks komu og sögðu honum frá brunninum, sem þeir höfðu grafið, og mæltu við hann: 'Vér höfum fundið vatn.' 26.33 Og hann nefndi hann Síba. Fyrir því heitir borgin Beerseba allt til þessa dags. 26.34 Er Esaú var fertugur að aldri, gekk hann að eiga Júdít, dóttur Hetítans Beerí, og Basmat, dóttur Hetítans Elons. 26.35 Og var þeim Ísak og Rebekku sár skapraun að þeim.
1 Móse 27
27.1 Svo bar til, er Ísak var orðinn gamall og augu hans döpruðust, svo að hann gat ekki séð, að hann kallaði á Esaú, eldri son sinn, og mælti til hans: 'Sonur minn!' Og hann svaraði honum: 'Hér er ég.' 27.2 Og hann sagði: 'Sjá, ég er orðinn gamall og veit ekki, nær ég muni deyja. 27.3 Tak þú nú veiðigögn þín, örvamæli þinn og boga, og far þú á heiðar og veið mér villidýr. 27.4 Og tilreið mér ljúffengan rétt, sem mér geðjast að, og fær mér hann, að ég megi eta, svo að sál mín blessi þig, áður en ég dey.' 27.5 En Rebekka heyrði, hvað Ísak talaði við Esaú son sinn. Og er Esaú var farinn út á heiðar til að veiða villidýr og hafa heim með sér, 27.6 mælti Rebekka við Jakob son sinn á þessa leið: 'Sjá, ég heyrði föður þinn tala við Esaú bróður þinn og segja: 27.7 ,Fær þú mér villibráð og tilreið mér ljúffengan rétt, að ég megi eta og blessa þig í augsýn Drottins, áður en ég dey.` 27.8 Og hlýð þú mér nú, sonur minn, og gjör sem ég segi þér. 27.9 Far þú til hjarðarinnar og fær mér tvö væn hafurkið úr henni, að ég megi tilreiða föður þínum ljúffengan rétt, sem honum geðjast að, 27.10 og skalt þú færa hann föður þínum, að hann megi eta, svo að hann blessi þig, áður en hann deyr.' 27.11 En Jakob sagði við Rebekku móður sína: 'Gáðu að, Esaú bróðir minn er loðinn, en ég er snöggur. 27.12 Vera má að faðir minn þreifi á mér og þyki sem ég hafi viljað dára sig. Mun ég þá leiða yfir mig bölvun, en ekki blessun.' 27.13 En móðir hans sagði við hann: 'Yfir mig komi sú bölvun, sonur minn. Hlýð þú mér aðeins. Farðu og sæktu mér kiðin.' 27.14 Þá fór hann og sótti þau og færði móður sinni. Og móðir hans tilreiddi ljúffengan rétt, sem föður hans geðjaðist að. 27.15 Og Rebekka tók klæðnað góðan af Esaú, eldri syni sínum, sem hún hafði hjá sér í húsinu, og færði Jakob, yngri son sinn, í hann. 27.16 En kiðskinnin lét hún um hendur hans og um hálsinn, þar sem hann var hárlaus. 27.17 Og hún fékk Jakob syni sínum í hendur hinn ljúffenga rétt og brauðið, sem hún hafði gjört. 27.18 Þá gekk hann inn til föður síns og mælti: 'Faðir minn!' Og hann svaraði: 'Hér er ég. Hver ert þú, son minn?' 27.19 Og Jakob sagði við föður sinn: 'Ég er Esaú, sonur þinn frumgetinn. Ég hefi gjört sem þú bauðst mér. Sestu nú upp og et af villibráð minni, svo að sál þín blessi mig.' 27.20 Og Ísak sagði við son sinn: 'Hvernig máttir þú svo skjótlega finna nokkuð, son minn?' Og hann mælti: 'Drottinn, Guð þinn, lét það verða á vegi mínum.' 27.21 Þá sagði Ísak við Jakob: 'Kom þú samt nær, að ég megi þreifa á þér, son minn, hvort þú sannlega ert Esaú sonur minn eða ekki.' 27.22 Jakob gekk þá að Ísak föður sínum, og hann þreifaði á honum og mælti: 'Röddin er rödd Jakobs, en hendurnar eru hendur Esaú.' 27.23 Og hann þekkti hann ekki, því að hendur hans voru loðnar eins og hendur Esaú bróður hans, og hann blessaði hann. 27.24 Og hann mælti: 'Ert þú þá Esaú sonur minn?' Og hann svaraði: 'Ég er hann.' 27.25 Þá sagði hann: 'Kom þú þá með það, að ég eti af villibráð sonar míns, svo að sál mín megi blessa þig.' Og hann færði honum það og hann át, og hann bar honum vín og hann drakk. 27.26 Og Ísak faðir hans sagði við hann: 'Kom þú nær og kyss þú mig, son minn!' 27.27 Og hann gekk að honum og kyssti hann. Kenndi hann þá ilm af klæðum hans og blessaði hann og mælti: Sjá, ilmurinn af syni mínum er sem ilmur af akri, sem Drottinn hefir blessað. 27.28 Guð gefi þér dögg af himni og feiti jarðar og gnægð korns og víns. 27.29 Þjóðir skulu þjóna þér og lýðir lúta þér. Þú skalt vera herra bræðra þinna, og synir móður þinnar skulu lúta þér. Bölvaður sé hver sá, sem bölvar þér, en blessaður sé hver sá, sem blessar þig! 27.30 Er Ísak hafði lokið blessuninni yfir Jakob og Jakob var nýgenginn út frá Ísak föður sínum, þá kom Esaú bróðir hans heim úr veiðiför sinni. 27.31 Og hann tilreiddi einnig ljúffengan rétt og bar föður sínum, og hann mælti við föður sinn: 'Rístu upp, faðir minn, og et af villibráð sonar þíns, svo að sál þín blessi mig.' 27.32 En Ísak faðir hans sagði við hann: 'Hver ert þú?' Og hann mælti: 'Ég er sonur þinn, þinn frumgetinn son Esaú.' 27.33 Þá varð Ísak felmtsfullur harla mjög og mælti: 'Hver var það þá, sem veiddi villidýr og færði mér, svo að ég át af því öllu, áður en þú komst, og blessaði hann? Blessaður mun hann og verða.' 27.34 En er Esaú heyrði þessi orð föður síns, hljóðaði hann upp yfir sig hátt mjög og sáran og mælti við föður sinn: 'Blessa þú mig líka, faðir minn!' 27.35 Og hann mælti: 'Bróðir þinn kom með vélráðum og tók blessun þína.' 27.36 Þá mælti hann: 'Vissulega er hann réttnefndur Jakob, því að tvisvar sinnum hefir hann nú leikið á mig. Frumburðarrétt minn hefir hann tekið, og nú hefir hann einnig tekið blessun mína.' Því næst mælti hann: 'Hefir þú þá enga blessun geymt mér?' 27.37 Og Ísak svaraði og sagði við Esaú: 'Sjá, ég hefi skipað hann herra yfir þig, og ég hefi gefið honum alla bræður sína að þrælum, og ég hefi séð honum fyrir korni og víni. Hvað get ég þá gjört fyrir þig, sonur minn?' 27.38 Og Esaú mælti við föður sinn: 'Hefir þú ekki nema þessa einu blessun til, faðir minn? Blessa mig líka, faðir minn!' Og Esaú tók að gráta hástöfum. 27.39 Þá svaraði Ísak faðir hans og sagði við hann: Fjarri jarðarinnar feiti skal bústaður þinn vera og án daggar af himni ofan. 27.40 En af sverði þínu muntu lifa, og bróður þínum muntu þjóna. En svo mun fara, er þú neytir allrar orku þinnar, að þú munt brjóta sundur ok hans af hálsi þínum. 27.41 Esaú lagði hatur á Jakob sakir þeirrar blessunar, sem faðir hans hafði gefið honum. Og Esaú hugsaði með sjálfum sér: 'Þess mun eigi langt að bíða, að menn munu syrgja föður minn látinn, og skal ég þá drepa Jakob bróður minn.' 27.42 Og Rebekku bárust orð Esaú, eldri sonar hennar. Þá sendi hún og lét kalla Jakob, yngri son sinn, og mælti við hann: 'Sjá, Esaú bróðir þinn hyggur á hefndir við þig og ætlar að drepa þig. 27.43 Og far þú nú að ráðum mínum, sonur minn! Tak þig upp og flý til Labans, bróður míns í Harran, 27.44 og dvel hjá honum nokkurn tíma, þangað til heift bróður þíns sefast, 27.45 þangað til bróður þínum er runnin reiðin við þig og hann hefir gleymt því, sem þú hefir honum í móti gjört. Þá mun ég senda eftir þér og láta sækja þig þangað. Hví skyldi ég missa ykkur báða á einum degi?' 27.46 Rebekka mælti við Ísak: 'Ég er orðin leið á lífinu vegna Hets dætra. Ef Jakob tæki sér konu slíka sem þessar eru, meðal Hets dætra, meðal hérlendra kvenna, hví skyldi ég þá lengur lifa?'
1 Móse 28
28.1 Þá kallaði Ísak Jakob til sín og blessaði hann. Og hann bauð honum og sagði við hann: 'Þú skalt eigi taka þér konu af Kanaans dætrum. 28.2 Tak þig upp og far til Mesópótamíu, í hús Betúels móðurföður þíns, og tak þér þar konu af dætrum Labans móðurbróður þíns. 28.3 Og Almáttugur Guð blessi þig og gjöri þig frjósaman og margfaldi þig, svo að þú verðir að mörgum kynkvíslum. 28.4 Hann gefi þér blessun Abrahams, þér og niðjum þínum með þér, að þú megir eignast það land, er þú býr í sem útlendingur og Guð gaf Abraham.' 28.5 Síðan sendi Ísak Jakob burt, og hann fór til Mesópótamíu, til Labans Betúelssonar hins arameíska, bróður Rebekku, móður þeirra Jakobs og Esaú. 28.6 En Esaú varð þess vís, að Ísak hafði blessað Jakob og sent hann til Mesópótamíu til að taka sér þar konu, að hann hafði blessað hann, boðið honum og sagt: 'Þú skalt ekki taka þér konu af Kanaans dætrum,' 28.7 og að Jakob hafði hlýðnast föður sínum og móður sinni og farið til Mesópótamíu. 28.8 Þá sá Esaú, að Kanaans dætur geðjuðust eigi Ísak föður hans. 28.9 Fór Esaú því til Ísmaels og tók Mahalat, dóttur Ísmaels Abrahamssonar, systur Nebajóts, sér fyrir konu, auk þeirra kvenna, sem hann átti áður. 28.10 Jakob lagði af stað frá Beerseba og hélt á leið til Harran. 28.11 Og hann kom á stað nokkurn og var þar um nóttina, því að sól var runnin. Og hann tók einn af steinum þeim, er þar voru, og lagði undir höfuð sér, lagðist því næst til svefns á þessum stað. 28.12 Þá dreymdi hann. Honum þótti stigi standa á jörðu og efri endi hans ná til himins, og sjá, englar Guðs fóru upp og ofan eftir stiganum. 28.13 Og sjá, Drottinn stóð hjá honum og sagði: 'Ég er Drottinn, Guð Abrahams föður þíns og Guð Ísaks. Landið, sem þú hvílist á, mun ég gefa þér og niðjum þínum. 28.14 Og niðjar þínir skulu verða sem duft jarðar, og þú skalt útbreiðast til vesturs og austurs, norðurs og suðurs, og af þér munu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta og af þínu afkvæmi. 28.15 Og sjá, ég er með þér og varðveiti þig, hvert sem þú fer, og ég mun aftur flytja þig til þessa lands, því að ekki mun ég yfirgefa þig fyrr en ég hefi gjört það, sem ég hefi þér heitið.' 28.16 Þá vaknaði Jakob af svefni sínum og mælti: 'Sannlega er Drottinn á þessum stað, og ég vissi það ekki!' 28.17 Og ótta sló yfir hann og hann sagði: 'Hversu hræðilegur er þessi staður! Hér er vissulega Guðs hús, og hér er hlið himinsins!' 28.18 Og Jakob reis árla um morguninn og tók steininn, sem hann hafði haft undir höfðinu, og reisti hann upp til merkis og hellti olíu yfir hann. 28.19 Og hann nefndi þennan stað Betel, en áður hafði borgin heitið Lúz. 28.20 Og Jakob gjörði heit og mælti: 'Ef Guð verður með mér og varðveitir mig á þessari ferð, sem ég nú fer, og gefur mér brauð að eta og föt að klæðast, 28.21 og ef ég kemst farsællega aftur heim í hús föður míns, þá skal Drottinn vera minn Guð, 28.22 og þessi steinn, sem ég hefi upp reist til merkis, skal verða Guðs hús, og ég skal færa þér tíundir af öllu, sem þú gefur mér.'
1 Móse 29
29.1 Jakob hélt áfram ferð sinni og kom til lands austurbyggja. 29.2 Og er hann litaðist um, sjá, þá var þar brunnur á mörkinni, og sjá, þar lágu þrjár sauðahjarðir við hann, því að þeir voru vanir að vatna hjörðunum við þennan brunn. En steinn mikill lá yfir munna brunnsins. 29.3 Og er allar hjarðirnar voru þar saman reknar, veltu þeir steininum frá munna brunnsins og vötnuðu fénu, síðan létu þeir steininn aftur yfir munna brunnsins á sinn stað. 29.4 Þá sagði Jakob við þá: 'Kæru bræður, hvaðan eruð þér?' 29.5 Þeir svöruðu: 'Vér erum frá Harran.' Og hann mælti til þeirra: 'Þekkið þér Laban Nahorsson?' Þeir svöruðu: 'Já, vér þekkjum hann.' 29.6 Og hann mælti til þeirra: 'Líður honum vel?' Þeir svöruðu: 'Honum líður vel. Og sjá, þarna kemur Rakel dóttir hans með féð.' 29.7 Og hann mælti: 'Sjá, enn er mikið dags eftir og ekki kominn tími til að reka saman fénaðinn. Brynnið fénu, farið síðan og haldið því á haga.' 29.8 Þeir svöruðu: 'Það getum vér ekki fyrr en allar hjarðirnar eru saman reknar, þá velta þeir steininum frá munna brunnsins, og þá brynnum vér fénu.' 29.9 Áður en hann hafði lokið tali sínu við þá, kom Rakel með féð, sem faðir hennar átti, því að hún sat hjá. 29.10 En er Jakob sá Rakel, dóttur Labans móðurbróður síns, og fé Labans móðurbróður síns, þá fór hann til og velti steininum frá munna brunnsins og vatnaði fé Labans móðurbróður síns. 29.11 Og Jakob kyssti Rakel og tók að gráta hástöfum. 29.12 Og Jakob sagði Rakel, að hann væri frændi föður hennar og að hann væri sonur Rebekku. En hún hljóp og sagði þetta föður sínum. 29.13 En er Laban fékk fregnina um Jakob systurson sinn, gekk hann skjótlega á móti honum, faðmaði hann að sér og minntist við hann, og leiddi hann inn í hús sitt. En hann sagði Laban alla sögu sína. 29.14 Þá sagði Laban við hann: 'Sannlega ert þú hold mitt og bein!' Og hann var hjá honum heilan mánuð. 29.15 Laban sagði við Jakob: 'Skyldir þú þjóna mér fyrir ekki neitt, þó að þú sért frændi minn? Seg mér, hvert kaup þitt skuli vera.' 29.16 En Laban átti tvær dætur. Hét hin eldri Lea, en Rakel hin yngri. 29.17 Og Lea var daufeygð, en Rakel var bæði vel vaxin og fríð sýnum. 29.18 Og Jakob elskaði Rakel og sagði: 'Ég vil þjóna þér í sjö ár fyrir Rakel, yngri dóttur þína.' 29.19 Laban svaraði: 'Betra er að ég gefi þér hana en að ég gefi hana öðrum manni. Ver þú kyrr hjá mér.' 29.20 Síðan vann Jakob fyrir Rakel í sjö ár, og þótti honum sem fáir dagar væru, sakir ástar þeirrar, er hann bar til hennar. 29.21 Og Jakob sagði við Laban: 'Fá mér nú konu mína, því að minn ákveðni tími er liðinn, að ég megi ganga inn til hennar.' 29.22 Þá bauð Laban til sín öllum mönnum í þeim stað og hélt veislu. 29.23 En um kveldið tók hann Leu dóttur sína og leiddi hana inn til hans, og hann gekk í sæng með henni. 29.24 Og Laban fékk henni Silpu ambátt sína, að hún væri þerna Leu dóttur hans. 29.25 En um morguninn, sjá, þá var það Lea. Og hann sagði við Laban: 'Hví hefir þú gjört mér þetta? Hefi ég ekki unnið hjá þér fyrir Rakel? Hví hefir þú þá svikið mig?' 29.26 Og Laban sagði: 'Það er ekki siður í voru landi að gifta fyrr frá sér yngri dótturina en hina eldri. 29.27 Enda þú út brúðkaupsviku þessarar, þá skulum vér einnig gefa þér hina fyrir þá vinnu, sem þú munt vinna hjá mér í enn önnur sjö ár.' 29.28 Og Jakob gjörði svo og endaði út vikuna með henni. Þá gifti hann honum Rakel dóttur sína. 29.29 Og Laban fékk Rakel dóttur sinni Bílu ambátt sína fyrir þernu. 29.30 Og hann gekk einnig í sæng með Rakel og hann elskaði Rakel meira en Leu. Og hann vann hjá honum í enn önnur sjö ár. 29.31 Er Drottinn sá, að Lea var fyrirlitin, opnaði hann móðurlíf hennar, en Rakel var óbyrja. 29.32 Og Lea varð þunguð og ól son og nefndi hann Rúben, því að hún sagði: 'Drottinn hefir séð raunir mínar. Nú mun bóndi minn elska mig.' 29.33 Og hún varð þunguð í annað sinn og ól son. Þá sagði hún: 'Drottinn hefir heyrt að ég er fyrirlitin. Fyrir því hefir hann einnig gefið mér þennan son.' Og hún nefndi hann Símeon. 29.34 Og enn varð hún þunguð og ól son. Þá sagði hún: 'Nú mun bóndi minn loks hænast að mér, því að ég hefi fætt honum þrjá sonu.' Fyrir því nefndi hún hann Leví. 29.35 Og enn varð hún þunguð og ól son og sagði: 'Nú vil ég vegsama Drottin.' Fyrir því nefndi hún hann Júda. Og hún lét af að eiga börn.
1 Móse 30
30.1 En er Rakel sá, að hún ól Jakob ekki börn, öfundaði hún systur sína og sagði við Jakob: 'Láttu mig eignast börn, ella mun ég deyja.' 30.2 Jakob reiddist þá við Rakel og sagði: 'Er ég þá Guð? Það er hann sem hefir synjað þér lífsafkvæmis.' 30.3 Þá sagði hún: 'Þarna er Bíla ambátt mín. Gakk þú inn til hennar, að hún megi fæða á skaut mitt og afla mér afkvæmis.' 30.4 Og hún gaf honum Bílu ambátt sína fyrir konu, og Jakob gekk inn til hennar. 30.5 Og Bíla varð þunguð og ól Jakob son. 30.6 Þá sagði Rakel: 'Guð hefir rétt hluta minn og einnig bænheyrt mig og gefið mér son.' Fyrir því nefndi hún hann Dan. 30.7 Og Bíla, ambátt Rakelar, varð þunguð í annað sinn og ól Jakob annan son. 30.8 Þá sagði Rakel: 'Mikið stríð hefi ég þreytt við systur mína og unnið sigur.' Og hún nefndi hann Naftalí. 30.9 Er Lea sá, að hún lét af að eiga börn, tók hún Silpu ambátt sína og gaf Jakob hana fyrir konu. 30.10 Og Silpa, ambátt Leu, ól Jakob son. 30.11 Þá sagði Lea: 'Til heilla!' Og hún nefndi hann Gað. 30.12 Og Silpa, ambátt Leu, ól Jakob annan son. 30.13 Þá sagði Lea: 'Sæl er ég, því að allar konur munu mig sæla segja.' Og hún nefndi hann Asser. 30.14 Rúben gekk eitt sinn út um hveitiskurðartímann og fann ástarepli á akrinum og færði þau Leu móður sinni. Þá sagði Rakel við Leu: 'Gef þú mér nokkuð af ástareplum sonar þíns.' 30.15 En hún svaraði: 'Er það ekki nóg, að þú tekur bónda minn frá mér, viltu nú einnig taka ástarepli sonar míns?' Og Rakel mælti: 'Hann má þá sofa hjá þér í nótt fyrir ástarepli sonar þíns.' 30.16 Er Jakob kom heim um kveldið af akrinum, gekk Lea út á móti honum og sagði: 'Þú átt að ganga inn til mín, því að ég hefi keypt þig fyrir ástarepli sonar míns.' Og hann svaf hjá henni þá nótt. 30.17 En Guð bænheyrði Leu, og hún varð þunguð og ól Jakob hinn fimmta son og sagði: 30.18 'Guð hefir launað mér það, að ég gaf bónda mínum ambátt mína.' Og hún nefndi hann Íssakar. 30.19 Og Lea varð enn þunguð og ól Jakob hinn sjötta son. 30.20 Þá sagði Lea: 'Guð hefir gefið mér góða gjöf. Nú mun bóndi minn búa við mig, því að ég hefi alið honum sex sonu.' Og hún nefndi hann Sebúlon. 30.21 Eftir það ól hún dóttur og nefndi hana Dínu. 30.22 Þá minntist Guð Rakelar og bænheyrði hana og opnaði móðurlíf hennar. 30.23 Og hún varð þunguð og ól son og sagði: 'Guð hefir numið burt smán mína.' 30.24 Og hún nefndi hann Jósef og sagði: 'Guð bæti við mig öðrum syni!' 30.25 Er Rakel hafði alið Jósef, sagði Jakob við Laban: 'Leyf þú mér nú að fara, að ég megi halda heim til átthaga minna og ættlands míns. 30.26 Fá mér konur mínar og börn mín, sem ég hefi þjónað þér fyrir, að ég megi fara, því að þú veist, hvernig ég hefi þjónað þér.' 30.27 Þá sagði Laban við hann: 'Hafi ég fundið náð í augum þínum, þá vertu kyrr. Ég hefi tekið eftir því, að Drottinn hefir blessað mig fyrir þínar sakir.' 30.28 Og hann mælti: 'Set sjálfur upp kaup þitt við mig, og skal ég gjalda það.' 30.29 Jakob sagði við hann: 'Þú veist sjálfur, hvernig ég hefi þjónað þér og hvað fénaður þinn er orðinn hjá mér. 30.30 Því að lítið var það, sem þú áttir, áður en ég kom, en það hefir aukist margfaldlega, og Drottinn hefir blessað þig við hvert mitt fótmál. Og auk þess, hvenær á ég þá að veita forsjá húsi sjálfs mín?' 30.31 Og Laban mælti: 'Hvað skal ég gefa þér?' En Jakob sagði: 'Þú skalt ekkert gefa mér, en viljir þú gjöra þetta, sem ég nú segi, þá vil ég enn þá halda fé þínu til haga og gæta þess. 30.32 Ég ætla í dag að ganga innan um allt fé þitt og skilja úr því hverja flekkótta og spreklótta kind. Og hver svört kind meðal sauðanna og hið spreklótta og flekkótta meðal geitanna, það skal vera kaup mitt. 30.33 Og ráðvendni mín skal eftirleiðis bera mér vitni, er þú kemur að skoða kaup mitt: Allt sem ekki er flekkótt og spreklótt meðal minna geita og svart meðal minna sauða, skal teljast stolið.' 30.34 Og Laban sagði: 'Svo skal þá vera sem þú hefir sagt.' 30.35 Á þeim degi skildi Laban frá alla rílóttu og spreklóttu hafrana, og allar flekkóttu og spreklóttu geiturnar _ allt það, sem hafði á sér einhvern hvítan díla, _ og allt hið svarta meðal sauðanna og fékk sonum sínum. 30.36 Og hann lét vera þriggja daga leið milli sín og Jakobs. En Jakob gætti þeirrar hjarðar Labans, sem eftir varð. 30.37 Jakob tók sér stafi af grænni ösp, möndluviði og hlyni og skóf á þá hvítar rákir með því að nekja hið hvíta á stöfunum. 30.38 Því næst lagði hann stafina, sem hann hafði birkt, í þrærnar, í vatnsrennurnar, sem féð kom að drekka úr, beint fyrir framan féð. En ærnar fengu, er þær komu að drekka. 30.39 Þannig fengu ærnar uppi yfir stöfunum, og ærnar áttu rílótt, flekkótt og spreklótt lömb. 30.40 Jakob skildi lömbin úr og lét féð horfa á hið rílótta og allt hið svarta í fé Labans. Þannig kom hann sér upp sérstökum fjárhópum og lét þá ekki saman við hjörð Labans. 30.41 Og um allan göngutíma vænu ánna lagði Jakob stafina í þrærnar fyrir framan féð, svo að þær skyldu fá uppi yfir stöfunum. 30.42 En er rýru ærnar gengu, lagði hann þá þar ekki. Þannig fékk Laban rýra féð, en Jakob hið væna. 30.43 Og maðurinn varð stórauðugur og eignaðist mikinn fénað, ambáttir og þræla, úlfalda og asna.
1 Móse 31
31.1 Nú frétti Jakob svofelld ummæli Labans sona: 'Jakob hefir dregið undir sig aleigu föður vors, og af eigum föður vors hefir hann aflað sér allra þessara auðæfa.' 31.2 Og Jakob sá á yfirbragði Labans, að hann bar ekki sama þel til sín sem áður. 31.3 Þá sagði Drottinn við Jakob: 'Hverf heim aftur í land feðra þinna og til ættfólks þíns, og ég mun vera með þér.' 31.4 Þá sendi Jakob og lét kalla þær Rakel og Leu út í hagann, þangað sem hjörð hans var. 31.5 Og hann sagði við þær: 'Ég sé á yfirbragði föður ykkar, að hann ber ekki sama þel til mín sem áður; en Guð föður míns hefir verið með mér. 31.6 Og það vitið þið sjálfar, að ég hefi þjónað föður ykkar af öllu mínu megni. 31.7 En faðir ykkar hefir svikið mig og tíu sinnum breytt kaupi mínu, en Guð hefir ekki leyft honum að gjöra mér mein. 31.8 Þegar hann sagði: ,Hið flekkótta skal vera kaup þitt,` _ fæddi öll hjörðin flekkótt, og þegar hann sagði: ,Hið rílótta skal vera kaup þitt,` _ þá fæddi öll hjörðin rílótt. 31.9 Og þannig hefir Guð tekið fénaðinn frá föður ykkar og gefið mér hann. 31.10 Og um fengitíma hjarðarinnar hóf ég upp augu mín og sá í draumi, að hafrarnir, sem hlupu á féð, voru rílóttir, flekkóttir og dílóttir. 31.11 Og engill Guðs sagði við mig í draumnum: ,Jakob!` Og ég svaraði: ,Hér er ég.` 31.12 Þá mælti hann: ,Lít upp augum þínum og horfðu á: Allir hafrarnir, sem hlaupa á féð, eru rílóttir, flekkóttir og dílóttir; því að ég hefi séð allt, sem Laban hefir gjört þér. 31.13 Ég er Betels Guð, þar sem þú smurðir merkisstein, þar sem þú gjörðir mér heit. Tak þig nú upp, far burt úr þessu landi og hverf aftur til ættlands þíns.'` 31.14 Þá svöruðu þær Rakel og Lea og sögðu við hann: 'Höfum við nokkra hlutdeild og arf framar í húsi föður okkar? 31.15 Álítur hann okkur ekki vandalausar, þar sem hann hefir selt okkur? Og verði okkar hefir hann og algjörlega eytt. 31.16 Aftur á móti eigum við og börn okkar allan þann auð, sem Guð hefir tekið frá föður okkar. Og gjör þú nú allt, sem Guð hefir boðið þér.' 31.17 Þá tók Jakob sig upp og setti börn sín og konur upp á úlfaldana 31.18 og hafði á burt allan fénað sinn og allan fjárhlut sinn, sem hann hafði aflað sér, fjáreign sína, sem hann hafði aflað sér í Mesópótamíu, og hóf ferð sína til Ísaks föður síns í Kanaanlandi. 31.19 Þegar Laban var farinn að klippa sauði sína, þá stal Rakel húsgoðum föður síns. 31.20 Og Jakob blekkti Laban hinn arameíska, með því að hann sagði honum eigi frá því, að hann mundi flýja. 31.21 Þannig flýði hann með allt, sem hann átti. Og hann tók sig upp og fór yfir fljótið og stefndi á Gíleaðsfjöll. 31.22 Laban var sagt það á þriðja degi, að Jakob væri flúinn. 31.23 Þá tók hann frændur sína með sér og elti hann sjö dagleiðir og náði honum á Gíleaðsfjöllum. 31.24 En Guð kom um nóttina til Labans hins arameíska í draumi og sagði við hann: 'Gæt þín, að þú mælir ekkert styggðarorð til Jakobs.' 31.25 Og Laban náði Jakob, sem hafði sett tjöld sín á fjöllunum, og Laban tjaldaði einnig á Gíleaðsfjöllum með frændum sínum. 31.26 Þá mælti Laban við Jakob: 'Hvað hefir þú gjört, að þú skyldir blekkja mig og fara burt með dætur mínar, eins og þær væru herteknar? 31.27 Hví flýðir þú leynilega og blekktir mig og lést mig ekki af vita, svo að ég mætti fylgja þér á veg með fögnuði og söng, með bumbum og gígjum, 31.28 og leyfðir mér ekki að kyssa dætrasonu mína og dætur? Óviturlega hefir þér nú farist. 31.29 Það er á mínu valdi að gjöra yður illt, en Guð föður yðar mælti svo við mig í nótt, er var: ,Gæt þín, að þú mælir ekkert styggðarorð til Jakobs.` 31.30 Og nú munt þú burt hafa farið, af því að þig fýsti svo mjög heim til föður þíns, en hví hefir þú stolið goðum mínum?' 31.31 Þá svaraði Jakob og mælti til Labans: 'Af því að ég var hræddur, því að ég hugsaði, að þú kynnir að slíta dætur þínar frá mér. 31.32 En sá skal ekki lífi halda, sem þú finnur hjá goð þín. Rannsaka þú í viðurvist frænda vorra, hvað hjá mér er af þínu, og tak það til þín.' En Jakob vissi ekki, að Rakel hafði stolið þeim. 31.33 Laban gekk í tjald Jakobs og tjald Leu og í tjald beggja ambáttanna, en fann ekkert. Og hann fór út úr tjaldi Leu og gekk í tjald Rakelar. 31.34 En Rakel hafði tekið húsgoðin og lagt þau í úlfaldasöðulinn og setst ofan á þau. Og Laban leitaði vandlega í öllu tjaldinu og fann ekkert. 31.35 Og hún sagði við föður sinn: 'Herra minn, reiðstu ekki, þótt ég geti ekki staðið upp fyrir þér, því að mér fer að eðlisháttum kvenna.' Og hann leitaði og fann ekki húsgoðin. 31.36 Þá reiddist Jakob og átaldi Laban og sagði við Laban: 'Hvað hefi ég misgjört, hvað hefi ég brotið, að þú eltir mig svo ákaflega? 31.37 Þú hefir leitað vandlega í öllum farangri mínum; hvað hefir þú fundið af öllum þínum búshlutum? Legg það hér fram í viðurvist frænda minna og frænda þinna, að þeir dæmi okkar í milli. 31.38 Ég hefi nú hjá þér verið í tuttugu ár. Ær þínar og geitur hafa ekki látið lömbunum, og hrúta hjarðar þinnar hefi ég ekki etið. 31.39 Það sem dýrrifið var, bar ég ekki heim til þín, það bætti ég sjálfur, þú krafðist þess af mér, hvort sem það hafði verið tekið á degi eða nóttu. 31.40 Ég átti þá ævi, að á daginn þjakaði mér hiti og á nóttinni kuldi, og eigi kom mér svefn á augu. 31.41 Í tuttugu ár hefi ég nú verið á heimili þínu. Hefi ég þjónað þér í fjórtán ár fyrir báðar dætur þínar og í sex ár fyrir hjörð þína, og þú hefir breytt kaupi mínu tíu sinnum. 31.42 Hefði ekki Guð föður míns, Abrahams Guð og Ísaks ótti, liðsinnt mér, þá hefðir þú nú látið mig tómhentan burt fara. En Guð hefir séð þrautir mínar og strit handa minna, og hann hefir dóm upp kveðið í nótt er var.' 31.43 Þá svaraði Laban og sagði við Jakob: 'Dæturnar eru mínar dætur og börnin eru mín börn og hjörðin er mín hjörð, og allt, sem þú sér, heyrir mér til. En hvað skyldi ég gjöra þessum dætrum mínum í dag, eða börnum þeirra, sem þær hafa alið? 31.44 Gott og vel, við skulum gjöra sáttmála, ég og þú, og hann skal vera vitnisburður milli mín og þín.' 31.45 Þá tók Jakob stein og reisti hann upp til merkis. 31.46 Og Jakob sagði við frændur sína: 'Berið að steina.' Og þeir báru að steina og gjörðu grjótvörðu, og þeir mötuðust þar á grjótvörðunni. 31.47 Og Laban kallaði hana Jegar Sahadúta, en Jakob kallaði hana Galeð. 31.48 Og Laban mælti: 'Þessi varða skal vera vitni í dag milli mín og þín.' Fyrir því kallaði hann hana Galeð, 31.49 og Mispa, með því að hann sagði: 'Drottinn sé á verði milli mín og þín, þá er við skiljum. 31.50 Ef þú misþyrmir dætrum mínum og ef þú tekur þér fleiri konur auk dætra minna, þá gæt þess, að þótt enginn maður sé hjá okkur, er Guð samt vitni milli mín og þín.' 31.51 Og Laban sagði við Jakob: 'Sjá þessa vörðu og sjá þennan merkisstein, sem ég hefi reist upp milli mín og þín! 31.52 Þessi varða sé vitni þess og þessi merkissteinn vottur þess, að hvorki skal ég ganga fram hjá þessari vörðu til þín né þú ganga fram hjá þessari vörðu og þessum merkissteini til mín með illt í huga. 31.53 Guð Abrahams og Guð Nahors, Guð föður þeirra, dæmi milli okkar.' Og Jakob sór við ótta Ísaks föður síns. 31.54 Og Jakob slátraði fórnardýrum á fjallinu og bauð frændum sínum til máltíðar, og þeir mötuðust og voru á fjallinu um nóttina. 31.55 Laban reis árla næsta morgun og minntist við sonu sína og dætur og blessaði þau. Því næst hélt Laban af stað og hvarf aftur heim til sín.
1 Móse 32
32.1 Jakob fór leiðar sinnar. Mættu honum þá englar Guðs. 32.2 Og er Jakob sá þá, mælti hann: 'Þetta eru herbúðir Guðs.' Og hann nefndi þennan stað Mahanaím. 32.3 Jakob gjörði sendimenn á undan sér til Esaú bróður síns til Seír-lands, Edómhéraðs. 32.4 Og hann bauð þeim og sagði: 'Segið svo herra mínum Esaú: ,Svo segir þjónn þinn Jakob: Ég hefi dvalið hjá Laban og verið þar allt til þessa. 32.5 Og ég hefi eignast uxa, asna og sauði, þræla og ambáttir, og sendi ég nú til herra míns að láta hann vita það, svo að ég megi finna náð í augum þínum.'` 32.6 Sendimennirnir komu aftur til Jakobs og sögðu: 'Vér komum til Esaú bróður þíns. Hann er sjálfur á leiðinni á móti þér og fjögur hundruð manns með honum.' 32.7 Þá varð Jakob mjög hræddur og kvíðafullur. Og hann skipti mönnunum, sem með honum voru, og sauðunum, nautunum og úlföldunum í tvo flokka. 32.8 Og hann hugsaði: 'Þó að Esaú ráðist á annan flokkinn og strádrepi hann, þá getur samt hinn flokkurinn komist undan.' 32.9 Og Jakob sagði: 'Guð Abrahams föður míns og Guð Ísaks föður míns, Drottinn, þú sem sagðir við mig: ,Hverf heim aftur til lands þíns og til ættfólks þíns, og ég mun gjöra vel við þig,` _ 32.10 ómaklegur er ég allrar þeirrar miskunnar og allrar þeirrar trúfesti, sem þú hefir auðsýnt þjóni þínum. Því að með stafinn minn einn fór ég þá yfir Jórdan, en nú á ég yfir tveim flokkum að ráða. 32.11 Æ, frelsa mig undan valdi bróður míns, undan valdi Esaú, því að ég óttast hann, að hann komi og höggvi oss niður sem hráviði. 32.12 Og þú hefir sjálfur sagt: ,Ég mun vissulega gjöra vel við þig og gjöra niðja þína sem sand á sjávarströndu, er eigi verður talinn fyrir fjölda sakir.'` 32.13 Og hann var þar þá nótt. Og hann tók gjöf handa Esaú bróður sínum af því, sem hann hafði eignast: 32.14 tvö hundruð geitur og tuttugu geithafra, tvö hundruð ásauðar og tuttugu hrúta, 32.15 þrjátíu úlfaldahryssur með folöldum, fjörutíu kýr og tíu griðunga, tuttugu ösnur og tíu ösnufola. 32.16 Og hann fékk þetta í hendur þjónum sínum, hverja hjörð út af fyrir sig, og mælti við þjóna sína: 'Farið á undan mér og látið vera bil á milli hjarðanna.' 32.17 Og þeim, sem fyrstur fór, bauð hann á þessa leið: 'Þegar Esaú bróðir minn mætir þér og spyr þig og segir: ,Hvers maður ert þú og hvert ætlar þú að fara og hver á þetta, sem þú rekur á undan þér?` 32.18 þá skaltu segja: ,Þjónn þinn Jakob á það. Það er gjöf, sem hann sendir herra mínum Esaú. Og sjá, hann er sjálfur hér á eftir oss.'` 32.19 Á sömu leið bauð hann hinum öðrum og þriðja og öllum þeim, sem hjarðirnar ráku, og mælti: 'Þannig skuluð þér tala við Esaú, þegar þér hittið hann. 32.20 Og þér skuluð einnig segja: ,Sjá, þjónn þinn Jakob kemur sjálfur á eftir oss.'` Því að hann hugsaði: 'Ég ætla að blíðka hann með gjöfinni, sem fer á undan mér. Því næst vil ég sjá hann. Vera má, að hann taki mér þá blíðlega.' 32.21 Þannig fór gjöfin á undan honum, en sjálfur var hann þessa nótt í herbúðunum. 32.22 Og Jakob lagði af stað um nóttina og tók báðar konur sínar og báðar ambáttir sínar og ellefu sonu sína og fór yfir Jabbok á vaðinu. 32.23 Og hann tók þau og fór með þau yfir ána. Og hann fór yfir um með allt, sem hann átti. 32.24 Jakob varð einn eftir, og maður nokkur glímdi við hann, uns dagsbrún rann upp. 32.25 Og er hann sá, að hann gat ekki fellt hann, laust hann hann á mjöðmina, svo að Jakob gekk úr augnakörlunum, er hann glímdi við hann. 32.26 Þá mælti hinn: 'Slepptu mér, því að nú rennur upp dagsbrún.' En hann svaraði: 'Ég sleppi þér ekki, nema þú blessir mig.' 32.27 Þá sagði hann við hann: 'Hvað heitir þú?' Hann svaraði: 'Jakob.' 32.28 Þá mælti hann: 'Eigi skalt þú lengur Jakob heita, heldur Ísrael, því að þú hefir glímt við Guð og menn og fengið sigur.' 32.29 Og Jakob spurði hann og mælti: 'Seg mér heiti þitt.' En hann svaraði: 'Hvers vegna spyr þú mig að heiti?' Og hann blessaði hann þar. 32.30 Og Jakob nefndi þennan stað Peníel, 'því að ég hefi,' kvað hann, 'séð Guð augliti til auglitis og þó haldið lífi.' 32.31 Og er hann fór frá Penúel, rann sólin upp. Var hann þá haltur í mjöðminni. 32.32 Fyrir því eta Ísraelsmenn allt til þessa dags ekki sinina, sem er ofan á augnakarlinum, því að hann hitti mjöðm Jakobs þar sem sinin er undir.
1 Móse 33
33.1 Jakob hóf upp augu sín og sá Esaú koma og með honum fjögur hundruð manns. Skipti hann þá börnunum niður á Leu og Rakel og báðar ambáttirnar. 33.2 Og hann lét ambáttirnar og þeirra börn vera fremst, þá Leu og hennar börn, og Rakel og Jósef aftast. 33.3 En sjálfur gekk hann á undan þeim og laut sjö sinnum til jarðar, uns hann kom fast að bróður sínum. 33.4 Þá hljóp Esaú á móti honum og faðmaði hann, lagði hendur um háls honum og kyssti hann, og þeir grétu. 33.5 Og Esaú leit upp og sá konurnar og börnin og mælti: 'Hvernig stendur á þessu fólki, sem með þér er?' Og hann svaraði: 'Það eru börnin, sem Guð hefir af náð sinni gefið þjóni þínum.' 33.6 Þá gengu fram ambáttirnar og börn þeirra og hneigðu sig. 33.7 Þá gekk og Lea fram og börn hennar og hneigðu sig, og síðan gengu Jósef og Rakel fram og hneigðu sig. 33.8 Esaú mælti: 'Hvað skal allur þessi hópur, sem ég mætti?' Jakob svaraði: 'Að ég megi finna náð í augum herra míns.' 33.9 Þá mælti Esaú: 'Ég á nóg. Eig þú þitt, bróðir minn!' 33.10 En Jakob sagði: 'Eigi svo. Hafi ég fundið náð í augum þínum, þá þigg þú gjöfina af mér, því að þegar ég sá auglit þitt, var sem ég sæi Guðs auglit, og þú tókst náðarsamlega á móti mér. 33.11 Ég bið þig, að þú þiggir gjöf mína, sem þér var færð, því að Guð hefir verið mér náðugur og ég hefi allsnægtir.' Og hann lagði að honum, svo að hann þá gjöfina. 33.12 Þá mælti Esaú: 'Tökum okkur nú upp og höldum áfram, og skal ég fara á undan þér.' 33.13 En hann svaraði honum: 'Þú sér, herra minn, að börnin eru þróttlítil og að í ferðinni eru lambær og kýr með kálfum, og ræki ég þær of hart einn dag, þá mundi öll hjörðin drepast. 33.14 Fari herra minn á undan þjóni sínum, en ég mun halda á eftir í hægðum mínum, eins og fénaðurinn getur farið, sem ég rek, og eins og börnin geta farið, uns ég kem til herra míns í Seír.' 33.15 Þá mælti Esaú: 'Þá vil ég þó láta eftir hjá þér nokkra af þeim mönnum, sem með mér eru.' Hann svaraði: 'Hver þörf er á því? Lát mig aðeins finna náð fyrir augum herra míns.' 33.16 Síðan fór Esaú þann sama dag leiðar sinnar heim aftur til Seír. 33.17 Og Jakob hélt áfram til Súkkót og byggði sér hús, og handa fénaði sínum gjörði hann laufskála. Fyrir því heitir staðurinn Súkkót. 33.18 Jakob kom heill á hófi til Síkemborgar, sem er í Kanaanlandi, er hann kom frá Mesópótamíu, og hann sló tjöldum fyrir utan borgina. 33.19 Hann keypti landspilduna, sem hann hafði tjaldað á, af sonum Hemors, föður Síkems, fyrir hundrað silfurpeninga. 33.20 Og hann reisti þar altari og kallaði það El-elóhe-Ísrael.
1 Móse 34
34.1 Dína dóttir Leu, er hún hafði fætt Jakob, gekk út að sjá dætur landsins. 34.2 Þá sá Síkem hana, sonur Hevítans Hemors, höfðingja landsins, og hann tók hana og lagðist með henni og spjallaði hana. 34.3 Og hann lagði mikinn ástarhug á Dínu, dóttur Jakobs, og hann elskaði stúlkuna og talaði vinsamlega við hana. 34.4 Síkem kom að máli við Hemor föður sinn og mælti: 'Tak mér þessa stúlku fyrir konu.' 34.5 En Jakob hafði frétt, að hann hefði svívirt Dínu dóttur hans, en með því að synir hans voru úti í haga með fénað hans, þá lét hann kyrrt vera, þar til er þeir komu heim. 34.6 Þá gekk Hemor, faðir Síkems, út til Jakobs til þess að tala við hann. 34.7 Og synir Jakobs komu heim úr haganum, er þeir heyrðu þetta. Og mennirnir styggðust og urðu stórreiðir, því að hann hafði framið óhæfuverk í Ísrael, er hann lagðist með dóttur Jakobs, og slíkt hefði aldrei átt að fremja. 34.8 Þá talaði Hemor við þá og mælti: 'Síkem sonur minn hefir mikla ást á dóttur yðar. Ég bið að þér gefið honum hana fyrir konu. 34.9 Mægist við oss, gefið oss yðar dætur og takið yður vorar dætur 34.10 og staðnæmist hjá oss, og landið skal standa yður til boða. Verið hér kyrrir og farið um landið og takið yður bólfestu í því.' 34.11 Og Síkem sagði við föður hennar og bræður: 'Ó, að ég mætti finna náð í augum yðar. Hvað sem þér til nefnið, það skal ég greiða. 34.12 Krefjist af mér svo mikils mundar og morgungjafar sem vera skal, og mun ég greiða það, er þér til nefnið, en gefið mér stúlkuna fyrir konu.' 34.13 Þá svöruðu synir Jakobs þeim Síkem og Hemor föður hans, og töluðu með undirhyggju, af því að hann hafði svívirt Dínu systur þeirra, 34.14 og sögðu við þá: 'Eigi megum vér þetta gjöra, að gefa systur vora óumskornum manni, því að það væri oss vanvirða. 34.15 Því aðeins viljum vér gjöra að yðar vilja, að þér verðið eins og vér, með því að láta umskera allt karlkyn meðal yðar. 34.16 Þá skulum vér gefa yður vorar dætur og taka yðar dætur oss til handa og búa hjá yður, svo að vér verðum ein þjóð. 34.17 En viljið þér eigi láta að orðum vorum og umskerast, þá tökum vér dóttur vora og förum burt.'
34.18 Og Hemor og Síkem, syni Hemors, geðjaðist vel tal þeirra. 34.19 Og sveinninn lét ekki á því standa að gjöra þetta, því að hann elskaði dóttur Jakobs. En hann var talinn maður ágætastur í sinni ætt. 34.20 Hemor og Síkem sonur hans komu í hlið borgar sinnar og töluðu við borgarmenn sína og sögðu: 34.21 'Þessir menn bera friðarhug til vor. Látum þá setjast að í landinu og fara allra sinna ferða um það, því að nóg er landrýmið á báðar hendur handa þeim. Dætur þeirra munum vér taka oss fyrir konur og gefa þeim dætur vorar. 34.22 En því aðeins vilja mennirnir gjöra að vorum vilja og búa vor á meðal, svo að vér verðum ein þjóð, að vér látum umskera allt karlkyn meðal vor, eins og þeir eru umskornir. 34.23 Hjarðir þeirra, fjárhlutur þeirra og allur fénaður þeirra, verður það ekki vor eign? Gjörum aðeins að vilja þeirra, svo að þeir staðnæmist hjá oss.' 34.24 Og þeir létu að orðum Hemors og Síkems sonar hans, allir sem gengu út um hlið borgar hans, og allt karlkyn lét umskerast, allir þeir, sem gengu út um hlið borgar hans. 34.25 En svo bar til á þriðja degi, er þeir voru sjúkir af sárum, að tveir synir Jakobs, þeir Símeon og Leví, bræður Dínu, tóku hvor sitt sverð og gengu inn í borgina, sem átti sér einskis ills von, og drápu þar allt karlkyn. 34.26 Drápu þeir einnig Hemor og son hans Síkem með sverðseggjum og tóku Dínu úr húsi Síkems og fóru síðan burt. 34.27 Synir Jakobs réðust að hinum vegnu og rændu borgina, af því að þeir höfðu svívirt systur þeirra. 34.28 Sauði þeirra, naut þeirra og asna, og allt, sem var í borginni, og það, sem var í högunum, tóku þeir. 34.29 Og öll auðæfi þeirra, öll börn þeirra og konur tóku þeir að herfangi og rændu, sömuleiðis allt, sem var í húsunum. 34.30 Jakob sagði við Símeon og Leví: 'Þið hafið stofnað mér í ógæfu með því að gjöra mig illa þokkaðan af landsmönnum, af Kanaanítum og Peresítum. Nú með því að ég er liðfár, munu þeir safnast saman á móti mér og vinna sigur á mér. Verð ég þá afmáður, ég og mitt hús.' 34.31 En þeir svöruðu: 'Átti hann þá að fara með systur okkar eins og skækju?'
1 Móse 35
35.1 Guð sagði við Jakob: 'Tak þig upp og far upp til Betel og dvel þú þar og gjör þar altari Guði, sem birtist þér, þegar þú flýðir undan Esaú bróður þínum.' 35.2 Jakob sagði við heimafólk sitt og alla, sem með honum voru: 'Kastið burt þeim útlendu goðum, sem þér hafið hjá yður, og hreinsið yður og hafið fataskipti, 35.3 og skulum vér taka oss upp og fara upp til Betel. Vil ég reisa þar altari þeim Guði, sem bænheyrði mig á tíma neyðar minnar og hefir verið með mér á þeim vegi, sem ég hefi farið.' 35.4 Og þeir fengu Jakob öll þau útlendu goð, sem þeir höfðu hjá sér, og hringana, sem þeir höfðu í eyrum sér, og gróf Jakob það undir eikinni, sem er hjá Síkem. 35.5 Því næst fóru þeir af stað. En ótti frá Guði var yfir öllum borgunum, sem voru umhverfis þá, svo að sonum Jakobs var ekki veitt eftirför. 35.6 Og Jakob kom til Lúz, sem er í Kanaanlandi (það er Betel), hann og allt fólkið, sem með honum var. 35.7 Og hann reisti þar altari og kallaði staðinn El-Betel, því að Guð hafði birst honum þar, þegar hann flýði undan bróður sínum. 35.8 Þar andaðist Debóra, fóstra Rebekku, og var jörðuð fyrir neðan Betel, undir eikinni, og fyrir því heitir hún Gráteik. 35.9 Enn birtist Guð Jakob, er hann var á heimleið frá Mesópótamíu, og blessaði hann. 35.10 Og Guð sagði við hann: 'Nafn þitt er Jakob. Eigi skalt þú héðan af Jakob heita, heldur skal nafn þitt vera Ísrael.' Og hann nefndi hann Ísrael. 35.11 Og Guð sagði við hann: 'Ég er Almáttugur Guð. Ver þú frjósamur og auk kyn þitt. Þjóð, já fjöldi þjóða skal frá þér koma, og konungar skulu út ganga af lendum þínum. 35.12 Og landið, sem ég gaf Abraham og Ísak, mun ég gefa þér, og niðjum þínum eftir þig mun ég gefa landið.' 35.13 Því næst sté Guð upp frá honum, þaðan sem hann talaði við hann. 35.14 Jakob reisti upp merki á þeim stað, sem Guð talaði við hann, merkisstein, og dreypti yfir hann dreypifórn og hellti yfir hann olíu. 35.15 Og Jakob nefndi staðinn, þar sem Guð talaði við hann, Betel. 35.16 Þeir tóku sig upp frá Betel. En er þeir áttu skammt eftir ófarið til Efrata, tók Rakel léttasótt og kom hart niður. 35.17 Og er hún kom svo hart niður í barnburðinum, sagði ljósmóðirin við hana: 'Óttast þú ekki, því að nú eignast þú annan son.' 35.18 Og er hún var í andlátinu, _ því að hún dó _, þá nefndi hún hann Benóní, en faðir hans nefndi hann Benjamín. 35.19 Því næst andaðist Rakel og var jörðuð við veginn til Efrata, það er Betlehem.
1 Móse 36
36.1 Þetta er ættartala Esaú, það er Edóms. 36.2 Esaú hafði tekið sér konur af dætrum Kanaaníta: Ada, dóttur Hetítans Elons, og Oholíbama, dóttur Ana, sonar Hórítans Síbeons, 36.3 og Basmat, dóttur Ísmaels, systur Nebajóts. 36.4 Og Ada ól Esaú Elífas, Basmat ól Regúel 36.5 og Oholíbama ól Jehús, Jaelam og Kóra. Þessir eru synir Esaú, sem honum fæddust í Kanaanlandi. 36.6 Esaú tók konur sínar, sonu sína og dætur og allar sálir í húsi sínu og hjörð sína og kvikfénað og allan þann fjárhlut, sem hann hafði aflað sér í Kanaanlandi, og fór í burtu frá Jakob bróður sínum til Seírlands. 36.7 Því að eign þeirra var meiri en svo, að þeir gætu saman verið, og landið, er þeir bjuggu í sem útlendingar, bar þá ekki sökum hjarða þeirra. 36.8 Esaú settist að á Seírfjöllum; en Esaú er Edóm. 36.9 Þetta er saga Esaú, ættföður Edómíta, á Seírfjöllum. 36.10 Þetta eru nöfn Esaú sona: Elífas, sonur Ada, konu Esaú; Regúel, sonur Basmat, konu Esaú. 36.11 Synir Elífas voru: Teman, Ómar, Sefó, Gaetam og Kenas. 36.12 Timna var hjákona Elífas, sonar Esaú, og hún ól Elífas Amalek. Þetta eru synir Ada, konu Esaú. 36.13 Þessir eru synir Regúels: Nahat, Sera, Samma og Missa. Þessir voru synir Basmat, konu Esaú. 36.14 Og þessir voru synir Oholíbama, dóttur Ana, sonar Síbeons, konu Esaú, hún ól Esaú Jehús, Jaelam og Kóra. 36.15 Þessir eru ætthöfðingjar meðal Esaú sona: Synir Elífas, frumgetins sonar Esaú: Höfðinginn Teman, höfðinginn Ómar, höfðinginn Sefó, höfðinginn Kenas, 36.16 höfðinginn Kóra, höfðinginn Gaetam, höfðinginn Amalek. Þessir eru þeir höfðingjar, sem komnir eru frá Elífas í Edómlandi, þessir eru synir Ada. 36.17 Þessir voru synir Regúels, sonar Esaú: Höfðinginn Nahat, höfðinginn Sera, höfðinginn Samma, höfðinginn Missa. Þessir eru þeir höfðingjar, sem komnir eru frá Regúel í Edómlandi, þessir eru synir Basmat, konu Esaú. 36.18 Þessir eru synir Oholíbama, konu Esaú: Höfðinginn Jehús, höfðinginn Jaelam, höfðinginn Kóra. Þessir eru þeir höfðingjar, sem komnir eru frá Oholíbama, dóttur Ana, konu Esaú. 36.19 Þessir eru synir Esaú og þessir eru höfðingjar þeirra, það er Edóm. 36.20 Þessir eru synir Hórítans Seírs, frumbyggjar landsins: Lótan, Sóbal, Síbeon, Ana, 36.21 Díson, Eser og Dísan. Þessir eru höfðingjar Hórítanna, synir Seírs í Edómlandi. 36.22 Synir Lótans voru Hórí og Hemam, og systir Lótans var Timna. 36.23 Þessir eru synir Sóbals: Alvan, Manahat, Ebal, Sefó og Ónam. 36.24 Þessir eru synir Síbeons: Aja og Ana, það er sá Ana, sem fann laugarnar á öræfunum, er hann gætti asna Síbeons föður síns. 36.25 Þessi eru börn Ana: Díson og Oholíbama, dóttir Ana. 36.26 Þessir eru synir Dísons: Hemdan, Esban, Jítran og Keran. 36.27 Þessir eru synir Esers: Bílhan, Saavan og Akan. 36.28 Þessir eru synir Dísans: Ús og Aran. 36.29 Þessir eru höfðingjar Hórítanna: Höfðinginn Lótan, höfðinginn Sóbal, höfðinginn Síbeon, höfðinginn Ana, 36.30 höfðinginn Díson, höfðinginn Eser, höfðinginn Dísan. Þessir eru höfðingjar Hórítanna eftir höfðingjum þeirra í Seírlandi. 36.31 Þessir eru þeir konungar, sem ríktu í Edómlandi, áður en konungar ríktu yfir Ísraelsmönnum: 36.32 Bela, sonur Beórs, var konungur í Edóm, og hét borg hans Dínhaba. 36.33 Og er Bela dó, tók Jóbab, sonur Sera frá Bosra, ríki eftir hann. 36.34 Og er Jóbab dó, tók Húsam frá Temanítalandi ríki eftir hann. 36.35 Og er Húsam dó, tók Hadad, sonur Bedads, ríki eftir hann. Hann vann sigur á Midíanítum á Móabsvöllum, og borg hans hét Avít. 36.36 Og er Hadad dó, tók Samla frá Masreka ríki eftir hann. 36.37 Og er Samla dó, tók Sál frá Rehóbót hjá Efrat ríki eftir hann. 36.38 Og er Sál dó, tók Baal Hanan, sonur Akbórs, ríki eftir hann. 36.39 Og er Baal Hanan sonur Akbórs dó, tók Hadar ríki eftir hann, og hét borg hans Pagú, en kona hans Mehetabeel, dóttir Matredar, dóttur Me-Sahabs. 36.40 Þessi eru nöfn höfðingja þeirra, er frá Esaú eru komnir, eftir ættkvíslum þeirra, eftir bústöðum þeirra, eftir nöfnum þeirra: Höfðinginn Timna, höfðinginn Alva, höfðinginn Jetet, 36.41 höfðinginn Oholíbama, höfðinginn Ela, höfðinginn Pínon, 36.42 höfðinginn Kenas, höfðinginn Teman, höfðinginn Mibsar, 36.43 höfðinginn Magdíel, höfðinginn Íram. Þessir eru höfðingjar Edómíta, eftir bústöðum þeirra í landi því, sem þeir höfðu numið. Þessi Esaú er ættfaðir Edómíta.
1 Móse 37
37.1 Jakob bjó í landi því, er faðir hans hafði dvalist í sem útlendingur, í Kanaanlandi. 37.2 Þetta er ættarsaga Jakobs. Þegar Jósef var seytján ára gamall, gætti hann sauða með bræðrum sínum. En hann var smásveinn hjá þeim sonum Bílu og sonum Silpu, er voru konur föður hans. Og Jósef bar föður sínum illan orðróm um þá. 37.3 Ísrael unni Jósef mest allra sona sinna, því að hann hafði átt hann í elli sinni. Og hann lét gjöra honum dragkyrtil. 37.4 En er bræður hans sáu, að faðir þeirra elskaði hann meir en alla sonu sína, lögðu þeir hatur á hann og gátu ekki talað við hann vinsamlegt orð. 37.5 Jósef dreymdi draum og sagði hann bræðrum sínum. Hötuðu þeir hann þá enn meir. 37.6 Og hann sagði við þá: 'Heyrið nú draum þennan, sem mig dreymdi: 37.7 Sjá, vér vorum að binda kornbundin á akrinum, og mitt kornbundin reisti sig og stóð upprétt, en yðar kornbundin skipuðu sér umhverfis og lutu mínu kornbundini.' 37.8 Þá sögðu bræður hans við hann: 'Munt þú þá verða konungur yfir oss? Munt þú þá drottna yfir oss?' Og þeir hötuðu hann enn meir sakir drauma hans og sakir orða hans. 37.9 Enn dreymdi hann annan draum og sagði hann bræðrum sínum og mælti: 'Sjá, mig hefir enn dreymt draum: Mér þótti sólin, tunglið og ellefu stjörnur lúta mér.' 37.10 En er hann sagði föður sínum og bræðrum frá þessu, ávítti faðir hans hann og mælti til hans: 'Hvaða draumur er þetta, sem þig hefir dreymt? Munum vér eiga að koma, ég og móðir þín og bræður þínir, og lúta til jarðar fyrir þér?' 37.11 Og bræður hans öfunduðu hann, en faðir hans festi þetta í huga sér. 37.12 Er bræður hans voru að heiman farnir til þess að halda hjörð föður þeirra á haga í Síkem, 37.13 mælti Ísrael við Jósef: 'Bræður þínir halda hjörðinni á beit í Síkem. Kom þú, ég ætla að senda þig til þeirra.' Og hann svaraði honum: 'Hér er ég.' 37.14 Og hann sagði við hann: 'Far þú og vit þú, hvort bræðrum þínum og hjörðinni líður vel, og láttu mig svo vita það.' Og hann sendi hann úr Hebronsdal, og hann kom til Síkem. 37.15 Þá hitti hann maður nokkur, er hann var að reika á víðavangi. Og maðurinn spurði hann og mælti: 'Að hverju leitar þú?' 37.16 Hann svaraði: 'Ég er að leita að bræðrum mínum. Seg mér hvar þeir eru með hjörðina.' 37.17 Og maðurinn sagði: 'Þeir eru farnir héðan, því að ég heyrði þá segja: ,Vér skulum fara til Dótan.'` Fór Jósef þá eftir bræðrum sínum og fann þá í Dótan. 37.18 Er þeir sáu hann álengdar, áður en hann var kominn nærri þeim, tóku þeir saman ráð sín að drepa hann. 37.19 Og þeir sögðu hver við annan: 'Sjá, þarna kemur draumamaðurinn. 37.20 Förum nú til og drepum hann og köstum honum í einhverja gryfjuna og segjum svo, að óargadýr hafi etið hann. Þá skulum vér sjá, hvað úr draumum hans verður.' 37.21 En er Rúben heyrði þetta, vildi hann frelsa hann úr höndum þeirra og mælti: 'Ekki skulum vér drepa hann.' 37.22 Og Rúben sagði við þá, til þess að hann gæti frelsað hann úr höndum þeirra og fært hann aftur föður sínum: 'Úthellið ekki blóði. Kastið honum í þessa gryfju, sem er hér á eyðimörkinni, en leggið ekki hendur á hann.' 37.23 En er Jósef kom til bræðra sinna, færðu þeir hann úr kyrtli hans, dragkyrtlinum, sem hann var í, 37.24 tóku hann og köstuðu honum í gryfjuna. En gryfjan var tóm, ekkert vatn var í henni. 37.25 Settust þeir nú niður að neyta matar. En er þeim varð litið upp, sáu þeir lest Ísmaelíta koma frá Gíleað, og báru úlfaldar þeirra reykelsi, balsam og myrru. Voru þeir á leið með þetta til Egyptalands. 37.26 Þá mælti Júda við bræður sína: 'Hver ávinningur er oss það, að drepa bróður vorn og leyna morðinu? 37.27 Komið, vér skulum selja hann Ísmaelítum, en ekki leggja hendur á hann, því hann er bróðir vor, hold vort og blóð.' Og bræður hans féllust á það. 37.28 En midíanítískir kaupmenn fóru þar fram hjá, tóku Jósef og drógu hann upp úr gryfjunni. Og þeir seldu Jósef Ísmaelítunum fyrir tuttugu sikla silfurs, en þeir fóru með Jósef til Egyptalands. 37.29 En er Rúben kom aftur að gryfjunni, þá var Jósef ekki í gryfjunni. Reif hann þá klæði sín. 37.30 Og hann sneri aftur til bræðra sinna og mælti: 'Sveinninn er horfinn, og hvert skal ég nú fara?' 37.31 Þá tóku þeir kyrtil Jósefs, skáru geithafur og velktu kyrtilinn í blóðinu. 37.32 Því næst sendu þeir dragkyrtilinn og létu færa hann föður sínum með þeirri orðsending: 'Þetta höfum vér fundið. Gæt þú að, hvort það muni vera kyrtill sonar þíns eða ekki.' 37.33 Og hann skoðaði hann og mælti: 'Það er kyrtill sonar míns. Óargadýr hefir etið hann. Sannlega er Jósef sundur rifinn.' 37.34 Þá reif Jakob klæði sín og lagði hærusekk um lendar sínar og harmaði son sinn langan tíma. 37.35 Og allir synir hans og allar dætur hans leituðust við að hugga hann, en hann vildi ekki huggast láta og sagði: 'Með harmi mun ég niður stíga til sonar míns til heljar.' Og faðir hans grét hann. 37.36 En Midíanítar seldu hann til Egyptalands, Pótífar hirðmanni Faraós og lífvarðarforingja.
1 Móse 38
38.1 Um þessar mundir bar svo við, að Júda fór frá bræðrum sínum og lagði lag sitt við mann nokkurn í Adúllam, sem Híra hét. 38.2 Þar sá Júda dóttur kanversks manns, sem Súa hét, og tók hana og hafði samfarir við hana. 38.3 Og hún varð þunguð og ól son, og hún nefndi hann Ger. 38.4 Og hún varð þunguð í annað sinn og ól son, og hún nefndi hann Ónan. 38.5 Og enn ól hún son og nefndi hann Sela. En hún var í Kesíb, er hún ól hann. 38.6 Og Júda tók konu til handa Ger, frumgetnum syni sínum. Hún hét Tamar. 38.7 En Ger, frumgetinn sonur Júda, var vondur í augum Drottins, svo að Drottinn lét hann deyja. 38.8 Þá mælti Júda við Ónan: 'Gakk þú inn til konu bróður þíns og gegn þú mágskyldunni við hana, að þú megir afla bróður þínum afkvæmis.' 38.9 En með því að Ónan vissi, að afkvæmið skyldi eigi verða hans, þá lét hann sæðið spillast á jörðu í hvert sinn er hann gekk inn til konu bróður síns, til þess að hann aflaði eigi bróður sínum afkvæmis. 38.10 En Drottni mislíkaði það, er hann gjörði, og lét hann einnig deyja. 38.11 Þá sagði Júda við Tamar tengdadóttur sína: 'Ver þú sem ekkja í húsi föður þíns, þangað til Sela sonur minn verður fulltíða.' Því að hann hugsaði: 'Ella mun hann og deyja, eins og bræður hans.' Fór Tamar þá burt og var í húsi föður síns. 38.12 En er fram liðu stundir, andaðist dóttir Súa, kona Júda. Og er Júda lét af harminum, fór hann upp til Timna, til sauðaklippara sinna, hann og Híra vinur hans frá Adúllam. 38.13 Var þá Tamar sagt svo frá: 'Sjá, tengdafaðir þinn fer upp til Timna að klippa sauði sína.' 38.14 Þá fór hún úr ekkjubúningi sínum, huldi sig blæju og hjúpaði sig og settist við hlið Enaímborgar, sem er við veginn til Timna. Því að hún sá, að Sela var orðinn fulltíða, og hún var þó ekki honum gefin fyrir konu. 38.15 Júda sá hana og hugði, að hún væri skækja, því að hún hafði hulið andlit sitt. 38.16 Og hann vék til hennar við veginn og mælti: 'Leyf mér að leggjast með þér!' Því að hann vissi ekki, að hún var tengdadóttir hans. Hún svaraði: 'Hvað viltu gefa mér til þess, að þú megir leggjast með mér?' 38.17 Og hann mælti: 'Ég skal senda þér hafurkið úr hjörðinni.' Hún svaraði: 'Fáðu mér þá pant, þangað til þú sendir það.' 38.18 Þá mælti hann: 'Hvaða pant skal ég fá þér?' En hún svaraði: 'Innsiglishring þinn og festi þína og staf þinn, sem þú hefir í hendinni.' Og hann fékk henni þetta og lagðist með henni, og hún varð þunguð af hans völdum. 38.19 Því næst stóð hún upp, gekk burt og lagði af sér blæjuna og fór aftur í ekkjubúning sinn. 38.20 Og Júda sendi hafurkiðið með vini sínum frá Adúllam, svo að hann fengi aftur pantinn af hendi konunnar, en hann fann hana ekki. 38.21 Og hann spurði menn í þeim stað og sagði: 'Hvar er portkonan, sem sat við veginn hjá Enaím?' En þeir svöruðu: 'Hér hefir engin portkona verið.' 38.22 Fór hann þá aftur til Júda og mælti: 'Ég fann hana ekki, enda sögðu menn í þeim stað: ,Hér hefir engin portkona verið.'` 38.23 Þá mælti Júda: 'Haldi hún því, sem hún hefir, að vér verðum ekki hafðir að spotti. Sjá, ég sendi þetta kið, en þú hefir ekki fundið hana.' 38.24 Að þrem mánuðum liðnum var Júda sagt: 'Tamar tengdadóttir þín hefir drýgt hór, og meira að segja: Hún er þunguð orðin í hórdómi.' Þá mælti Júda: 'Leiðið hana út, að hún verði brennd.' 38.25 En er hún var út leidd, gjörði hún tengdaföður sínum þessa orðsending: 'Af völdum þess manns, sem þetta á, er ég þunguð orðin.' Og hún sagði: 'Hygg þú að, hver eiga muni innsiglishring þennan, festi og staf.' 38.26 En Júda kannaðist við gripina og mælti: 'Hún hefir betri málstað en ég, fyrir þá sök að ég hefi eigi gift hana Sela syni mínum.' Og hann kenndi hennar ekki upp frá því. 38.27 En er hún skyldi verða léttari, sjá, þá voru tvíburar í kviði hennar. 38.28 Og í fæðingunni rétti annar út höndina. Tók þá ljósmóðirin rauðan þráð og batt um hönd hans og sagði: 'Þessi kom fyrr í ljós.' 38.29 En svo fór, að hann kippti aftur að sér hendinni, og þá kom bróðir hans í ljós. Þá mælti hún: 'Hví hefir þú brotist svo fram þér til góða?' Og hún nefndi hann Peres. 38.30 Eftir það fæddist bróðir hans, og var rauði þráðurinn um hönd hans. Og hún nefndi hann Sera.
1 Móse 39
39.1 Jósef var fluttur til Egyptalands, og Pótífar, hirðmaður Faraós og lífvarðarforingi, maður egypskur, keypti hann af Ísmaelítum, sem hann höfðu þangað flutt. 39.2 En Drottinn var með Jósef, svo að hann varð maður lángefinn, og hann var í húsi húsbónda síns, hins egypska manns. 39.3 Og er húsbóndi hans sá, að Drottinn var með honum og að Drottinn lét honum heppnast allt, sem hann tók sér fyrir hendur, 39.4 þá fann Jósef náð í augum hans og þjónaði honum. Og hann setti hann yfir hús sitt og fékk honum í hendur allt, sem hann átti. 39.5 Og upp frá þeirri stundu, er hann hafði sett Jósef yfir hús sitt og yfir allt, sem hann átti, blessaði Drottinn hús hins egypska manns sakir Jósefs, og blessun Drottins var yfir öllu, sem hann átti innan húss og utan. 39.6 Og hann fól Jósef til umráða allar eigur sínar og var afskiptalaus um allt hjá honum og gekk aðeins að máltíðum. Jósef var vel vaxinn og fríður sýnum. 39.7 Og eftir þetta bar svo til, að kona húsbónda hans renndi augum til Jósefs og mælti: 'Leggstu með mér!' 39.8 En hann færðist undan og sagði við konu húsbónda síns: 'Sjá, húsbóndi minn lítur ekki eftir neinu í húsinu hjá mér, og allar eigur sínar hefir hann fengið mér í hendur. 39.9 Hann hefir ekki meira vald í þessu húsi en ég, og hann fyrirmunar mér ekkert nema þig, með því að þú ert kona hans. Hvernig skyldi ég þá aðhafast þessa miklu óhæfu og syndga á móti Guði?' 39.10 Og þó að hún leitaði til við Jósef með þessum orðum dag eftir dag, þá lét hann ekki að vilja hennar að leggjast með henni og hafa samfarir við hana. 39.11 Þá bar svo til einn dag, er hann gekk inn í húsið til starfa sinna og enginn heimilismanna var þar inni, 39.12 að hún greip í skikkju hans og mælti: 'Leggstu með mér!' En hann lét skikkjuna eftir í hendi hennar og flýði og hljóp út. 39.13 En er hún sá, að hann hafði látið eftir skikkjuna í hendi hennar og var flúinn út, 39.14 þá kallaði hún á heimafólk sitt og mælti við það: 'Sjáið, hann hefir fært oss hebreskan mann til þess að dára oss. Hann kom inn til mín og vildi hafa lagst með mér, en ég æpti hástöfum. 39.15 Og er hann heyrði, að ég hrópaði og kallaði, lét hann skikkju sína eftir hjá mér og flýði og hljóp út.' 39.16 Því næst geymdi hún skikkju hans hjá sér þangað til húsbóndi hans kom heim. 39.17 Sagði hún honum þá sömu söguna og mælti: 'Hebreski þrællinn, sem þú hefir til vor haft, kom til mín til þess að dára mig. 39.18 En þegar ég hrópaði og kallaði, lét hann eftir skikkju sína hjá mér og flýði út.' 39.19 Er húsbóndi hans heyrði orð konu sinnar, er hún talaði við hann svo mælandi: 'Þannig hefir þræll þinn hegðað sér við mig,' þá varð hann ákaflega reiður. 39.20 Og húsbóndi Jósefs tók hann og setti hann í myrkvastofu, þar sem bandingjar konungs voru geymdir, og hann sat þar í myrkvastofunni. 39.21 Drottinn var með Jósef og veitti honum mannahylli og lét hann finna náð í augum forstjóra myrkvastofunnar. 39.22 Og forstjóri myrkvastofunnar fékk Jósef á vald alla bandingjana, sem voru í myrkvastofunni. Og hvað eina, sem þeir gjörðu þar, gjörðu þeir að hans fyrirlagi. 39.23 Forstjóri myrkvastofunnar leit ekki eftir neinu, sem var undir hans hendi, því að Drottinn var með honum. Og hvað sem hann gjörði, það lét Drottinn heppnast.
1 Móse 40
40.1 Eftir þetta varð sá atburður, að byrlari konungsins í Egyptalandi og bakarinn brutu á móti herra sínum, Egyptalandskonungi. 40.2 Og Faraó reiddist báðum hirðmönnum sínum, yfirbyrlaranum og yfirbakaranum, 40.3 og lét setja þá í varðhald í húsi lífvarðarforingjans, í myrkvastofuna, þar sem Jósef var í haldi. 40.4 Og lífvarðarforinginn setti Jósef til þess að þjóna þeim, og voru þeir nú um hríð í varðhaldi. 40.5 Þá dreymdi þá báða draum, byrlara og bakara konungsins í Egyptalandi, sem haldnir voru í myrkvastofunni, sinn drauminn hvorn sömu nóttina, og hafði hvor draumurinn sína þýðingu. 40.6 Og er Jósef kom inn til þeirra um morguninn, sá hann að þeir voru óglaðir. 40.7 Spurði hann þá hirðmenn Faraós, sem voru með honum í varðhaldi í húsi húsbónda hans, og mælti: 'Hvers vegna eruð þið svo daprir í bragði í dag?' 40.8 En þeir svöruðu honum: 'Okkur hefir dreymt draum, og hér er enginn, sem geti ráðið hann.' Þá sagði Jósef við þá: 'Er það ekki Guðs að ráða drauma? Segið mér þó.' 40.9 Þá sagði yfirbyrlarinn Jósef draum sinn og mælti við hann: 'Mér þótti í svefninum sem vínviður stæði fyrir framan mig. 40.10 Á vínviðinum voru þrjár greinar, og jafnskjótt sem hann skaut frjóöngum, spruttu blóm hans út og klasar hans báru fullvaxin vínber. 40.11 En ég hélt á bikar Faraós í hendinni og tók vínberin og sprengdi þau í bikar Faraós og rétti svo bikarinn að Faraó.' 40.12 Þá sagði Jósef við hann: 'Ráðning draumsins er þessi: Þrjár vínviðargreinarnar merkja þrjá daga. 40.13 Að þrem dögum liðnum mun Faraó hefja höfuð þitt og setja þig aftur inn í embætti þitt. Munt þú þá rétta Faraó bikarinn, eins og áður var venja, er þú varst byrlari hans. 40.14 En minnstu mín, er þér gengur í vil, og gjör þá miskunn á mér að minnast á mig við Faraó, svo að þú megir frelsa mig úr þessu húsi. 40.15 Því að mér var með leynd stolið úr landi Hebrea, og eigi hefi ég heldur hér neitt það til saka unnið, að ég yrði settur í þessa dýflissu.' 40.16 En er yfirbakarinn sá, að ráðning hans var góð, sagði hann við Jósef: 'Mig dreymdi líka, að ég bæri á höfðinu þrjár karfir með hveitibrauði. 40.17 Og í efstu körfunni var alls konar sælgætisbrauð handa Faraó, og fuglarnir átu það úr körfunni á höfði mér.' 40.18 Þá svaraði Jósef og mælti: 'Ráðning draumsins er þessi: Þrjár karfirnar merkja þrjá daga. 40.19 Að þrem dögum liðnum mun Faraó hefja höfuð þitt af þér og festa þig á gálga, og fuglarnir munu eta af þér hold þitt.' 40.20 Og það bar til á þriðja degi, á afmælisdegi Faraós, að hann hélt öllum þjónum sínum veislu. Hóf hann þá upp höfuð yfirbyrlarans og höfuð yfirbakarans í viðurvist þjóna sinna. 40.21 Setti hann yfirbyrlarann aftur í embætti hans, að hann mætti aftur bera Faraó bikarinn, 40.22 en yfirbakarann lét hann hengja, eins og Jósef hafði ráðið drauminn fyrir þá. 40.23 En eigi minntist yfirbyrlarinn Jósefs, heldur gleymdi honum.
1 Móse 41
41.1 Svo bar við að tveim árum liðnum, að Faraó dreymdi draum. Hann þóttist standa við Níl. 41.2 Og sjá, upp úr ánni komu sjö kýr, fallegar útlits og feitar á hold, og fóru að bíta sefgresið. 41.3 Og sjá, á eftir þeim komu sjö aðrar kýr upp úr ánni, ljótar útlits og magrar á hold, og staðnæmdust hjá hinum kúnum á árbakkanum. 41.4 Og kýrnar, sem ljótar voru útlits og magrar á hold, átu upp hinar sjö kýrnar, sem voru fallegar útlits og feitar á hold. Þá vaknaði Faraó. 41.5 Og hann sofnaði aftur og dreymdi í annað sinn, og sjá, sjö öx uxu á einni stöng, þrýstileg og væn. 41.6 Og sjá, sjö öx, grönn og skrælnuð af austanvindi, spruttu á eftir þeim. 41.7 Og hin grönnu öxin svelgdu í sig þau sjö þrýstilegu og fullu. Þá vaknaði Faraó, og sjá, það var draumur. 41.8 En um morguninn var honum órótt í skapi. Sendi hann því og lét kalla alla spásagnamenn Egyptalands og alla vitringa þess. Og Faraó sagði þeim drauma sína, en enginn gat ráðið þá fyrir Faraó. 41.9 Þá tók yfirbyrlarinn til máls og sagði við Faraó: 'Ég minnist í dag synda minna. 41.10 Faraó reiddist þjónum sínum og setti þá í varðhald í húsi lífvarðarforingjans, mig og yfirbakarann. 41.11 Þá dreymdi okkur sömu nóttina draum, mig og hann, sinn drauminn hvorn okkar, og hafði hvor draumurinn sína þýðingu. 41.12 Þar var með okkur hebreskur sveinn, þjónn hjá lífvarðarforingjanum. Honum sögðum við drauma okkar, og hann réð þá fyrir okkur. Hvorum fyrir sig réð hann eins og draumur hans þýddi. 41.13 Og svo fór sem hann hafði ráðið okkur draumana, því að ég var aftur settur í embætti mitt, en hinn var hengdur.' 41.14 Þá sendi Faraó og lét kalla Jósef, og leiddu þeir hann í skyndi út úr myrkvastofunni. Því næst lét hann skera hár sitt og fór í önnur klæði, gekk síðan inn fyrir Faraó. 41.15 Þá sagði Faraó við Jósef: 'Mig hefir dreymt draum, og enginn getur ráðið hann. En það hefi ég af þér frétt, að þú ráðir hvern draum, sem þú heyrir.' 41.16 Þá svaraði Jósef Faraó og mælti: 'Eigi er það á mínu valdi. Guð mun birta Faraó það, er honum má til heilla verða.' 41.17 Faraó sagði við Jósef: 'Mig dreymdi, að ég stæði á árbakkanum. 41.18 Og sjá, upp úr ánni komu sjö kýr, feitar á hold og fallegar útlits, og fóru að bíta sefgresið. 41.19 Og sjá, á eftir þeim komu upp sjö aðrar kýr, renglulegar og mjög ljótar útlits og magrar á hold. Hefi ég engar séð jafnljótar á öllu Egyptalandi. 41.20 Og hinar mögru og ljótu kýrnar átu sjö fyrri feitu kýrnar. 41.21 En er þær höfðu etið þær, var það ekki á þeim að sjá, að þær hefðu etið þær, heldur voru þær ljótar útlits sem áður. Þá vaknaði ég. 41.22 Og ég sá í draumi mínum, og sjá, sjö öx uxu á einni stöng, full og væn. 41.23 Og sjö öx kornlaus, grönn og skrælnuð af austanvindi, spruttu á eftir þeim. 41.24 Og hin grönnu öxin svelgdu í sig sjö vænu öxin. Ég hefi sagt spásagnamönnunum frá þessu, en enginn getur úr leyst.' 41.25 Þá mælti Jósef við Faraó: 'Draumur Faraós er einn. Það sem Guð ætlar að gjöra, hefir hann boðað Faraó. 41.26 Sjö vænu kýrnar merkja sjö ár, og sjö vænu öxin merkja sjö ár. Þetta er einn og sami draumur. 41.27 Og sjö mögru og ljótu kýrnar, sem á eftir hinum komu, merkja sjö ár, og sjö tómu öxin, sem skrælnuð voru af austanvindi, munu vera sjö hallærisár. 41.28 Það er það, sem ég sagði við Faraó: Það sem Guð ætlar að gjöra, hefir hann sýnt Faraó. 41.29 Sjá, sjö ár munu koma. Munu þá verða miklar nægtir um allt Egyptaland. 41.30 En eftir þau munu koma sjö hallærisár. Munu þá gleymast allar nægtirnar í Egyptalandi og hungrið eyða landið. 41.31 Og eigi mun nægtanna gæta í landinu sakir hallærisins, sem á eftir kemur, því að það mun verða mjög mikið. 41.32 En þar sem Faraó dreymdi tvisvar sinnum hið sama, þá er það fyrir þá sök, að þetta er fastráðið af Guði, og Guð mun skjótlega framkvæma það. 41.33 Fyrir því velji nú Faraó til hygginn og vitran mann og setji hann yfir Egyptaland. 41.34 Faraó gjöri þetta og skipi umsjónarmenn yfir landið og taki fimmtung af afrakstri Egyptalands á sjö nægtaárunum. 41.35 Og þeir skulu safna öllum vistum frá góðu árunum, sem fara í hönd, og draga saman kornbirgðir í borgirnar undir umráð Faraós og geyma. 41.36 Og vistirnar skulu vera forði fyrir landið á sjö hallærisárunum, sem koma munu yfir Egyptaland, að landið farist eigi af hungrinu.' 41.37 Þetta líkaði Faraó vel og öllum þjónum hans. 41.38 Og Faraó sagði við þjóna sína: 'Munum vér finna slíkan mann sem þennan, er Guðs andi býr í?' 41.39 Og Faraó sagði við Jósef: 'Með því að Guð hefir birt þér allt þetta, þá er enginn svo hygginn og vitur sem þú. 41.40 Þig set ég yfir hús mitt, og þínum boðum skal öll mín þjóð hlýða. Að hásætinu einu skal ég þér æðri vera.' 41.41 Faraó sagði við Jósef: 'Sjá, ég set þig yfir allt Egyptaland.' 41.42 Og Faraó tók innsiglishring sinn af hendi sér og dró á hönd Jósefs og lét færa hann í dýrindis línklæði og lét gullmen um háls honum. 41.43 Og hann lét aka honum í öðrum vagni sínum, og menn hrópuðu fyrir honum: 'Lútið honum!' _ og hann setti hann yfir allt Egyptaland. 41.44 Faraó sagði við Jósef: 'Ég er Faraó, en án þíns vilja skal enginn hreyfa hönd eða fót í öllu Egyptalandi.' 41.45 Og Faraó kallaði Jósef Safenat-panea og gaf honum fyrir konu Asenat, dóttur Pótífera, prests í Ón. Og Jósef ferðaðist um Egyptaland. 41.46 Jósef var þrítugur að aldri, er hann stóð frammi fyrir Faraó, Egyptalandskonungi. Því næst fór Jósef burt frá augliti Faraós og ferðaðist um allt Egyptaland. 41.47 Afrakstur landsins var afar mikill sjö nægtaárin. 41.48 Þá safnaði hann saman öllum vistum þeirra sjö ára, er nægtir voru í Egyptalandi, og safnaði vistum í borgirnar. Í sérhverja borg safnaði hann vistunum af þeim ökrum, sem umhverfis hana voru. 41.49 Og Jósef hrúgaði saman korni sem sandi á sjávarströndu, ákaflega miklu, þar til hann hætti að telja, því að tölu varð eigi á komið. 41.50 Jósef fæddust tveir synir áður en fyrsta hallærisárið kom. Þá sonu fæddi honum Asenat, dóttir Pótífera, prests í Ón. 41.51 Og Jósef nefndi hinn frumgetna Manasse, 'því að Guð hefir,' sagði hann, 'látið mig gleyma öllum þrautum mínum og öllu húsi föður míns.' 41.52 En hinn nefndi hann Efraím, 'því að Guð hefir,' sagði hann, 'gjört mig frjósaman í landi eymdar minnar.' 41.53 Og sjö nægtaárin, sem voru í Egyptalandi, liðu á enda, 41.54 og sjö hallærisárin gengu í garð, eins og Jósef hafði sagt. Var þá hallæri í öllum löndum, en í öllu Egyptalandi var brauð. 41.55 En er hungur gekk yfir allt Egyptaland, heimtaði lýðurinn brauð af Faraó. Þá sagði Faraó við alla Egypta: 'Farið til Jósefs, gjörið það, sem hann segir yður.' 41.56 Og hungrið gekk yfir allan heiminn, og Jósef opnaði öll forðabúrin og seldi Egyptum korn, og hungrið svarf að í Egyptalandi. 41.57 Komu menn þá úr öllum löndum til Egyptalands til þess að kaupa korn hjá Jósef, því að hungrið svarf að í öllum löndum.
1 Móse 42
42.1 Er Jakob frétti, að korn var til í Egyptalandi, þá sagði hann við sonu sína: 'Hví horfið þér hver á annan?' 42.2 Og hann mælti: 'Ég hefi sannfrétt, að korn sé til í Egyptalandi. Farið þangað og kaupið oss þar korn, að vér megum lífi halda og deyjum ekki.' 42.3 Þá lögðu tíu bræður Jósefs af stað til að kaupa korn í Egyptalandi. 42.4 En Benjamín, bróður Jósefs, lét Jakob ekki fara með bræðrum hans, því að hann var hræddur um, að honum kynni að vilja eitthvert slys til. 42.5 Og synir Ísraels komu að kaupa korn meðal annarra, sem komu, því að hungur var í Kanaanlandi. 42.6 En Jósef var stjórnari landsins, hann var sá, sem seldi öllum landslýðnum korn. Og bræður Jósefs komu og lutu honum og hneigðu sig til jarðar. 42.7 Og er Jósef sá bræður sína, þekkti hann þá, en vék ókunnuglega að þeim og talaði harðlega til þeirra og mælti við þá: 'Hvaðan komið þér?' Þeir svöruðu: 'Frá Kanaanlandi, til að kaupa vistir.' 42.8 Jósef þekkti bræður sína, en þeir þekktu hann ekki. 42.9 Og Jósef minntist draumanna, sem hann hafði dreymt um þá, og sagði við þá: 'Þér eruð njósnarmenn, þér eruð komnir til þess að sjá, hvar landið er varnarlaust fyrir.' 42.10 En þeir svöruðu honum: 'Eigi er svo, herra minn, heldur eru þjónar þínir komnir til að kaupa vistir. 42.11 Vér erum allir synir sama manns, vér erum hrekklausir menn, þjónar þínir eru ekki njósnarmenn.' 42.12 En hann sagði við þá: 'Eigi er svo, heldur eruð þér komnir til þess að sjá, hvar landið er varnarlaust fyrir.' 42.13 Þeir svöruðu: 'Vér þjónar þínir erum tólf bræður, synir sama manns í Kanaanlandi. Og sjá, hinn yngsti er nú hjá föður vorum, og einn er eigi framar á lífi.' 42.14 Og Jósef sagði við þá: 'Svo er sem ég sagði við yður: Þér eruð njósnarmenn. 42.15 Með þessu skuluð þér reyndir verða: Svo sannarlega sem Faraó lifir, skuluð þér ekki héðan fara, nema yngsti bróðir yðar komi hingað. 42.16 Sendið einn yðar til að sækja bróður yðar, en þér hinir skuluð vera í varðhaldi, svo að orð yðar verði reynd, hvort þér talið satt. En sé eigi svo, þá eruð þér njósnarmenn, svo sannarlega sem Faraó lifir.' 42.17 Síðan lét hann hafa þá alla í haldi í þrjá daga. 42.18 En á þriðja degi sagði Jósef við þá: 'Þetta skuluð þér gjöra, að þér megið lífi halda, því að ég óttast Guð. 42.19 Ef þér eruð hrekklausir, þá verði einn af yður bræðrum eftir í böndum í dýflissunni, þar sem þér voruð, en farið þér hinir og flytjið heim korn til bjargar þurfandi heimilum yðar. 42.20 Komið svo til mín með yngsta bróður yðar, þá munu orð yðar reynast sönn og þér eigi lífi týna.' Og þeir gjörðu svo. 42.21 Þá sögðu þeir hver við annan: 'Sannlega erum vér í sök fallnir fyrir bróður vorn, því að vér sáum sálarangist hans, þegar hann bað oss vægðar, en vér daufheyrðumst við. Þess vegna erum vér komnir í þessar nauðir.' 42.22 Rúben svaraði þeim og mælti: 'Sagði ég ekki við yður: ,Syndgist ekki á sveininum,` en þér daufheyrðust við. Og sjá, nú er einnig blóðs hans krafist.' 42.23 En þeir vissu ekki, að Jósef skildi þá, því að þeir höfðu túlk. 42.24 Þá vék Jósef frá þeim og grét. Síðan sneri hann til þeirra aftur og talaði við þá og tók Símeon úr flokki þeirra og batt hann fyrir augum þeirra. 42.25 Síðan bauð hann að fylla sekki þeirra korni og láta silfurpeninga hvers eins þeirra aftur í sekk hans og fá þeim nesti til ferðarinnar. Og var svo gjört við þá. 42.26 Þá létu þeir korn sitt upp á asna sína og fóru af stað. 42.27 En er einn af þeim opnaði sekk sinn til að gefa asna sínum fóður á gistingarstaðnum, sá hann silfurpeninga sína, og sjá, þeir lágu ofan á í sekk hans. 42.28 Og hann sagði við bræður sína: 'Silfurpeningar mínir eru komnir aftur, sjá, þeir liggja hér í sekk mínum.' Þá féllst þeim hugur, og skjálfandi litu þeir hver á annan og sögðu: 'Hví hefir Guð gjört oss þetta?' 42.29 Þeir komu til Jakobs föður síns í Kanaanlandi og sögðu honum frá öllu, sem fyrir þá hafði komið, með þessum orðum: 42.30 'Maðurinn, landsherrann, talaði harðlega til vor og fór með oss sem værum vér komnir til landsins í njósnarerindum. 42.31 En vér sögðum við hann: ,Vér erum hrekklausir, vér erum ekki njósnarmenn. 42.32 Vér erum tólf bræður, synir föður vors. Einn er ekki framar á lífi, og sá yngsti er nú hjá föður vorum í Kanaanlandi.` 42.33 Þá sagði maðurinn, landsherrann, við oss: ,Af þessu skal ég marka, hvort þér eruð hrekklausir: Látið einn af yður bræðrum verða eftir hjá mér, og takið korn til bjargar þurfandi heimilum yðar og farið leiðar yðar. 42.34 En komið með yngsta bróður yðar til mín, svo að ég sjái, að þér eruð ekki njósnarmenn, heldur að þér eruð hrekklausir. Þá skal ég skila yður bróður yðar aftur og þér megið fara allra yðar ferða um landið.'` 42.35 En þeir helltu úr sekkjum sínum, sjá, þá var sjóður hvers eins í sekk hans. Og er þeir og faðir þeirra sáu sjóði þeirra, urðu þeir óttaslegnir. 42.36 Jakob faðir þeirra sagði við þá: 'Þér gjörið mig barnlausan. Jósef er farinn, Símeon er farinn, og nú ætlið þér að taka Benjamín. Allt kemur þetta yfir mig.' 42.37 Þá sagði Rúben við föður sinn: 'Þú mátt deyða báða sonu mína, ef ég færi þér hann ekki aftur. Trúðu mér fyrir honum, og ég skal aftur koma með hann til þín.' 42.38 En Jakob sagði: 'Ekki skal sonur minn fara með yður, því að bróðir hans er dáinn og hann er einn eftir, og verði hann fyrir slysi á þeirri leið, sem þér farið, þá leiðið þér hærur mínar með harmi niður til heljar.'
1 Móse 43
43.1 Hallærið var mikið í landinu. 43.2 Og er þeir höfðu etið upp kornið, sem þeir höfðu sótt til Egyptalands, sagði faðir þeirra við þá: 'Farið aftur og kaupið oss nokkuð af vistum.' 43.3 Þá svaraði Júda honum og mælti: 'Maðurinn lagði ríkt á við oss og sagði: ,Þér skuluð ekki sjá auglit mitt, nema bróðir yðar sé með yður.` 43.4 Ef þú sendir bróður vorn með oss, þá skulum vér fara og kaupa þér vistir. 43.5 En ef þú vilt ekki senda hann með, þá förum vér hvergi, því að maðurinn sagði við oss: ,Þér skuluð ekki sjá auglit mitt, nema bróðir yðar sé með yður.'` 43.6 Ísrael mælti: 'Hví hafið þér gjört mér svo illa til, að segja manninum, að þér ættuð einn bróður enn?' 43.7 Þeir svöruðu: 'Maðurinn spurði ítarlega um oss og ætt vora og sagði: ,Er faðir yðar enn á lífi? Eigið þér einn bróður enn?` Og vér sögðum honum eins og var. Gátum vér vitað, að hann mundi segja: 43.8 ,Komið hingað með bróður yðar`?' Júda sagði við Ísrael föður sinn: 'Láttu sveininn fara með mér. Þá skulum vér taka oss upp og fara af stað, svo að vér megum lífi halda og ekki deyja, bæði vér og þú og börn vor. 43.9 Ég skal ábyrgjast hann, af minni hendi skalt þú krefjast hans. Komi ég ekki með hann aftur til þín og leiði ég hann ekki fram fyrir þig, skal ég vera sekur við þig alla ævi. 43.10 Því að hefðum vér ekki tafið, þá værum vér nú komnir aftur í annað sinn.' 43.11 Þá sagði Ísrael faðir þeirra við þá: 'Ef svo verður að vera, þá gjörið þetta: Takið af gæðum landsins í sekki yðar og færið manninum að gjöf lítið eitt af balsami og lítið eitt af hunangi, reykelsi og myrru, pistasíuhnetur og möndlur. 43.12 Og takið með yður tvöfalt gjald og hafið aftur með yður silfurpeningana, sem komu aftur ofan á í sekkjum yðar. Vera má, að það hafi verið af vangá. 43.13 Og takið bróður yðar. Leggið því næst upp og farið aftur til mannsins. 43.14 Og Almáttugur Guð gefi, að maðurinn sýni yður nú miskunnsemi og láti lausan við yður hinn bróður yðar og Benjamín. Ég hefi hvort sem er þegar orðið fyrir sonamissi.' 43.15 Og mennirnir tóku þessa gjöf; líka tóku þeir tvöfalt gjald með sér og Benjamín. Og þeir lögðu af stað og fóru til Egyptalands og gengu fyrir Jósef. 43.16 Er Jósef sá Benjamín með þeim, sagði hann við ráðsmann sinn: 'Far þú með þessa menn inn í húsið og slátra þú og matreið, því að þessir menn skulu eta með mér miðdegisverð í dag.' 43.17 Og maðurinn gjörði sem Jósef bauð og fór með mennina inn í hús Jósefs. 43.18 Mennirnir urðu hræddir, af því að þeir voru leiddir inn í hús Jósefs, og sögðu: 'Sakir silfurpeninganna, sem aftur komu í sekki vora hið fyrra sinnið, erum vér hingað leiddir, svo að hann geti ráðist að oss og vaðið upp á oss og gjört oss að þrælum og tekið asna vora.' 43.19 Þá gengu þeir til ráðsmanns Jósefs og töluðu við hann úti fyrir dyrum hússins 43.20 og sögðu: 'Æ, herra minn, vér komum hingað í fyrra skiptið að kaupa vistir. 43.21 En svo bar til, er vér komum í áfangastað og opnuðum sekki vora, sjá, þá voru silfurpeningar hvers eins ofan á í sekk hans, silfurpeningar vorir með fullri vigt, og vér erum nú komnir með þá aftur. 43.22 Og annað silfur höfum vér með oss til að kaupa vistir. Eigi vitum vér, hver látið hefir peningana í sekki vora.' 43.23 Hann svaraði: 'Verið ókvíðnir, óttist ekki! Yðar Guð og Guð föður yðar hefir gefið yður fjársjóð í sekki yðar. Silfur yðar er komið til mín.' Síðan leiddi hann Símeon út til þeirra. 43.24 Maðurinn fór með þá inn í hús Jósefs og gaf þeim vatn, að þeir mættu þvo fætur sína, og ösnum þeirra gaf hann fóður. 43.25 Og tóku þeir nú gjöfina fram, að hún væri til taks, er Jósef kæmi um miðdegið, því að þeir höfðu heyrt, að þeir ættu að matast þar. 43.26 Er Jósef kom heim, færðu þeir honum gjöfina, sem þeir höfðu meðferðis, inn í húsið og hneigðu sig til jarðar fyrir honum. 43.27 En hann spurði, hvernig þeim liði, og mælti: 'Líður yðar aldraða föður vel, sem þér gátuð um? Er hann enn á lífi?' 43.28 Þeir svöruðu: 'Þjóni þínum, föður vorum, líður vel. Hann er enn á lífi.' Og þeir hneigðu sig og lutu honum. 43.29 Jósef hóf upp augu sín og sá Benjamín bróður sinn, son móður sinnar, og mælti: 'Er þetta yngsti bróðir yðar, sem þér gátuð um við mig?' Og hann sagði: 'Guð sé þér náðugur, son minn!' 43.30 Og Jósef hraðaði sér burt, því að hjarta hans brann af ást til bróður hans, og hann vék burt til þess að gráta og fór inn í innra herbergið og grét þar. 43.31 Síðan þvoði hann andlit sitt og gekk út, og hann lét ekki á sér sjá og mælti: 'Berið á borð!' 43.32 Og menn báru á borð fyrir hann sér í lagi og fyrir þá sér í lagi og sér í lagi fyrir þá Egypta, sem með honum mötuðust, því að ekki mega Egyptar eta með Hebreum, fyrir því að Egyptar hafa andstyggð á því. 43.33 Og þeim var skipað til sætis gegnt honum, hinum frumgetna eftir frumburðarrétti hans og hinum yngsta eftir æsku hans, og mennirnir litu með undrun hver á annan. 43.34 Og hann lét bera skammta frá sér til þeirra, en skammtur Benjamíns var fimm sinnum stærri en skammtur nokkurs hinna. Og þeir drukku með honum og urðu hreifir.
1 Móse 44
44.1 Jósef bauð ráðsmanni sínum og mælti: 'Fyll þú sekki mannanna vistum, svo mikið sem þeir geta með sér flutt, og láttu silfurpeninga hvers eins ofan á í sekk hans. 44.2 Og bikar minn, silfurbikarinn, skalt þú láta ofan á í sekk hins yngsta og silfurpeningana fyrir korn hans.' Og hann gjörði eins og Jósef bauð honum. 44.3 Er bjart var orðið næsta morgun, voru mennirnir látnir fara, þeir og asnar þeirra. 44.4 Og er þeir voru komnir út úr borginni, en skammt burt farnir, sagði Jósef við ráðsmann sinn: 'Bregð þú við og veit mönnunum eftirför, og þegar þú nær þeim, skalt þú segja við þá: ,Hví hafið þér launað gott með illu? Hví hafið þér stolið silfurbikar mínum? 44.5 Er það ekki sá, sem herra minn drekkur af og hann spáir í? Þar hafið þér illa gjört.'` 44.6 Og er hann náði þeim, talaði hann þessi orð til þeirra. 44.7 En þeir sögðu við hann: 'Hví talar herra minn þannig? Fjarri sé það þjónum þínum að gjöra slíkt. 44.8 Sjá, það silfur, sem vér fundum ofan á í sekkjum vorum, færðum vér þér aftur frá Kanaanlandi, og hvernig skyldum vér þá stela silfri eða gulli úr húsi herra þíns? 44.9 Hver sá af þjónum þínum, sem bikarinn finnst hjá, skal deyja, og þar að auki skulum vér hinir vera þrælar herra míns.' 44.10 Hann svaraði: 'Sé þá svo sem þér segið. Sá sem hann finnst hjá, veri þræll minn, en þér skuluð vera lausir.' 44.11 Þá flýttu þeir sér að taka ofan hver sinn sekk, og þeir opnuðu hver sinn sekk. 44.12 Og hann leitaði, byrjaði á hinum elsta og endaði á hinum yngsta, og fannst þá bikarinn í sekk Benjamíns. 44.13 Þá rifu þeir klæði sín, létu hver upp á sinn asna og fóru aftur til borgarinnar. 44.14 Júda og bræður hans gengu inn í hús Jósefs, en hann var þar enn þá, og þeir féllu fram fyrir honum til jarðar. 44.15 Þá sagði Jósef við þá: 'Hvílík óhæfa er þetta, sem þér hafið framið? Vissuð þér ekki, að annar eins maður og ég kann að spá?' 44.16 Og Júda mælti: 'Hvað skulum vér segja við herra minn, hvað skulum vér tala og hvernig skulum vér réttlæta oss? Guð hefir fundið misgjörð þjóna þinna. Sjá, vér erum þrælar herra míns, bæði vér og sá, sem bikarinn fannst hjá.' 44.17 Og hann svaraði: 'Fjarri sé mér að gjöra slíkt. Sá maður, sem bikarinn fannst hjá, hann sé þræll minn, en farið þér í friði til föður yðar.' 44.18 Þá gekk Júda nær honum og mælti: 'Æ, herra minn, leyf þjóni þínum að tala nokkur orð í áheyrn herra míns, og reiði þín upptendrist ekki gegn þjóni þínum, því að þú ert sem Faraó. 44.19 Herra minn spurði þjóna sína og mælti: ,Eigið þér föður eða bróður?` 44.20 Og vér sögðum við herra minn: ,Vér eigum aldraðan föður og ungan bróður, sem hann gat í elli sinni. Og bróðir hans er dáinn, og hann er einn á lífi eftir móður sína, og faðir hans elskar hann.` 44.21 Og þú sagðir við þjóna þína: ,Komið með hann hingað til mín, að ég fái litið hann með augum mínum.` 44.22 Og vér sögðum við herra minn: ,Sveinninn má ekki yfirgefa föður sinn, því að yfirgæfi hann föður sinn, mundi það draga hann til dauða.` 44.23 Þá sagðir þú við þjóna þína: ,Ef yngsti bróðir yðar kemur ekki hingað með yður, þá skuluð þér ekki framar fá að sjá auglit mitt.` 44.24 Og þegar vér komum heim til þjóns þíns, föður míns, þá sögðum vér honum ummæli herra míns. 44.25 Og faðir vor sagði: ,Farið aftur og kaupið oss lítið eitt af vistum.` 44.26 Þá svöruðum vér: ,Vér getum ekki farið þangað. Megi yngsti bróðir vor fara með oss, þá skulum vér fara þangað, því að vér fáum ekki að sjá auglit mannsins, ef yngsti bróðir vor er ekki með oss.` 44.27 Og þjónn þinn, faðir minn, sagði við oss: ,Þér vitið, að kona mín ól mér tvo sonu. 44.28 Annar þeirra fór að heiman frá mér, og ég sagði: Vissulega er hann sundur rifinn. _ Og hefi ég ekki séð hann síðan. 44.29 Og ef þér takið nú þennan líka burt frá mér og verði hann fyrir slysi, þá munuð þér leiða hærur mínar með hörmung til heljar.` 44.30 Og komi ég nú til þjóns þíns, föður míns, og sé sveinninn ekki með oss, _ því að hann ann honum sem lífi sínu, _ 44.31 þá mun svo fara, að sjái hann, að sveinninn er eigi með oss, þá deyr hann, og þjónar þínir munu leiða hærur þjóns þíns, föður vors, með harmi til heljar. 44.32 Því að þjónn þinn tók ábyrgð á sveininum við föður minn og sagði: ,Ef ég kem ekki með hann aftur, skal ég vera sekur við föður minn alla ævi.` 44.33 Og lát þú því þjón þinn verða hér eftir sem þræl herra míns í stað sveinsins, en leyf sveininum að fara heim með bræðrum sínum. 44.34 Því að hvernig gæti ég farið heim til föður míns, sé sveinninn ekki með mér? Ég yrði þá að sjá þá hörmung, sem koma mundi yfir föður minn.'
1 Móse 45
45.1 Jósef gat þá ekki lengur haft stjórn á sér í augsýn allra, sem viðstaddir voru, og kallaði: 'Látið alla ganga út frá mér!' Og enginn maður var inni hjá honum, þegar hann sagði bræðrum sínum hver hann væri. 45.2 Og hann grét hástöfum, svo að Egyptar heyrðu það, og hirðmenn Faraós heyrðu það. 45.3 Jósef mælti við bræður sína: 'Ég er Jósef. Er faðir minn enn á lífi?' En bræður hans gátu ekki svarað honum, svo hræddir urðu þeir við hann. 45.4 Og Jósef sagði við bræður sína: 'Komið hingað til mín!' Og þeir gengu til hans. Hann mælti þá: 'Ég er Jósef bróðir yðar, sem þér selduð til Egyptalands. 45.5 En látið það nú ekki fá yður hryggðar, og setjið það ekki fyrir yður, að þér hafið selt mig hingað, því að til lífs viðurhalds hefir Guð sent mig hingað á undan yður. 45.6 Því að nú hefir hallærið verið í landinu í tvö ár, og enn munu líða svo fimm ár, að hvorki verði plægt né uppskorið. 45.7 En Guð hefir sent mig hingað á undan yður til þess að halda við kyni yðar á jörðinni og sjá lífi yðar borgið, til mikils hjálpræðis. 45.8 Það er því ekki þér, sem hafið sent mig hingað, heldur Guð. Og hann hefir látið mig verða Faraó sem föður og herra alls húss hans og höfðingja yfir öllu Egyptalandi. 45.9 Hraðið yður nú og farið heim til föður míns og segið við hann: ,Svo segir Jósef sonur þinn: Guð hefir gjört mig að herra alls Egyptalands; kom þú til mín og tef eigi. 45.10 Og þú skalt búa í Gósenlandi og vera í nánd við mig, þú og synir þínir og sonasynir þínir og sauðfé þitt og nautgripir þínir og allt, sem þitt er. 45.11 En ég skal sjá þér þar fyrir viðurværi, _ því að enn verður hallæri í fimm ár _, svo að þú komist ekki í örbirgð, þú og þitt hús og allt, sem þitt er.` 45.12 Og nú sjá augu yðar, og augu Benjamíns bróður míns sjá, að ég með eigin munni tala við yður. 45.13 Og segið föður mínum frá allri vegsemd minni á Egyptalandi og frá öllu, sem þér hafið séð, og flýtið yður nú og komið hingað með föður minn.' 45.14 Og hann féll um háls Benjamín bróður sínum og grét, og Benjamín grét um háls honum. 45.15 Og hann minntist við alla bræður sína, faðmaði þá og grét. Eftir það töluðu bræður hans við hann. 45.16 Þau tíðindi bárust til hirðar Faraós: 'Bræður Jósefs eru komnir!' Og lét Faraó og þjónar hans vel yfir því. 45.17 Og Faraó sagði við Jósef: 'Seg þú við bræður þína: ,Þetta skuluð þér gjöra: Klyfjið eyki yðar og haldið af stað og farið til Kanaanlands. 45.18 Takið föður yðar og fjölskyldur yðar og komið til mín, og skal ég gefa yður bestu afurðir Egyptalands, og þér skuluð eta feiti landsins.` 45.19 Og bjóð þú þeim: ,Gjörið svo: Takið yður vagna í Egyptalandi handa börnum yðar og konum yðar og flytjið föður yðar og komið. 45.20 Og hirðið eigi um búshluti yðar, því að hið besta í öllu Egyptalandi skal vera yðar.'` 45.21 Og synir Ísraels gjörðu svo, og Jósef fékk þeim vagna eftir boði Faraós, og hann gaf þeim nesti til ferðarinnar. 45.22 Hann gaf og sérhverjum þeirra alklæðnað, en Benjamín gaf hann þrjú hundruð sikla silfurs og fimm alklæðnaði. 45.23 Og föður sínum sendi hann sömuleiðis tíu asna klyfjaða hinum bestu afurðum Egyptalands og tíu ösnur klyfjaðar korni og brauði og vistum handa föður hans til ferðarinnar. 45.24 Lét hann síðan bræður sína fara, og þeir héldu af stað. Og hann sagði við þá: 'Deilið ekki á leiðinni.' 45.25 Og þeir fóru frá Egyptalandi og komu til Kanaanlands, heim til Jakobs föður síns. 45.26 Og þeir færðu honum tíðindin og sögðu: 'Jósef er enn á lífi og er höfðingi yfir öllu Egyptalandi.' En hjarta hans komst ekki við, því að hann trúði þeim ekki. 45.27 En er þeir báru honum öll orð Jósefs, sem hann hafði við þá talað, og hann sá vagnana, sem Jósef hafði sent til að flytja hann á, þá lifnaði yfir Jakob föður þeirra. 45.28 Og Ísrael sagði: 'Mér er það nóg, að Jósef sonur minn er enn á lífi. Ég vil fara og sjá hann áður en ég dey.'
1 Móse 46
46.1 Ísrael lagði af stað með allt sitt, og hann kom til Beerseba og færði þar Guði Ísaks föður síns sláturfórn. 46.2 Og Guð talaði við Ísrael í sýn um nóttina og sagði: 'Jakob, Jakob!' Og hann svaraði: 'Hér er ég.' 46.3 Og hann sagði: 'Ég er Guð, Guð föður þíns. Óttast þú ekki að fara til Egyptalands, því að þar mun ég gjöra þig að mikilli þjóð. 46.4 Ég mun fara með þér til Egyptalands, og ég mun líka flytja þig þaðan aftur, og Jósef skal veita þér nábjargirnar.' 46.5 Þá tók Jakob sig upp frá Beerseba, og Ísraels synir fluttu Jakob föður sinn og börn sín og konur sínar á vögnunum, sem Faraó hafði sent til að flytja hann á. 46.6 Og þeir tóku fénað sinn og fjárhluti, sem þeir höfðu aflað sér í Kanaanlandi, og komu til Egyptalands, Jakob og allir niðjar hans með honum. 46.7 Sonu sína og sonasonu, dætur sínar og sonadætur og alla niðja sína flutti hann með sér til Egyptalands. 46.8 Þessi eru nöfn Ísraels sona, sem komu til Egyptalands: Jakob og synir hans: Rúben, frumgetinn son Jakobs. 46.9 Synir Rúbens: Hanok, Pallú, Hesron og Karmí. 46.10 Synir Símeons: Jemúel, Jamín, Óhad, Jakín, Sóar og Sál, sonur kanversku konunnar. 46.11 Synir Leví: Gerson, Kahat og Merarí. 46.12 Synir Júda: Ger, Ónan, Sela, Peres og Sera. En Ger og Ónan dóu í Kanaanlandi. Synir Peres voru: Hesron og Hamúl. 46.13 Synir Íssakars: Tóla, Púva, Job og Símron. 46.14 Synir Sebúlons: Sered, Elon og Jahleel. 46.15 Þessir voru synir Leu, sem hún fæddi Jakob í Mesópótamíu, ásamt Dínu dóttur hans. Allir synir hans og dætur voru að tölu þrjátíu og þrjú. 46.16 Synir Gaðs: Sífjón, Haggí, Súní, Esbon, Erí, Aródí og Arelí. 46.17 Synir Assers: Jimna, Jísva, Jísví, Bría og Sera, systir þeirra. Synir Bría voru: Heber og Malkíel. 46.18 Þessir voru synir Silpu, sem Laban gaf Leu dóttur sinni. Hún ól Jakob þessa, sextán sálir. 46.19 Synir Rakelar, konu Jakobs: Jósef og Benjamín. 46.20 En Jósef fæddust synir í Egyptalandi: Manasse og Efraím, sem Asenat, dóttir Pótífera prests í Ón, ól honum. 46.21 Synir Benjamíns: Bela, Beker, Asbel, Gera, Naaman, Ehí, Rós, Múppím, Húppím og Ard. 46.22 Þetta voru synir Rakelar, sem hún ól Jakob, alls fjórtán sálir. 46.23 Sonur Dans: Húsín. 46.24 Synir Naftalí: Jahseel, Gúní, Jeser og Sillem. 46.25 Þessir voru synir Bílu, sem Laban gaf Rakel dóttur sinni, og þessa ól hún Jakob, sjö sálir alls. 46.26 Allar þær sálir, sem komu með Jakob til Egyptalands og af honum voru komnar, voru sextíu og sex að tölu, auk sonakvenna Jakobs. 46.27 Og synir Jósefs, sem honum höfðu fæðst í Egyptalandi, voru tveir að tölu. Allar þær sálir af ætt Jakobs, sem komu til Egyptalands, voru sjötíu að tölu. 46.28 Jakob sendi Júda á undan sér til Jósefs, að hann vísaði sér veginn til Gósen. Og þeir komu til Gósenlands. 46.29 Þá lét Jósef beita fyrir vagn sinn og fór á móti Ísrael föður sínum til Gósen, og er fundum þeirra bar saman, féll hann um háls honum og grét lengi um háls honum. 46.30 Og Ísrael sagði við Jósef: 'Nú vil ég glaður deyja, fyrst ég hefi séð auglit þitt, að þú ert enn á lífi.' 46.31 Og Jósef sagði við bræður sína og við frændlið föður síns: 'Nú vil ég fara og láta Faraó vita og segja við hann: ,Bræður mínir og frændlið föður míns, sem var í Kanaanlandi, er til mín komið. 46.32 Og mennirnir eru hjarðmenn, því að þeir hafa stundað kvikfjárrækt, og sauði sína og nautpening sinn og allt, sem þeir eiga, hafa þeir haft hingað með sér.` 46.33 Þegar nú Faraó lætur kalla yður og spyr: ,Hver er atvinna yðar?` 46.34 þá skuluð þér svara: ,Kvikfjárrækt hafa þjónar þínir stundað frá barnæsku allt til þessa dags, bæði vér og feður vorir,` _ til þess að þér fáið að búa í Gósenlandi, því að Egyptar hafa andstyggð á öllum hjarðmönnum.'
1 Móse 47
47.1 Því næst gekk Jósef fyrir Faraó, sagði honum frá og mælti: 'Faðir minn og bræður mínir eru komnir úr Kanaanlandi með sauði sína og nautgripi og allt, sem þeir eiga, og eru nú í Gósenlandi.' 47.2 En hann hafði tekið fimm af bræðrum sínum með sér og leiddi þá fyrir Faraó. 47.3 Þá mælti Faraó við bræður Jósefs: 'Hver er atvinna yðar?' Og þeir svöruðu Faraó: 'Þjónar þínir eru hjarðmenn, bæði vér og feður vorir.' 47.4 Og þeir sögðu við Faraó: 'Vér erum komnir til að staðnæmast um hríð í landinu, því að enginn hagi er fyrir sauði þjóna þinna, af því að hallærið er mikið í Kanaanlandi. Leyf því þjónum þínum að búa í Gósenlandi.' 47.5 Faraó sagði við Jósef: 'Faðir þinn og bræður þínir eru komnir til þín. 47.6 Egyptaland er þér heimilt, lát þú föður þinn og bræður þína búa þar sem landkostir eru bestir. Búi þeir í Gósenlandi, og ef þú þekkir nokkra duglega menn meðal þeirra, þá fel þeim yfirumsjón hjarða minna.' 47.7 Þá fór Jósef inn með Jakob föður sinn og leiddi hann fyrir Faraó. Og Jakob heilsaði Faraó með blessunaróskum. 47.8 Og Faraó sagði við Jakob: 'Hversu gamall ert þú?' 47.9 Og Jakob svaraði Faraó: 'Vegferðartími minn er hundrað og þrjátíu ár. Fáir og illir hafa dagar lífs míns verið og ná ekki þeirri áratölu, er feður mínir náðu á vegferð sinni.' 47.10 Síðan kvaddi Jakob Faraó með blessunaróskum og gekk út frá honum. 47.11 Og Jósef fékk föður sínum og bræðrum bústaði og gaf þeim fasteign í Egyptalandi, þar sem bestir voru landkostir, í Ramseslandi, eins og Faraó hafði boðið. 47.12 Og Jósef sá föður sínum og bræðrum sínum og öllu skylduliði föður síns fyrir viðurværi eftir tölu barnanna. 47.13 Algjör skortur var á neyslukorni um allt landið, því að hallærið var mjög mikið, og Egyptaland og Kanaanland voru að þrotum komin af hungrinu. 47.14 Og Jósef dró saman allt það silfur, sem til var í Egyptalandi og Kanaanlandi, fyrir kornið, sem þeir keyptu, og Jósef skilaði silfrinu í hús Faraós. 47.15 Og er silfur þraut í Egyptalandi og í Kanaanlandi, þá komu allir Egyptar til Jósefs og sögðu: 'Lát oss fá brauð! _ hví skyldum vér deyja fyrir augum þér? _ því að silfur þrýtur.' 47.16 Og Jósef mælti: 'Komið hingað með fénað yðar, ég skal gefa yður korn til neyslu fyrir fénað yðar, ef silfur þrýtur.' 47.17 Þá fóru þeir með fénað sinn til Jósefs, og hann lét þá fá neyslukorn fyrir hestana, sauðféð, nautpeninginn og asnana, og hann birgði þá upp með korni það árið fyrir allan fénað þeirra. 47.18 Og er það árið var liðið, komu þeir til hans næsta ár og sögðu við hann: 'Eigi viljum vér leyna herra vorn því, að silfrið er allt þrotið og kvikfénaður vor er orðinn eign herra vors. Nú er ekki annað eftir handa herra vorum en líkamir vorir og ekrur vorar. 47.19 Hví skyldum vér farast fyrir augsýn þinni, bæði vér og ekrur vorar? Kaup þú oss og ekrur vorar fyrir brauð, þá viljum vér með ekrum vorum vera þrælar Faraós, og gef þú oss sáðkorn, að vér megum lífi halda og ekki deyja og ekrurnar leggist ekki í auðn.' 47.20 Þá keypti Jósef allar ekrur Egypta handa Faraó, því að Egyptar seldu hver sinn akur, þar eð hungrið svarf að þeim. Og þannig eignaðist Faraó landið. 47.21 Og landslýðinn gjörði hann að þrælum frá einum enda Egyptalands til annars. 47.22 Ekrur prestanna einar keypti hann ekki, því að prestarnir höfðu ákveðnar tekjur frá Faraó og þeir lifðu af hinum ákveðnu tekjum sínum, sem Faraó gaf þeim. Fyrir því seldu þeir ekki ekrur sínar. 47.23 Þá sagði Jósef við lýðinn: 'Sjá, nú hefi ég keypt yður og ekrur yðar Faraó til handa. Hér er sáðkorn handa yður, og sáið nú ekrurnar. 47.24 En af ávextinum skuluð þér skila Faraó fimmta hluta, en hina fjóra fimmtuhlutana skuluð þér hafa til þess að sá akrana, og yður til viðurlífis og heimafólki yðar og börnum yðar til framfærslu.' 47.25 Og þeir svöruðu: 'Þú hefir haldið í oss lífinu. Lát oss finna náð í augum þínum, herra minn, og þá viljum vér vera þrælar Faraós.' 47.26 Og Jósef leiddi það í lög, sem haldast allt til þessa dags, að Faraó skyldi fá fimmta hlutann af akurlendi Egypta. Ekrur prestanna einar urðu ekki eign Faraós. 47.27 Ísrael bjó í Egyptalandi, í Gósenlandi, og þeir festu þar byggð og juku kyn sitt, svo að þeim fjölgaði mjög. 47.28 Jakob lifði í seytján ár í Egyptalandi, og dagar Jakobs, æviár hans, voru hundrað fjörutíu og sjö ár. 47.29 Er dró að dauða Ísraels, lét hann kalla Jósef son sinn og sagði við hann: 'Hafi ég fundið náð í augum þínum, þá legg hönd þína undir lend mína og auðsýn mér elsku og trúfesti: Jarða mig ekki í Egyptalandi. 47.30 Ég vil hvíla hjá feðrum mínum, og skalt þú flytja mig burt úr Egyptalandi og jarða mig í gröf þeirra.' Og hann svaraði: 'Ég vil gjöra svo sem þú hefir fyrir mælt.' 47.31 Þá sagði Jakob: 'Vinn þú mér eið að því!' Og hann vann honum eiðinn. Og Ísrael hallaði sér niður að höfðalaginu.
1 Móse 48
48.1 Eftir þetta bar svo til, að Jósef var sagt: 'Sjá, faðir þinn er sjúkur.' Tók hann þá með sér báða sonu sína, Manasse og Efraím. 48.2 Þetta tjáðu menn Jakob og sögðu: 'Sjá, Jósef sonur þinn kemur til þín.' Þá hreysti Ísrael sig og settist upp í rúminu. 48.3 Jakob sagði við Jósef: 'Almáttugur Guð birtist mér í Lúz í Kanaanlandi og blessaði mig 48.4 og sagði við mig: ,Sjá, ég vil gjöra þig frjósaman og margfalda þig og gjöra þig að fjölda þjóða og gefa niðjum þínum eftir þig þetta land til ævinlegrar eignar.` 48.5 Og nú skulu báðir synir þínir, sem þér fæddust í Egyptalandi áður en ég kom til þín til Egyptalands, heyra mér til. Efraím og Manasse skulu heyra mér til, eins og Rúben og Símeon. 48.6 En það afkvæmi, sem þú hefir getið eftir þá, skal tilheyra þér. Með nafni bræðra sinna skulu þeir nefndir verða í erfð þeirra. 48.7 Þegar ég kom heim frá Mesópótamíu, missti ég Rakel í Kanaanlandi á leiðinni, þegar ég átti skammt eftir ófarið til Efrata, og ég jarðaði hana þar við veginn til Efrata, það er Betlehem.' 48.8 Þá sá Jakob sonu Jósefs og mælti: 'Hverjir eru þessir?' 48.9 Og Jósef sagði við föður sinn: 'Það eru synir mínir, sem Guð hefir gefið mér hér.' Og hann mælti: 'Leiddu þá til mín, að ég blessi þá.' 48.10 En Ísrael var orðinn sjóndapur af elli og sá ekki. Og Jósef leiddi þá til hans, og hann kyssti þá og faðmaði þá. 48.11 Og Ísrael sagði við Jósef: 'Ég hafði eigi búist við að sjá þig framar, og nú hefir Guð meira að segja látið mig sjá afkvæmi þitt.' 48.12 Og Jósef færði þá frá knjám hans og hneigði ásjónu sína til jarðar. 48.13 Jósef tók þá báða, Efraím sér við hægri hönd, svo að hann stóð Ísrael til vinstri handar, og Manasse sér við vinstri hönd, svo að hann stóð Ísrael til hægri handar, og leiddi þá til hans. 48.14 En Ísrael rétti fram hægri hönd sína og lagði á höfuð Efraím, þótt hann væri yngri, og vinstri hönd sína á höfuð Manasse. Hann lagði hendur sínar í kross, því að Manasse var hinn frumgetni. 48.15 Og hann blessaði Jósef og sagði: 'Sá Guð, fyrir hvers augliti feður mínir Abraham og Ísak gengu, sá Guð, sem hefir varðveitt mig frá barnæsku allt fram á þennan dag, 48.16 sá engill, sem hefir frelsað mig frá öllu illu, hann blessi sveinana, og þeir beri nafn mitt og nafn feðra minna Abrahams og Ísaks, og afsprengi þeirra verði stórmikið í landinu.' 48.17 En er Jósef sá, að faðir hans lagði hægri hönd sína á höfuð Efraím, mislíkaði honum það og tók um höndina á föður sínum til þess að færa hana af höfði Efraíms yfir á höfuð Manasse. 48.18 Og Jósef sagði við föður sinn: 'Eigi svo, faðir minn, því að þessi er hinn frumgetni. Legg hægri hönd þína á höfuð honum.' 48.19 En faðir hans færðist undan því og sagði: 'Ég veit það, sonur minn, ég veit það. Einnig hann mun verða að þjóð og einnig hann mun mikill verða, en þó mun yngri bróðir hans verða honum meiri, og afsprengi hans mun verða fjöldi þjóða.' 48.20 Og hann blessaði þá á þessum degi og mælti: 'Með þínu nafni munu Ísraelsmenn óska blessunar og segja: ,Guð gjöri þig sem Efraím og Manasse!'` Hann setti þannig Efraím framar Manasse. 48.21 Og Ísrael sagði við Jósef: 'Sjá, nú dey ég, en Guð mun vera með yður og flytja yður aftur í land feðra yðar. 48.22 En ég gef þér fram yfir bræður þína eina fjallsöxl, sem ég hefi unnið frá Amorítum með sverði mínu og boga.'
1 Móse 49
49.1 Þá lét Jakob kalla sonu sína og mælti: 'Safnist saman, að ég megi birta yður það, sem fyrir yður liggur á komandi tímum.' 49.2 Skipist saman og hlýðið á, synir Jakobs, hlýðið á Ísrael föður yðar! 49.3 Rúben, þú ert frumgetningur minn, kraftur minn og frumgróði styrkleika míns, fremstur að virðingum og fremstur að völdum. 49.4 En þar eð þú ólgar sem vatnið, skalt þú eigi fremstur vera, því að þú gekkst í hvílu föður þíns. Þá flekkaðir þú hana, gekkst í hjónasæng mína! 49.5 Símeon og Leví eru bræður, tól ofbeldis eru sverð þeirra. 49.6 Sál mín komi ekki á ráðstefnu þeirra, sæmd mín hafi eigi félagsskap við söfnuð þeirra, því að í reiði sinni drápu þeir menn, og í ofsa sínum skáru þeir á hásinar nautanna. 49.7 Bölvuð sé reiði þeirra, því að hún var römm, og bræði þeirra, því að hún var grimm. Ég vil dreifa þeim í Jakob og tvístra þeim í Ísrael. 49.8 Júda, þig munu bræður þínir vegsama. Hönd þín mun vera á hálsi óvina þinna, synir föður þíns skulu lúta þér. 49.9 Júda er ljónshvolpur, frá bráðinni ert þú stiginn upp, sonur minn. Hann leggst niður, hann hvílist sem ljón og sem ljónynja, hver þorir að reka hann á fætur? 49.10 Ekki mun veldissprotinn víkja frá Júda, né ríkisvöndurinn frá fótum hans, uns sá kemur, er valdið hefur, og þjóðirnar ganga honum á hönd. 49.11 Hann bindur við víntré ösnufola sinn, við gæðavínvið son ösnu sinnar, hann þvær klæði sín í víni og möttul sinn í vínberjablóði. 49.12 Vínmóða er í augum hans og tennur hans hvítar af mjólk. 49.13 Sebúlon mun búa við sjávarströndina, við ströndina þar sem skipin liggja, og land hans vita að Sídon. 49.14 Íssakar er beinasterkur asni, sem liggur á milli fjárgirðinganna. 49.15 Og hann sá, að hvíldin var góð og að landið var unaðslegt, og hann beygði herðar sínar undir byrðar og varð vinnuskyldur þræll. 49.16 Dan mun rétta hluta þjóðar sinnar sem hver önnur Ísraels ættkvísl. 49.17 Dan verður höggormur á veginum og naðra í götunni, sem hælbítur hestinn, svo að reiðmaðurinn fellur aftur á bak. 49.18 Þinni hjálp treysti ég, Drottinn! 49.19 Gað _ ræningjaflokkur fer að honum, en hann rekur þá á flótta. 49.20 Asser _ feit er fæða hans, og hann veitir konungakrásir. 49.21 Naftalí er rásandi hind, frá honum koma fegurðarorð. 49.22 Jósef er ungur aldinviður, ungur aldinviður við uppsprettulind, greinar hans teygja sig upp yfir múrinn. 49.23 Bogmenn veittust að honum, skutu að honum og ofsóttu hann, 49.24 en bogi hans reyndist stinnur, og handleggir hans voru fimir. Sá styrkur kom frá Jakobs Volduga, frá Hirðinum, Hellubjargi Ísraels, 49.25 frá Guði föður þíns, sem mun hjálpa þér, frá Almáttugum Guði, sem mun blessa þig með blessun himinsins að ofan, með blessun djúpsins, er undir hvílir, með blessun brjósta og móðurlífs. 49.26 Blessunin, sem faðir þinn hlaut, gnæfði hærra en hin öldnu fjöll, hærra en unaður hinna eilífu hæða. Hún komi yfir höfuð Jósefs og í hvirfil hans, sem er höfðingi meðal bræðra sinna. 49.27 Benjamín er úlfur, sem sundurrífur. Á morgnana etur hann bráð, og á kveldin skiptir hann herfangi. 49.28 Allir þessir eru tólf kynþættir Ísraels, og þetta er það, sem faðir þeirra talaði við þá. Jakob blessaði þá, sérhvern blessaði hann með þeirri blessun, er honum bar. 49.29 Og hann bauð þeim og mælti við þá: 'Ég safnast nú til míns fólks. Jarðið mig hjá feðrum mínum, í hellinum, sem er í landi Efrons Hetíta, 49.30 í hellinum, sem er í Makpelalandi og liggur gegnt Mamre í Kanaanlandi og Abraham keypti með akrinum af Efron Hetíta fyrir grafreit. 49.31 Þar hafa þeir jarðað Abraham og Söru konu hans, þar hafa þeir jarðað Ísak og Rebekku konu hans, og þar hefi ég jarðað Leu. 49.32 Akurinn og hellirinn, sem á honum er, hafði keyptur verið af Hetítum.' 49.33 Og er Jakob hafði lokið þessum fyrirmælum við sonu sína, lagði hann fætur sína upp í hvíluna og andaðist og safnaðist til síns fólks.
1 Móse 50
50.1 Jósef laut þá ofan að andliti föður síns og grét yfir honum og kyssti hann. 50.2 Og Jósef bauð þjónum sínum, læknunum, að smyrja föður sinn. Og læknarnir smurðu Ísrael, 50.3 en til þess gengu fjörutíu dagar, því að svo lengi stendur á smurningunni. Og Egyptar syrgðu hann sjötíu daga. 50.4 Er sorgardagarnir voru liðnir, kom Jósef að máli við hirðmenn Faraós og mælti: 'Hafi ég fundið náð í augum yðar, þá berið Faraó þessi orð mín: 50.5 Faðir minn tók eið af mér og sagði: ,Sjá, nú mun ég deyja. Í gröf minni, sem ég gróf handa mér í Kanaanlandi, skaltu jarða mig.` Leyf mér því að fara og jarða föður minn. Að því búnu skal ég koma aftur.' 50.6 Og Faraó sagði: 'Far þú og jarða föður þinn, eins og hann lét þig vinna eið að.' 50.7 Og Jósef fór að jarða föður sinn, og með honum fóru allir þjónar Faraós, öldungar hirðarinnar og allir öldungar Egyptalands 50.8 og allir heimilismenn Jósefs, svo og bræður hans og heimilismenn föður hans. Aðeins létu þeir börn sín, sauði sína og nautgripi eftir verða í Gósenlandi. 50.9 Í för með honum voru vagnar og riddarar, og var það stórmikið föruneyti. 50.10 En er þeir komu til Góren-haatad, sem er hinumegin við Jórdan, þá hófu þeir þar harmakvein mikið og hátíðlegt mjög, og hann hélt sorgarhátíð eftir föður sinn í sjö daga. 50.11 Og er landsbúar, Kanaanítar, sáu sorgarhátíðina í Góren-haatad, sögðu þeir: 'Þar halda Egyptar mikla sorgarhátíð.' Fyrir því var sá staður nefndur Abel Mísraím. Liggur hann hinumegin við Jórdan. 50.12 Synir hans gjörðu svo við hann sem hann hafði boðið þeim. 50.13 Og synir hans fluttu hann til Kanaanlands og jörðuðu hann í helli Makpelalands, sem Abraham hafði keypt ásamt akrinum fyrir grafreit af Efron Hetíta, gegnt Mamre. 50.14 Og Jósef fór aftur til Egyptalands, er hann hafði jarðað föður sinn, hann og bræður hans og allir, sem með honum höfðu farið að jarða föður hans. 50.15 Er bræður Jósefs sáu að faðir þeirra var dáinn, hugsuðu þeir: 'En ef Jósef nú fjandskapaðist við oss og launaði oss allt hið illa, sem vér höfum gjört honum!' 50.16 Og þeir gjörðu Jósef svolátandi orðsending: 'Faðir þinn mælti svo fyrir, áður en hann dó: 50.17 ,Þannig skuluð þér mæla við Jósef: Æ, fyrirgef bræðrum þínum misgjörð þeirra og synd, að þeir gjörðu þér illt.` Fyrirgef því misgjörðina þjónum þess Guðs, sem faðir þinn dýrkaði.' Og Jósef grét, er þeir mæltu svo til hans. 50.18 Því næst komu bræður hans sjálfir og féllu fram fyrir honum og sögðu: 'Sjá, vér erum þrælar þínir.' 50.19 En Jósef sagði við þá: 'Óttist ekki, því að er ég í Guðs stað? 50.20 Þér ætluðuð að gjöra mér illt, en Guð sneri því til góðs, til að gjöra það, sem nú er fram komið, að halda lífinu í mörgu fólki. 50.21 Verið því óhræddir, ég skal annast yður og börn yðar.' Síðan hughreysti hann þá og talaði við þá blíðlega. 50.22 Jósef bjó í Egyptalandi, hann og ættlið föður hans. Og Jósef varð hundrað og tíu ára gamall. 50.23 Og Jósef sá niðja Efraíms í þriðja lið. Og synir Makírs, sonar Manasse, fæddust á kné Jósefs. 50.24 Og Jósef sagði við bræður sína: 'Nú mun ég deyja. En Guð mun vissulega vitja yðar og flytja yður úr þessu landi til þess lands, sem hann hefir svarið Abraham, Ísak og Jakob.' 50.25 Og Jósef tók eið af Ísraels sonum og mælti: 'Sannlega mun Guð vitja yðar. Flytjið þá bein mín héðan.'
1.1 Þessi eru nöfn Ísraels sona, sem komu til Egyptalands með Jakob, hver með sitt heimilisfólk: 1.2 Rúben, Símeon, Leví og Júda, 1.3 Íssakar, Sebúlon og Benjamín, 1.4 Dan og Naftalí, Gað og Asser. 1.5 Alls voru niðjar Jakobs sjötíu manns, og Jósef var fyrir í Egyptalandi. 1.6 Og Jósef dó og allir bræður hans og öll sú kynslóð. 1.7 Og Ísraelsmenn voru frjósamir, jukust, margfölduðust og fjölgaði stórum, svo að landið varð fullt af þeim. 1.8 Þá hófst til ríkis í Egyptalandi nýr konungur, sem engin deili vissi á Jósef. 1.9 Hann sagði við þjóð sína: 'Sjá, þjóð Ísraelsmanna er fjölmennari og aflmeiri en vér. 1.10 Látum oss fara kænlega að við hana, ella kynni henni að fjölga um of, og ef til ófriðar kæmi, kynni hún jafnvel að ganga í lið með óvinum vorum og berjast móti oss og fara síðan af landi burt.' 1.11 Og þeir settu verkstjóra yfir hana til þess að þjá hana með þrælavinnu, og hún byggði vistaborgir handa Faraó, Pítóm og Raamses. 1.12 En því meir sem þeir þjáðu hana, því meir fjölgaði henni og breiddist út, svo að þeir tóku að óttast Ísraelsmenn. 1.13 Og Egyptar þrælkuðu Ísraelsmenn vægðarlaust 1.14 og gjörðu þeim lífið leitt með þungri þrælavinnu við leireltu og tigulsteinagjörð og með alls konar akurvinnu, með allri þeirri vinnu, er þeir vægðarlaust þrælkuðu þá með. 1.15 En Egyptalandskonungur mælti til hinna hebresku ljósmæðra _ hét önnur Sifra, en hin Púa: 1.16 'Þegar þið sitjið yfir hebreskum konum,' mælti hann, 'þá lítið á burðarsetið. Sé barnið sveinbarn, þá deyðið það, en sé það meybarn, þá má það lifa.' 1.17 En ljósmæðurnar óttuðust Guð og gjörðu eigi það, sem Egyptalandskonungur bauð þeim, heldur létu sveinbörnin lifa. 1.18 Þá lét Egyptalandskonungur kalla ljósmæðurnar og sagði við þær: 'Hví hafið þér svo gjört, að láta sveinbörnin lifa?' 1.19 Ljósmæðurnar svöruðu Faraó: 'Hebreskar konur eru ólíkar egypskum, því að þær eru hraustar. Áður en ljósmóðirin kemur til þeirra, eru þær búnar að fæða.' 1.20 Og Guð lét ljósmæðrunum vel farnast, og fólkinu fjölgaði og það efldist mjög. 1.21 Og fyrir þá sök, að ljósmæðurnar óttuðust Guð, gaf hann þeim fjölda niðja. 1.22 Þá bauð Faraó öllum lýð sínum og sagði: 'Kastið í ána öllum þeim sveinbörnum, sem fæðast meðal Hebrea, en öll meybörn mega lífi halda.'
2.1 Maður nokkur af Leví ætt gekk að eiga dóttur Leví. 2.2 Og konan varð þunguð og fæddi son. Og er hún sá að sveinninn var fríður, þá leyndi hún honum í þrjá mánuði. 2.3 En er hún mátti eigi leyna honum lengur, tók hún handa honum örk af reyr, bræddi hana með jarðlími og biki, lagði sveininn í hana og lét örkina út í sefið hjá árbakkanum. 2.4 En systir hans stóð þar álengdar til að vita, hvað um hann yrði. 2.5 Þá gekk dóttir Faraós ofan að ánni til að lauga sig, og gengu þjónustumeyjar hennar eftir árbakkanum. Hún leit örkina í sefinu og sendi þernu sína að sækja hana. 2.6 En er hún lauk upp örkinni, sá hún barnið, og sjá, það var sveinbarn og var að gráta. Og hún kenndi í brjósti um það og sagði: 'Þetta er eitt af börnum Hebrea.' 2.7 Þá sagði systir sveinsins við dóttur Faraós: 'Á ég að fara og sækja fyrir þig barnfóstru, einhverja hebreska konu, að hún hafi sveininn á brjósti fyrir þig?' 2.8 Og dóttir Faraós svaraði henni: 'Já, far þú.' En mærin fór og sótti móður sveinsins. 2.9 Og dóttir Faraós sagði við hana: 'Tak svein þennan með þér og haf hann á brjósti fyrir mig, og skal ég launa þér fyrir.' Tók konan þá sveininn og hafði hann á brjósti. 2.10 En er sveinninn var vaxinn, fór hún með hann til dóttur Faraós. Tók hún hann í sonar stað og nefndi hann Móse, því að hún sagði: 'Ég hefi dregið hann upp úr vatninu.' 2.11 Um þær mundir bar svo við, þegar Móse var orðinn fulltíða maður, að hann fór á fund ættbræðra sinna og sá þrældóm þeirra. Sá hann þá egypskan mann ljósta hebreskan mann, einn af ættbræðrum hans. 2.12 Hann skimaði þá í allar áttir, og er hann sá, að þar var enginn, drap hann Egyptann og huldi hann í sandinum. 2.13 Daginn eftir gekk hann út og sá tvo Hebrea vera að þrátta sín á milli. Þá mælti hann við þann, sem á röngu hafði að standa: 'Hví slær þú náunga þinn?' 2.14 En hann sagði: 'Hver skipaði þig höfðingja og dómara yfir okkur? Er þér í hug að drepa mig, eins og þú drapst Egyptann?' Þá varð Móse hræddur og hugsaði með sér: 'Það er þá orðið uppvíst!' 2.15 Er Faraó frétti þennan atburð, leitaði hann eftir að drepa Móse, en Móse flýði undan Faraó og tók sér bústað í Midíanslandi og settist að hjá vatnsbólinu. 2.16 Presturinn í Midíanslandi átti sjö dætur. Þær komu þangað, jusu vatn og fylltu þrórnar til að brynna fénaði föður síns. 2.17 Þá komu að hjarðmenn og bægðu þeim frá. En Móse tók sig til og hjálpaði þeim og brynnti fénaði þeirra. 2.18 Og er þær komu heim til Regúels föður síns, mælti hann: 'Hví komið þér svo snemma heim í dag?' 2.19 Þær svöruðu: 'Egypskur maður hjálpaði oss móti hjarðmönnunum, jós líka vatnið upp fyrir oss og brynnti fénaðinum.' 2.20 Hann sagði þá við dætur sínar: 'Hvar er hann þá? Hvers vegna skilduð þér manninn eftir? Bjóðið honum heim, að hann neyti matar.' 2.21 Móse lét sér vel líka að vera hjá þessum manni, og hann gifti Móse Sippóru dóttur sína. 2.22 Hún ól son, og hann nefndi hann Gersóm, því að hann sagði: 'Gestur er ég í ókunnu landi.' 2.23 Löngum tíma eftir þetta dó Egyptalandskonungur. En Ísraelsmenn andvörpuðu undir ánauðinni og kveinuðu, og ánauðarkvein þeirra sté upp til Guðs. 2.24 Og Guð heyrði andvarpanir þeirra og minntist sáttmála síns við Abraham, Ísak og Jakob. 2.25 Og Guð leit til Ísraelsmanna og kenndist við þá.
3.1 En Móse gætti sauða Jetró tengdaföður síns, prests í Midíanslandi. Og hann hélt fénu vestur yfir eyðimörkina og kom til Guðs fjalls, til Hóreb. 3.2 Þá birtist honum engill Drottins í eldsloga, sem lagði út af þyrnirunna nokkrum. Og er hann gætti að, sá hann, að þyrnirunninn stóð í ljósum loga, en brann ekki. 3.3 Þá sagði Móse: 'Ég vil ganga nær og sjá þessa miklu sýn, hvað til þess kemur, að þyrnirunninn brennur ekki.' 3.4 En er Drottinn sá, að hann vék þangað til að skoða þetta, þá kallaði Guð til hans úr þyrnirunnanum og sagði: 'Móse, Móse!' Hann svaraði: 'Hér er ég.' 3.5 Guð sagði: 'Gakk ekki hingað! Drag skó þína af fótum þér, því að sá staður, er þú stendur á, er heilög jörð.' 3.6 Því næst mælti hann: 'Ég er Guð föður þíns, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.' Þá byrgði Móse andlit sitt, því að hann þorði ekki að líta upp á Guð. 3.7 Drottinn sagði: 'Ég hefi sannlega séð ánauð þjóðar minnar í Egyptalandi og heyrt hversu hún kveinar undan þeim, sem þrælka hana; ég veit, hversu bágt hún á. 3.8 Ég er ofan farinn til að frelsa hana af hendi Egypta og til að leiða hana úr þessu landi og til þess lands, sem er gott og víðlent, til þess lands, sem flýtur í mjólk og hunangi, á stöðvar Kanaaníta, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta. 3.9 Nú með því að kvein Ísraelsmanna er komið til mín, og ég auk þess hefi séð, hversu harðlega Egyptar þjaka þeim, 3.10 þá far þú nú. Ég vil senda þig til Faraós, og þú skalt leiða þjóð mína, Ísraelsmenn, út af Egyptalandi.' 3.11 En Móse sagði við Guð: 'Hver er ég, að ég fari til fundar við Faraó og að ég leiði Ísraelsmenn út af Egyptalandi?' 3.12 Þá sagði hann: 'Sannlega mun ég vera með þér. Og það skalt þú til marks hafa, að ég hefi sent þig, að þá er þú hefir leitt fólkið út af Egyptalandi, munuð þér þjóna Guði á þessu fjalli.' 3.13 Móse sagði við Guð: 'En þegar ég kem til Ísraelsmanna og segi við þá: ,Guð feðra yðar sendi mig til yðar,` og þeir segja við mig: ,Hvert er nafn hans?` hverju skal ég þá svara þeim?' 3.14 Þá sagði Guð við Móse: 'Ég er sá, sem ég er.' Og hann sagði: 'Svo skalt þú segja Ísraelsmönnum: ,Ég er` sendi mig til yðar.' 3.15 Guð sagði enn fremur við Móse: 'Svo skalt þú segja Ísraelsmönnum: ,Drottinn, Guð feðra yðar, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs sendi mig til yðar.` Þetta er nafn mitt um aldur, og þetta er heiti mitt frá kyni til kyns. 3.16 Far nú og safna saman öldungum Ísraels og mæl við þá: ,Drottinn, Guð feðra yðar birtist mér, Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs, og sagði: Ég hefi vitjað yðar og séð, hversu með yður hefir verið farið í Egyptalandi. 3.17 Og ég hefi sagt: Ég vil leiða yður úr ánauð Egyptalands inn í land Kanaaníta, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta, í það land, sem flýtur í mjólk og hunangi.` 3.18 Þeir munu skipast við orð þín og skaltu þá ganga með öldungum Ísraels fyrir Egyptalandskonung, og skuluð þér segja við hann: ,Drottinn, Guð Hebrea, hefir komið til móts við oss. Leyf oss því nú að fara þrjár dagleiðir á eyðimörkina, að vér færum fórnir Drottni, Guði vorum.` 3.19 Veit ég þó, að Egyptalandskonungur mun eigi leyfa yður burtförina, og jafnvel ekki þótt hart sé á honum tekið. 3.20 En ég vil útrétta hönd mína og ljósta Egyptaland með öllum undrum mínum, sem ég mun fremja þar, og þá mun hann láta yður fara. 3.21 Og ég skal láta þessa þjóð öðlast hylli Egypta, svo að þá er þér farið, skuluð þér eigi tómhentir burt fara, 3.22 heldur skal hver kona biðja grannkonu sína og sambýliskonu um silfurgripi og gullgripi og klæði, og það skuluð þér láta sonu yðar og dætur bera, og þannig skuluð þér ræna Egypta.'
4.1 Móse svaraði og sagði: 'Sjá, þeir munu eigi trúa mér og eigi skipast við orð mín, heldur segja: ,Guð hefir ekki birst þér!'` 4.2 Þá sagði Drottinn við hann: 'Hvað er það, sem þú hefir í hendi þér?' Hann svaraði: 'Stafur er það.' 4.3 Hann sagði: 'Kasta þú honum til jarðar!' Og hann kastaði honum til jarðar, og stafurinn varð að höggormi, og hrökk Móse undan honum. 4.4 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Rétt þú út hönd þína og gríp um ormshalann!' Þá rétti hann út hönd sína og tók um hann, og varð hann þá aftur að staf í hendi hans, _ 4.5 'að þeir megi trúa því, að Drottinn, Guð feðra þeirra, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs, hafi birst þér.' 4.6 Drottinn sagði enn fremur við hann: 'Sting hendi þinni í barm þér!' Og hann stakk hendi sinni í barm sér. En er hann tók hana út aftur, var höndin orðin líkþrá og hvít sem snjór. 4.7 Og hann sagði: 'Sting aftur hendi þinni í barm þér!' Og hann stakk hendinni aftur í barm sér. En er hann tók hana aftur út úr barminum, var hún aftur orðin sem annað hold hans. 4.8 'Vilji þeir nú ekki trúa þér eða skipast við hið fyrra jarteiknið, þá munu þeir skipast við hið síðara. 4.9 En ef þeir vilja hvorugu þessu jarteikni trúa eða skipast láta við orð þín, þá skalt þú taka vatn úr ánni og ausa því upp á þurrt land, og mun þá það vatn er þú tekur úr ánni verða að blóði á þurrlendinu.' 4.10 Þá sagði Móse við Drottin: 'Æ, Drottinn, aldrei hefi ég málsnjall maður verið, hvorki áður fyrr né heldur síðan þú talaðir við þjón þinn, því að mér er tregt um málfæri og tungutak.' 4.11 En Drottinn sagði við hann: 'Hver gefur manninum málið, eða hver gjörir hann mállausan eða daufan eða skyggnan eða blindan? Er það ekki ég, Drottinn, sem gjöri það? 4.12 Far nú, ég skal vera með munni þínum og kenna þér, hvað þú skalt mæla.' 4.13 En hann svaraði: 'Æ, Drottinn, send þú einhvern annan.' 4.14 Þá reiddist Drottinn Móse og sagði: 'Þá er Aron bróðir þinn, levítinn! Ég veit að hann er vel máli farinn. Og meira að segja, sjá, hann fer til móts við þig, og þá er hann sér þig, mun hann fagna í hjarta sínu. 4.15 Þú skalt tala til hans og leggja honum orðin í munn, en ég mun vera með munni þínum og munni hans og kenna ykkur, hvað þið skuluð gjöra. 4.16 Hann skal tala fyrir þig til lýðsins, og hann skal vera þér sem munnur, en þú skalt vera honum sem Guð. 4.17 Staf þennan skalt þú hafa í hendi þér. Með honum skalt þú jarteiknin gjöra.' 4.18 Síðan fór Móse heim aftur til Jetró tengdaföður síns og mælti til hans: 'Leyf mér að fara og hverfa aftur til ættbræðra minna, sem á Egyptalandi eru, svo að ég viti, hvort þeir eru enn á lífi.' Og Jetró sagði við Móse: 'Far þú í friði!' 4.19 Drottinn sagði við Móse í Midíanslandi: 'Far þú og hverf aftur til Egyptalands, því að þeir eru allir dauðir, sem leituðu eftir lífi þínu.' 4.20 Þá tók Móse konu sína og sonu, setti þau upp á asna og fór aftur til Egyptalands. Og Móse tók Guðs staf í hönd sér. 4.21 Drottinn sagði við Móse: 'Sjá svo til, þá er þú kemur aftur í Egyptaland, að þú fremjir öll þau undur fyrir Faraó, sem ég hefi gefið þér vald til. En ég mun herða hjarta hans, svo að hann mun eigi leyfa fólkinu að fara. 4.22 En þú skalt segja við Faraó: Svo segir Drottinn: ,Ísraelslýður er minn frumgetinn sonur. 4.23 Ég segi þér: Lát son minn fara, að hann megi þjóna mér. En viljir þú hann eigi lausan láta, sjá, þá skal ég deyða frumgetinn son þinn.'` 4.24 Á leiðinni bar svo við í gistingarstað einum, að Drottinn réðst í móti honum og vildi deyða hann. 4.25 Þá tók Sippóra hvassan stein og afsneið yfirhúð sonar síns og snerti fætur hans og sagði: 'Þú ert sannlega minn blóðbrúðgumi!' 4.26 Þá sleppti hann honum. En ,blóðbrúðgumi` sagði hún vegna umskurnarinnar. 4.27 Drottinn sagði við Aron: 'Far þú út í eyðimörkina til móts við Móse.' Og hann fór og mætti honum á Guðs fjalli og minntist við hann. 4.28 Sagði Móse þá Aroni öll orð Drottins, er hann hafði fyrir hann lagt, og öll þau jarteikn, sem hann hafði boðið honum að gjöra. 4.29 Þeir Móse og Aron fóru nú og stefndu saman öllum öldungum Ísraelsmanna, 4.30 og flutti Aron öll þau orð, er Drottinn hafði mælt við Móse, og hann gjörði táknin í augsýn fólksins. 4.31 Og fólkið trúði. Og er þeir heyrðu, að Drottinn hafði vitjað Ísraelsmanna og litið á eymd þeirra, féllu þeir fram og tilbáðu.
5.1 Eftir það gengu þeir Móse og Aron á fund Faraós og sögðu: 'Svo segir Drottinn, Guð Ísraelsmanna: ,Gef fólki mínu fararleyfi, að það megi halda mér hátíð í eyðimörkinni.'` 5.2 En Faraó sagði: 'Hver er Drottinn, að ég skuli hlýða honum til þess að leyfa Ísrael að fara? Ég þekki ekki Drottin, og Ísrael leyfi ég eigi heldur að fara.' 5.3 Þeir sögðu: 'Guð Hebrea hefir komið til móts við oss. Leyf oss að fara þriggja daga leið út í eyðimörkina til að færa fórnir Drottni, Guði vorum, að hann láti eigi yfir oss koma drepsótt eða sverð.' 5.4 En Egyptalandskonungur sagði við þá: 'Hví viljið þið, Móse og Aron, taka fólkið úr vinnunni? Farið til erfiðis yðar!' 5.5 Og Faraó sagði: 'Nú, þegar fólkið er orðið svo margt í landinu, þá viljið þið láta það hætta að erfiða!' 5.6 Sama dag bauð Faraó verkstjórum þeim, er settir voru yfir fólkið, og tilsjónarmönnum þess og sagði: 5.7 'Upp frá þessu skuluð þér eigi fá fólkinu hálmstrá til að gjöra tigulsteina við, eins og hingað til. Þeir skulu sjálfir fara og safna sér stráum, 5.8 en þó skuluð þér setja þeim fyrir að gjöra jafnmarga tigulsteina og þeir hafa gjört hingað til, og minnkið ekki af við þá, því að þeir eru latir. Þess vegna kalla þeir og segja: ,Vér viljum fara og færa fórnir Guði vorum.` 5.9 Það verður að þyngja vinnuna á fólkinu, svo að það hafi nóg að starfa og hlýði ekki á lygifortölur.' 5.10 Þá gengu verkstjórar fólksins og tilsjónarmenn þess út og mæltu þannig til fólksins: 'Svo segir Faraó: ,Ég læt eigi fá yður nein hálmstrá. 5.11 Farið sjálfir og fáið yður strá, hvar sem þér finnið, en þó skal alls ekkert minnka vinnu yðar.'` 5.12 Þá fór fólkið víðsvegar um allt Egyptaland að leita sér hálmleggja til að hafa í stað stráa. 5.13 En verkstjórarnir ráku eftir þeim og sögðu: 'Ljúkið dag hvern við yðar ákveðna dagsverk, eins og meðan þér höfðuð stráin.' 5.14 Og tilsjónarmenn Ísraelsmanna, sem verkstjórar Faraós höfðu sett yfir þá, voru barðir og sagt við þá: 'Hví hafið þér eigi lokið við yðar ákveðna tigulgerðarverk, hvorki í gær né í dag, eins og áður fyrr?' 5.15 Tilsjónarmenn Ísraelsmanna gengu þá fyrir Faraó, báru sig upp við hann og sögðu: 'Hví fer þú svo með þjóna þína? 5.16 Þjónum þínum eru engin strá fengin, og þó er sagt við oss: ,Gjörið tigulsteina.` Og sjá, þjónar þínir eru barðir og á þitt fólk sök á þessu.' 5.17 En hann sagði: 'Þér eruð latir og nennið engu! Þess vegna segið þér: ,Látum oss fara og færa Drottni fórnir.` 5.18 Farið nú og erfiðið! Og engin strá skal fá yður, en þó skuluð þér inna af hendi hina ákveðnu tigulsteina.' 5.19 Þá sáu tilsjónarmenn Ísraelsmanna í hvert óefni komið var fyrir þeim, þegar sagt var við þá: 'Þér skuluð engu færri tigulsteina gjöra, hinu ákveðna dagsverki skal aflokið hvern dag!' 5.20 Þegar þeir komu út frá Faraó, mættu þeir þeim Móse og Aroni, sem stóðu þar og biðu þeirra. 5.21 Og þeir sögðu við þá: 'Drottinn líti á ykkur og dæmi, þar eð þið hafið gjört oss illa þokkaða hjá Faraó og þjónum hans og fengið þeim sverð í hendur til að drepa oss með.' 5.22 Þá sneri Móse sér aftur til Drottins og sagði: 'Drottinn, hví gjörir þú svo illa við þetta fólk? Hví hefir þú þá sent mig? 5.23 Því síðan ég gekk fyrir Faraó til að tala í þínu nafni, hefir hann misþyrmt þessum lýð, og þú hefir þó alls ekki frelsað lýð þinn.'
6.1 En Drottinn sagði við Móse: 'Þú skalt nú sjá, hvað ég vil gjöra Faraó, því að fyrir voldugri hendi skal hann þá lausa láta, fyrir voldugri hendi skal hann reka þá burt úr landi sínu.' 6.2 Guð talaði við Móse og sagði við hann: 'Ég er Drottinn! 6.3 Ég birtist Abraham, Ísak og Jakob sem Almáttugur Guð, en undir nafninu Drottinn hefi ég eigi opinberast þeim. 6.4 Ég gjörði og við þá sáttmála, að gefa þeim Kanaanland, dvalarland þeirra, er þeir dvöldust í sem útlendingar. 6.5 Ég hefi og heyrt kveinstafi Ísraelsmanna, sem Egyptar hafa að þrælum gjört, og ég hefi minnst sáttmála míns. 6.6 Seg því Ísraelsmönnum: ,Ég er Drottinn. Ég vil leysa yður undan ánauð Egypta og hrífa yður úr þrældómi þeirra og frelsa yður með útréttum armlegg og miklum refsidómum. 6.7 Ég vil útvelja yður til að vera mitt fólk, og ég vil vera yðar Guð, og þér skuluð reyna, að ég er Drottinn, Guð yðar, sem leysi yður undan ánauð Egypta. 6.8 Og ég vil leiða yður inn í það land, sem ég sór að gefa Abraham, Ísak og Jakob, og ég vil gefa yður það til eignar. Ég er Drottinn.'` 6.9 Móse sagði Ísraelsmönnum þetta, en þeir sinntu honum ekki sökum hugleysis og vegna hins stranga þrældóms. 6.10 Þá talaði Drottinn við Móse og sagði: 6.11 'Gakk á tal við Faraó, Egyptalandskonung, og bið hann leyfa Ísraelsmönnum burt úr landi sínu.' 6.12 Og Móse talaði frammi fyrir augliti Drottins og mælti: 'Sjá, Ísraelsmenn vilja eigi gefa gaum að orðum mínum. Hversu mun þá Faraó skipast við þau, þar sem ég er maður málstirður?' 6.13 Þá talaði Drottinn við Móse og Aron og fékk þeim það erindi til Ísraelsmanna og Faraós, Egyptalandskonungs, að þeir skyldu út leiða Ísraelsmenn af Egyptalandi. 6.14 Þessir eru ætthöfðingjar meðal forfeðra þeirra: Synir Rúbens, frumgetins sonar Ísraels: Hanok, Pallú, Hesron og Karmí. Þetta eru kynþættir Rúbens. 6.15 Synir Símeons: Jemúel, Jamín, Óhad, Jakín, Sóhar og Sál, sonur konunnar kanversku. Þetta eru kynþættir Símeons. 6.16 Þessi eru nöfn Leví sona eftir ættbálkum þeirra: Gerson, Kahat og Merarí. En Leví varð hundrað þrjátíu og sjö ára gamall. 6.17 Synir Gersons: Líbní og Símeí eftir kynþáttum þeirra. 6.18 Synir Kahats: Amram, Jísehar, Hebron og Ússíel. En Kahat varð hundrað þrjátíu og þriggja ára gamall. 6.19 Synir Merarí: Mahelí og Músí. Þetta eru kynþættir levítanna eftir ættbálkum þeirra. 6.20 Amram fékk Jókebedar, föðursystur sinnar, og átti hún við honum þá Aron og Móse. En Amram varð hundrað þrjátíu og sjö ára gamall. 6.21 Synir Jísehars: Kóra, Nefeg og Síkrí. 6.22 Synir Ússíels: Mísael, Elsafan og Sítrí. 6.23 Aron fékk Elísebu, dóttur Ammínadabs, systur Nahsons, og átti hún við honum þá Nadab, Abíhú, Eleasar og Ítamar. 6.24 Synir Kóra: Assír, Elkana og Abíasaf. Þetta eru kynþættir Kóraíta. 6.25 Og Eleasar, sonur Arons, gekk að eiga eina af dætrum Pútíels, og hún ól honum Pínehas. Þetta eru ætthöfðingjar levítanna eftir kynþáttum þeirra. 6.26 Það var þessi Aron og Móse, sem Drottinn bauð: 'Leiðið Ísraelsmenn út af Egyptalandi eftir hersveitum þeirra.' 6.27 Það voru þeir, sem boðuðu Faraó, Egyptalandskonungi, að þeir mundu leiða Ísraelsmenn út úr Egyptalandi, þessi Móse og Aron. 6.28 Er Drottinn talaði við Móse í Egyptalandi, 6.29 mælti hann til hans þessum orðum: 'Ég er Drottinn! Seg Faraó, Egyptalandskonungi, allt sem ég segi þér.' 6.30 Og Móse sagði frammi fyrir augliti Drottins: 'Sjá, ég er maður málstirður, hversu má Faraó þá skipast við orð mín?'
7.1 Drottinn sagði við Móse: 'Sjá, ég gjöri þig sem Guð fyrir Faraó, en Aron bróðir þinn skal vera spámaður þinn. 7.2 Þú skalt tala allt sem ég býð þér, en Aron bróðir þinn skal flytja við Faraó, að hann gefi Ísraelsmönnum fararleyfi úr landi sínu. 7.3 En ég vil herða hjarta Faraós og fremja mörg jarteikn og stórmerki í Egyptalandi. 7.4 Faraó mun ekki skipast við orð ykkar, og skal ég þá leggja hönd mína á Egyptaland og leiða hersveitir mínar, þjóð mína, Ísraelsmenn með miklum refsidómum út úr Egyptalandi. 7.5 Skulu Egyptar fá að vita, að ég er Drottinn, þegar ég rétti út hönd mína yfir Egyptaland og leiði Ísraelsmenn burt frá þeim.' 7.6 Móse og Aron gjörðu þetta. Þeir fóru að öllu svo sem Drottinn hafði fyrir þá lagt. 7.7 Var Móse áttræður, en Aron hafði þrjá um áttrætt, er þeir töluðu við Faraó. 7.8 Drottinn talaði við þá Móse og Aron og sagði: 7.9 'Þegar Faraó segir við ykkur: ,Látið sjá stórmerki nokkur,` þá seg þú við Aron: ,Tak staf þinn og kasta honum frammi fyrir Faraó.` Skal hann þá verða að höggormi.' 7.10 Þá gengu þeir Móse og Aron inn fyrir Faraó og gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið þeim, og kastaði Aron staf sínum frammi fyrir Faraó og þjónum hans, og varð stafurinn að höggormi. 7.11 Þá lét Faraó og kalla vitringana og töframennina, og þeir, spásagnamenn Egypta, gjörðu slíkt hið sama með fjölkynngi sinni: 7.12 Kastaði hver þeirra staf sínum, og urðu stafirnir að höggormum. En stafur Arons gleypti þeirra stafi. 7.13 En hjarta Faraós harðnaði, og hann hlýddi þeim ekki, eins og Drottinn hafði sagt. 7.14 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Hjarta Faraós er ósveigjanlegt. Hann vill eigi leyfa fólkinu að fara. 7.15 Far þú á morgun á fund Faraós. Sjá, hann mun ganga til vatns. Skalt þú þá ganga í veg fyrir hann á árbakkanum, og haf í hendi þér staf þann, er varð að höggormi. 7.16 Og þú skalt segja við hann: ,Drottinn, Guð Hebrea, hefir sent mig til þín með þessa orðsending: Leyf fólki mínu að fara, að það megi þjóna mér á eyðimörkinni. En hingað til hefir þú ekki látið skipast. 7.17 Svo segir Drottinn: Af þessu skaltu vita mega, að ég er Drottinn: Með staf þeim, sem ég hefi í hendi mér, lýst ég á vatnið, sem er í ánni, og skal það þá verða að blóði. 7.18 Fiskarnir í ánni skulu deyja og áin fúlna, svo að Egypta skal velgja við að drekka vatn úr ánni.'` 7.19 Þá mælti Drottinn við Móse: 'Seg við Aron: ,Tak staf þinn og rétt hönd þína út yfir vötn Egyptalands, yfir fljót þess og ár, tjarnir og allar vatnsstæður, og skulu þau þá verða að blóði, og um allt Egyptaland skal blóð vera bæði í tréílátum og steinkerum.'` 7.20 Móse og Aron gjörðu sem Drottinn hafði boðið þeim. Hann reiddi upp stafinn og laust vatnið í ánni að ásjáandi Faraó og þjónum hans, og allt vatnið í ánni varð að blóði. 7.21 Fiskarnir í ánni dóu, og áin fúlnaði, svo að Egyptar gátu ekki drukkið vatn úr ánni, og blóð var um allt Egyptaland. 7.22 En spásagnamenn Egypta gjörðu slíkt hið sama með fjölkynngi sinni. Harðnaði þá hjarta Faraós, og hann hlýddi þeim ekki, eins og Drottinn hafði sagt. 7.23 Sneri Faraó þá burt og fór heim til sín og lét þetta ekki heldur á sig fá. 7.24 En allir Egyptar grófu með fram ánni eftir neysluvatni, því að þeir gátu eigi drukkið vatnið úr ánni. 7.25 Liðu svo sjö dagar eftir það, að Drottinn hafði lostið ána.
8.1 Því næst sagði Drottinn við Móse: 'Gakk fyrir Faraó og seg við hann: ,Svo segir Drottinn: Gef lýð mínum fararleyfi, að þeir megi þjóna mér. 8.2 En ef þú synjar honum fararleyfis, þá skal ég þjá allt þitt land með froskum. 8.3 Áin skal mora af froskum. Þeir skulu fara á land upp og skríða inn í höll þína og í svefnherbergi þitt og upp í rekkju þína, inn í hús þjóna þinna og upp á fólk þitt, í bakstursofna þína og deigtrog. 8.4 Og froskarnir skulu skríða upp á þig og fólk þitt og upp á alla þjóna þína.'` 8.5 Og Drottinn sagði við Móse: 'Seg við Aron: ,Rétt út hönd þína og hald staf þínum uppi yfir fljótunum, ánum og tjörnunum, og lát froska koma yfir Egyptaland.'` 8.6 Aron rétti út hönd sína yfir vötn Egyptalands. Komu þá upp froskar og huldu Egyptaland. 8.7 En spásagnamennirnir gjörðu slíkt hið sama með fjölkynngi sinni og létu froska koma yfir Egyptaland. 8.8 Þá lét Faraó kalla Móse og Aron og sagði: 'Biðjið Drottin, að hann láti þessa froska víkja frá mér og frá þjóð minni. Þá skal ég láta fólkið fara, að það megi færa Drottni fórnir.' 8.9 Móse sagði við Faraó: 'Þér skal veitast sú virðing að ákveða, nær ég skuli biðja fyrir þér og fyrir þjónum þínum og fyrir fólki þínu, að froskarnir víki frá þér og úr húsum þínum og verði hvergi eftir nema í ánni.' 8.10 Hann svaraði: 'Á morgun.' Og Móse sagði: 'Svo skal vera sem þú mælist til, svo að þú vitir, að enginn er sem Drottinn, Guð vor. 8.11 Froskarnir skulu víkja frá þér og úr húsum þínum, frá þjónum þínum og frá fólki þínu. Hvergi nema í ánni skulu þeir eftir verða.' 8.12 Síðan gengu þeir Móse og Aron burt frá Faraó og Móse ákallaði Drottin út af froskunum, sem hann hafði koma látið yfir Faraó. 8.13 Og Drottinn gjörði sem Móse beiddist, og dóu froskarnir í húsunum, í görðunum og á ökrunum. 8.14 Hrúguðu menn þeim saman í marga hauga, og varð af illur daunn í landinu. 8.15 En er Faraó sá að af létti, herti hann hjarta sitt og hlýddi þeim ekki, eins og Drottinn hafði sagt. 8.16 Því næst sagði Drottinn við Móse: 'Seg við Aron: ,Rétt út staf þinn og slá duft jarðarinnar, og skal það þá verða að mýi um allt Egyptaland.'` 8.17 Þeir gjörðu svo. Rétti Aron út hönd sína og laust stafnum á duft jarðarinnar, og varð það að mýi á mönnum og fénaði. Allt duft jarðarinnar varð að mýi um allt Egyptaland. 8.18 Og spásagnamennirnir gjörðu slíkt hið sama með fjölkynngi sinni til þess að framleiða mý, en gátu ekki. En mýið lagðist bæði á menn og fénað. 8.19 Þá sögðu spásagnamennirnir við Faraó: 'Þetta er Guðs fingur.' En hjarta Faraós harðnaði, og hann hlýddi þeim ekki, eins og Drottinn hafði sagt. 8.20 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Rís upp árla á morgun og far til fundar við Faraó, er hann gengur til vatns, og seg við hann: ,Svo segir Drottinn: Gef fólki mínu fararleyfi, að þeir megi þjóna mér. 8.21 En leyfir þú eigi fólki mínu að fara, skal ég láta flugur koma yfir þig og þjóna þína, yfir fólk þitt og í hús þín, og hús Egypta skulu full verða af flugum og jafnvel jörðin undir fótum þeirra. 8.22 En á þeim degi vil ég undan taka Gósenland, þar sem mitt fólk hefst við, svo að þar skulu engar flugur vera, til þess að þú vitir, að ég er Drottinn á jörðunni. 8.23 Og ég vil gjöra aðskilnað milli míns fólks og þíns fólks. Á morgun skal þetta tákn verða.'` 8.24 Og Drottinn gjörði svo. Kom þá fjöldi flugna í hús Faraós og hús þjóna hans og yfir allt Egyptaland, svo að landið spilltist af flugunum. 8.25 Þá lét Faraó kalla þá Móse og Aron og sagði: 'Farið og færið fórnir Guði yðar hér innanlands.' 8.26 En Móse svaraði: 'Ekki hæfir að vér gjörum svo, því að vér færum Drottni, Guði vorum, þær fórnir, sem eru Egyptum andstyggð. Ef vér nú bærum fram þær fórnir, sem eru Egyptum andstyggð, að þeim ásjáandi, mundu þeir þá ekki grýta oss? 8.27 Vér verðum að fara þrjár dagleiðir út á eyðimörkina til að færa fórnir Drottni, Guði vorum, eins og hann hefir boðið oss.' 8.28 Þá mælti Faraó: 'Ég vil leyfa yður að fara burt, svo að þér færið fórnir Drottni, Guði yðar, á eyðimörkinni. Aðeins megið þér ekki fara of langt í burt. Biðjið fyrir mér!' 8.29 Móse svaraði: 'Sjá, þegar ég kem út frá þér, vil ég biðja til Drottins, að flugurnar víki frá Faraó og frá þjónum hans og frá fólki hans á morgun. En þá má Faraó ekki oftar prettast um að leyfa fólkinu að fara burt til að færa Drottni fórnir.' 8.30 Þá gekk Móse út frá Faraó og bað til Drottins. 8.31 Og Drottinn gjörði sem Móse bað og lét flugurnar víkja frá Faraó og þjónum hans og fólki hans, svo að ekki ein varð eftir. 8.32 En Faraó herti þá enn hjarta sitt, og ekki leyfði hann fólkinu að fara.
9.1 Því næst sagði Drottinn við Móse: 'Gakk fyrir Faraó og seg við hann: ,Svo segir Drottinn, Guð Hebrea: Gef fólki mínu fararleyfi, að þeir megi þjóna mér. 9.2 En synjir þú þeim fararleyfis, og haldir þú þeim enn lengur, 9.3 sjá, þá skal hönd Drottins koma yfir kvikfénað þinn, sem er í haganum, yfir hesta og asna og úlfalda, nautpening og sauðfé, með harla þungum faraldri. 9.4 Og Drottinn mun gjöra þann mun á kvikfénaði Ísraelsmanna og kvikfénaði Egypta, að engin skepna skal deyja af öllu því, sem Ísraelsmenn eiga.'` 9.5 Og Drottinn tók til ákveðinn tíma og sagði: 'Á morgun mun Drottinn láta þetta fram fara í landinu.' 9.6 Og Drottinn lét þetta fram fara að næsta morgni. Dó þá allur kvikfénaður Egypta, en engin skepna dó af fénaði Ísraelsmanna. 9.7 Þá sendi Faraó menn, og sjá: Engin skepna hafði farist af fénaði Ísraelsmanna. En hjarta Faraós var ósveigjanlegt, og hann gaf fólkinu eigi fararleyfi. 9.8 Því næst sagði Drottinn við Móse og Aron: 'Takið handfylli ykkar af ösku úr ofninum, og skal Móse dreifa henni í loft upp að Faraó ásjáandi. 9.9 Skal hún þá verða að dufti um allt Egyptaland, en af því skal koma bólga, sem brýst út í kýli, bæði á mönnum og fénaði um allt Egyptaland.' 9.10 Þeir tóku þá ösku úr ofninum og gengu fyrir Faraó. Dreifði þá Móse öskunni í loft upp, og kom þá á menn og fénað bólga, sem braust út í kýli. 9.11 En spásagnamennirnir gátu ekki komið á fund Móse sökum bólgunnar, því að bólga kom á spásagnamennina, eins og á alla Egypta. 9.12 En Drottinn herti hjarta Faraós, og hann hlýddi þeim ekki, eins og Drottinn hafði sagt Móse. 9.13 Þá mælti Drottinn við Móse: 'Rís upp árla á morgun, gakk fyrir Faraó og seg við hann: ,Svo segir Drottinn, Guð Hebrea: Gef fólki mínu fararleyfi, að þeir megi þjóna mér. 9.14 Því að í þetta sinn ætla ég að senda allar plágur mínar yfir þig sjálfan, yfir þjóna þína og yfir fólk þitt, svo að þú vitir, að enginn er minn líki á allri jörðinni. 9.15 Því að ég hefði þegar getað rétt út hönd mína og slegið þig og fólk þitt með drepsótt, svo að þú yrðir afmáður af jörðinni. 9.16 En þess vegna hefi ég þig standa látið, til þess að ég sýndi þér mátt minn og til þess að nafn mitt yrði kunngjört um alla veröld. 9.17 Þú stendur enn í móti fólki mínu með því að vilja ekki gefa þeim fararleyfi. 9.18 Sjá, á morgun í þetta mund vil ég láta dynja yfir svo stórfellt hagl, að aldrei hefir slíkt komið á Egyptalandi, síðan landið varð til og allt til þessa dags. 9.19 Fyrir því send nú og tak sem skjótast inn fénað þinn og allt það, er þú átt úti. Allir menn og skepnur, sem úti verða staddar og ekki eru í hús inn látnar og fyrir haglinu verða, munu deyja.'` 9.20 Sérhver af þjónum Faraós, sem óttaðist orð Drottins, hýsti inni hjú sín og fénað. 9.21 En þeir, sem ekki gáfu gaum að orðum Drottins, létu hjú sín og fénað vera úti. 9.22 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Rétt hönd þína til himins og þá skal hagl drífa yfir allt Egyptaland, yfir menn og skepnur, og yfir allan jarðargróða í Egyptalandi.' 9.23 Þá lyfti Móse staf sínum til himins, og Drottinn lét þegar koma reiðarþrumur og hagl. Og eldingum laust á jörð niður, og Drottinn lét hagl dynja yfir Egyptaland. 9.24 Og haglið dundi og eldingunum laust í sífellu niður innan um haglið, er var svo geysistórt, að slíkt hafði ekki komið á öllu Egyptalandi síðan það byggðist. 9.25 Og haglið laust til bana allt það, sem úti var í öllu Egyptalandi, bæði menn og skepnur, og haglið lamdi allan jarðargróða og braut hvert tré merkurinnar. 9.26 Aðeins í Gósenlandi, þar sem Ísraelsmenn bjuggu, kom ekkert hagl. 9.27 Þá sendi Faraó og lét kalla þá Móse og Aron og sagði við þá: 'Að þessu sinni hefi ég syndgað. Drottinn er réttlátur, en ég og mitt fólk höfum á röngu að standa. 9.28 Biðjið til Drottins. Nóg er komið af reiðarþrumum og hagli. Vil ég þá gefa yður fararleyfi, og skuluð þér ekki bíða lengur.' 9.29 Móse svaraði honum: 'Jafnskjótt sem ég er kominn út úr borginni, skal ég fórna höndum til Drottins, og mun þá reiðarþrumunum linna og hagl ekki framar koma, svo að þú vitir, að jörðin tilheyrir Drottni. 9.30 Og veit ég þó, að þú og þjónar þínir óttast ekki enn Drottin Guð.' 9.31 Hör og bygg var niður slegið, því að öx voru komin á byggið og knappar á hörinn. 9.32 En hveiti og speldi var ekki niður slegið, því að þau koma seint upp. 9.33 Því næst gekk Móse burt frá Faraó og út úr borginni og fórnaði höndum til Drottins. Linnti þá reiðarþrumunum og haglinu, og regn streymdi ekki lengur niður á jörðina. 9.34 En er Faraó sá, að regninu, haglinu og reiðarþrumunum linnti, hélt hann áfram að syndga og herti hjarta sitt, hann og þjónar hans. 9.35 Og hjarta Faraós harðnaði, og hann gaf Ísraelsmönnum eigi fararleyfi, eins og Drottinn hafði sagt fyrir munn Móse.
10.1 Því næst sagði Drottinn við Móse: 'Gakk inn fyrir Faraó, því að ég hefi hert hjarta hans og hjörtu þjóna hans til þess að ég fremji þessi tákn mín meðal þeirra 10.2 og til þess að þú getir sagt börnum þínum og barnabörnum frá því, hvernig ég hefi farið með Egypta, og frá þeim táknum, sem ég hefi á þeim gjört, svo að þér vitið, að ég er Drottinn.' 10.3 Síðan gengu þeir Móse og Aron inn fyrir Faraó og sögðu við hann: 'Svo segir Drottinn, Guð Hebrea: ,Hve lengi vilt þú færast undan að auðmýkja þig fyrir mér? 10.4 Gef fólki mínu fararleyfi, að þeir megi þjóna mér, því að færist þú undan að leyfa fólki mínu að fara, þá skal ég á morgun láta engisprettur færast inn yfir landamæri þín. 10.5 Og þær skulu hylja yfirborð landsins, svo að ekki skal sjást til jarðar. Skulu þær upp eta leifarnar, sem bjargað var og þér eigið eftir óskemmdar af haglinu, og naga öll tré yðar, sem spretta á mörkinni. 10.6 Þær skulu fylla hús þín og hús allra þjóna þinna og hús allra Egypta, og hafa hvorki feður þínir né feður feðra þinna séð slíkt, frá því þeir fæddust í heiminn og allt til þessa dags.'` Síðan sneri hann sér við og gekk út frá Faraó. 10.7 Þá sögðu þjónar Faraós við hann: 'Hversu lengi á þessi maður að verða oss að meini? Gef mönnunum fararleyfi, að þeir megi þjóna Drottni Guði sínum! Veistu ekki enn, að Egyptaland er í eyði lagt?' 10.8 Þá voru þeir Móse og Aron sóttir aftur til Faraós og sagði hann við þá: 'Farið og þjónið Drottni Guði yðar! En hverjir eru það, sem ætla að fara?' 10.9 Móse svaraði: 'Vér ætlum að fara með börn vor og gamalmenni. Með sonu vora og dætur, sauðfé vort og nautgripi ætlum vér að fara, því að vér eigum að halda Drottni hátíð.' 10.10 En hann sagði við þá: 'Svo framt sé Drottinn með yður, sem ég gef yður og börnum yðar fararleyfi! Sannlega hafið þér illt í huga. 10.11 Eigi skal svo vera. Farið þér karlmennirnir og þjónið Drottni, því að um það hafið þér beðið.' Síðan voru þeir reknir út frá Faraó. 10.12 Þá mælti Drottinn við Móse: 'Rétt út hönd þína yfir Egyptaland, svo að engisprettur komi yfir landið og upp eti allan jarðargróða, allt það, sem haglið eftir skildi.' 10.13 Þá rétti Móse út staf sinn yfir Egyptaland. Og Drottinn lét austanvind blása inn yfir landið allan þann dag og alla nóttina, en með morgninum kom austanvindurinn með engispretturnar. 10.14 Engispretturnar komu yfir allt Egyptaland, og mesti aragrúi af þeim kom niður í öllum héruðum landsins. Hafði aldrei áður verið slíkur urmull af engisprettum, og mun ekki hér eftir verða. 10.15 Þær huldu allt landið, svo að hvergi sá til jarðar, og þær átu allt gras jarðarinnar og allan ávöxt trjánna, sem haglið hafði eftir skilið, svo að í öllu Egyptalandi varð ekkert grænt eftir, hvorki á trjánum né á jurtum merkurinnar. 10.16 Þá gjörði Faraó í skyndi boð eftir Móse og Aroni og sagði: 'Ég hefi syndgað á móti Drottni Guði yðar, og á móti yður. 10.17 En fyrirgefið mér synd mína aðeins í þetta sinn og biðjið Drottin, Guð yðar, að hann fyrir hvern mun létti þessari voðaplágu af mér.' 10.18 Síðan gekk hann út frá Faraó og bað til Drottins. 10.19 Þá sneri Drottinn veðrinu í mjög hvassan vestanvind, sem tók engispretturnar og fleygði þeim í Rauðahafið, svo að ekki var eftir ein engispretta nokkurs staðar í Egyptalandi. 10.20 En Drottinn herti hjarta Faraós, svo að hann leyfði ekki Ísraelsmönnum burt að fara. 10.21 Því næst sagði Drottinn við Móse: 'Rétt hönd þína til himins, og skal þá koma þreifandi myrkur yfir allt Egyptaland.' 10.22 Móse rétti þá hönd sína til himins, og varð þá niðamyrkur í öllu Egyptalandi í þrjá daga. 10.23 Enginn sá annan, og enginn hreyfði sig, þaðan sem hann var staddur, í þrjá daga, en bjart var hjá öllum Ísraelsmönnum, í híbýlum þeirra. 10.24 Þá lét Faraó kalla Móse og sagði: 'Farið og þjónið Drottni, látið aðeins sauðfénað yðar og nautgripi eftir verða. Börn yðar mega einnig fara með yður.' 10.25 En Móse svaraði: 'Þú verður einnig að fá oss dýr til sláturfórnar og brennifórnar, að vér megum fórnir færa Drottni Guði vorum. 10.26 Kvikfé vort skal og fara með oss, ekki skal ein klauf eftir verða, því að af því verðum vér að taka til þess að þjóna Drottni Guði vorum. En eigi vitum vér, hverju vér skulum fórnfæra Drottni, fyrr en vér komum þangað.' 10.27 En Drottinn herti hjarta Faraós og hann vildi ekki gefa þeim fararleyfi. 10.28 Og Faraó sagði við hann: 'Haf þig á burt frá mér og varast að koma oftar fyrir mín augu, því að á þeim degi, sem þú kemur í augsýn mér, skaltu deyja.' 10.29 Móse svaraði: 'Rétt segir þú. Ég skal aldrei framar koma þér fyrir augu.'
11.1 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Ég vil enn láta eina plágu koma yfir Faraó og Egyptaland. Eftir það mun hann leyfa yður að fara héðan. Þegar hann gefur yður fullt fararleyfi, þá mun hann jafnvel reka yður burt héðan. 11.2 Seg nú í áheyrn fólksins, að hver maður skuli biðja granna sinn og hver kona grannkonu sína um silfurgripi og gullgripi.' 11.3 Drottinn lét fólkið öðlast hylli Egypta, enda var Móse mjög mikils virtur maður í Egyptalandi, bæði af þjónum Faraós og lýðnum. 11.4 Þá sagði Móse: 'Svo segir Drottinn: ,Um miðnætti vil ég ganga mitt í gegnum Egyptaland, 11.5 og þá skulu allir frumburðir í Egyptalandi deyja, frá frumgetnum syni Faraós, sem situr í hásæti sínu, til frumgetnings ambáttarinnar, sem stendur við kvörnina, og allir frumburðir fénaðarins. 11.6 Þá skal verða svo mikið harmakvein um allt Egyptaland, að jafnmikið hefir ekki verið og mun aldrei verða. 11.7 En eigi skal svo mikið sem rakki gelta að nokkrum Ísraelsmanna, hvorki að mönnum né skepnum, svo að þér vitið, að Drottinn gjörir greinarmun á Ísraelsmönnum og Egyptum. 11.8 Þá skulu allir þessir þjónar þínir koma til mín, falla til jarðar fyrir mér og segja: Far þú á burt og allt það fólk, sem þér fylgir, _ og eftir það mun ég á burt fara.'` Síðan gekk hann út frá Faraó og var hinn reiðasti. 11.9 En Drottinn sagði við Móse: 'Faraó mun ekki láta að orðum yðar, svo að stórmerki mín verði mörg í Egyptalandi.' 11.10 En þeir Móse og Aron gjörðu öll þessi stórmerki fyrir Faraó. En Drottinn herti hjarta Faraós, og ekki leyfði hann Ísraelsmönnum að fara burt úr landi sínu.
12.1 Þá mælti Drottinn við þá Móse og Aron í Egyptalandi á þessa leið: 12.2 'Þessi mánuður skal vera upphafsmánuður hjá yður. Hann skal vera fyrsti mánuður ársins hjá yður. 12.3 Talið til alls safnaðar Ísraelsmanna og segið: ,Á tíunda degi þessa mánaðar skal hver húsbóndi taka lamb fyrir fjölskyldu sína, eitt lamb fyrir hvert heimili. 12.4 En sé eitt lamb of mikið fyrir heimilið, þá taki hann og granni hans, sá er næstur honum býr, lamb saman eftir tölu heimilismanna. Eftir því sem hver etur, skuluð þér ætla á um lambið. 12.5 Lambið skal vera gallalaust, hrútlamb veturgamalt, og má vera hvort sem vill ásauðarlamb eða hafurkið. 12.6 Og þér skuluð varðveita það til hins fjórtánda dags þessa mánaðar. Þá skal öll samkoma Ísraelssafnaðar slátra því um sólsetur. 12.7 Þá skulu þeir taka nokkuð af blóðinu og ríða því á báða dyrastafi og dyratré húsa þeirra, þar sem þeir eta lambið. 12.8 Sömu nóttina skulu þeir eta kjötið, steikt við eld. Með ósýrðu brauði og beiskum jurtum skulu þeir eta það. 12.9 Ekki skuluð þér eta neitt af því hrátt eða soðið í vatni, heldur steikt við eld, höfuðið með fótum og innýflum. 12.10 Engu af því skuluð þér leifa til morguns, en hafi nokkru af því leift verið til morguns, þá skuluð þér brenna það í eldi. 12.11 Og þannig skuluð þér neyta þess: Þér skuluð vera gyrtir um lendar yðar, hafa skó á fótum og stafi í höndum. Þér skuluð eta það í flýti. Það eru páskar Drottins. 12.12 Því að þessa sömu nótt vil ég fara um Egyptaland og deyða alla frumburði í Egyptalandi, bæði menn og fénað. Og refsidóma vil ég láta fram koma á öllum goðum Egyptalands. Ég er Drottinn. 12.13 Og blóðið skal vera yður tákn á þeim húsum, þar sem þér eruð: Er ég sé blóðið, mun ég ganga fram hjá yður, og engin skæð plága skal yfir yður koma, þegar ég slæ Egyptaland. 12.14 Þessi dagur skal vera yður endurminningardagur, og þér skuluð halda hann sem hátíð Drottins. Kynslóð eftir kynslóð skuluð þér hann hátíðlegan halda eftir ævarandi lögmáli.` 12.15 ,Í sjö daga skuluð þér eta ósýrt brauð. Þegar á fyrsta degi skuluð þér flytja súrdeig burt úr húsum yðar, því að hver sem etur sýrt brauð frá fyrsta degi til hins sjöunda, hann skal upprættur verða úr Ísrael. 12.16 Á hinum fyrsta degi skuluð þér halda helga samkomu og sömuleiðis á hinum sjöunda degi helga samkomu. Á þeim dögum skal ekkert verk vinna, nema það megið þér tilreiða, sem hver og einn þarf sér til matar. 12.17 Þér skuluð halda helga hátíð hinna ósýrðu brauða, því að einmitt á þessum degi leiddi ég hersveitir yðar út af Egyptalandi. Fyrir því skuluð þér halda heilagt þennan dag, kynslóð eftir kynslóð, eftir ævarandi lögmáli. 12.18 Í fyrsta mánuðinum skuluð þér ósýrt brauð eta frá því um kveldið hinn fjórtánda dag mánaðarins og til þess um kveldið hinn tuttugasta og fyrsta dag mánaðarins. 12.19 Í sjö daga skal súrdeig ekki finnast í húsum yðar, því að hver sem þá etur sýrt brauð, sá maður skal upprættur verða úr söfnuði Ísraels, hvort sem hann er útlendur eða innlendur. 12.20 Þér skuluð ekkert sýrt brauð eta. Í öllum bústöðum yðar skuluð þér eta ósýrt brauð.'` 12.21 Þá stefndi Móse saman öllum öldungum Ísraelsmanna og sagði við þá: 'Farið og takið yður sauðkindur handa heimilum yðar og slátrið páskalambinu. 12.22 Takið ísópsvönd og drepið honum í blóðið, sem er í troginu, og ríðið blóði úr troginu á dyratréð og báða dyrastafina. Og enginn yðar skal fara út fyrir dyr á húsi sínu fyrr en að morgni. 12.23 Því að Drottinn mun fara yfir landið til þess að ljósta Egypta. Hann mun sjá blóðið á dyratrénu og báðum dyrastöfunum, og mun þá Drottinn ganga fram hjá dyrunum og ekki láta eyðandann koma í hús yðar til að ljósta yður. 12.24 Gætið þessa sem ævinlegrar skipunar fyrir þig og börn þín. 12.25 Og þegar þér komið í landið, sem Drottinn mun gefa yður, eins og hann hefir heitið, þá skuluð þér halda þennan sið. 12.26 Og þegar börn yðar segja við yður: ,Hvaða siður er þetta, sem þér haldið?` 12.27 þá skuluð þér svara: ,Þetta er páskafórn Drottins, sem gekk fram hjá húsum Ísraelsmanna í Egyptalandi, þá er hann laust Egypta, en hlífði vorum húsum.'` Þá féll lýðurinn fram og tilbað. 12.28 Og Ísraelsmenn fóru og gjörðu þetta. Þeir gjörðu eins og Drottinn hafði boðið þeim Móse og Aroni. 12.29 Um miðnæturskeið laust Drottinn alla frumburði í Egyptalandi, frá frumgetnum syni Faraós, sem sat í hásæti sínu, allt til frumgetnings bandingjans, sem í myrkvastofu sat, og alla frumburði fénaðarins. 12.30 Þá reis Faraó upp um nóttina, hann og allir þjónar hans, og allir Egyptar. Gjörðist þá mikið harmakvein í Egyptalandi, því að ekki var það hús, að eigi væri lík inni. 12.31 Lét hann kalla þá Móse og Aron um nóttina og sagði: 'Takið yður upp og farið burt frá minni þjóð, bæði þið og Ísraelsmenn. Farið og þjónið Drottni, eins og þið hafið um talað. 12.32 Takið með yður bæði sauðfé yðar og nautgripi, eins og þið hafið um talað, farið því næst af stað og biðjið einnig mér blessunar.' 12.33 Og Egyptar ráku hart eftir fólkinu til þess að koma þeim sem fyrst burt úr landinu, því að þeir sögðu: 'Vér munum allir deyja.' 12.34 Fólkið tók þá deigið, sem það hafði, áður en það sýrðist, batt deigtrogin innan í klæði sín og bar þau á öxlum sér. 12.35 En Ísraelsmenn höfðu gjört eftir fyrirmælum Móse og beðið Egypta um gullgripi og silfurgripi og klæði, 12.36 og hafði Drottinn látið fólkið öðlast hylli Egypta, svo að þeir urðu við bæn þeirra, og þannig rændu þeir Egypta. 12.37 Tóku Ísraelsmenn sig nú upp frá Ramses og fóru til Súkkót, hér um bil sex hundruð þúsund fótgangandi manna, auk barna. 12.38 Þar að auki fór með þeim mikill fjöldi af alls konar lýð, svo og stórar hjarðir sauða og nauta. 12.39 Og þeir bökuðu ósýrðar kökur af deiginu, sem þeir höfðu með sér úr Egyptalandi, því að deigið hafði ekki sýrst, þar eð þeir voru reknir burt úr Egyptalandi og máttu engar viðtafir hafa og höfðu því ekkert búið sér til veganestis. 12.40 Ísraelsmenn höfðu þá búið í Egyptalandi fjögur hundruð og þrjátíu ár. 12.41 Og að liðnum þeim fjögur hundruð og þrjátíu árum, einmitt á þeim degi, fóru allar hersveitir Drottins út af Egyptalandi. 12.42 Þetta er vökunótt Drottins, með því að hann leiddi þá út af Egyptalandi. Þessa sömu nótt halda allir Ísraelsmenn helga sem vökunótt Drottins frá kyni til kyns. 12.43 Drottinn sagði við þá Móse og Aron: 'Þetta eru ákvæðin um páskalambið: Enginn útlendur maður má af því eta. 12.44 Sérhver þræll, sem er verði keyptur, má eta af því, er þú hefir umskorið hann. 12.45 Enginn útlendur búandi eða daglaunamaður má eta af því. 12.46 Menn skulu eta það í einu húsi. Ekkert af kjötinu mátt þú bera út úr húsinu. Ekkert bein í því megið þér brjóta. 12.47 Allur söfnuður Ísraels skal svo gjöra. 12.48 Ef nokkur útlendingur býr hjá þér og vill halda Drottni páska, þá skal umskera allt karlkyn hjá honum, og má hann þá koma og halda hátíðina, og skal hann vera sem innborinn maður. En enginn óumskorinn skal þess neyta. 12.49 Sömu lög skulu vera fyrir innborna menn sem fyrir þá útlendinga, er meðal yðar búa.' 12.50 Allir Ísraelsmenn gjörðu svo, þeir gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið þeim Móse og Aroni. 12.51 Einmitt á þessum degi leiddi Drottinn Ísraelsmenn út af Egyptalandi eftir hersveitum þeirra.
13.1 Þá talaði Drottinn við Móse og sagði: 13.2 'Þú skalt helga mér alla frumburði. Hvað eina sem opnar móðurlíf meðal Ísraelsmanna, hvort heldur er menn eða fénaður, það er mitt.' 13.3 Móse sagði við fólkið: 'Verið minnugir þessa dags, er þér fóruð burt úr Egyptalandi, út úr þrælahúsinu, því með voldugri hendi leiddi Drottinn yður út þaðan: Sýrð brauð má eigi eta. 13.4 Í dag farið þér af stað, í abíb-mánuði. 13.5 Þegar Drottinn leiðir þig inn í land Kanaaníta, Hetíta, Amoríta, Hevíta og Jebúsíta, sem hann sór feðrum þínum að gefa þér, í það land, sem flýtur í mjólk og hunangi, þá skaltu halda þennan sið í þessum sama mánuði. 13.6 Sjö daga skaltu eta ósýrt brauð, og á hinum sjöunda degi skal vera hátíð Drottins. 13.7 Ósýrt brauð skal eta í þá sjö daga, ekkert sýrt brauð má sjást hjá þér, og ekki má heldur súrdeig sjást nokkurs staðar hjá þér innan þinna landamerkja. 13.8 Á þeim degi skaltu gjöra syni þínum grein fyrir þessu og segja: ,Það er sökum þess sem Drottinn gjörði fyrir mig, þá er ég fór út af Egyptalandi.` 13.9 Og þetta skal vera þér til merkis á hendi þinni og til minningar á milli augna þinna, svo að lögmál Drottins sé þér æ á vörum, því með voldugri hendi leiddi Drottinn þig út af Egyptalandi. 13.10 Þessa skipun skaltu því halda á ákveðnum tíma ár frá ári. 13.11 Þegar Drottinn leiðir þig inn í land Kanaaníta, eins og hann sór þér og feðrum þínum, og gefur þér það, 13.12 þá skaltu eigna Drottni allt það, sem opnar móðurlíf. Og allir frumburðir, sem koma undan þeim fénaði, er þú átt, skulu heyra Drottni til, séu þeir karlkyns. 13.13 Alla frumburði undan ösnum skaltu leysa með lambi. Leysir þú ekki, skaltu brjóta þá úr hálsliðum. En alla frumburði manna meðal barna þinna skaltu leysa. 13.14 Og þegar sonur þinn spyr þig á síðan og segir: ,Hvað á þetta að þýða?` þá svara honum: ,Með voldugri hendi leiddi Drottinn oss út af Egyptalandi, úr þrælahúsinu, 13.15 því þegar Faraó synjaði oss þverlega fararleyfis, þá deyddi Drottinn alla frumburði í Egyptalandi, bæði frumburði manna og frumburði fénaðar. Þess vegna fórnfæri ég Drottni öllu, sem opnar móðurlíf, en alla frumburði barna minna leysi ég.` 13.16 Og það skal vera merki á hendi þér og minningarband á milli augna þinna um það, að Drottinn leiddi oss út af Egyptalandi með voldugri hendi.' 13.17 Þegar Faraó hafði gefið fólkinu fararleyfi, leiddi Guð þá ekki á leið til Filistalands, þótt sú leið væri skemmst, _ því að Guð sagði: 'Vera má að fólkið iðrist, þegar það sér, að ófriðar er von, og snúi svo aftur til Egyptalands,' 13.18 _ heldur lét Guð fólkið fara í bug eyðimerkurveginn til Sefhafsins, og fóru Ísraelsmenn vígbúnir af Egyptalandi. 13.19 Móse tók með sér bein Jósefs, því að hann hafði tekið eið af Ísraelsmönnum og sagt: 'Sannlega mun Guð vitja yðar. Flytjið þá bein mín héðan burt með yður.' 13.20 Þeir tóku sig upp frá Súkkót og settu búðir sínar í Etam, þar sem eyðimörkina þrýtur. 13.21 Drottinn gekk fyrir þeim á daginn í skýstólpa til að vísa þeim veg, en á nóttunni í eldstólpa til að lýsa þeim, svo að þeir gætu ferðast nótt sem dag. 13.22 Skýstólpinn vék ekki frá fólkinu á daginn, né heldur eldstólpinn á nóttunni.
14.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 14.2 'Seg Ísraelsmönnum, að þeir snúi aftur og setji búðir sínar fyrir framan Pí-Hakírót, milli Migdóls og hafsins, gegnt Baal Sefón. Þar andspænis skuluð þér setja búðir yðar við hafið. 14.3 Og Faraó mun segja um Ísraelsmenn: ,Þeir fara villir vega í landinu, eyðimörkin hefir innibyrgt þá.` 14.4 Og ég vil herða hjarta Faraós, og hann skal veita þeim eftirför. Ég vil sýna dýrð mína á Faraó og öllum liðsafla hans, svo að Egyptar skulu vita, að ég er Drottinn.' Og þeir gjörðu svo. 14.5 Þegar Egyptalandskonungi var sagt, að fólkið væri flúið, varð hugur Faraós og þjóna hans mótsnúinn fólkinu og þeir sögðu: 'Hví höfum vér gjört þetta, að sleppa Ísrael úr þjónustu vorri?' 14.6 Lét hann þá beita fyrir vagna sína og tók menn sína með sér. 14.7 Og hann tók sex hundruð valda vagna og alla vagna Egyptalands og setti kappa á hvern þeirra. 14.8 En Drottinn herti hjarta Faraós, Egyptalandskonungs, svo að hann veitti Ísraelsmönnum eftirför, því að Ísraelsmenn höfðu farið burt með upplyftri hendi. 14.9 Egyptar sóttu nú eftir þeim, allir hestar og vagnar Faraós, riddarar hans og her hans, og náðu þeim þar sem þeir höfðu sett búðir sínar við hafið, hjá Pí-Hakírót, gegnt Baal Sefón. 14.10 Þegar Faraó nálgaðist, hófu Ísraelsmenn upp augu sín, og sjá, Egyptar sóttu eftir þeim. Urðu Ísraelsmenn þá mjög óttaslegnir og hrópuðu til Drottins. 14.11 Og þeir sögðu við Móse: 'Tókst þú oss burt til þess að deyja hér á eyðimörk, af því að engar væru grafir til í Egyptalandi? Hví hefir þú gjört oss þetta, að fara með oss burt af Egyptalandi? 14.12 Kemur nú ekki fram það, sem vér sögðum við þig á Egyptalandi: ,Lát oss vera kyrra, og viljum vér þjóna Egyptum, því að betra er fyrir oss að þjóna Egyptum en að deyja í eyðimörkinni`?' 14.13 Þá sagði Móse við lýðinn: 'Óttist ekki. Standið stöðugir, og munuð þér sjá hjálpræði Drottins, er hann í dag mun láta fram við yður koma, því að eins og þér sjáið Egyptana í dag, munuð þér aldrei nokkurn tíma framar sjá þá. 14.14 Drottinn mun berjast fyrir yður, en þér skuluð vera kyrrir.' 14.15 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Hví hrópar þú til mín? Seg Ísraelsmönnum, að þeir haldi áfram, 14.16 en lyft þú upp staf þínum og rétt út hönd þína yfir hafið og kljúf það, og Ísraelsmenn skulu ganga á þurru mitt í gegnum hafið. 14.17 Sjá, ég mun herða hjörtu Egypta, svo að þeir skulu sækja á eftir þeim, og ég vil sýna dýrð mína á Faraó og öllum liðsafla hans, á vögnum hans og riddurum. 14.18 Og Egyptar skulu vita, að ég er Drottinn, þá er ég sýni dýrð mína á Faraó, á vögnum hans og riddurum.' 14.19 Engill Guðs, sem gekk á undan liði Ísraels, færði sig og gekk aftur fyrir þá, og skýstólpinn, sem var fyrir framan þá, færðist og stóð að baki þeim. 14.20 Og hann bar á milli herbúða Egypta og herbúða Ísraels, og var skýið myrkt annars vegar, en annars vegar lýsti það upp nóttina, og færðust hvorugir nær öðrum alla þá nótt. 14.21 En Móse rétti út hönd sína yfir hafið, og Drottinn lét hvassan austanvind blása alla nóttina og bægja sjónum burt og gjörði hafið að þurrlendi. Og vötnin klofnuðu, 14.22 og Ísraelsmenn gengu á þurru mitt í gegnum hafið, og vötnin stóðu eins og veggur til hægri og vinstri handar þeim. 14.23 Og Egyptar veittu þeim eftirför og sóttu eftir þeim mitt út í hafið, allir hestar Faraós, vagnar hans og riddarar. 14.24 En á morgunvökunni leit Drottinn yfir lið Egypta í eld- og skýstólpanum, og sló felmti í lið Egypta, 14.25 og hann lét vagna þeirra ganga af hjólunum, svo að þeim sóttist leiðin erfiðlega. Þá sögðu Egyptar: 'Flýjum fyrir Ísrael, því að Drottinn berst með þeim móti Egyptum.' 14.26 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Rétt út hönd þína yfir hafið, og skulu þá vötnin aftur falla yfir Egypta, yfir vagna þeirra og riddara.' 14.27 Móse rétti hönd sína út yfir hafið, og sjórinn féll aftur undir morguninn í farveg sinn, en Egyptar flýðu beint í móti aðfallinu, og keyrði Drottinn þá mitt í hafið. 14.28 Og vötnin féllu að og huldu vagnana og riddarana, allan liðsafla Faraós, sem eftir þeim hafði farið út í hafið. Ekki nokkur einn þeirra komst lífs af. 14.29 En Ísraelsmenn gengu á þurru mitt í gegnum hafið, og vötnin stóðu eins og veggur til hægri og vinstri handar þeim. 14.30 Þannig frelsaði Drottinn Ísrael á þeim degi undan valdi Egypta, og Ísrael sá Egypta liggja dauða á sjávarströndinni. 14.31 Og er Ísrael sá hið mikla undur, sem Drottinn hafði gjört á Egyptum, þá óttaðist fólkið Drottin, og þeir trúðu á Drottin og þjón hans Móse.
15.1 Þá söng Móse og Ísraelsmenn Drottni þennan lofsöng: Ég vil lofsyngja Drottni, því að hann hefir sig dýrlegan gjört, hestum og riddurum steypti hann niður í hafið. 15.2 Drottinn er styrkur minn og lofsöngur, og hann varð mitt hjálpræði. Hann er minn Guð, og ég vil vegsama hann, Guð föður míns, og ég vil tigna hann. 15.3 Drottinn er stríðshetja, Drottinn er hans nafn. 15.4 Vögnum Faraós og herliði hans varpaði hann í hafið, og hinir völdustu kappar hans drukknuðu í Hafinu rauða. 15.5 Undirdjúpin huldu þá, þeir sukku niður í sjávardjúpið eins og steinn. 15.6 Þín hægri hönd, Drottinn, hefir sýnt sig dýrlega í krafti, þín hægri hönd, Drottinn, sundurkremur fjandmennina. 15.7 Og með mikilleik þinnar hátignar leggur þú mótstöðumenn þína að velli, þú útsendir þína reiði, og hún eyðir þeim eins og hálmleggjum. 15.8 Og fyrir blæstri nasa þinna hlóðust vötnin upp, rastirnar stóðu eins og veggur, öldurnar stirðnuðu mitt í hafinu. 15.9 Óvinurinn sagði: 'Ég skal elta þá, ég skal ná þeim, ég skal skipta herfangi, ég skal skeyta skapi mínu á þeim, ég skal bregða sverði mínu, hönd mín skal eyða þeim.' 15.10 Þú blést með þínum anda, hafið huldi þá, þeir sukku sem blý niður í hin miklu vötn. 15.11 Hver er sem þú, Drottinn, meðal guðanna? Hver er sem þú, dýrlegur að heilagleik, dásamlegur til lofsöngva, þú sem stórmerkin gjörir? 15.12 Þú útréttir þína hægri hönd, jörðin svalg þá. 15.13 Þú hefir leitt fólkið, sem þú frelsaðir, með miskunn þinni, þú fylgdir því með þínum krafti til þíns heilaga bústaðar. 15.14 Þjóðirnar heyrðu það og urðu felmtsfullar, ótti gagntók íbúa Filisteu. 15.15 Þá skelfdust ættarhöfðingjarnir í Edóm, hræðsla greip forystumennina í Móab, allir íbúar Kanaanlands létu hugfallast. 15.16 Skelfingu og ótta sló yfir þá. Fyrir mikilleik þíns armleggs urðu þeir hljóðir sem steinninn, meðan fólk þitt, Drottinn, fór leiðar sinnar, meðan fólkið, sem þú hefir aflað þér, fór leiðar sinnar. 15.17 Þú leiddir þá inn og gróðursettir þá á fjalli arfleifðar þinnar, þeim stað, sem þú, Drottinn, hefir gjört að þínum bústað, þeim helgidóm, sem þínar hendur, Drottinn, hafa reist. 15.18 Drottinn skal ríkja um aldur og að eilífu! 15.19 Þegar hestar Faraós ásamt vögnum hans og riddurum fóru út í hafið, lét Drottinn vötn sjávarins flæða yfir þá, en Ísraelsmenn gengu á þurru mitt í gegnum hafið. 15.20 Þá tók Mirjam spákona, systir Arons, bumbu í hönd sér, og allar konurnar gengu á eftir henni með bumbum og dansi. 15.21 Og Mirjam söng fyrir þeim: Lofsyngið Drottni, því að hann hefir sig dýrlegan gjört, hestum og riddurum steypti hann í hafið. 15.22 Móse lét Ísrael hefja ferð sína frá Sefhafinu, og héldu þeir til Súr-eyðimerkur. Gengu þeir þrjá daga um eyðimörkina og fundu ekkert vatn. 15.23 Þá komu þeir til Mara, en þeir gátu ekki drukkið vatnið fyrir beiskju, því að það var beiskt. Fyrir því var sá staður kallaður Mara. 15.24 Þá möglaði fólkið móti Móse og sagði: 'Hvað eigum vér að drekka?' 15.25 En hann hrópaði til Drottins, og vísaði Drottinn honum þá á tré nokkurt. Kastaði hann því í vatnið, og varð vatnið þá sætt. Þar setti hann þeim lög og rétt, og þar reyndi hann þá. 15.26 Og hann sagði: 'Ef þú hlýðir gaumgæfilega raust Drottins Guðs þíns og gjörir það, sem rétt er fyrir honum, gefur gaum boðorðum hans og heldur allar skipanir hans, þá vil ég engan þann sjúkdóm á þig leggja, sem ég lagði á Egypta, því ég er Drottinn, græðari þinn.' 15.27 Síðan komu þeir til Elím. Þar voru tólf vatnslindir og sjötíu pálmar, og settu þeir búðir sínar þar við vatnið.
16.1 Því næst héldu þeir af stað frá Elím, og allur söfnuður Ísraelsmanna kom til Sín-eyðimerkur, sem liggur milli Elím og Sínaí, á fimmtánda degi hins annars mánaðar eftir burtför þeirra úr Egyptalandi. 16.2 Þá möglaði allur söfnuður Ísraelsmanna gegn Móse og Aroni í eyðimörkinni. 16.3 Og Ísraelsmenn sögðu við þá: 'Betur að vér hefðum dáið fyrir hendi Drottins í Egyptalandi, er vér sátum við kjötkatlana og átum oss sadda af brauði, því að þið hafið farið með oss út á þessa eyðimörk til þess að láta allan þennan mannfjölda deyja af hungri.' 16.4 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Sjá, ég vil láta rigna brauði af himni handa yður, og skal fólkið fara út og safna hvern dag svo miklu sem þarf þann daginn, svo að ég reyni það, hvort það vill breyta eftir mínu lögmáli eða ekki. 16.5 Og er þeir þá á hinum sjötta degi tilreiða það, sem þeir koma heim með, skal það vera tvöfalt við það, sem þeir annars safna daglega.' 16.6 Þá sögðu Móse og Aron við alla Ísraelsmenn: 'Í kveld skuluð þér viðurkenna, að Drottinn hefir leitt yður út af Egyptalandi. 16.7 Og á morgun skuluð þér sjá dýrð Drottins, með því að hann hefir heyrt möglanir yðar gegn Drottni. Því að hvað erum við, að þér möglið gegn okkur?' 16.8 Og Móse sagði: 'Þetta verður, þegar Drottinn gefur yður að kveldi kjöt að eta og brauð til saðnings að morgni, því að Drottinn hefir heyrt möglanir yðar, sem þér beinið gegn honum. Því að hvað erum við? Þér möglið ekki gegn okkur, heldur gegn Drottni.' 16.9 Og Móse sagði við Aron: 'Seg við allan söfnuð Ísraelsmanna: ,Gangið nær í augsýn Drottins, því að hann hefir heyrt möglanir yðar.'` 16.10 Og er Aron talaði þetta til alls safnaðar Ísraelsmanna, sneru þeir sér í móti eyðimörkinni, og sjá, dýrð Drottins birtist í skýinu. 16.11 Drottinn talaði við Móse og sagði: 16.12 'Ég hefi heyrt möglanir Ísraelsmanna. Tala til þeirra og seg: ,Um sólsetur skuluð þér kjöt eta, og að morgni skuluð þér fá saðning yðar af brauði, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn, Guð yðar.'` 16.13 Um kveldið bar svo við, að lynghæns komu og huldu búðirnar, en um morguninn var döggmóða umhverfis búðirnar. 16.14 En er upp létti döggmóðunni, lá eitthvað þunnt, smákornótt yfir eyðimörkinni, þunnt eins og héla á jörðu. 16.15 Þegar Ísraelsmenn sáu þetta, sögðu þeir hver við annan: 'Hvað er þetta?' Því að þeir vissu ekki, hvað það var. Þá sagði Móse við þá: 'Þetta er brauðið, sem Drottinn gefur yður til fæðu. 16.16 En þessi er skipun Drottins: ,Safnið því, eftir því sem hver þarf að eta. Þér skuluð taka einn gómer á mann eftir fólksfjölda yðar, hver handa þeim, sem hann hefir í tjaldi sínu.'` 16.17 Og Ísraelsmenn gjörðu svo, og söfnuðu sumir meira, sumir minna. 16.18 En er þeir mældu það í gómer-máli, hafði sá ekkert afgangs, sem miklu hafði safnað, og þann skorti ekki, sem litlu hafði safnað, heldur hafði hver safnað eftir því sem hann þurfti sér til fæðu. 16.19 Móse sagði við þá: 'Enginn má leifa neinu af því til morguns.' 16.20 En þeir hlýddu ekki Móse, heldur leifðu sumir nokkru af því til morguns. En þá kviknuðu maðkar í því, svo að það fúlnaði, og varð Móse þá reiður þeim. 16.21 Þeir söfnuðu því þá hvern morgun, hver eftir því sem hann þurfti sér til fæðu. En þegar sólin skein heitt, bráðnaði það. 16.22 En á sjötta deginum söfnuðu þeir tvöfalt meira af brauði, tvo gómera á mann. Komu þá allir foringjar lýðsins og sögðu Móse frá. 16.23 En hann sagði við þá: 'Þetta er það, sem Drottinn sagði: ,Á morgun er hvíldardagur, heilagur hvíldardagur Drottins. Bakið það, sem þér viljið baka, og sjóðið það, sem þér viljið sjóða, en allt það, sem af gengur, skuluð þér leggja fyrir og geyma til morguns.'` 16.24 Þeir lögðu það þá fyrir til næsta morguns, eins og Móse bauð, og fúlnaði það ekki né maðkaði. 16.25 Þá sagði Móse: 'Í dag skuluð þér eta það, því að í dag er hvíldardagur Drottins. Í dag finnið þér það ekki á mörkinni. 16.26 Sex daga skuluð þér safna því, en sjöundi dagurinn er hvíldardagur, þá mun ekkert finnast.' 16.27 Og sjöunda daginn gengu nokkrir af fólkinu út til að safna, en fundu ekkert. 16.28 Drottinn sagði við Móse: 'Hversu lengi tregðist þér við að varðveita boðorð mín og lög? 16.29 Lítið á! Vegna þess að Drottinn hefir gefið yður hvíldardaginn, þess vegna gefur hann yður sjötta daginn brauð til tveggja daga. Haldi hver maður kyrru fyrir á sínum stað, enginn fari að heiman á sjöunda deginum.' 16.30 Og fólkið hvíldist á hinum sjöunda degi. 16.31 Ísraelsmenn kölluðu þetta brauð manna. Það líktist kóríanderfræi, var hvítt og á bragðið sem hunangskaka. 16.32 Móse sagði: 'Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið: ,Fyllið einn gómer af því til þess að geyma það handa eftirkomendum yðar, svo að þeir sjái það brauð, sem ég gaf yður að eta í eyðimörkinni, er ég leiddi yður út af Egyptalandi.'` 16.33 Þá sagði Móse við Aron: 'Tak eitt ker og lát í það fullan gómer af manna, og legg það til geymslu frammi fyrir Drottni, svo að það varðveitist handa eftirkomendum yðar.' 16.34 Aron lagði það fyrir framan sáttmálið, til þess að það væri þar geymt, eins og Drottinn hafði boðið Móse. 16.35 Ísraelsmenn átu manna í fjörutíu ár, uns þeir komu í byggt land. Þeir átu manna, uns þeir komu að landamærum Kanaanlands. 16.36 En gómer er tíundi partur af efu.
17.1 Allur söfnuður Ísraelsmanna tók sig nú upp frá Sín-eyðimörk, og fóru þeir í áföngum að boði Drottins og settu herbúðir sínar í Refídím. En þar var ekkert vatn handa fólkinu að drekka. 17.2 Þá þráttaði fólkið við Móse og sagði: 'Gef oss vatn að drekka!' En Móse sagði við þá: 'Hví þráttið þér við mig? Hví freistið þér Drottins?' 17.3 Og fólkið þyrsti þar eftir vatni, og fólkið möglaði gegn Móse og sagði: 'Hví fórstu með oss frá Egyptalandi til þess að láta oss og börn vor og fénað deyja af þorsta?' 17.4 Þá hrópaði Móse til Drottins og sagði: 'Hvað skal ég gjöra við þetta fólk? Það vantar lítið á að þeir grýti mig.' 17.5 En Drottinn sagði við Móse: 'Gakk þú fram fyrir fólkið og tak með þér nokkra af öldungum Ísraels, og tak í hönd þér staf þinn, er þú laust með ána, og gakk svo af stað. 17.6 Sjá, ég mun standa frammi fyrir þér þar á klettinum á Hóreb, en þú skalt ljósta á klettinn, og mun þá vatn spretta af honum, svo að fólkið megi drekka.' 17.7 Og Móse gjörði svo í augsýn öldunga Ísraels. Og hann kallaði þennan stað Massa og Meríba sökum þráttanar Ísraelsmanna, og fyrir því að þeir höfðu freistað Drottins og sagt: 'Hvort mun Drottinn vera meðal vor eður ekki?' 17.8 Þá komu Amalekítar og áttu orustu við Ísraelsmenn í Refídím. 17.9 Þá sagði Móse við Jósúa: 'Vel oss menn og far út og berst við Amalekíta. Á morgun mun ég standa efst uppi á hæðinni og hafa staf Guðs í hendi mér.' 17.10 Jósúa gjörði sem Móse hafði sagt honum og lagði til orustu við Amalekíta, en þeir Móse, Aron og Húr gengu efst upp á hæðina. 17.11 Þá gjörðist það, að alla þá stund, er Móse hélt uppi hendi sinni, veitti Ísraelsmönnum betur, en þegar er hann lét síga höndina, veitti Amalekítum betur. 17.12 En með því að Móse urðu þungar hendurnar, tóku þeir stein og létu undir hann, og settist hann á steininn, en þeir Aron og Húr studdu hendur hans, sinn á hvora hlið, og héldust þannig hendur hans stöðugar allt til sólarlags. 17.13 En Jósúa lagði Amalekíta og lið þeirra að velli með sverðseggjum. 17.14 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Rita þú þetta í bók til minningar og gjör Jósúa það hugfast, því að ég vil vissulega afmá nafn Amalekíta af jörðinni.' 17.15 Og Móse reisti þar altari og nefndi það 'Jahve-nisí'. 17.16 Og hann sagði: 'Með upplyftri hendi að hásæti Drottins sver ég: ,Ófrið mun Drottinn heyja við Amalekíta frá kyni til kyns.'`
18.1 Er Jetró prestur í Midíanslandi, tengdafaðir Móse, heyrði allt það, sem Guð hafði gjört Móse og lýð sínum Ísrael, að Drottinn hafði leitt Ísrael út af Egyptalandi, 18.2 þá tók Jetró, tengdafaðir Móse, Sippóru konu Móse, en hann hafði sent hana aftur, 18.3 og tvo sonu hennar. Hét annar Gersóm, því að hann hafði sagt: 'Gestur er ég í ókunnu landi.' 18.4 Hinn hét Elíeser, því að hann hafði sagt: 'Guð föður míns var mín hjálp, og hann frelsaði mig frá sverði Faraós.' 18.5 En er Jetró, tengdafaðir Móse, kom með sonu hans og konu til hans í eyðimörkina, þar sem hann hafði sett búðir sínar hjá Guðs fjalli, 18.6 þá lét hann segja Móse: 'Ég, Jetró, tengdafaðir þinn, er kominn til þín, og kona þín og báðir synir hennar með henni.' 18.7 Gekk þá Móse út á móti tengdaföður sínum, laut honum og kyssti hann. Og þegar þeir höfðu heilsast, gengu þeir inn í tjaldið. 18.8 Og Móse sagði tengdaföður sínum frá öllu því, sem Drottinn hafði gjört Faraó og Egyptum fyrir sakir Ísraels, frá öllum þeim þrautum, sem þeim höfðu mætt á leiðinni, og hversu Drottinn hafði frelsað þá. 18.9 Og Jetró gladdist af öllum þeim velgjörðum, sem Drottinn hafði auðsýnt Ísrael, þar sem hann hafði frelsað hann undan valdi Egypta. 18.10 Og Jetró sagði: 'Lofaður sé Drottinn fyrir það, að hann frelsaði yður undan valdi Egypta og undan valdi Faraós, fyrir það, að hann frelsaði fólkið undan valdi Egypta. 18.11 Nú veit ég, að Drottinn er öllum guðum meiri, því að hann lét Egyptum hefnast fyrir ofdramb þeirra gegn Ísraelsmönnum.' 18.12 Þá tók Jetró, tengdafaðir Móse, brennifórn og sláturfórnir Guði til handa. Kom þá Aron og allir öldungar Ísraels, til þess að matast með tengdaföður Móse frammi fyrir Guði. 18.13 Daginn eftir settist Móse til að mæla lýðnum lögskil, og stóð fólkið frammi fyrir Móse frá morgni til kvelds. 18.14 En er tengdafaðir Móse sá allt það, sem hann gjörði við fólkið, þá sagði hann: 'Hvað er þetta, sem þú gjörir við fólkið? Hvers vegna situr þú einn saman, en allt fólkið stendur frammi fyrir þér frá morgni til kvelds?' 18.15 Móse svaraði tengdaföður sínum: 'Fólkið kemur til mín til þess að leita Guðs atkvæða. 18.16 Þegar mál gjörist þeirra á milli, koma þeir á fund minn, og ég dæmi milli manna og kunngjöri lög Guðs og boðorð hans.' 18.17 Þá sagði tengdafaðir Móse við hann: 'Eigi er það gott, sem þú gjörir. 18.18 Bæði þreytist þú og eins fólkið, sem hjá þér er, því að þetta starf er þér um megn, þú fær því ekki afkastað einn saman. 18.19 Hlýð nú orðum mínum. Ég vil leggja þér ráð, og mun Guð vera með þér. Þú skalt ganga fram fyrir Guð í nafni fólksins og fram bera málin fyrir Guð. 18.20 Og þú skalt kenna þeim lögin og boðorðin, og sýna þeim þann veg, sem þeir skulu ganga, og þau verk, sem þeir skulu gjöra. 18.21 Og þú skalt velja meðal alls fólksins dugandi menn og guðhrædda, áreiðanlega menn og ósérplægna, og skipa þá foringja yfir lýðinn, suma yfir þúsund, suma yfir hundrað, suma yfir fimmtíu og suma yfir tíu. 18.22 Og þeir skulu mæla lýðnum lögskil á öllum tímum. Öll hin stærri mál skulu þeir láta koma fyrir þig, en sjálfir skulu þeir dæma í öllum smærri málum. Skaltu þannig gjöra þér hægra fyrir, og þeir skulu létta undir með þér. 18.23 Ef þú gjörir þetta, og Guð býður þér það, þá muntu fá risið undir því, og þá mun og allt þetta fólk fara ánægt til heimila sinna.' 18.24 Móse hlýddi orðum tengdaföður síns og gjörði allt, sem hann hafði sagt. 18.25 Og Móse valdi dugandi menn af öllum Ísraels lýð og skipaði þá foringja yfir lýðinn, suma yfir þúsund, suma yfir hundrað, suma yfir fimmtíu, suma yfir tíu. 18.26 Og mæltu þeir lýðnum lögskil á öllum tímum. Vandamálunum skutu þeir til Móse, en sjálfir dæmdu þeir í hinum smærri málum. 18.27 Lét Móse síðan tengdaföður sinn frá sér fara, og hélt hann aftur heim í sitt land.
19.1 Á þriðja mánuði eftir brottför Ísraelsmanna frá Egyptalandi, á þeim degi komu þeir í Sínaí-eyðimörk. 19.2 Þeir tóku sig upp frá Refídím og komu í Sínaí-eyðimörk og settu búðir sínar í eyðimörkinni. Og Ísrael setti búðir sínar þar gegnt fjallinu. 19.3 Gekk Móse þá upp til Guðs, og kallaði Drottinn til hans af fjallinu og sagði: 'Svo skalt þú segja Jakobs niðjum og kunngjöra Ísraelsmönnum: 19.4 ,Þér hafið sjálfir séð, hvað ég hefi gjört Egyptum, og hversu ég hefi borið yður á arnarvængjum og flutt yður til mín. 19.5 Nú ef þér hlýðið minni röddu grandgæfilega og haldið minn sáttmála, þá skuluð þér vera mín eiginleg eign umfram allar þjóðir, því að öll jörðin er mín. 19.6 Og þér skuluð vera mér prestaríki og heilagur lýður.` Þetta eru þau orð, sem þú skalt flytja Ísraelsmönnum.' 19.7 Og Móse fór og stefndi saman öldungum lýðsins og flutti þeim öll þau orð, er Drottinn hafði boðið honum. 19.8 Þá svaraði allur lýðurinn einum munni og sagði: 'Vér viljum gjöra allt það, sem Drottinn býður.' Og Móse flutti Drottni aftur orð fólksins. 19.9 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Sjá, ég vil koma til þín í dimmu skýi, svo að fólkið heyri, er ég tala við þig, og trúi þér ævinlega.' Og Móse flutti Drottni orð lýðsins. 19.10 Þá mælti Drottinn við Móse: 'Far til fólksins og helga þá í dag og á morgun, og lát þá þvo klæði sín, 19.11 og skulu þeir vera búnir á þriðja degi, því að á þriðja degi mun Drottinn ofan stíga á Sínaífjall í augsýn alls lýðsins. 19.12 En þú skalt marka fólkinu svið umhverfis og segja: ,Varist að ganga upp á fjallið eða snerta fjallsræturnar.` Hver sem snertir fjallið, skal vissulega láta líf sitt. 19.13 Engin mannshönd skal snerta hann, heldur skal hann grýttur eða skotinn til bana, hvort það er heldur skepna eða maður, þá skal það ekki lífi halda. Þegar lúðurinn kveður við, skulu þeir stíga upp á fjallið.' 19.14 Þá gekk Móse ofan af fjallinu til fólksins og helgaði fólkið, og þeir þvoðu klæði sín. 19.15 Og hann sagði við fólkið: 'Verið búnir á þriðja degi: Komið ekki nærri nokkurri konu.' 19.16 Á þriðja degi, þegar ljóst var orðið, gengu reiðarþrumur og eldingar, og þykkt ský lá á fjallinu, og heyrðist mjög sterkur lúðurþytur. Skelfdist þá allt fólkið, sem var í búðunum. 19.17 Þá leiddi Móse fólkið út úr búðunum til móts við Guð, og tóku menn sér stöðu undir fjallinu. 19.18 Sínaífjall var allt í einum reyk, fyrir því að Drottinn sté niður á það í eldinum. Mökkurinn stóð upp af því, eins og reykur úr ofni, og allt fjallið lék á reiðiskjálfi. 19.19 Og lúðurþyturinn varð æ sterkari og sterkari. Móse talaði, og Guð svaraði honum hárri röddu. 19.20 Og Drottinn sté niður á Sínaífjall, á fjallstindinn. Og Drottinn kallaði Móse upp á fjallstindinn, og gekk Móse þá upp. 19.21 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Stíg ofan og legg ríkt á við fólkið, að það brjótist ekki upp hingað til Drottins fyrir forvitni sakir og fjöldi af þeim farist. 19.22 Einnig prestarnir, sem annars nálgast Drottin, skulu helga sig, svo að Drottinn gjöri eigi skarð í hóp þeirra.' 19.23 En Móse sagði við Drottin: 'Fólkið getur ekki stigið upp á Sínaífjall, því að þú hefir lagt ríkt á við oss og sagt: ,Set vébönd umhverfis fjallið og helga það.'` 19.24 Og Drottinn sagði við hann: 'Far nú og stíg ofan, og kom því næst upp aftur og Aron með þér. En prestarnir og fólkið má ekki brjótast upp hingað til Drottins, að hann gjöri ekki skarð í hóp þeirra.' 19.25 Móse gekk þá ofan til fólksins og sagði þeim þetta.
20.1 Guð talaði öll þessi orð og sagði: 20.2 'Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. 20.3 Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig. 20.4 Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni. 20.5 Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata, 20.6 en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín. 20.7 Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma. 20.8 Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. 20.9 Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk, 20.10 en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður Drottni Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín eða skepnur þínar, eða nokkur útlendingur, sem hjá þér er innan borgarhliða þinna, 20.11 því að á sex dögum gjörði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í þeim er, og hvíldist sjöunda daginn. Fyrir því blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann. 20.12 Heiðra föður þinn og móður þína, svo að þú verðir langlífur í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér. 20.13 Þú skalt ekki morð fremja. 20.14 Þú skalt ekki drýgja hór. 20.15 Þú skalt ekki stela. 20.16 Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum. 20.17 Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á.' 20.18 Allt fólkið heyrði og sá reiðarþrumurnar og eldingarnar og lúðurþytinn og fjallið rjúkandi. Og er fólkið sá þetta, skelfdust þeir og stóðu langt í burtu. 20.19 Þeir sögðu þá við Móse: 'Tala þú við oss og vér skulum hlýða, en lát ekki Guð tala við oss, að vér deyjum ekki.' 20.20 Og Móse sagði við fólkið: 'Óttist ekki, því að Guð er kominn til þess að reyna yður og til þess að hans ótti sé yður fyrir augum, svo að þér syndgið ekki.' 20.21 Stóð fólkið þá kyrrt langt í burtu, en Móse gekk að dimma skýinu, sem Guð var í. 20.22 Drottinn mælti við Móse: 'Svo skalt þú segja Ísraelsmönnum: ,Þér hafið sjálfir séð, að ég hefi talað til yðar af himnum. 20.23 Þér skuluð eigi til búa aðra guði jafnhliða mér. Guði af silfri eða guði af gulli skuluð þér ekki búa yður til. 20.24 Þú skalt gjöra mér altari af torfi, og á því skalt þú fórna brennifórnum þínum og þakkarfórnum, sauðum þínum og nautum. Alls staðar þar sem ég læt minnast nafns míns, mun ég koma til þín og blessa þig. 20.25 En gjörir þú mér altari af steinum, þá mátt þú ekki hlaða það af höggnu grjóti, því að berir þú meitil á það, þá vanhelgar þú það. 20.26 Og eigi mátt þú þrep upp ganga að altari mínu, svo að blygðun þín opinberist þar ekki.`
21.1 Þetta eru þau lög, sem þú skalt leggja fyrir þá: 21.2 Þegar þú kaupir hebreskan þræl, skal hann þjóna þér sex ár, en á sjöunda ári skal hann frjáls burt fara án endurgjalds. 21.3 Hafi hann komið einhleypur, skal hann og einhleypur burt fara, en hafi hann kvongaður verið, skal kona hans fara burt með honum. 21.4 Hafi húsbóndi hans fengið honum konu og hafi hún fætt honum sonu eða dætur, þá skal konan og börn hennar heyra húsbónda sínum til, en hann skal fara burt einhleypur. 21.5 En ef þrællinn segir skýlaust: 'Ég elska húsbónda minn, konu mína og börn mín, ég vil ekki frjáls í burtu fara,' 21.6 þá skal húsbóndi hans færa hann til Guðs og leiða hann að dyrunum eða að dyrastafnum, og skal húsbóndi hans stinga al í gegnum eyra honum, og skal hann síðan vera þræll hans ævinlega. 21.7 Þegar maður selur dóttur sína að ambátt, skal hún ekki burt fara á sama hátt sem þrælar. 21.8 Geðjist hún eigi húsbónda sínum, sem ætlað hefir hana sjálfum sér, þá skal hann leyfa að hún sé leyst. Ekki skal hann hafa vald til að selja hana útlendum lýð, með því að hann hefir brugðið heiti við hana. 21.9 En ef hann ætlar hana syni sínum, þá skal hann gjöra við hana sem dóttur sína. 21.10 Taki hann sér aðra konu, skal hann ekki minnka af við hana í kosti eða klæðnaði eða sambúð. 21.11 Veiti hann henni ekki þetta þrennt, þá fari hún burt ókeypis, án endurgjalds. 21.12 Hver sem lýstur mann, svo að hann fær bana af, skal líflátinn verða. 21.13 En hafi hann ekki setið um líf hans, en Guð látið hann verða fyrir honum, þá skal ég setja þér griðastað, sem hann megi í flýja. 21.14 En fremji nokkur þá óhæfu að drepa náunga sinn með svikum, þá skalt þú taka hann, jafnvel frá altari mínu, að hann verði líflátinn. 21.15 Hver sem lýstur föður sinn eða móður sína skal líflátinn verða. 21.16 Hver sem stelur manni og selur hann, eða hann finnst í hans vörslu, hann skal líflátinn verða. 21.17 Hver sem bölvar föður sínum eða móður sinni skal líflátinn verða. 21.18 Þegar menn deila og annar lýstur hinn steini eða hnefa, og fær hann ekki bana af, heldur leggst í rekkju, 21.19 ef hann þá kemst á fætur og gengur úti við staf sinn, þá sé sá sýkn saka, er laust. En bæta skal hann honum verkfallið og láta græða hann til fulls. 21.20 Ef maður lýstur þræl sinn eða ambátt með staf, svo að hann deyr undir hendi hans, þá skal hann refsingu sæta. 21.21 En sé hann með lífi einn dag eða tvo, þá skal hann þó eigi refsingu sæta, því að þrællinn er eign hans verði keypt. 21.22 Ef menn fljúgast á og stjaka við þungaðri konu, svo að henni leysist höfn, en verður ekki annað mein af, þá haldi hann bótum uppi, slíkum sem bóndi konunnar kveður á hann, og greiði eftir mati gjörðarmanna. 21.23 En ef skaði hlýst af, þá skalt þú láta líf fyrir líf, 21.24 auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hönd fyrir hönd, fót fyrir fót, 21.25 bruna fyrir bruna, sár fyrir sár, skeinu fyrir skeinu. 21.26 Ef maður slær þræl sinn eða ambátt á auga og skemmir það, þá skal hann gefa honum frelsi sitt fyrir augað, 21.27 og ef hann lýstur tönn úr þræli sínum eða ambátt, þá gefi hann honum frelsi fyrir tönn sína. 21.28 Ef uxi stangar mann eða konu til bana, þá skal grýta uxann og ekki neyta kjötsins, og er eigandi uxans þá sýkn saka. 21.29 En hafi uxinn verið mannýgur áður og eigandinn verið látinn vita það, og geymir hann ekki uxans að heldur, svo að hann verður manni eða konu að bana, þá skal grýta uxann, en eigandi skal og líflátinn verða. 21.30 En gjörist honum að bæta með fé, þá leysi hann líf sitt með svo miklum bótum sem honum verður gjört að greiða. 21.31 Hvort sem uxinn stangar son eða dóttur, skal með hann fara eftir þessu lagaákvæði. 21.32 Ef uxinn stangar þræl manns eða ambátt, þá skal eigandi gjalda húsbónda þeirra þrjátíu sikla silfurs, og skal grýta uxann. 21.33 Ef maður opnar brunn eða grefur brunn og byrgir eigi aftur, og uxi eða asni fellur í hann, 21.34 þá skal eigandi brunnsins bæta. Hann skal greiða eigandanum fé fyrir, en hafa sjálfur hið dauða. 21.35 Ef uxi manns stangar uxa annars manns til bana, þá skulu þeir selja þann uxann, sem lifir, og skipta verði hans, og einnig skulu þeir skipta dauða uxanum. 21.36 En ef það var kunnugt, að uxinn var mannýgur áður, og eigandi gætti hans ekki að heldur, þá bæti hann uxa fyrir uxa, en hafi sjálfur hinn dauða.
22.1 Ef maður stelur nauti eða sauð, og slátrar eða selur, þá gjaldi hann aftur fimm uxa fyrir einn uxa og fjóra sauði fyrir einn sauð. 22.2 Ef þjófur er staðinn að innbroti og lostinn til bana, þá er vegandinn eigi blóðsekur. 22.3 En ef sól er á loft komin, þá er hann blóðsekur. Þjófurinn skal greiða fullar bætur, en eigi hann ekkert til, skal selja hann í bætur fyrir stuldinn. 22.4 Ef hið stolna finnst lifandi hjá honum, hvort heldur það er uxi, asni eða sauður, þá skal hann gjalda tvöfalt aftur. 22.5 Ef maður beitir akur eða víngarð og lætur fénað sinn ganga lausan og hann gengur í akri annars manns, þá skal hann bæta með því, sem best er á akri hans eða í víngarði hans. 22.6 Ef eldur kviknar og kemst í þyrna og brennur kerfaskrúf, kornstangir eða akur, þá bæti sá fullum bótum, er eldinn kveikti. 22.7 Nú selur maður öðrum manni silfur eða nokkra gripi til varðveislu og því er stolið úr húsi hans, og finnist þjófurinn, þá skal hann gjalda tvöfalt aftur. 22.8 En finnist þjófurinn ekki, þá skal leiða húseigandann fram fyrir Guð, og synji hann fyrir með eiði að hann hafi lagt hendur á eign náunga síns. 22.9 Fari einhver óráðvandlega með uxa, asna, sauð, klæðnað eða hvað annað, er tapast hefir og einhver segir um: 'Það er þetta,' þá skal mál þeirra beggja koma fyrir Guð, og sá sem Guð dæmir sekan skal gjalda náunga sínum tvöfalt. 22.10 Ef maður selur öðrum manni asna eða naut eða sauð eða nokkra aðra skepnu til varðveislu, og hún deyr eða lestist eða er tekin svo að enginn sér, 22.11 þá skal til koma eiður við Drottinn þeirra í millum, að hann lagði ekki hönd á eign náunga síns, og skal eigandi þann eið gildan taka, en hinn bæti engu. 22.12 En hafi því verið stolið frá honum, þá gjaldi hann bætur eigandanum. 22.13 Ef það er dýrrifið, þá skal hann koma með það til sannindamerkis. Það sem dýrrifið er skal hann ekki bæta. 22.14 Ef maður hefir fengið einhvern grip léðan hjá öðrum manni og hann lestist eða deyr, sé eigandi ekki viðstaddur, þá bæti hinn fullum bótum, 22.15 en sé eigandi við, bæti hann engu. Ef það var leigugripur, þá eru bæturnar fólgnar í leigunni. 22.16 Ef maður glepur mey, sem ekki er föstnuð manni, og leggst með henni, þá skal hann hana mundi kaupa sér að eiginkonu. 22.17 En ef faðir hennar vill eigi gifta honum hana, þá skal hann greiða svo mikið silfur sem meyjarmundi svarar. 22.18 Eigi skalt þú láta galdrakonu lífi halda. 22.19 Hver sem hefir samlag við fénað skal líflátinn verða. 22.20 Hver sem færir fórnir nokkrum guði, öðrum en Drottni einum, skal bannfærður verða. 22.21 Útlendum manni skalt þú eigi sýna ójöfnuð né veita honum ágang, því að þér voruð sjálfir útlendingar í Egyptalandi. 22.22 Þér skuluð ekki leggjast á ekkjur eða munaðarleysingja. 22.23 Ef þú leggst á þau, og þau hrópa til mín, mun ég vissulega heyra neyðarkvein þeirra. 22.24 Þá skal reiði mín upptendrast, og ég skal drepa yður með sverði, svo að konur yðar verði ekkjur og börn yðar föðurlaus. 22.25 Ef þú lánar peninga fólki mínu, hinum fátæka, sem hjá þér er, þá skalt þú ekki vera við hann eins og okrari. Þér skuluð ekki taka leigu af honum. 22.26 Ef þú tekur yfirhöfn náunga þíns að veði, þá skila þú honum henni aftur áður sól sest, 22.27 því að hún er hið eina, sem hann hefir til að hylja sig með, hún skýlir líkama hans. Hvað á hann annars að hafa yfir sér, er hann leggst til hvíldar? Þegar hann hrópar til mín, skal ég heyra, því að ég er miskunnsamur. 22.28 Þú skalt ekki lastmæla Guði og ekki bölva höfðingja þíns fólks. 22.29 Lát eigi undan dragast að færa fórn af korngnótt þinni og aldinsafa. Frumgetning sona þinna skalt þú mér gefa. 22.30 Hið sama skalt þú gjöra af nautum þínum og sauðum. Sjö daga skal frumburðurinn vera hjá móður sinni, en hinn áttunda dag skalt þú færa mér hann. 22.31 Helgir menn skuluð þér vera fyrir mér. Það kjöt, sem rifið er af dýrum úti á víðavangi, skuluð þér eigi eta, heldur kasta því fyrir hunda.
23.1 Þú skalt ekki fara með lygikvittu. Þú skalt ekki leggja lið þeim, er með rangt mál fer, til að gjörast ljúgvottur. 23.2 Þú skalt ekki fylgja fjöldanum til illra verka. Ef þú átt svör að veita í sök nokkurri, þá skalt þú ekki á eitt leggjast með margnum til þess að halla réttu máli. 23.3 Ekki skalt þú vera hliðdrægur manni í máli hans, þótt fátækur sé. 23.4 Ef þú finnur uxa óvinar þíns eða asna hans, sem villst hefir, þá fær þú honum hann aftur. 23.5 Sjáir þú asna fjandmanns þíns liggja uppgefinn undir byrði sinni, þá skalt þú hverfa frá því að láta hann einan. Vissulega skalt þú hjálpa honum til að spretta af asnanum. 23.6 Þú skalt ekki halla rétti fátæks manns, sem hjá þér er, í máli hans. 23.7 Forðastu lygimál og ver eigi valdur að dauða saklauss manns og réttláts, því að eigi mun ég réttlæta þann, sem með rangt mál fer. 23.8 Eigi skalt þú mútu þiggja, því að mútan gjörir skyggna menn blinda og umhverfir máli hinna réttlátu. 23.9 Eigi skalt þú veita útlendum manni ágang. Þér vitið sjálfir, hvernig útlendum manni er innanbrjósts, því að þér voruð útlendingar í Egyptalandi. 23.10 Sex ár skalt þú sá jörð þína og safna gróða hennar, 23.11 en sjöunda árið skalt þú láta hana liggja ónotaða og hvílast, svo að hinir fátæku meðal fólks þíns megi eta. Það sem þeir leifa, mega villidýrin eta. Eins skalt þú fara með víngarð þinn og olíutré þín. 23.12 Sex daga skalt þú verk þitt vinna, en sjöunda daginn skalt þú halda heilagt, svo að uxi þinn og asni geti hvílt sig, og sonur ambáttar þinnar og útlendingurinn megi endurnærast. 23.13 Allt sem ég hefi sagt yður, skuluð þér halda. Nafn annarra guða megið þér ekki nefna. Eigi skal það heyrast af þínum munni. 23.14 Þrisvar á ári skalt þú mér hátíð halda. 23.15 Þú skalt halda hátíð hinna ósýrðu brauða. Sjö daga skalt þú eta ósýrt brauð, eins og ég hefi boðið þér, á ákveðnum tíma í abíb-mánuði, því að í þeim mánuði fórst þú út af Egyptalandi. Enginn skal koma tómhentur fyrir mitt auglit. 23.16 Þú skalt halda hátíð frumskerunnar, frumgróðans af vinnu þinni, af því sem þú sáðir í akurinn. Þú skalt halda uppskeruhátíðina við árslokin, er þú alhirðir afla þinn af akrinum. 23.17 Þrem sinnum á ári skal allt þitt karlkyn birtast frammi fyrir herra Drottni. 23.18 Eigi skalt þú fram bera blóð fórnar minnar með sýrðu brauði, og feitin af hátíðafórn minni skal ekki liggja til morguns. 23.19 Hið fyrsta, frumgróða jarðar þinnar, skalt þú færa til húss Drottins Guðs þíns. Þú skalt ekki sjóða kið í mjólk móður sinnar. 23.20 Sjá, ég sendi engil á undan þér til að varðveita þig á ferðinni og leiða þig til þess staðar, sem ég hefi fyrirbúið. 23.21 Haf gát á þér fyrir honum og hlýð hans röddu, móðga þú hann ekki, því að hann mun ekki fyrirgefa misgjörðir yðar, því að mitt nafn er í honum. 23.22 En ef þú hlýðir röddu hans rækilega og gjörir allt, sem ég segi, þá skal ég vera óvinur óvina þinna og mótstöðu veita þínum mótstöðumönnum. 23.23 Engill minn skal ganga á undan þér og leiða þig til Amoríta, Hetíta, Peresíta, Kanaaníta, Hevíta og Jebúsíta, og ég skal afmá þá. 23.24 Þú skalt ekki tilbiðja þeirra guði og ekki dýrka þá og ekki fara að háttum þeirra, heldur skalt þú gjöreyða þeim og með öllu sundur brjóta merkissteina þeirra. 23.25 Þér skuluð dýrka Drottin, Guð yðar, og hann mun blessa brauð þitt og vatn, og ég skal bægja sóttum burt frá þér. 23.26 Engin vanbyrja og engin óbyrja skal finnast í landi þínu. Ég skal fylla tal daga þinna. 23.27 Ógn mína mun ég senda á undan þér og gjöra felmtsfullar allar þær þjóðir, sem þú kemur til, og alla óvini þína mun ég flýja láta fyrir þér. 23.28 Ég skal senda skelfingu á undan þér, og hún skal í burt stökkva Hevítum, Kanaanítum og Hetítum úr augsýn þinni. 23.29 Þó vil ég ekki stökkva þeim burt úr augsýn þinni á einu ári, svo að landið fari ekki í auðn og villidýrunum fjölgi ekki þér til meins. 23.30 Smám saman vil ég stökkva þeim burt úr augsýn þinni, uns þér fjölgar og þú eignast landið. 23.31 Og ég vil setja landamerki þín frá Rauðahafinu til Filistahafs, og frá eyðimörkinni til Fljótsins. Ég mun gefa íbúa landsins á vald yðar, og þú skalt stökkva þeim burt undan þér. 23.32 Þú skalt eigi gjöra sáttmála við þá eða þeirra guði. 23.33 Þeir skulu ekki búa í landi þínu, svo að þeir komi þér ekki til þess að syndga gegn mér, því ef þú dýrkar þeirra guði, mun það verða þér að tálsnöru.'
24.1 Guð sagði við Móse: 'Stíg upp til Drottins, þú og Aron, Nadab og Abíhú og sjötíu af öldungum Ísraels, og skuluð þér falla fram álengdar. 24.2 Móse einn skal koma í nálægð Drottins, en hinir skulu ekki nærri koma, og fólkið skal ekki heldur stíga upp með honum.' 24.3 Og Móse kom og sagði fólkinu öll orð Drottins og öll lagaákvæðin. Svaraði þá fólkið einum munni og sagði: 'Vér skulum gjöra allt það, sem Drottinn hefir boðið.' 24.4 Og Móse skrifaði öll orð Drottins. En næsta morgun reis hann árla og reisti altari undir fjallinu og tólf merkissteina eftir tólf kynkvíslum Ísraels. 24.5 Síðan útnefndi hann unga menn af Ísraelsmönnum, og þeir færðu Drottni brennifórnir og slátruðu uxum til þakkarfórna. 24.6 Og Móse tók helming blóðsins og hellti því í fórnarskálarnar, en hinum helming blóðsins stökkti hann á altarið. 24.7 Því næst tók hann sáttmálsbókina og las upp fyrir lýðnum, en þeir sögðu: 'Vér viljum gjöra allt það, sem Drottinn hefir boðið, og hlýðnast því.' 24.8 Þá tók Móse blóðið, stökkti því á fólkið og sagði: 'Þetta er blóð þess sáttmála, sem Drottinn hefir gjört við yður og byggður er á öllum þessum orðum.' 24.9 Þá stigu þeir upp Móse og Aron, Nadab og Abíhú og sjötíu af öldungum Ísraels. 24.10 Og þeir sáu Ísraels Guð, og var undir fótum hans sem pallur væri, gjörður af safírhellum, og skær sem himinninn sjálfur. 24.11 En hann útrétti eigi hönd sína gegn höfðingjum Ísraelsmanna. Og þeir sáu Guð og átu og drukku. 24.12 Drottinn sagði við Móse: 'Stíg upp á fjallið til mín og dvel þar, og skal ég fá þér steintöflur og lögmálið og boðorðin, er ég hefi skrifað, til þess að þú kennir þeim.' 24.13 Þá lagði Móse af stað og Jósúa, þjónn hans, og Móse sté upp á Guðs fjall. 24.14 En við öldungana sagði hann: 'Verið hér kyrrir, þar til er vér komum aftur til yðar, og sjá, Aron og Húr eru hjá yður. Hver sem mál hefir að kæra, snúi sér til þeirra.' 24.15 Móse sté þá upp á fjallið, en skýið huldi fjallið. 24.16 Og dýrð Drottins hvíldi yfir Sínaífjalli, og skýið huldi það í sex daga, en á sjöunda degi kallaði hann á Móse mitt út úr skýinu. 24.17 Og dýrð Drottins var á að líta fyrir Ísraelsmenn sem eyðandi eldur á fjallstindinum. 24.18 En Móse gekk mitt inn í skýið og sté upp á fjallið, og var Móse á fjallinu í fjörutíu daga og fjörutíu nætur.
25.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 25.2 'Seg Ísraelsmönnum að þeir færi mér gjafir. Af hverjum þeim manni skuluð þér gjöf taka mér til handa, sem gefur hana af fúsum huga. 25.3 Og þessar eru gjafir þær, sem þér skuluð af þeim taka: gull, silfur og eir; 25.4 blár purpuri, rauður purpuri, skarlat, baðmull og geitahár; 25.5 rauðlituð hrútskinn, höfrungaskinn og akasíuviður; 25.6 olía til ljósastikunnar, kryddjurtir til ilmsmyrsla og ilmreykelsis; 25.7 sjóamsteinar og steinar til legginga á hökulinn og brjóstskjöldinn. 25.8 Og þeir skulu gjöra mér helgidóm, að ég búi mitt á meðal þeirra. 25.9 Þér skuluð gjöra hann í öllum greinum eftir þeirri fyrirmynd af tjaldbúðinni og eftir þeirri fyrirmynd af öllum áhöldum hennar, sem ég mun sýna þér. 25.10 Þeir skulu gjöra örk af akasíuviði. Hún skal vera hálf þriðja alin á lengd, hálf önnur alin á breidd og hálf önnur alin á hæð. 25.11 Hana skaltu leggja skíru gulli, innan og utan skaltu gullleggja hana, og umhverfis á henni skaltu gjöra brún af gulli. 25.12 Þú skalt steypa til arkarinnar fjóra hringa af gulli og festa þá við fjóra fætur hennar, sína tvo hringana hvorumegin. 25.13 Þú skalt gjöra stengur af akasíuviði og gullleggja þær. 25.14 Síðan skalt þú smeygja stöngunum í hringana á hliðum arkarinnar, svo að bera megi örkina á þeim. 25.15 Skulu stengurnar vera kyrrar í hringum arkarinnar, eigi má taka þær þaðan. 25.16 Og þú skalt leggja niður í örkina sáttmálið, er ég mun fá þér í hendur. 25.17 Þú skalt og gjöra lok af skíru gulli. Skal það vera hálf þriðja alin á lengd og hálf önnur alin á breidd. 25.18 Og þú skalt gjöra tvo kerúba af gulli, af drifnu smíði skalt þú gjöra þá á hvorum tveggja loksendanum. 25.19 Og lát annan kerúbinn vera á öðrum endanum, en hinn á hinum endanum. Þú skalt gjöra kerúbana áfasta við lokið á báðum endum þess. 25.20 En kerúbarnir skulu breiða út vængina uppi yfir, svo að þeir hylji lokið með vængjum sínum, og andlit þeirra snúa hvort í mót öðru; að lokinu skulu andlit kerúbanna snúa. 25.21 Þú skalt setja lokið ofan yfir örkina, og niður í örkina skalt þú leggja sáttmálið, sem ég mun fá þér. 25.22 Og þar vil ég eiga samfundi við þig og birta þér ofan af arkarlokinu millum beggja kerúbanna, sem standa á sáttmálsörkinni, allt það, er ég býð þér að flytja Ísraelsmönnum. 25.23 Þú skalt og gjöra borð af akasíuviði, tvær álnir á lengd, alin á breidd og hálfa aðra alin á hæð. 25.24 Þú skalt leggja það skíru gulli og gjöra umhverfis á því brún af gulli. 25.25 Umhverfis það skalt þú gjöra lista þverhandar breiðan og búa til brún af gulli umhverfis á listanum. 25.26 Þá skalt þú gjöra til borðsins fjóra hringa af gulli og setja hringana í fjögur hornin, sem eru á fjórum fótum borðsins. 25.27 Skulu hringarnir vera fast upp við listann, svo að í þá verði smeygt stöngum til þess að bera borðið. 25.28 Stengurnar skalt þú gjöra af akasíuviði og gullleggja þær. Á þeim skal borðið bera. 25.29 Og þú skalt gjöra föt þau, sem borðinu tilheyra, skálar og bolla, og ker þau, sem til dreypifórnar eru höfð. Af skíru gulli skalt þú gjöra þau. 25.30 En á borðið skalt þú ætíð leggja skoðunarbrauð frammi fyrir mér. 25.31 Enn fremur skalt þú ljósastiku gjöra af skíru gulli. Með drifnu smíði skal ljósastikan gjör, stétt hennar og leggur. Blómbikarar hennar, knappar hennar og blóm, skulu vera samfastir henni. 25.32 Og sex álmur skulu liggja út frá hliðum hennar, þrjár álmur ljósastikunnar út frá annarri hlið hennar og þrjár álmur ljósastikunnar út frá hinni hlið hennar. 25.33 Þrír bikarar, í lögun sem möndlublóm, skulu vera á fyrstu álmunni, knappur og blóm. Þrír bikarar, í lögun sem möndlublóm, skulu vera á næstu álmunni, knappur og blóm. Svo skal vera á öllum sex álmunum, sem út ganga frá ljósastikunni. 25.34 Og á sjálfri ljósastikunni skulu vera fjórir bikarar í lögun sem möndlublóm, knappar hennar og blóm: 25.35 einn knappur undir tveim neðstu álmunum, samfastur ljósastikunni, og annar knappur undir tveim næstu álmunum, samfastur ljósastikunni, og enn knappur undir tveim efstu álmunum, samfastur ljósastikunni, svo undir sex álmunum, er út ganga frá ljósastikunni. 25.36 Knapparnir og álmurnar skulu vera samfastar henni. Allt skal það gjört með drifnu smíði af skíru gulli. 25.37 Þú skalt gjöra lampa hennar sjö og skalt svo upp setja lampana, að þeir beri birtu yfir svæðið fyrir framan hana. 25.38 Ljósasöx og skarpönnur, sem ljósastikunni fylgja, skulu vera af skíru gulli. 25.39 Af einni talentu skíragulls skal hana gjöra með öllum þessum áhöldum. 25.40 Og sjá svo til, að þú gjörir þessa hluti eftir þeirri fyrirmynd, sem þér var sýnd á fjallinu.
26.1 Tjaldbúðina skalt þú gjöra af tíu dúkum úr tvinnaðri baðmull, bláum purpura, rauðum purpura og skarlati. Skalt þú búa til kerúba á þeim með listvefnaði. 26.2 Hver dúkur skal vera tuttugu og átta álna langur og fjögra álna breiður; allir skulu dúkarnir vera jafnir að máli. 26.3 Fimm dúkarnir skulu tengjast saman hver við annan, og eins skal tengja saman hina fimm dúkana sín í milli. 26.4 Og þú skalt búa til lykkjur af bláum purpura á jaðri ysta dúksins í samfellunni, og eins skalt þú gjöra á jaðri ysta dúksins í hinni samfellunni. 26.5 Skalt þú búa til fimmtíu lykkjur á öðrum dúknum, og eins skalt þú gjöra fimmtíu lykkjur á jaðri þess dúksins, sem er í hinni samfellunni, svo að lykkjurnar standist á hver við aðra. 26.6 Og þú skalt gjöra fimmtíu króka af gulli og tengja saman dúkana hvern við annan með krókunum, svo að tjaldbúðin verði ein heild. 26.7 Þú skalt og gjöra dúka af geitahári til að tjalda með yfir búðina, ellefu að tölu. 26.8 Hver dúkur skal vera þrjátíu álna langur og fjögra álna breiður; allir ellefu dúkarnir skulu vera jafnir að máli. 26.9 Og þú skalt tengja saman fimm dúka sér og sex dúka sér, en sjötta dúkinn skalt þú brjóta upp á sig á framanverðu tjaldinu. 26.10 Og þú skalt búa til fimmtíu lykkjur á jaðri ysta dúksins í annarri samfellunni og eins fimmtíu lykkjur á dúkjaðri hinnar samfellunnar. 26.11 Og þú skalt gjöra fimmtíu eirkróka og krækja krókunum í lykkjurnar, og tengja svo saman tjaldið, að ein heild verði. 26.12 En afgangurinn, sem yfir hefir af tjalddúkunum, hálfi dúkurinn, sem er umfram, skal hanga niður af tjaldbúðinni baka til. 26.13 En sú eina alin beggja vegna, sem yfir hefir af tjalddúkunum á lengdina, skal hanga niður af hliðum tjaldbúðarinnar báðumegin til þess að byrgja hana. 26.14 Þú skalt enn gjöra þak yfir tjaldið af rauðlituðum hrútskinnum og enn eitt þak þar utan yfir af höfrungaskinnum. 26.15 Og þú skalt gjöra þiljuborðin í tjaldbúðina af akasíuviði, og standi þau upp og ofan. 26.16 Hvert borð skal vera tíu álnir á lengd og hálf önnur alin á breidd. 26.17 Á hverju borði skulu vera tveir tappar, báðir sameinaðir. Svo skalt þú gjöra á öllum borðum tjaldbúðarinnar. 26.18 Og þannig skalt þú gjöra borðin í tjaldbúðina: Tuttugu borð í suðurhliðina, 26.19 og skalt þú búa til fjörutíu undirstöður af silfri undir tuttugu borðin, tvær undirstöður undir hvert borð, sína fyrir hvorn tappa. 26.20 Og eins í hina hlið tjaldbúðarinnar, norðurhliðina: tuttugu borð 26.21 og fjörutíu undirstöður af silfri, tvær undirstöður undir hvert borð. 26.22 Í afturgafl búðarinnar, gegnt vestri, skalt þú gjöra sex borð. 26.23 Og tvö borð skalt þú gjöra í búðarhornin á afturgaflinum. 26.24 Og þau skulu vera tvöföld að neðan og sömuleiðis halda fullu máli upp úr allt til hins fyrsta hrings. Þannig skal þeim háttað vera hvorum tveggja, á báðum hornum skulu þau vera. 26.25 Borðin skulu vera átta og með undirstöðum af silfri, sextán undirstöðum, tveim undirstöðum undir hverju borði. 26.26 Því næst skalt þú gjöra slár af akasíuviði, fimm á borðin í annarri hlið búðarinnar 26.27 og fimm slár á borðin í hinni hlið búðarinnar og fimm slár á borðin í afturgafli búðarinnar, gegnt vestri. 26.28 Miðsláin skal vera á miðjum borðunum og liggja alla leið, frá einum enda til annars. 26.29 Og borðin skalt þú gullleggja, en hringana á þeim, sem slárnar ganga í, skalt þú gjöra af gulli. Þú skalt og gullleggja slárnar. 26.30 Og þú skalt reisa tjaldbúðina eins og hún á að vera og þér var sýnt á fjallinu. 26.31 Þú skalt og gjöra fortjald af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull. Skal það til búið með listvefnaði og kerúbar á. 26.32 Og þú skalt festa það á fjóra stólpa af akasíuviði, gulli lagða, með nöglum í af gulli, á fjórum undirstöðum af silfri. 26.33 En þú skalt hengja fortjaldið undir krókana og flytja sáttmálsörkina þangað, inn fyrir fortjaldið, og skal fortjaldið skilja milli hins heilaga og hins allrahelgasta hjá yður. 26.34 Þú skalt setja lokið yfir sáttmálsörkina í hinu allrahelgasta. 26.35 En borðið skalt þú setja fyrir utan fortjaldið og ljósastikuna gagnvart borðinu við suðurhliðvegg búðarinnar, en lát borðið vera við norðurhliðvegginn. 26.36 Þú skalt og gjöra dúkbreiðu fyrir dyr tjaldsins af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull, og glitofna. 26.37 Og fyrir dúkbreiðuna skalt þú gjöra stólpa af akasíuviði og gullleggja þá. Naglarnir í þeim skulu vera af gulli, og þú skalt steypa fimm undirstöður af eiri undir þá.
27.1 Þú skalt gjöra altarið af akasíuviði, fimm álna langt og fimm álna breitt _ ferhyrnt skal altarið vera _ og þriggja álna hátt. 27.2 Og þú skalt gjöra hornin á því upp af fjórum hyrningum þess, _ þau horn skulu vera áföst við það _, og þú skalt eirleggja það. 27.3 Þú skalt gjöra ker undir öskuna, eldspaða þá, fórnarskálir, soðkróka og eldpönnur, sem altarinu fylgja. Öll áhöld þess skalt þú gjöra af eiri. 27.4 Þú skalt gjöra um altarið eirgrind, eins og riðið net, og setja fjóra eirhringa á netið, á fjögur horn altarisins. 27.5 Grindina skalt þú festa fyrir neðan umgjörð altarisins undir niðri, svo að netið taki upp á mitt altarið. 27.6 Og þú skalt gjöra stengur til altarisins, stengur af akasíuviði, og eirleggja þær. 27.7 Skal smeygja stöngunum í hringana, og skulu stengurnar vera á báðum hliðum altarisins, þegar það er borið. 27.8 Þú skalt gjöra altarið af borðum, holt að innan. Þeir skulu gjöra það eins og þér var sýnt uppi á fjallinu. 27.9 Þannig skalt þú gjöra forgarð tjaldbúðarinnar: Á suðurhliðinni skulu tjöld vera fyrir forgarðinum úr tvinnaðri baðmull, hundrað álna löng á þá hliðina, 27.10 og tuttugu stólpar með tuttugu undirstöðum af eiri, en naglar stólpanna og hringrandir þeirra skulu vera af silfri. 27.11 Sömuleiðis skulu að norðanverðu langsetis vera hundrað álna löng tjöld og tuttugu stólpar með tuttugu undirstöðum af eiri, en naglar í stólpunum og hringrandir á þeim skulu vera af silfri. 27.12 En á þverhlið forgarðsins að vestanverðu skulu vera fimmtíu álna löng tjöld og tíu stólpar með tíu undirstöðum. 27.13 Þverhlið forgarðsins að austanverðu, mót uppkomu sólar, skal vera fimmtíu álnir, 27.14 og skulu vera fimmtán álna tjöld annars vegar með þremur stólpum og þremur undirstöðum, 27.15 og hins vegar sömuleiðis fimmtán álna tjöld með þremur stólpum og þremur undirstöðum. 27.16 Fyrir hliði forgarðsins skal vera tuttugu álna dúkbreiða af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull, glitofin, með fjórum stólpum og fjórum undirstöðum. 27.17 Allir stólpar umhverfis forgarðinn skulu vera með hringröndum af silfri og silfurnöglum og undirstöðurnar af eiri. 27.18 Lengd forgarðsins skal vera hundrað álnir og breiddin fimmtíu álnir og hæðin fimm álnir, úr tvinnaðri baðmull og undirstöðurnar af eiri. 27.19 Öll áhöld tjaldbúðarinnar, til hverrar þjónustugjörðar í henni sem vera skal, svo og allir hælar, sem henni tilheyra, og allir hælar, sem forgarðinum tilheyra, skulu vera af eiri. 27.20 Þú skalt bjóða Ísraelsmönnum að færa þér tæra olíu af steyttum olífuberjum til ljósastikunnar, svo að lampar verði ávallt settir upp. 27.21 Í samfundatjaldinu fyrir utan fortjaldið, sem er fyrir framan sáttmálið, skal Aron og synir hans tilreiða þá frammi fyrir Drottni, frá kveldi til morguns. Er það ævinleg skyldugreiðsla, er á Ísraelsmönnum hvílir frá kyni til kyns.
28.1 Þú skalt taka Aron bróður þinn og sonu hans með honum til þín úr sveit Ísraelsmanna, að hann þjóni mér í prestsembætti, þá Aron, Nadab og Abíhú, Eleasar og Ítamar, sonu Arons. 28.2 Þú skalt gjöra Aroni bróður þínum helg klæði til vegs og prýði. 28.3 Og þú skalt tala við alla hugvitsmenn, sem ég hefi fyllt hugvitsanda, og skulu þeir gjöra Aroni klæði, svo að hann verði vígður til að þjóna mér í prestsembætti. 28.4 Þessi eru klæðin, sem þeir skulu gjöra: Brjóstskjöldur, hökull, möttull, tiglofinn kyrtill, vefjarhöttur og belti. Þeir skulu gjöra Aroni bróður þínum og sonum hans helg klæði, að hann þjóni mér í prestsembætti, 28.5 og skulu þeir til þess taka gull, bláan purpura, rauðan purpura, skarlat og baðmull. 28.6 Þeir skulu gjöra hökulinn af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull með forkunnarlegu hagvirki. 28.7 Á honum skulu vera tveir axlarhlýrar, festir við báða enda hans, svo að hann verði festur saman. 28.8 Og hökullindinn, sem á honum er til að gyrða hann að sér, skal vera með sömu gerð og áfastur honum: af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull. 28.9 Því næst skalt þú taka tvo sjóamsteina og grafa á þá nöfn Ísraels sona: 28.10 Sex af nöfnum þeirra á annan steininn og nöfn hinna sex, er eftir verða, á hinn steininn, eftir aldri þeirra. 28.11 Þú skalt grafa nöfn Ísraels sona á báða steinana með steinskurði, innsiglisgrefti, og greypa þá inn í umgjarðir af gulli. 28.12 Og þú skalt festa báða steinana á axlarhlýra hökulsins, að þeir séu minnissteinar Ísraelsmönnum, og skal Aron bera nöfn þeirra frammi fyrir Drottni á báðum öxlum sér, til minningar. 28.13 Og þú skalt gjöra umgjarðir af gulli 28.14 og tvær festar af skíru gulli. Þú skalt gjöra þær snúnar sem fléttur, og þú skalt festa þessar fléttuðu festar við umgjarðirnar. 28.15 Þú skalt og búa til dómskjöld, gjörðan með listasmíði. Skalt þú búa hann til með sömu gerð og hökulinn; af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull skalt þú gjöra hann. 28.16 Hann skal vera ferhyrndur og tvöfaldur, spannarlangur og spannarbreiður. 28.17 Þú skalt alsetja hann steinum í fjórum röðum: eina röð af karneól, tópas og smaragði, er það fyrsta röðin; 28.18 önnur röðin: karbunkull, safír og jaspis; 28.19 þriðja röðin: hýasint, agat og ametýst; 28.20 og fjórða röðin: krýsolít, sjóam og ónýx. Þeir skulu greyptir vera í gull, hver á sínum stað. 28.21 Steinarnir skulu vera tólf, eftir nöfnum Ísraels sona, og vera með nöfnum þeirra. Þeir skulu vera grafnir með innsiglisgrefti, og skal sitt nafn vera á hverjum þeirra, eftir þeim tólf kynkvíslum. 28.22 Þú skalt gjöra festar til brjóstskjaldarins, snúnar eins og fléttur, af skíru gulli. 28.23 Þú skalt og gjöra til brjóstskjaldarins tvo hringa af gulli og festa þessa tvo hringa á tvö horn brjóstskjaldarins. 28.24 Síðan skalt þú festa báðar gullflétturnar í þessa tvo hringa á hornum brjóstskjaldarins. 28.25 En tvo enda beggja snúnu festanna skalt þú festa við umgjarðirnar tvær og festa þær við axlarhlýra hökulsins, á hann framanverðan. 28.26 Þá skalt þú enn gjöra tvo hringa af gulli og festa þá í tvö horn brjóstskjaldarins, innanvert í þá brúnina, sem að höklinum veit. 28.27 Og enn skalt þú gjöra tvo hringa af gulli og festa þá á báða axlarhlýra hökulsins, neðan til á hann framanverðan, þar sem hann er tengdur saman, fyrir ofan hökullindann. 28.28 Nú skal knýta brjóstskjöldinn með hringum hans við hökulhringana með snúru af bláum purpura, svo að hann liggi fyrir ofan hökullindann, og mun þá eigi brjóstskjöldurinn losna við hökulinn. 28.29 Aron skal bera nöfn Ísraels sona í dómskildinum á brjósti sér, þegar hann gengur inn í helgidóminn, til stöðugrar minningar frammi fyrir Drottni. 28.30 Og þú skalt leggja inn í dómskjöldinn úrím og túmmím, svo að það sé á brjósti Arons, þegar hann gengur inn fyrir Drottin, og Aron skal ávallt bera dóm Ísraelsmanna á brjósti sér frammi fyrir Drottni. 28.31 Hökulmöttulinn skalt þú allan gjöra af bláum purpura. 28.32 Á honum skal vera hálsmál faldað með ofnum borða, eins og á brynju, svo að ekki rifni út úr. 28.33 Á faldi hans skalt þú búa til granatepli af bláum purpura, rauðum purpura og skarlati, á faldi hans allt í kring, og bjöllur af gulli í milli eplanna allt í kring, 28.34 svo að fyrst komi gullbjalla og granatepli, og þá aftur gullbjalla og granatepli, allt í kring á möttulfaldinum. 28.35 Í honum skal Aron vera, þegar hann embættar, svo að heyra megi til hans, þegar hann gengur inn í helgidóminn fram fyrir Drottin og þá er hann gengur út, svo að hann deyi ekki. 28.36 Þú skalt gjöra spöng af skíru gulli og grafa á hana með innsiglisgrefti: ,Helgaður Drottni.` 28.37 Og þú skalt festa hana á snúru af bláum purpura, og skal hún vera á vefjarhettinum. Framan á vefjarhettinum skal hún vera. 28.38 Og hún skal vera á enni Arons, svo að Aron taki á sig galla þá, er verða kunna á hinum helgu fórnum, er Ísraelsmenn fram bera, hverjar svo sem helgigjafir þeirra eru. Hún skal ætíð vera á enni hans til þess að gjöra þær velþóknanlegar fyrir Drottni. 28.39 Þú skalt tiglvefa kyrtilinn af baðmull og gjöra vefjarhött af baðmull og búa til glitofið belti. 28.40 Þú skalt og gjöra kyrtla handa sonum Arons og búa þeim til belti. Einnig skalt þú gjöra þeim höfuðdúka til vegs og prýði. 28.41 Þú skalt færa Aron bróður þinn og sonu hans með honum í það, og þú skalt smyrja þá og fylla hendur þeirra og helga þá til að þjóna mér í prestsembætti. 28.42 Þú skalt og gjöra þeim línbrækur til að hylja með blygðun þeirra. Þær skulu ná frá mjöðmum niður á læri. 28.43 Í þeim skal Aron og synir hans vera, er þeir ganga inn í samfundatjaldið eða nálgast altarið til að embætta í helgidóminum, að þeir eigi baki sér sekt og deyi. Þetta skal vera ævinlegt lögmál fyrir hann og niðja hans eftir hann.
29.1 Þannig skalt þú að fara, er þú vígir þá til þess að þjóna mér í prestsembætti: Tak eitt ungneyti og tvo hrúta gallalausa, 29.2 ósýrt brauð og ósýrðar kökur olíublandaðar og ósýrð flatbrauð olíusmurð. Skalt þú gjöra þau af fínu hveitimjöli. 29.3 Því næst skalt þú láta þau í eina körfu og koma með þau í körfunni, ásamt uxanum og báðum hrútunum. 29.4 Þú skalt koma með Aron og sonu hans að dyrum samfundatjaldsins og lauga þá í vatni. 29.5 Síðan skalt þú taka klæðin og skrýða Aron kyrtlinum, hökulmöttlinum, höklinum og brjóstskildinum, og gyrða hann hökullindanum. 29.6 Þá skalt þú setja vefjarhöttinn á höfuð honum og festa hið heilaga ennishlað á vefjarhöttinn. 29.7 Þá skalt þú taka smurningarolíuna og hella henni yfir höfuð honum og smyrja hann. 29.8 Síðan skalt þú leiða fram sonu hans og færa þá í kyrtla, 29.9 gyrða þá beltum, bæði Aron og sonu hans, og binda á þá höfuðdúka, að þeir hafi prestdóm eftir ævarandi lögmáli, og þú skalt fylla hönd Arons og hönd sona hans. 29.10 Síðan skalt þú leiða uxann fram fyrir samfundatjaldið, og skulu þeir Aron og synir hans leggja hendur sínar á höfuð uxanum. 29.11 En þú skalt slátra uxanum frammi fyrir Drottni, fyrir dyrum samfundatjaldsins. 29.12 Síðan skalt þú taka nokkuð af blóði uxans og ríða því á altarishornin með fingri þínum, en öllu hinu blóðinu skalt þú hella niður við altarið. 29.13 Og þú skalt taka alla netjuna, er hylur iðrin, stærra lifrarblaðið, bæði nýrun og nýrnamörinn og brenna á altarinu. 29.14 En kjöt uxans, húðina og gorið skalt þú brenna í eldi fyrir utan herbúðirnar. Það er syndafórn. 29.15 Því næst skalt þú taka annan hrútinn, og skulu þeir Aron og synir hans leggja hendur sínar á höfuð hrútsins. 29.16 Síðan skalt þú slátra hrútnum, taka blóð hans og stökkva því allt um kring á altarið. 29.17 En hrútinn skalt þú hluta í sundur, þvo innýfli hans og fætur og leggja það ofan á hin stykkin og höfuðið. 29.18 Skalt þú síðan brenna allan hrútinn á altarinu. Það er brennifórn Drottni til handa, þægilegur ilmur; það er eldfórn Drottni til handa. 29.19 Þessu næst skalt þú taka hinn hrútinn, og skulu þeir Aron og synir hans leggja hendur sínar á höfuð hrútsins. 29.20 En þú skalt slátra hrútnum og taka nokkuð af blóði hans og ríða því á hægri eyrnasnepil Arons og hægri eyrnasnepil sona hans og á þumalfingur hægri handar þeirra og á stórutá hægri fótar þeirra og stökkva blóðinu allt um kring á altarið. 29.21 Þú skalt taka nokkuð af blóði því, sem er á altarinu, og nokkuð af smurningarolíunni og stökkva því á Aron og klæði hans, og á sonu hans og klæði sona hans ásamt honum, og verður hann þá helgaður og klæði hans, og synir hans og klæði sona hans ásamt honum. 29.22 Síðan skalt þú taka feitina af hrútnum: rófuna, netjuna, er hylur iðrin, stærra lifrarblaðið, bæði nýrun og nýrnamörinn og hægra lærið _ því að þetta er vígsluhrútur _, 29.23 einn brauðhleif, eina olíuköku og eitt flatbrauð úr körfunni með ósýrðu brauðunum, sem stendur frammi fyrir Drottni. 29.24 Allt þetta skalt þú leggja í hendur Aroni og í hendur sonum hans og veifa því sem veififórn frammi fyrir Drottni. 29.25 Síðan skalt þú taka það af höndum þeirra og brenna það á altarinu ofan á brennifórninni til þægilegs ilms frammi fyrir Drottni. Það er eldfórn Drottni til handa. 29.26 Því næst skalt þú taka bringuna af vígsluhrút Arons og veifa henni sem veififórn frammi fyrir Drottni. Hún skal koma í þinn hlut. 29.27 Þú skalt helga veififórnarbringuna og lyftifórnarlærið, sem veifað og lyft hefir verið, af vígsluhrútnum, bæði Arons og sona hans. 29.28 Og skal Aron og synir hans fá það hjá Ísraelsmönnum eftir ævarandi lögmáli, því að það er fórnargjöf, og sem fórnargjöf skulu Ísraelsmenn fram bera það af þakkarfórnum sínum, sem fórnargjöf þeirra til Drottins. 29.29 Hin helgu klæði Arons skulu synir hans fá eftir hann, svo að þeir verði smurðir í þeim og hendur þeirra verði fylltar í þeim. 29.30 Sá af sonum hans, sem prestur verður í hans stað, skal sjö daga skrýðast þeim, er hann gengur inn í samfundatjaldið til að embætta í helgidóminum. 29.31 Þú skalt taka vígsluhrútinn og sjóða kjöt hans á helgum stað, 29.32 og skulu þeir Aron og synir hans eta kjöt hrútsins og brauðið, sem er í körfunni, fyrir dyrum samfundatjaldsins. 29.33 Og þeir skulu eta þetta, sem friðþægt var með, er hendur þeirra voru fylltar og þeir helgaðir. En óvígður maður má eigi neyta þess, því að það er helgað. 29.34 En verði nokkrar leifar af vígslukjötinu og brauðinu til næsta morguns, þá skalt þú brenna þær leifar í eldi. Það má ekki eta, því að það er helgað. 29.35 Þú skalt svo gjöra við Aron og sonu hans í alla staði, eins og ég hefi boðið þér. Í sjö daga skalt þú fylla hendur þeirra, 29.36 og á hverjum degi skalt þú slátra uxa í syndafórn til friðþægingar og syndhreinsa altarið, er þú friðþægir fyrir það, og skalt þú þá smyrja það til þess að helga það. 29.37 Í sjö daga skalt þú friðþægja fyrir altarið og helga það, og skal þá altarið verða háheilagt. Hver sá, er snertir altarið, skal vera helgaður. 29.38 Þetta er það, sem þú skalt fórna á altarinu: tvö lömb veturgömul dag hvern stöðuglega. 29.39 Öðru lambinu skalt þú fórna að morgni dags, en hinu lambinu skalt þú fórna um sólsetur. 29.40 Með öðru lambinu skal hafa tíunda part úr efu af fínu mjöli, blönduðu við fjórðung úr hín af olíu úr steyttum olífuberjum, og til dreypifórnar fjórðung úr hín af víni. 29.41 Hinu lambinu skalt þú fórna um sólsetur, og hafa við sömu matfórn og dreypifórn sem um morguninn, til þægilegs ilms, til eldfórnar fyrir Drottin. 29.42 Skal það vera stöðug brennifórn hjá yður frá kyni til kyns fyrir dyrum samfundatjaldsins í augsýn Drottins. Þar vil ég eiga samfundi við yður til að tala þar við þig, 29.43 og þar vil ég eiga samfundi við Ísraelsmenn, og það skal helgast af minni dýrð. 29.44 Ég vil helga samfundatjaldið og altarið; Aron og sonu hans vil ég og helga, að þeir þjóni mér í prestsembætti. 29.45 Ég vil búa á meðal Ísraelsmanna og vera þeirra Guð. 29.46 Og þeir skulu viðurkenna, að ég er Drottinn, Guð þeirra, sem leiddi þá út af Egyptalandi, til þess að ég mætti búa meðal þeirra. Ég er Drottinn, Guð þeirra.
30.1 Þú skalt gjöra altari til að brenna á reykelsi. Það skalt þú búa til af akasíuviði. 30.2 Það skal vera álnarlangt og álnarbreitt, ferhyrnt, tveggja álna hátt og horn þess áföst við það. 30.3 Þú skalt leggja það skíru gulli, bæði að ofan og á hliðunum allt í kring, svo og horn þess, og þú skalt gjöra brún af gulli á því allt í kring. 30.4 Þú skalt gjöra á því tvo hringa af gulli fyrir neðan brúnina báðumegin. Þú skalt gjöra þá á báðum hliðum þess, þeir skulu vera til að smeygja í stöngum til að bera það á. 30.5 Og þú skalt gjöra stengurnar af akasíuviði og gullleggja þær. 30.6 Þú skalt setja það fyrir framan fortjaldið, sem er fyrir sáttmálsörkinni, fyrir framan lokið, sem er yfir sáttmálinu, þar sem ég vil eiga samfundi við þig. 30.7 Og Aron skal brenna ilmreykelsi á því, hann skal brenna því á hverjum morgni, þegar hann tilreiðir lampana. 30.8 Þegar Aron setur upp lampana um sólsetur, skal hann og brenna reykelsi. Það skal vera stöðug reykelsisfórn frammi fyrir Drottni hjá yður frá kyni til kyns. 30.9 Þér skuluð ekki fórna annarlegu reykelsi á því, né heldur brennifórn eða matfórn, og eigi megið þér dreypa dreypifórn á því. 30.10 Aron skal friðþægja fyrir horn þess einu sinni á ári. Með blóðinu úr syndafórn friðþægingarinnar skal hann friðþægja fyrir það einu sinni á ári hjá yður frá kyni til kyns. Það er háheilagt fyrir Drottni.' 30.11 Drottinn talaði við Móse og sagði: 30.12 'Þegar þú tekur manntal meðal Ísraelsmanna við liðskönnun, þá skulu þeir hver um sig greiða Drottni gjald til lausnar lífi sínu, þegar þeir eru kannaðir, svo að engin plága komi yfir þá vegna liðskönnunarinnar. 30.13 Þetta skal hver sá gjalda, sem talinn er í liðskönnun: hálfan sikil eftir helgidómssikli _ tuttugu gerur í sikli, _ hálfan sikil sem fórnargjöf til Drottins. 30.14 Hver sem talinn er í liðskönnun, tvítugur og þaðan af eldri, skal greiða Drottni fórnargjöf. 30.15 Hinn ríki skal eigi greiða meira og hinn fátæki ekki minna en hálfan sikil, er þér færið Drottni fórnargjöf til þess að friðþægja fyrir sálir yðar. 30.16 Og þú skalt taka þetta friðþægingargjald af Ísraelsmönnum og leggja það til þjónustu samfundatjaldsins. Það skal vera Ísraelsmönnum til minningar frammi fyrir Drottni, að það friðþægi fyrir sálir yðar.' 30.17 Drottinn talaði við Móse og sagði: 30.18 'Þú skalt gjöra eirker með eirstétt til þvottar, og þú skalt setja það milli samfundatjaldsins og altarisins og láta vatn í það, 30.19 og skulu þeir Aron og synir hans þvo hendur sínar og fætur úr því. 30.20 Þegar þeir ganga inn í samfundatjaldið, skulu þeir þvo sér úr vatni, svo að þeir deyi ekki; eða þegar þeir ganga að altarinu til þess að embætta, til þess að brenna eldfórn Drottni til handa, 30.21 þá skulu þeir þvo hendur sínar og fætur, svo að þeir deyi ekki. Þetta skal vera þeim ævarandi lögmál fyrir hann og niðja hans frá kyni til kyns.' 30.22 Drottinn talaði við Móse og sagði: 30.23 'Tak þér hinar ágætustu kryddjurtir, fimm hundruð sikla af sjálfrunninni myrru, hálfu minna, eða tvö hundruð og fimmtíu sikla, af ilmandi kanelberki og tvö hundruð og fimmtíu sikla af ilmreyr, 30.24 og fimm hundruð sikla af kanelviði eftir helgidómssikli og eina hín af olífuberjaolíu. 30.25 Af þessu skalt þú gjöra heilaga smurningarolíu, ilmsmyrsl, til búin að hætti smyrslara. Skal það vera heilög smurningarolía. 30.26 Með þessu skalt þú smyrja samfundatjaldið og sáttmálsörkina, 30.27 borðið með öllum áhöldum þess, ljósastikuna með öllum áhöldum hennar og reykelsisaltarið, 30.28 brennifórnaraltarið með öllum áhöldum þess, kerið og stétt þess. 30.29 Og skalt þú vígja þau, svo að þau verði háheilög. Hver sem snertir þau, skal vera helgaður. 30.30 Þú skalt og smyrja Aron og sonu hans og vígja þá til að þjóna mér í prestsembætti. 30.31 Þú skalt tala til Ísraelsmanna og segja: ,Þetta skal vera mér heilög smurningarolía hjá yður frá kyni til kyns.` 30.32 Eigi má dreypa henni á nokkurs manns hörund, og með sömu gerð skuluð þér eigi til búa nein smyrsl. Helg er hún, og helg skal hún yður vera. 30.33 Hver sem býr til sams konar smyrsl eða ber nokkuð af þeim á óvígðan mann, skal upprættur verða úr þjóð sinni.' 30.34 Drottinn sagði við Móse: 'Tak þér ilmjurtir, balsam, marnögl og galbankvoðu, ilmjurtir ásamt hreinu reykelsi. Skal vera jafnt af hverju. 30.35 Og þú skalt búa til úr því ilmreykelsi að hætti smyrslara, salti kryddað, hreint og heilagt. 30.36 Og nokkuð af því skalt þú mylja smátt og leggja það fyrir framan sáttmálið í samfundatjaldinu, þar sem ég vil eiga samfundi við þig. Það skal vera yður háheilagt. 30.37 Reykelsi, eins og þú til býr með þessari gerð, megið þér ekki búa til handa yður sjálfum. Skalt þú meta það sem Drottni helgað. 30.38 Skyldi einhver búa til nokkuð þvílíkt til þess að gæða sér með ilm þess, skal hann upprættur verða úr þjóð sinni.'
31.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 31.2 'Sjá, ég hefi kvatt til Besalel Úríson, Húrssonar, af Júda ættkvísl. 31.3 Ég hefi fyllt hann Guðs anda, bæði vísdómi, skilningi, kunnáttu og hvers konar hagleik, 31.4 til þess að upphugsa listaverk og smíða úr gulli, silfri og eiri 31.5 og skera steina til greypingar og til tréskurðar, til þess að vinna að hvers konar smíði. 31.6 Og sjá, ég hefi fengið honum til aðstoðar Oholíab Akísamaksson af Dans ættkvísl. Og öllum hugvitsmönnum hefi ég gefið vísdóm, að þeir megi gjöra allt það, sem ég hefi fyrir þig lagt: 31.7 samfundatjaldið, sáttmálsörkina, lokið, sem er yfir henni, og öll áhöld tjaldsins, 31.8 borðið og áhöld þess, gull-ljósastikuna og öll áhöld hennar og reykelsisaltarið, 31.9 brennifórnaraltarið og öll áhöld þess, kerið og stétt þess, 31.10 glitklæðin, hin helgu klæði Arons prests og prestsþjónustuklæði sona hans, 31.11 smurningarolíuna og ilmreykelsið til helgidómsins. Allt skulu þeir gjöra eins og ég hefi fyrir þig lagt.' 31.12 Drottinn talaði við Móse og sagði: 31.13 'Tala þú til Ísraelsmanna og seg: ,Sannlega skuluð þér halda mína hvíldardaga, því að það er teikn milli mín og yðar frá kyni til kyns, svo að þér vitið, að ég er Drottinn, sá er yður helgar. 31.14 Haldið því hvíldardaginn, því að hann skal vera yður heilagur. Hver sem vanhelgar hann, skal vissulega líflátinn verða, því að hver sem þá vinnur nokkurt verk, sá maður skal upprættur verða úr þjóð sinni. 31.15 Sex daga skal verk vinna, en sjöundi dagurinn er algjör hvíldardagur, helgaður Drottni. Hver sem verk vinnur á hvíldardegi, skal vissulega líflátinn verða. 31.16 Fyrir því skulu Ísraelsmenn gæta hvíldardagsins, svo að þeir haldi hvíldardaginn heilagan frá kyni til kyns sem ævinlegan sáttmála. 31.17 Ævinlega skal hann vera teikn milli mín og Ísraelsmanna, því að á sex dögum gjörði Drottinn himin og jörð, en sjöunda daginn hvíldist hann og endurnærðist.'` 31.18 Þegar Drottinn hafði lokið viðræðunum við Móse á Sínaífjalli, fékk hann honum tvær sáttmálstöflur, steintöflur, ritaðar með fingri Guðs.
32.1 Er fólkið sá, að seinkaði komu Móse ofan af fjallinu, þyrptist fólkið í kringum Aron og sagði við hann: 'Kom og gjör oss guð, er fyrir oss fari, því að vér vitum ekki, hvað af þessum Móse er orðið, manninum, er leiddi oss burt af Egyptalandi.' 32.2 Og Aron sagði við þá: 'Slítið eyrnagullin úr eyrum kvenna yðar, sona og dætra, og færið mér.' 32.3 Þá sleit allt fólkið eyrnagullin úr eyrum sér og færði Aroni, 32.4 en hann tók við því af þeim, lagaði það með meitlinum og gjörði af því steyptan kálf. Þá sögðu þeir: 'Þetta er guð þinn, Ísrael, sem leiddi þig út af Egyptalandi.' 32.5 Og er Aron sá það, reisti hann altari fyrir framan hann, og Aron lét kalla og segja: 'Á morgun skal vera hátíð Drottins.' 32.6 Næsta morgun risu þeir árla, fórnuðu brennifórnum og færðu þakkarfórnir. Síðan settist fólkið niður til að eta og drekka, og því næst stóðu þeir upp til leika. 32.7 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Far þú og stíg ofan, því að fólk þitt, sem þú leiddir út af Egyptalandi, hefir misgjört. 32.8 Skjótt hafa þeir vikið af þeim vegi, sem ég bauð þeim. Þeir hafa gjört sér steyptan kálf, og þeir hafa fallið fram fyrir honum, fært honum fórnir og sagt: ,Þetta er guð þinn, Ísrael, sem leiddi þig út af Egyptalandi.'` 32.9 Drottinn sagði við Móse: 'Ég sé nú, að þessi lýður er harðsvírað fólk. 32.10 Lát mig nú einan, svo að reiði mín upptendrist í gegn þeim og tortími þeim. Síðan vil ég gjöra þig að mikilli þjóð.' 32.11 En Móse reyndi að blíðka Drottin, Guð sinn, og sagði: 'Hví skal, Drottinn, reiði þín upptendrast í gegn fólki þínu, sem þú leiddir út af Egyptalandi með miklum mætti og voldugri hendi? 32.12 Hví skulu Egyptar segja og kveða svo að orði: ,Til ills leiddi hann þá út, til að deyða þá á fjöllum uppi og afmá þá af jörðinni`? Snú þér frá þinni brennandi reiði og lát þig iðra hins illa gegn fólki þínu. 32.13 Minnst þú þjóna þinna, Abrahams, Ísaks og Ísraels, sem þú hefir svarið við sjálfan þig og heitið: ,Ég vil gjöra niðja yðar marga sem stjörnur himinsins, og allt þetta land, sem ég hefi talað um, vil ég gefa niðjum yðar, og skulu þeir eiga það ævinlega.'` 32.14 Þá iðraðist Drottinn hins illa, er hann hafði hótað að gjöra fólki sínu. 32.15 Síðan sneri Móse á leið og gekk ofan af fjallinu með báðar sáttmálstöflurnar í hendi sér. Voru þær skrifaðar báðumegin, svo á einni hliðinni sem á annarri voru þær skrifaðar. 32.16 En töflurnar voru Guðs verk og letrið Guðs letur, rist á töflurnar. 32.17 En er Jósúa heyrði ópið í fólkinu, sagði hann við Móse: 'Það er heróp í búðunum!' 32.18 En Móse svaraði: 'Það er ekki óp sigrandi manna og ekki óp þeirra, er sigraðir verða; söngóm heyri ég.' 32.19 En er Móse nálgaðist herbúðirnar og sá kálfinn og dansinn, upptendraðist reiði hans, svo að hann þeytti töflunum af hendi og braut þær í sundur fyrir neðan fjallið. 32.20 Síðan tók hann kálfinn, sem þeir höfðu gjört, brenndi hann í eldi og muldi hann í duft og dreifði því á vatnið og lét Ísraelsmenn drekka. 32.21 Þá sagði Móse við Aron: 'Hvað hefir þetta fólk gjört þér, að þú skulir hafa leitt svo stóra synd yfir það?' 32.22 Aron svaraði: 'Reiðst eigi, herra. Þú þekkir lýðinn, að hann er jafnan búinn til ills. 32.23 Þeir sögðu við mig: ,Gjör oss guð, er fyrir oss fari, því vér vitum eigi, hvað af þessum Móse er orðið, manninum, er leiddi oss burt af Egyptalandi.` 32.24 Þá sagði ég við þá: ,Hver sem gull hefir á sér, hann slíti það af sér.` Fengu þeir mér það, og kastaði ég því í eldinn, svo varð af því þessi kálfur.' 32.25 Er Móse sá, að fólkið var orðið taumlaust, því að Aron hafði sleppt við það taumnum, svo að þeir voru hafðir að spotti af mótstöðumönnum sínum, 32.26 þá nam Móse staðar í herbúðahliðinu og mælti: 'Hver sem heyrir Drottni til, komi hingað til mín!' Þá söfnuðust allir levítar til hans. 32.27 Og hann sagði við þá: 'Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: ,Hver einn festi sverð á hlið sér, fari síðan fram og aftur frá einu hliði herbúðanna til annars og drepi hver sinn bróður, vin og frænda.'` 32.28 Og levítarnir gjörðu sem Móse bauð þeim, og féllu af fólkinu á þeim degi þrjár þúsundir manna. 32.29 Og Móse sagði: 'Fyllið hendur yðar í dag, Drottni til handa, því að hver maður var á móti syni sínum og bróður, svo að yður veitist blessun í dag.' 32.30 Morguninn eftir sagði Móse við lýðinn: 'Þér hafið drýgt stóra synd. En nú vil ég fara upp til Drottins; má vera, að ég fái friðþægt fyrir synd yðar.' 32.31 Síðan sneri Móse aftur til Drottins og mælti: 'Æ, þetta fólk hefir drýgt stóra synd og gjört sér guð af gulli. 32.32 Ég bið, fyrirgef þeim nú synd þeirra! Ef ekki, þá bið ég, að þú máir mig af bók þinni, sem þú hefir skrifað.' 32.33 En Drottinn sagði við Móse: 'Hvern þann, er syndgað hefir móti mér, vil ég má af bók minni. 32.34 Far nú og leið fólkið þangað, sem ég hefi sagt þér, sjá, engill minn skal fara fyrir þér. En þegar minn vitjunartími kemur, skal ég vitja synda þeirra á þeim.' 32.35 En Drottinn laust fólkið fyrir það, að þeir höfðu gjört kálfinn, sem Aron gjörði.
33.1 Drottinn sagði við Móse: 'Far nú héðan með fólkið, sem þú leiddir burt af Egyptalandi, til þess lands, sem ég sór Abraham, Ísak og Jakob, er ég sagði: ,Niðjum þínum vil ég gefa það.` 33.2 Ég vil senda engil á undan þér og reka burt Kanaaníta, Amoríta, Hetíta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta, _ 33.3 til þess lands, sem flýtur í mjólk og hunangi, því að ekki vil ég sjálfur fara þangað með þér, af því að þú ert harðsvíraður lýður, að eigi tortími ég þér á leiðinni.' 33.4 En er fólkið heyrði þennan ófögnuð, urðu þeir hryggir, og enginn maður bjó sig í skart. 33.5 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Seg Ísraelsmönnum: ,Þér eruð harðsvíraður lýður. Væri ég eitt augnablik með þér á leiðinni, mundi ég tortíma þér. Legg nú af þér skart þitt, svo að ég viti, hvað ég á að gjöra við þig.'` 33.6 Þá lögðu Ísraelsmenn niður skart sitt undir Hórebfjalli og báru það eigi upp frá því. 33.7 Móse tók tjaldið og reisti það fyrir utan herbúðirnar, spölkorn frá þeim, og kallaði það samfundatjald, og varð hver sá maður, er leita vildi til Drottins, að fara út til samfundatjaldsins, sem var fyrir utan herbúðirnar. 33.8 Og þegar Móse gekk út til tjaldsins, þá stóð upp allur lýðurinn og gekk hver út í sínar tjalddyr og horfði á eftir honum, þar til er hann var kominn inn í tjaldið. 33.9 Er Móse var kominn inn í tjaldið, steig skýstólpinn niður og nam staðar við tjalddyrnar, og Drottinn talaði við Móse. 33.10 Og allur lýðurinn sá skýstólpann standa við tjalddyrnar. Stóð þá allt fólkið upp og féll fram, hver fyrir sínum tjalddyrum. 33.11 En Drottinn talaði við Móse augliti til auglitis, eins og maður talar við mann. Því næst gekk Móse aftur til herbúðanna, en þjónn hans, sveinninn Jósúa Núnsson, vék ekki burt úr tjaldinu. 33.12 Móse sagði við Drottin: 'Sjá, þú segir við mig: ,Far með fólk þetta.` En þú hefir ekki látið mig vita, hvern þú ætlar að senda með mér. Og þó hefir þú sagt: ,Ég þekki þig með nafni, og þú hefir einnig fundið náð í augum mínum.` 33.13 Hafi ég nú fundið náð í augum þínum, þá bið ég: Gjör mér kunna þína vegu, að ég megi þekkja þig, svo að ég finni náð í augum þínum, og gæt þess, að þjóð þessi er þinn lýður.' 33.14 Drottinn sagði: 'Auglit mitt mun fara með og búa þér hvíld.' 33.15 Móse sagði við hann: 'Fari auglit þitt eigi með, þá lát oss eigi fara héðan. 33.16 Af hverju mega menn ella vita, að ég og lýður þinn hafi fundið náð í augum þínum? Hvort eigi af því, að þú farir með oss, og ég og þinn lýður verðum ágættir framar öllum þjóðum, sem á jörðu búa?' 33.17 Þá sagði Drottinn við Móse: 'Einnig þetta, er þú nú mæltir, vil ég gjöra, því að þú hefir fundið náð í augum mínum, og ég þekki þig með nafni.' 33.18 En Móse sagði: 'Lát mig þá sjá dýrð þína!' 33.19 Hann svaraði: 'Ég vil láta allan minn ljóma líða fram hjá þér, og ég vil kalla nafnið Drottinn frammi fyrir þér. Og ég vil líkna þeim, sem ég vil líkna, og miskunna þeim, sem ég vil miskunna.' 33.20 Og enn sagði hann: 'Þú getur eigi séð auglit mitt, því að enginn maður fær séð mig og lífi haldið.' 33.21 Drottinn sagði: 'Sjá, hér er staður hjá mér, og skalt þú standa uppi á berginu. 33.22 En þegar dýrð mín fer fram hjá, vil ég láta þig standa í bergskorunni, og mun ég byrgja þig með hendi minni, uns ég er kominn fram hjá. 33.23 En þegar ég tek hönd mína frá, munt þú sjá á bak mér. En auglit mitt fær enginn maður séð.'
34.1 Drottinn sagði við Móse: 'Högg þér tvær töflur af steini, eins og hinar fyrri voru. Mun ég þá rita á töflurnar þau orð, sem stóðu á hinum fyrri töflunum, er þú braust í sundur. 34.2 Og ver búinn á morgun og stíg árla upp á Sínaífjall og kom þar til mín uppi á fjallstindinum. 34.3 Enginn maður má fara upp þangað með þér, og enginn má heldur láta sjá sig nokkurs staðar á fjallinu. Eigi mega heldur sauðir eða naut vera á beit uppi undir fjallinu.' 34.4 Þá hjó Móse tvær töflur af steini, eins og hinar fyrri. Og hann reis árla næsta morgun og gekk upp á Sínaífjall eins og Drottinn hafði boðið honum og tók í hönd sér báðar steintöflurnar. 34.5 Þá steig Drottinn niður í skýi, en staðnæmdist þar hjá honum og kallaði nafn Drottins. 34.6 Drottinn gekk fram hjá honum og kallaði: 'Drottinn, Drottinn, miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur, 34.7 sem auðsýnir gæsku þúsundum og fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir, en lætur þeirra þó eigi með öllu óhegnt, heldur vitjar misgjörða feðranna á börnum og barnabörnum, já í þriðja og fjórða lið.' 34.8 Móse féll þá skjótlega til jarðar og tilbað. 34.9 Og hann sagði: 'Hafi ég, Drottinn, fundið náð í augum þínum, þá fari Drottinn með oss, því að þetta er harðsvíraður lýður. En fyrirgef oss misgjörðir vorar og syndir, og gjör oss að þinni eign.' 34.10 Drottinn sagði: 'Sjá, ég gjöri sáttmála. Í augsýn alls þíns fólks vil ég gjöra þau undur, að ekki hafa slík verið gjörð í nokkru landi eða hjá nokkurri þjóð, og skal allt fólkið, sem þú ert hjá, sjá verk Drottins, því að furðulegt er það, sem ég mun við þig gjöra. 34.11 Gæt þess, sem ég býð þér í dag: Sjá, ég vil stökkva burt undan þér Amorítum, Kanaanítum, Hetítum, Peresítum, Hevítum og Jebúsítum. 34.12 Varast þú að gjöra nokkurn sáttmála við íbúa lands þess, sem þú kemur til, svo að þeir verði þér ekki að tálsnöru, ef þeir búa á meðal þín, 34.13 heldur skuluð þér rífa niður ölturu þeirra, brjóta í sundur merkissteina þeirra og höggva niður asérur þeirra. 34.14 Þú skalt eigi tilbiðja neinn annan guð, því að Drottinn nefnist vandlætari. Vandlátur Guð er hann. 34.15 Varast að gjöra nokkurn sáttmála við íbúa landsins, því að þeir munu taka fram hjá með guðum sínum og þeir munu færa fórnir guðum sínum, og þér mun verða boðið og þú munt eta af fórnum þeirra. 34.16 Og þú munt taka dætur þeirra handa sonum þínum, og dætur þeirra munu taka fram hjá með guðum sínum og tæla syni þína til að taka fram hjá með guðum þeirra. 34.17 Þú skalt eigi gjöra þér steypta guði. 34.18 Þú skalt halda hátíð hinna ósýrðu brauða. Sjö daga skaltu eta ósýrð brauð, eins og ég hefi boðið þér, á ákveðnum tíma í abíb-mánuði, því að í abíb-mánuði fórst þú út af Egyptalandi. 34.19 Allt það, sem opnar móðurlíf, er mitt, sömuleiðis allur fénaður þinn, sem karlkyns er, frumburðir nauta og sauða. 34.20 En frumburði undan ösnum skaltu leysa með lambi. Leysir þú ekki, skaltu brjóta þá úr hálsliðum. Alla frumburði sona þinna skaltu leysa, og enginn skal tómhentur koma fyrir auglit mitt. 34.21 Sex daga skaltu vinna, en hvílast hinn sjöunda dag, þá skaltu hvílast, hvort heldur er plægingartími eða uppskeru. 34.22 Þú skalt halda viknahátíðina, hátíð frumgróða hveitiuppskerunnar, og uppskeruhátíðina við árslokin. 34.23 Þrem sinnum á ári skal allt þitt karlkyn birtast frammi fyrir Drottni Guði, Guði Ísraels. 34.24 Því að ég mun reka heiðingjana burt frá þér og færa út landamerki þín, og enginn skal áseilast land þitt, þegar þú fer upp til að birtast frammi fyrir Drottni Guði þínum þrem sinnum á ári. 34.25 Þú skalt ekki fram bera blóð fórnar minnar með sýrðu brauði, og páskahátíðarfórnin má ekki liggja til morguns. 34.26 Hið fyrsta, frumgróða jarðar þinnar, skaltu færa til húss Drottins Guðs þíns. Þú skalt ekki sjóða kið í mjólk móður sinnar.' 34.27 Drottinn sagði við Móse: 'Skrifa þú upp þessi orð, því að samkvæmt þessum orðum hefi ég gjört sáttmála við þig og við Ísrael.' 34.28 Og Móse var þar hjá Drottni fjörutíu daga og fjörutíu nætur og át ekki brauð og drakk ekki vatn. Og hann skrifaði á töflurnar orð sáttmálans, tíu boðorðin. 34.29 En er Móse gekk ofan af Sínaífjalli, og hann hafði báðar sáttmálstöflurnar í hendi sér, þegar hann gekk ofan af fjallinu, þá vissi Móse ekki að geislar stóðu af andlitshörundi hans, af því að hann hafði talað við Drottin. 34.30 Og Aron og allir Ísraelsmenn sáu Móse, og sjá: Geislar stóðu af andlitshörundi hans. Þorðu þeir þá ekki að koma nærri honum. 34.31 En Móse kallaði á þá, og sneru þeir þá aftur til hans, Aron og allir leiðtogar safnaðarins, og talaði Móse við þá. 34.32 Eftir það gengu allir Ísraelsmenn til hans, og bauð hann þeim að halda allt það, sem Drottinn hafði við hann talað á Sínaífjalli. 34.33 Er Móse hafði lokið máli sínu við þá, lét hann skýlu fyrir andlit sér. 34.34 En er Móse gekk fram fyrir Drottin til þess að tala við hann, tók hann skýluna frá, þar til er hann gekk út aftur. Því næst gekk hann út og flutti Ísraelsmönnum það, sem honum var boðið. 34.35 Sáu Ísraelsmenn þá andlit Móse, hversu geislar stóðu af andlitshörundi hans. Lét Móse þá skýluna aftur fyrir andlit sér, þar til er hann gekk inn til þess að tala við Guð.
35.1 Móse stefndi saman öllum söfnuði Ísraelsmanna og sagði við þá: 'Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið að gjöra: 35.2 ,Sex daga skal verk vinna, en sjöundi dagurinn skal vera yður helgur hvíldardagur, hátíðarhvíld Drottins. Hver sem verk vinnur á þeim degi, skal líflátinn verða. 35.3 Hvergi skuluð þér kveikja upp eld í híbýlum yðar á hvíldardegi.'` 35.4 Móse talaði til alls safnaðar Ísraelsmanna og mælti: 'Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið: 35.5 ,Færið Drottni gjöf af því, sem þér eigið. Hver sá, er gefa vill af fúsum huga, beri fram gjöf Drottni til handa: gull, silfur og eir; 35.6 bláan purpura, rauðan purpura, skarlat, baðmull og geitahár; 35.7 rauðlituð hrútskinn, höfrungaskinn og akasíuvið; 35.8 olíu til ljósastikunnar, kryddjurtir til smurningarolíu og ilmreykelsis; 35.9 sjóamsteina og steina til legginga á hökulinn og brjóstskjöldinn. 35.10 Og allir hagleiksmenn meðal yðar komi og búi til allt það, sem Drottinn hefir boðið: 35.11 búðina, tjöldin yfir hana, þak hennar, króka, borð, slár, stólpa og undirstöður, 35.12 örkina og stengurnar, er henni fylgja, lokið og fortjaldsdúkbreiðuna, 35.13 borðið og stengurnar, er því fylgja, öll áhöld þess og skoðunarbrauðin, 35.14 ljósastikuna, áhöld þau og lampa, er henni fylgja, og olíu til ljósastikunnar, 35.15 reykelsisaltarið og stengurnar, er því fylgja, smurningarolíuna, ilmreykelsið og dúkbreiðuna fyrir dyrnar, fyrir dyr búðarinnar, 35.16 brennifórnaraltarið og eirgrindina, sem því fylgir, stengur þess og öll áhöld, og kerið með stétt þess, 35.17 tjöld forgarðsins, stólpa hans með undirstöðum og dúkbreiðuna fyrir hlið forgarðsins, 35.18 hæla búðarinnar og hæla forgarðsins og þau stög, sem þar til heyra, 35.19 glitklæðin til embættisgjörðar í helgidóminum, hin helgu klæði Arons prests og prestsþjónustuklæði sona hans.'` 35.20 Því næst gekk allur söfnuður Ísraelsmanna burt frá Móse. 35.21 Komu þá allir, sem gáfu af fúsum huga og með ljúfu geði, og færðu Drottni gjafir til að gjöra af samfundatjaldið og allt það, sem þurfti til þjónustugjörðarinnar í því og til hinna helgu klæða. 35.22 Og þeir komu, bæði menn og konur, allir þeir, sem fúsir voru að gefa, og færðu spangir, eyrnagull, hringa, hálsmen og alls konar gullgripi, svo og hver sá, er færa vildi Drottni gull að fórnargjöf. 35.23 Og hver maður, sem átti í eigu sinni bláan purpura, rauðan purpura, skarlat, baðmull, geitahár, rauðlituð hrútskinn og höfrungaskinn, bar það fram. 35.24 Og hver sem bar fram silfur og eir að fórnargjöf, færði það Drottni að fórnargjöf, og hver sem átti í eigu sinni akasíuvið til hvers þess smíðis, er gjöra skyldi, bar hann fram. 35.25 Og allar hagvirkar konur spunnu með höndum sínum og báru fram spuna sinn: bláan purpura, rauðan purpura, skarlat og baðmull. 35.26 Og allar konur, sem til þess voru fúsar og höfðu kunnáttu til, spunnu geitahár. 35.27 En foringjarnir færðu sjóamsteina og steina til legginga á hökulinn og brjóstskjöldinn, 35.28 og kryddjurtir og olíu til ljósastikunnar og til smurningarolíu og ilmreykelsis. 35.29 Ísraelsmenn færðu Drottni þessar gjafir sjálfviljuglega, hver maður og hver kona, er fúslega vildi láta eitthvað af hendi rakna til alls þess verks, er Drottinn hafði boðið Móse að gjöra. 35.30 Móse sagði við Ísraelsmenn: 'Sjáið, Drottinn hefir kvatt til Besalel Úríson, Húrssonar, af Júda ættkvísl 35.31 og fyllt hann Guðs anda, bæði vísdómi, skilningi, kunnáttu og hvers konar hagleik, 35.32 til þess að upphugsa listaverk og smíða úr gulli, silfri og eiri 35.33 og skera steina til greypingar og til tréskurðar, til þess að vinna að hvers konar hagvirki. 35.34 Hann hefir og gefið honum þá gáfu að kenna öðrum, bæði honum og Oholíab Akísamakssyni af Dans ættkvísl. 35.35 Hann hefir fyllt þá hugviti til alls konar útskurðar, listvefnaðar, glitvefnaðar af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og baðmull, og til dúkvefnaðar, svo að þeir geta framið alls konar iðn og upphugsað listaverk.
36.1 Og skulu þeir Besalel og Oholíab og allir hugvitsmenn, er Drottinn hefir gefið hugvit og kunnáttu, svo að þeir bera skyn á, hvernig gjöra skal allt það verk, er að helgidómsgjörðinni lýtur, gjöra allt eins og Drottinn hefir boðið.' 36.2 Móse lét þá kalla Besalel og Oholíab og alla hugvitsmenn, er Drottinn hafði gefið hugvit, alla þá, sem af fúsum huga gengu að verkinu til að vinna það. 36.3 Tóku þeir við af Móse öllum gjöfunum, sem Ísraelsmenn höfðu fram borið til framkvæmda því verki, er að helgidómsgjörðinni laut. En þeir færðu honum á hverjum morgni eftir sem áður gjafir sjálfviljuglega. 36.4 Þá komu allir hugvitsmennirnir, sem störfuðu að helgidómsgjörðinni í smáu og stóru, hver frá sínu verki, sem þeir voru að vinna, 36.5 og sögðu við Móse á þessa leið: 'Fólkið leggur til miklu meira en þörf gjörist til að vinna það verk, sem Drottinn hefur boðið að gjöra.' 36.6 Þá bauð Móse að láta þetta boð út ganga um herbúðirnar: 'Enginn, hvorki karl né kona, skal framar hafa nokkurn starfa með höndum í því skyni að gefa til helgidómsins.' Lét fólkið þá af að færa gjafir. 36.7 Var þá gnógt verkefni fyrir þá til alls þess, er gjöra þurfti, og jafnvel nokkuð afgangs. 36.8 Gjörðu nú allir hugvitsmenn meðal þeirra, er að verkinu unnu, tjaldbúðina af tíu dúkum. Voru þeir gjörðir af tvinnaðri baðmull, bláum purpura, rauðum purpura og skarlati, og listofnir kerúbar á. 36.9 Hver dúkur var tuttugu og átta álna langur og fjögra álna breiður, og voru allir dúkarnir jafnir að máli. 36.10 Fimm dúkarnir voru tengdir saman hver við annan, og eins voru hinir fimm dúkarnir tengdir saman hver við annan. 36.11 Þá voru gjörðar lykkjur af bláum purpura á jaðri ysta dúksins í samfellunni. Eins var gjört á jaðri ysta dúksins í hinni samfellunni. 36.12 Fimmtíu lykkjur voru gjörðar á öðrum dúknum, og eins voru gjörðar fimmtíu lykkjur á jaðri þess dúksins, sem var í hinni samfellunni, svo að lykkjurnar stóðust á hver við aðra. 36.13 Þá voru gjörðir fimmtíu krókar af gulli og dúkarnir tengdir saman hver við annan með krókunum, svo að tjaldbúðin varð ein heild. 36.14 Því næst voru gjörðir dúkar af geitahári til að tjalda með yfir búðina, ellefu að tölu. 36.15 Hver dúkur var þrjátíu álna langur og fjögra álna breiður, og voru allir ellefu dúkarnir jafnir að máli. 36.16 Þá voru tengdir saman fimm dúkar sér og sex dúkar sér, 36.17 og síðan búnar til fimmtíu lykkjur á jaðri ysta dúksins í annarri samfellunni og eins fimmtíu lykkjur á dúkjaðri hinnar samfellunnar. 36.18 Þá voru gjörðir fimmtíu eirkrókar til að tengja saman tjaldið, svo að það varð ein heild. 36.19 Þá var enn gjört þak yfir tjaldið af rauðlituðum hrútskinnum og enn eitt þak þar utan yfir af höfrungaskinnum. 36.20 Því næst voru gjörð þiljuborðin í tjaldbúðina. Voru þau af akasíuviði og stóðu upp og ofan. 36.21 Var hvert borð tíu álnir á lengd og hálf önnur alin á breidd. 36.22 Á hverju borði voru tveir tappar, báðir sameinaðir. Var svo gjört á öllum borðum tjaldbúðarinnar. 36.23 Og þannig voru borðin í tjaldbúðina gjörð: Tuttugu borð í suðurhliðina, 36.24 og fjörutíu undirstöður af silfri voru búnar til undir tuttugu borðin, tvær undirstöður undir hvert borð, sín fyrir hvorn tappa. 36.25 Og í hina hlið tjaldbúðarinnar, norðurhliðina, voru gjörð tuttugu borð 36.26 og fjörutíu undirstöður af silfri, tvær undirstöður undir hvert borð. 36.27 Í afturgafl búðarinnar, gegnt vestri, voru gjörð sex borð. 36.28 Og tvö borð voru gjörð í búðarhornin á afturgaflinum. 36.29 Voru þau tvöföld að neðan og héldu sömuleiðis fullu máli upp úr allt til hins fyrsta hrings. Þannig var þeim háttað hvorum tveggja á báðum hornunum. 36.30 Borðin voru átta og með undirstöðum af silfri, sextán undirstöðum, tveim undirstöðum undir hverju borði. 36.31 Því næst voru gjörðar slár af akasíuviði, fimm á borðin í annarri hlið búðarinnar 36.32 og fimm slár á borðin í hinni hlið búðarinnar og fimm slár á borðin í afturgafli búðarinnar, gegnt vestri. 36.33 Þá var gjörð miðsláin og látin liggja á miðjum borðunum alla leið, frá einum enda til annars. 36.34 Og voru borðin gulllögð, en hringarnir á þeim, sem slárnar gengu í, gjörðir af gulli. Slárnar voru og gulllagðar. 36.35 Þá var fortjaldið gjört af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull. Var það til búið með listvefnaði og kerúbar á. 36.36 Til þess voru gjörðir fjórir stólpar af akasíuviði. Voru þeir gulllagðir og naglarnir í þeim af gulli, en undir stólpana voru steyptar fjórar undirstöður af silfri. 36.37 Dúkbreiða var og gjörð fyrir dyr tjaldsins, af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull, og glitofin, 36.38 svo og fimm stólparnir er henni fylgdu og naglarnir í þeim. Voru stólpahöfuðin gulllögð og hringrandir þeirra, en fimm undirstöðurnar undir þeim voru af eiri.
37.1 Besalel gjörði örkina af akasíuviði. Var hún hálf þriðja alin á lengd, hálf önnur alin á breidd og hálf önnur alin á hæð. 37.2 Og hann lagði hana skíru gulli innan og utan og gjörði umhverfis á henni brún af gulli. 37.3 Og hann steypti til arkarinnar fjóra hringa af gulli til að festa þá við fjóra fætur hennar, sína tvo hringana hvorumegin. 37.4 Þá gjörði hann stengur af akasíuviði og gulllagði þær, 37.5 smeygði síðan stöngunum í hringana á hliðum arkarinnar, svo að bera mátti örkina. 37.6 Þá gjörði hann lok af skíru gulli. Var það hálf þriðja alin á lengd og hálf önnur alin á breidd. 37.7 Og hann gjörði tvo kerúba af gulli, af drifnu smíði gjörði hann þá á hvorum tveggja loksendanum. 37.8 Var annar kerúbinn á öðrum endanum, en hinn á hinum endanum. Gjörði hann kerúbana áfasta við lokið á báðum endum þess. 37.9 En kerúbarnir breiddu út vængina uppi yfir, svo að þeir huldu lokið með vængjum sínum, og andlit þeirra sneru hvort í móti öðru; að lokinu sneru andlit kerúbanna. 37.10 Þá gjörði hann borðið af akasíuviði, tvær álnir á lengd, alin á breidd og hálfa aðra alin á hæð. 37.11 Lagði hann það skíru gulli og gjörði umhverfis á því brún af gulli. 37.12 Umhverfis það gjörði hann lista þverhandar breiðan og bjó til brún af gulli umhverfis á listanum. 37.13 Og hann steypti til borðsins fjóra hringa af gulli og setti hringana í fjögur hornin, sem voru á fjórum fótum borðsins. 37.14 Voru hringarnir fast uppi við listann, svo að í þá yrði smeygt stöngunum til þess að bera borðið. 37.15 Og hann gjörði stengurnar af akasíuviði og gulllagði þær, svo að bera mátti borðið. 37.16 Þá bjó hann til ílátin, er á borðinu skyldu standa, föt þau, er því tilheyrðu, skálar og ker, og bolla þá, er til dreypifórnar eru hafðir, _ af skíru gulli. 37.17 Hann gjörði ljósastikuna af skíru gulli. Með drifnu smíði gjörði hann ljósastikuna, stétt hennar og legg. Blómbikarar hennar, knappar hennar og blóm, voru samfastir henni. 37.18 Og sex álmur lágu út frá hliðum hennar, þrjár álmur ljósastikunnar út frá annarri hlið hennar og þrjár álmur ljósastikunnar út frá hinni hlið hennar. 37.19 Þrír bikarar, í lögun sem möndlublóm, voru á fyrstu álmunni, knappur og blóm. Þrír bikarar, í lögun sem möndlublóm, voru á næstu álmunni, knappur og blóm. Svo var á öllum sex álmunum, sem út gengu frá ljósastikunni. 37.20 Og á sjálfri ljósastikunni voru fjórir bikarar í lögun sem möndlublóm, knappar hennar og blóm: 37.21 einn knappur undir tveim neðstu álmunum, samfastur ljósastikunni, og annar knappur undir tveim næstu álmunum, samfastur ljósastikunni, og enn knappur undir tveim efstu álmunum, samfastur ljósastikunni, svo var undir sex álmunum, er út gengu frá ljósastikunni. 37.22 Knapparnir og álmurnar voru samfastar henni. Allt var það gjört með drifnu smíði af skíru gulli. 37.23 Og hann gjörði lampa hennar sjö og ljósasöx þau og skarpönnur, er henni fylgdu af skíru gulli. 37.24 Af einni talentu skíragulls gjörði hann hana með öllum áhöldum hennar. 37.25 Þá gjörði hann reykelsisaltarið af akasíuviði. Það var álnarlangt og álnarbreitt, ferhyrnt, tveggja álna hátt og horn þess áföst við það. 37.26 Og hann lagði það skíru gulli, bæði að ofan og á hliðunum allt í kring, svo og horn þess, og hann gjörði brún af gulli á því allt í kring. 37.27 Og hann gjörði á því tvo hringa af gulli fyrir neðan brúnina báðumegin, á báðum hliðum þess, til að smeygja í stöngum til að bera það á. 37.28 Og stengurnar gjörði hann af akasíuviði og gulllagði þær. 37.29 Hann bjó og til hina helgu smurningarolíu og hreina ilmreykelsið á smyrslarahátt.
38.1 Þá gjörði hann brennifórnaraltarið af akasíuviði. Það var fimm álna langt og fimm álna breitt, ferhyrnt og þriggja álna hátt. 38.2 Og hann gjörði hornin á því upp af fjórum hyrningum þess, _ þau horn voru áföst við það _, og hann eirlagði það. 38.3 Og hann gjörði öll áhöld, sem altarinu skyldu fylgja: kerin, eldspaðana, fórnarskálirnar, soðkrókana og eldpönnurnar. Öll áhöld þess gjörði hann af eiri. 38.4 Enn fremur gjörði hann um altarið eirgrind, eins og riðið net, fyrir neðan umgjörð þess undir niðri allt upp að miðju þess. 38.5 Og hann steypti fjóra hringa í fjögur horn eirgrindarinnar til að smeygja í stöngunum. 38.6 En stengurnar gjörði hann af akasíuviði og eirlagði þær. 38.7 Og hann smeygði stöngunum í hringana á hliðum altarisins til að bera það á. Hann gjörði það af borðum, holt að innan. 38.8 Því næst gjörði hann eirkerið með eirstétt úr speglum kvenna þeirra, er gegndu þjónustu við dyr samfundatjaldsins. 38.9 Hann gjörði forgarðinn þannig: Á suðurhliðinni voru tjöld fyrir forgarðinum úr tvinnaðri baðmull, hundrað álna löng, 38.10 með tuttugu stólpum og tuttugu undirstöðum af eiri, en naglar í stólpunum og hringrandir á þeim voru af silfri. 38.11 Á norðurhliðinni voru og hundrað álna tjöld með tuttugu stólpum og tuttugu undirstöðum af eiri, en naglarnir í stólpunum og hringrandirnar á þeim voru af silfri. 38.12 Að vestanverðu voru fimmtíu álna löng tjöld með tíu stólpum og tíu undirstöðum, en naglarnir í stólpunum og hringrandirnar á þeim voru af silfri. 38.13 Og að austanverðu, mót uppkomu sólar, voru fimmtíu álna tjöld. 38.14 Voru fimmtán álna tjöld annars vegar með þremur stólpum og þremur undirstöðum, 38.15 og hins vegar, báðumegin við forgarðshliðið, sömuleiðis fimmtán álna tjöld með þremur stólpum og þremur undirstöðum. 38.16 Öll tjöld umhverfis forgarðinn voru úr tvinnaðri baðmull, 38.17 undirstöðurnar undir stólpunum af eiri, naglarnir í stólpunum og hringrandirnar á þeim af silfri og stólpahöfuðin silfurlögð, en á öllum stólpum forgarðsins voru hringrandir af silfri. 38.18 Dúkbreiðan fyrir hliði forgarðsins var glitofin af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull, tuttugu álna löng og fimm álna há eftir dúkbreiddinni, eins og tjöld forgarðsins voru. 38.19 Og þar til heyrðu fjórir stólpar og fjórar undirstöður af eiri, en naglarnir í þeim voru af silfri, stólpahöfuðin silfurlögð og hringrandirnar á þeim af silfri. 38.20 Og allir hælarnir til tjaldbúðarinnar og forgarðsins hringinn í kring voru af eiri. 38.21 Þetta er kostnaðarreikningur tjaldbúðarinnar, sáttmálsbúðarinnar, sem gjörður var að boði Móse með aðstoð levítanna af Ítamar, syni Arons prests. 38.22 En Besalel Úríson, Húrssonar, af Júda ættkvísl gjörði allt það, sem Drottinn hafði boðið Móse, 38.23 og með honum var Oholíab Akísamaksson af Dans ættkvísl; hann var hagur á steingröft, listvefnað og glitvefnað af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og baðmull. 38.24 Allt það gull, sem haft var til smíðisins við alla helgidómsgjörðina og fært var að fórnargjöf, var tuttugu og níu talentur og sjö hundruð og þrjátíu siklar eftir helgidóms siklum. 38.25 Silfrið, sem þeir af söfnuðinum, er í manntali voru, lögðu til, var hundrað talentur og seytján hundruð sjötíu og fimm siklar eftir helgidóms siklum, 38.26 hálfsikill á mann, það er hálfur sikill eftir helgidóms sikli, á hvern þann, er talinn var í liðskönnun, tvítugur og þaðan af eldri, og voru það sex hundruð og þrjú þúsund, fimm hundruð og fimmtíu manns. 38.27 Hundrað talenturnar af silfri voru hafðar til að steypa úr undirstöður til helgidómsins og undirstöður til fortjaldsins, hundrað undirstöður úr hundrað talentum, ein talenta í hverja undirstöðu. 38.28 Af seytján hundruð sjötíu og fimm siklunum gjörði hann naglana í stólpana, silfurlagði stólpahöfuðin og bjó til hringrandir á þá. 38.29 Fórnargjafa-eirinn var sjötíu talentur og tvö þúsund og fjögur hundruð siklar. 38.30 Af honum gjörði hann undirstöðurnar til samfundatjalds-dyranna, eiraltarið, eirgrindina, sem því fylgdi, og öll áhöld altarisins, 38.31 undirstöðurnar til forgarðsins allt í kring, undirstöðurnar til forgarðshliðsins, alla hæla til tjaldbúðarinnar og alla hæla til forgarðsins allt í kring.
39.1 Af bláa purpuranum, rauða purpuranum og skarlatinu gjörðu þeir glitklæði til embættisgjörðar í helgidóminum, og þeir gjörðu hin helgu klæði Arons, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 39.2 Hann bjó til hökulinn af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull. 39.3 Þeir beittu út gullið í þynnur, en hann skar þynnurnar í þræði til að vefa þá inn í bláa purpurann, rauða purpurann, skarlatið og baðmullina með forkunnarlegu hagvirki. 39.4 Þeir gjörðu axlarhlýra á hökulinn, og voru þeir festir við hann. Á báðum endum var hann festur við þá. 39.5 Og hökullindinn, sem á honum var til að gyrða hann að sér, var áfastur honum og með sömu gerð: af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 39.6 Og þeir greyptu sjóamsteina inn í umgjarðir af gulli og grófu á þá nöfn Ísraels sona með innsiglisgrefti. 39.7 Festi hann þá á axlarhlýra hökulsins, svo að þeir væru minnissteinar fyrir Ísraelsmenn, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 39.8 Þá bjó hann til brjóstskjöldinn, gjörðan með listasmíði og með sömu gerð og hökullinn, af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull. 39.9 Var hann ferhyrndur. Gjörðu þeir brjóstskjöldinn tvöfaldan. Var hann spannarlangur og spannarbreiður og tvöfaldur. 39.10 Og þeir settu hann fjórum steinaröðum: Eina röð af karneól, tópas og smaragði, var það fyrsta röðin; 39.11 önnur röðin: karbunkull, safír og jaspis; 39.12 þriðja röðin: hýasint, agat og ametýst; 39.13 og fjórða röðin: krýsólít, sjóam og onýx. Voru þeir greyptir í gullumgjarðir, hver á sínum stað. 39.14 Og steinarnir voru tólf, eftir nöfnum Ísraels sona, og með nöfnum þeirra. Voru þeir grafnir með innsiglisgrefti, og var sitt nafn á hverjum þeirra, eftir þeim tólf kynkvíslum. 39.15 Og þeir gjörðu festar til brjóstskjaldarins, snúnar eins og fléttur, af skíru gulli. 39.16 Þeir gjörðu og tvær umgjarðir af gulli og tvo gullhringa, og þessa tvo hringa festu þeir á tvö horn brjóstskjaldarins; 39.17 festu síðan báðar gullflétturnar í þessa tvo hringa á hornum brjóstskjaldarins. 39.18 En tvo enda beggja snúnu festanna festu þeir við umgjarðirnar tvær og festu þær við axlarhlýra hökulsins, á hann framanverðan. 39.19 Þá gjörðu þeir enn tvo hringa af gulli og festu þá í tvö horn brjóstskjaldarins, innanvert í þá brúnina, sem að höklinum vissi. 39.20 Og enn gjörðu þeir tvo hringa af gulli og festu þá á báða axlarhlýra hökulsins, neðan til á hann framanverðan, þar sem hann var tengdur saman, fyrir ofan hökullindann. 39.21 Og knýttu þeir brjóstskjöldinn með hringum hans við hökulhringana með snúru af bláum purpura, svo að hann lægi fyrir ofan hökullindann og brjóstskjöldurinn losnaði ekki við hökulinn, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 39.22 Síðan gjörði hann hökulmöttulinn. Var hann ofinn og allur af bláum purpura, 39.23 og var hálsmál möttulsins á honum miðjum, eins og á brynju, og hálsmálið faldað með borða, svo að ekki skyldi rifna út úr. 39.24 Á möttulfaldinum gjörðu þeir granatepli af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull. 39.25 Þeir gjörðu og bjöllur af skíru gulli og festu bjöllurnar millum granateplanna á möttulfaldinum allt í kring, á millum granateplanna, 39.26 svo að fyrst kom bjalla og granatepli, og þá aftur bjalla og granatepli, allt í kring á möttulfaldinum, til þjónustugjörðar, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 39.27 Þá gjörðu þeir kyrtlana handa Aroni og sonum hans af baðmull, og voru þeir ofnir. 39.28 Sömuleiðis vefjarhöttinn af baðmull og höfuðdúkana prýðilegu af baðmull og línbrækurnar af tvinnaðri baðmull, 39.29 og beltið af tvinnaðri baðmull, bláum purpura, rauðum purpura og skarlati, glitofið, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 39.30 Síðan gjörðu þeir spöngina, hið helga ennishlað, af skíru gulli og letruðu á hana með innsiglisgrefti: 'Helgaður Drottni.' 39.31 Og þeir festu við hana snúru af bláum purpura til að festa hana á vefjarhöttinn ofanverðan, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 39.32 Þannig var nú lokið öllu verki við búð samfundatjaldsins, og gjörðu Ísraelsmenn allt, sem Drottinn hafði boðið Móse. 39.33 Síðan fluttu þeir búðina til Móse: tjaldið með öllum áhöldum þess, krókana, þiljuborðin, slárnar, stólpana og undirstöðurnar, 39.34 þakið úr rauðlituðu hrútskinnunum, þakið úr höfrungaskinnunum og fortjaldsdúkbreiðuna, 39.35 sáttmálsörkina, stengurnar og arkarlokið, 39.36 borðið með öllum þess áhöldum og skoðunarbrauðin, 39.37 gullljósastikuna með lömpum, lömpunum, er raða skyldi, öll áhöld hennar og olíu ljósastikunnar, 39.38 gullaltarið, smurningarolíuna, ilmreykelsið og dúkbreiðuna fyrir tjalddyrnar, 39.39 eiraltarið ásamt eirgrindinni, stengur þess og öll áhöld, kerið og stétt þess, 39.40 forgarðstjöldin, stólpa hans og undirstöður, dúkbreiðuna fyrir hlið forgarðsins, stög þau og hæla, sem þar til heyra, og öll þau áhöld, sem heyra til þjónustugjörð í búðinni, í samfundatjaldinu, 39.41 glitklæðin til embættisgjörðar í helgidóminum, hin helgu klæði Arons prests og prestsþjónustuklæði sona hans. 39.42 Unnu Ísraelsmenn allt verkið, í alla staði svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 39.43 Og Móse leit yfir allt verkið og sjá, þeir höfðu unnið það, svo sem Drottinn hafði fyrir lagt, svo höfðu þeir gjört það. Og Móse blessaði þá.
40.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 40.2 'Á fyrsta degi hins fyrsta mánaðar skalt þú reisa búð samfundatjaldsins. 40.3 Þar skalt þú setja sáttmálsörkina og byrgja fyrir örkina með fortjaldinu. 40.4 Og þú skalt bera borðið þangað og raða því, sem á því skal vera. Síðan skalt þú bera þangað ljósastikuna og setja upp lampa hennar. 40.5 Og þú skalt setja hið gullna reykelsisaltari fyrir framan sáttmálsörkina og hengja dúkbreiðuna fyrir búðardyrnar. 40.6 Og þú skalt setja brennifórnaraltarið fyrir framan dyr samfundatjalds-búðarinnar. 40.7 Og kerið skalt þú setja milli samfundatjaldsins og altarisins og láta vatn í það. 40.8 Síðan skalt þú reisa forgarðinn umhverfis og hengja dúkbreiðu fyrir forgarðshliðið. 40.9 Þá skalt þú taka smurningarolíuna og smyrja búðina og allt, sem í henni er, og vígja hana með öllum áhöldum hennar, svo að hún sé heilög. 40.10 Og þú skalt smyrja brennifórnaraltarið og öll áhöld þess, og þú skalt vígja altarið, og skal altarið þá vera háheilagt. 40.11 Og þú skalt smyrja kerið og stétt þess og vígja það. 40.12 Þá skalt þú leiða Aron og sonu hans að dyrum samfundatjaldsins og þvo þá úr vatni. 40.13 Og þú skalt færa Aron í hin helgu klæði, smyrja hann og vígja, að hann þjóni mér í prestsembætti. 40.14 Þú skalt og leiða fram sonu hans og færa þá í kyrtlana, 40.15 og þú skalt smyrja þá, eins og þú smurðir föður þeirra, að þeir þjóni mér í prestsembætti, og skal smurning þeirra veita þeim ævinlegan prestdóm frá kyni til kyns.' 40.16 Og Móse gjörði svo. Eins og Drottinn hafði boðið honum, svo gjörði hann í alla staði. 40.17 Búðin var reist í fyrsta mánuði hins annars árs, fyrsta dag mánaðarins. 40.18 Reisti Móse búðina, lagði undirstöðurnar, sló upp þiljunum, setti í slárnar og reisti upp stólpana. 40.19 Og hann þandi tjaldvoðina yfir búðina og lagði tjaldþökin þar yfir, eins og Drottinn hafði boðið Móse. 40.20 Hann tók sáttmálið og lagði það í örkina, setti stengurnar í örkina og lét arkarlokið yfir örkina. 40.21 Og hann flutti örkina inn í búðina, setti upp fortjaldsdúkbreiðuna og byrgði fyrir sáttmálsörkina, eins og Drottinn hafði boðið Móse. 40.22 Hann setti borðið inn í samfundatjaldið, við norðurhlið búðarinnar, fyrir utan fortjaldið, 40.23 og hann raðaði á það brauðunum frammi fyrir Drottni, eins og Drottinn hafði boðið Móse. 40.24 Hann setti upp ljósastikuna í samfundatjaldinu gegnt borðinu við suðurhlið búðarinnar. 40.25 Og hann setti upp lampana frammi fyrir Drottni, eins og Drottinn hafði boðið Móse. 40.26 Hann setti upp gullaltarið inni í samfundatjaldinu fyrir framan fortjaldið, 40.27 og brenndi á því ilmreykelsi, eins og Drottinn hafði boðið Móse. 40.28 Síðan hengdi hann dúkbreiðuna fyrir dyr búðarinnar, 40.29 setti brennifórnaraltarið við dyr samfundatjalds-búðarinnar og fórnaði á því brennifórn og matfórn, eins og Drottinn hafði boðið Móse. 40.30 Hann setti kerið milli samfundatjaldsins og altarisins og lét vatn í það til þvottar, 40.31 og þvoðu þeir Móse, Aron og synir hans hendur sínar og fætur úr því. 40.32 Hvert sinn er þeir gengu inn í samfundatjaldið og nálguðust altarið, þvoðu þeir sér, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 40.33 Síðan reisti hann forgarðinn umhverfis búðina og altarið og hengdi dúkbreiðuna fyrir forgarðshliðið, og hafði Móse þá aflokið verkinu. 40.34 Þá huldi skýið samfundatjaldið, og dýrð Drottins fyllti búðina, 40.35 og mátti Móse ekki inn ganga í samfundatjaldið, því að skýið lá yfir því og dýrð Drottins fyllti búðina. 40.36 Hvert sinn er skýið hófst upp frá búðinni, lögðu Ísraelsmenn upp, alla þá stund er þeir voru á ferðinni. 40.37 En er skýið hófst ekki upp, lögðu Ísraelsmenn ekki af stað fyrr en þann dag er skýið hófst upp.
3 Móse 1
1.1 Drottinn kallaði á Móse og talaði við hann úr samfundatjaldinu og mælti: 1.2 'Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þegar einhver af yður vill færa Drottni fórn, þá skuluð þér færa fórn yðar af fénaðinum, af nautum og sauðum. 1.3 Sé fórn hans brennifórn af nautum, skal það, er hann fórnar, vera karlkyns og gallalaust. Skal hann leiða það að dyrum samfundatjaldsins, svo að hann verði Drottni velþóknanlegur. 1.4 Því næst skal hann leggja hönd sína á höfuð brennifórnarinnar, að hún afli honum velþóknunar og friðþægi fyrir hann. 1.5 Síðan skal hann slátra ungneytinu frammi fyrir Drottni. En synir Arons, prestarnir, skulu fram bera blóðið, og skulu þeir stökkva blóðinu allt í kring utan á altarið, sem stendur við dyr samfundatjaldsins. 1.6 Þá flái hann brennifórnina og hluti hana sundur. 1.7 En synir Arons, prestarnir, skulu gjöra eld á altarinu og leggja við á eldinn. 1.8 Og synir Arons, prestarnir, skulu raða stykkjunum, höfðinu og mörnum ofan á viðinn, sem lagður er á eldinn, sem er á altarinu. 1.9 En innýflin og fæturna skal þvo í vatni, og skal presturinn brenna það allt á altarinu til brennifórnar, eldfórnar þægilegs ilms fyrir Drottin. 1.10 Sé fórnargjöf sú, er hann fram ber til brennifórnar, af sauðfénaði, af sauðkindum eða geitum, þá skal það, er hann fórnar, vera karlkyns og gallalaust. 1.11 Og skal hann slátra því við altarið norðanvert frammi fyrir Drottni, en synir Arons, prestarnir, skulu stökkva blóðinu úr því utan á altarið allt í kring. 1.12 Síðan skal hann hluta það sundur, og skal presturinn raða stykkjunum ásamt höfðinu og mörnum ofan á viðinn, sem lagður er á eldinn, sem er á altarinu. 1.13 En innýflin og fæturna skal þvo í vatni, og skal presturinn fram bera það allt og brenna á altarinu. Er það brennifórn, eldfórn þægilegs ilms fyrir Drottin. 1.14 Vilji hann færa Drottni brennifórn af fuglum, þá taki hann til fórnar sinnar turtildúfur eða ungar dúfur. 1.15 Skal presturinn bera fuglinn að altarinu og klípa af höfuðið og brenna það á altarinu, en blóðið skal kreista út á altarishliðina. 1.16 Og hann skal taka sarpinn með fiðrinu á og kasta honum við austurhlið altarisins, þar sem askan er látin. 1.17 Og hann skal rífa vængina frá, en þó eigi slíta þá af, og skal presturinn brenna hann á altarinu, ofan á viðnum, sem lagður er á eldinn. Er það brennifórn, eldfórn þægilegs ilms fyrir Drottin.
3 Móse 2
2.1 Þegar einhver vill færa Drottni matfórn, þá skal fórn hans vera fínt mjöl, og skal hann hella yfir það olíu og leggja reykelsiskvoðu ofan á það. 2.2 Og hann skal færa það sonum Arons, prestunum, en presturinn skal taka af því hnefafylli sína, af fína mjölinu og af olíunni, ásamt allri reykelsiskvoðunni, og brenna það á altarinu sem ilmhluta fórnarinnar, sem eldfórn þægilegs ilms fyrir Drottin. 2.3 En það, sem af gengur matfórninni, fái Aron og synir hans sem háhelgan hluta af eldfórnum Drottins. 2.4 Viljir þú færa matfórn af því, sem í ofni er bakað, þá séu það ósýrðar kökur af fínu mjöli olíublandaðar og ósýrð flatbrauð olíusmurð. 2.5 En sé fórnargjöf þín matfórn á pönnu, þá skal hún vera ósýrt brauð af fínu mjöli olíublandað. 2.6 Þú skalt brjóta það í mola og hella yfir það olíu; þá er það matfórn. 2.7 En sé fórn þín matfórn tilreidd í suðupönnu, þá skal hún gjörð af fínu mjöli með olíu. 2.8 Og þú skalt færa Drottni matfórnina, sem af þessu er tilreidd. Skal færa hana prestinum, og hann skal fram bera hana að altarinu. 2.9 En presturinn skal af matfórninni taka ilmhlutann og brenna á altarinu til eldfórnar þægilegs ilms fyrir Drottin. 2.10 En það, sem af gengur matfórninni, fái Aron og synir hans sem háhelgan hluta af eldfórnum Drottins. 2.11 Engin matfórn, sem þér færið Drottni, skal gjörð af sýrðu deigi, því að ekkert súrdeig eða hunang megið þér brenna sem eldfórn Drottni til handa. 2.12 Í frumgróðafórn megið þér færa það Drottni, en upp að altarinu má eigi bera það til þægilegs ilms. 2.13 Allar matfórnir þínar skalt þú salti salta, og þú skalt eigi láta vanta í matfórnir þínar salt þess sáttmála, er Guð þinn hefir við þig gjört. Með öllum fórnum þínum skalt þú salt fram bera. 2.14 Færir þú Drottni frumgróðamatfórn, þá skalt þú fram bera í matfórn af frumgróða þínum öx, bökuð við eld, mulin korn úr nýslegnum kornstöngum. 2.15 Og þú skalt hella olíu yfir hana og leggja reykelsiskvoðu ofan á; þá er það matfórn. 2.16 Og presturinn skal brenna ilmhluta hennar, nokkuð af hinu mulda korni og olíunni, ásamt allri reykelsiskvoðunni, til eldfórnar fyrir Drottin.
3 Móse 3
3.1 Sé fórn hans heillafórn og færi hann hana af nautpeningi, hvort heldur er karlkyns eða kvenkyns, þá sé það gallalaust, er hann fram ber fyrir Drottin. 3.2 Því næst skal hann leggja hönd sína á höfuð fórnarinnar og slátra henni fyrir dyrum samfundatjaldsins, en synir Arons, prestarnir, skulu stökkva blóðinu allt í kring utan á altarið. 3.3 Skal hann síðan færa Drottni eldfórn af heillafórninni: netjuna, er hylur iðrin, og allan innýflamörinn, 3.4 bæði nýrun og nýrnamörinn, sem liggur innan á mölunum, og stærra lifrarblaðið. Við nýrun skal hann taka það frá. 3.5 Og synir Arons skulu brenna það á altarinu ofan á brennifórninni, sem liggur ofan á viðinum, sem lagður er á eldinn, til eldfórnar þægilegs ilms fyrir Drottin. 3.6 Sé fórnargjöfin, sem hann færir Drottni að heillafórn, af sauðfénaði, þá sé það, er hann fram ber, gallalaust, hvort heldur það er karlkyns eða kvenkyns. 3.7 Færi hann sauðkind að fórnargjöf, þá færi hann hana fram fyrir Drottin. 3.8 Því næst skal hann leggja hönd sína á höfuð fórnarinnar og slátra henni fyrir framan samfundatjaldið, en synir Arons skulu stökkva blóðinu allt í kring utan á altarið. 3.9 Skal hann síðan af heillafórninni færa Drottni í eldfórn mörinn úr henni: rófuna alla _ skal taka hana af fast við rófubeinið, _ netjuna, er hylur iðrin, og allan innýflamörinn, 3.10 bæði nýrun og nýrnamörinn, sem er innan á mölunum, og stærra lifrarblaðið. Við nýrun skal hann taka það frá. 3.11 Og presturinn skal brenna þetta á altarinu sem eldfórnarmat Drottni til handa. 3.12 Sé fórnargjöf hans geitsauður, þá skal hann færa hann fram fyrir Drottin, 3.13 leggja hönd sína á höfuð hans og slátra honum fyrir framan samfundatjaldið, en synir Arons skulu stökkva blóðinu allt í kring utan á altarið. 3.14 Því næst skal hann fram bera af honum sem fórnargjöf, sem eldfórn Drottni til handa, netjuna, er hylur iðrin, og allan innýflamörinn, 3.15 bæði nýrun og nýrnamörinn, sem er innan á mölunum, og stærra lifrarblaðið. Við nýrun skal hann taka það frá. 3.16 Og presturinn skal brenna það á altarinu sem eldfórnarmat þægilegs ilms; allur mör heyrir Drottni til. 3.17 Skal það vera ævinlegt lögmál hjá yður frá kyni til kyns í öllum bústöðum yðar: Þér skuluð engan mör og ekkert blóð eta.'
3 Móse 4
4.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 4.2 'Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Nú syndgar einhver af vangá í einhverju því, sem Drottinn hefir bannað að gjöra, og gjörir eitthvað af því. 4.3 Ef smurði presturinn syndgar og bakar fólkinu sekt, þá skal hann fyrir synd sína, er hann hefir drýgt, færa Drottni ungneyti gallalaust til syndafórnar. 4.4 Skal hann leiða uxann að dyrum samfundatjaldsins fram fyrir Drottin og leggja hönd sína á höfuð uxans og slátra uxanum frammi fyrir Drottni. 4.5 Skal smurði presturinn taka nokkuð af blóði uxans og bera það inn í samfundatjaldið. 4.6 Skal presturinn drepa fingri sínum í blóðið og stökkva sjö sinnum nokkru af blóðinu frammi fyrir Drottni, fyrir framan fortjald helgidómsins. 4.7 Því næst skal presturinn ríða nokkru af blóðinu á horn ilmreykelsisaltarisins, er stendur í samfundatjaldinu frammi fyrir Drottni, en öllu hinu blóði uxans skal hella niður við brennifórnaraltarið, er stendur við dyr samfundatjaldsins. 4.8 Síðan skal hann taka allan mörinn úr syndafórnaruxanum, _ netjuna, er hylur iðrin, og allan innýflamörinn, 4.9 bæði nýrun og nýrnamörinn, sem er innan á mölunum, og stærra lifrarblaðið; við nýrun skal hann taka það frá _, 4.10 eins og hann er tekinn úr heillafórnarnautinu, og skal presturinn brenna þetta á brennifórnaraltarinu. 4.11 En húð uxans og allt kjötið, ásamt höfðinu og fótunum, innýflunum og gorinu, 4.12 allan uxann skal hann færa út fyrir herbúðirnar á hreinan stað, þangað sem öskunni er hellt út, leggja hann á við og brenna í eldi. Þar sem öskunni er hellt út skal hann brenndur. 4.13 Ef allur Ísraels lýður misgjörir af vangá og það er söfnuðinum hulið og þeir gjöra eitthvað, sem Drottinn hefir bannað, og falla í sekt, 4.14 þá skal söfnuðurinn, þegar syndin, sem þeir hafa drýgt, er vitanleg orðin, færa ungneyti til syndafórnar og leiða það fram fyrir samfundatjaldið. 4.15 Og skulu öldungar safnaðarins leggja hendur sínar á höfuð uxans frammi fyrir Drottni og slátra uxanum frammi fyrir Drottni. 4.16 Og smurði presturinn skal bera nokkuð af blóði uxans inn í samfundatjaldið. 4.17 Og skal presturinn drepa fingri sínum í blóðið og stökkva því sjö sinnum frammi fyrir Drottni, fyrir framan fortjaldið. 4.18 Og nokkru af blóðinu skal hann ríða á horn altarisins, sem er frammi fyrir Drottni, inni í samfundatjaldinu, en öllu hinu blóðinu skal hann hella niður við brennifórnaraltarið, sem er við dyr samfundatjaldsins. 4.19 Og hann skal taka allan mörinn úr honum og brenna á altarinu. 4.20 Þannig skal hann fara með uxann. Eins og hann fór með syndafórnaruxann, svo skal hann með hann fara. Þannig skal presturinn friðþægja fyrir þá, og þeim mun fyrirgefið verða. 4.21 Skal hann síðan færa uxann út fyrir herbúðirnar og brenna hann, eins og hann brenndi hinn fyrri uxann. Er það syndafórn safnaðarins. 4.22 Þegar leiðtogi syndgar og gjörir af vangá eitthvað, sem Drottinn Guð hans hefir bannað, og verður fyrir það sekur, 4.23 og honum er gjörð vitanleg synd sú, er hann hefir drýgt, þá skal hann færa að fórnargjöf geithafur gallalausan. 4.24 Skal hann leggja hönd sína á höfuð hafursins og slátra honum þar sem brennifórnunum er slátrað, frammi fyrir Drottni. Það er syndafórn. 4.25 Skal presturinn þá taka nokkuð af blóði syndafórnarinnar með fingri sínum og ríða því á horn brennifórnaraltarisins, en hinu blóðinu skal hann hella niður við brennifórnaraltarið. 4.26 En allan mörinn úr honum skal hann brenna á altarinu, eins og mörinn úr heillafórninni. Þannig skal presturinn friðþægja fyrir hann vegna syndar hans, og honum mun fyrirgefið verða. 4.27 Ef einhver alþýðumaður syndgar af vangá með því að gjöra eitthvað það, sem Drottinn hefir bannað, og verður sekur, 4.28 og honum er gjörð vitanleg synd sú, sem hann hefir drýgt, þá skal hann færa að fórnargjöf geit gallalausa, fyrir synd þá, sem hann hefir drýgt. 4.29 Skal hann leggja hönd sína á höfuð syndafórnarinnar og slátra syndafórninni þar sem brennifórnum er slátrað. 4.30 Síðan skal presturinn taka nokkuð af blóðinu með fingri sínum og ríða því á horn brennifórnaraltarisins, en öllu hinu blóðinu skal hann hella niður við altarið. 4.31 En allan mörinn skal hann taka frá, eins og mörinn úr heillafórninni var tekinn frá, og skal presturinn brenna hann á altarinu til þægilegs ilms fyrir Drottin. Þannig skal presturinn friðþægja fyrir hann, og honum mun fyrirgefið verða. 4.32 Fram beri hann sauðkind að fórnargjöf til syndafórnar, þá skal það, er hann fram ber, vera ásauður gallalaus. 4.33 Skal hann leggja hönd sína á höfuð syndafórnarinnar og slátra henni til syndafórnar þar sem brennifórnum er slátrað. 4.34 Skal þá presturinn taka nokkuð af blóði syndafórnarinnar með fingri sínum og ríða því á horn brennifórnaraltarisins, en öllu hinu blóðinu skal hann hella niður við altarið. 4.35 En allan mörinn skal hann taka frá, eins og sauðamörinn er tekinn úr heillafórninni, og skal presturinn brenna hann á altarinu ofan á eldfórnum Drottins. Þannig skal presturinn friðþægja fyrir hann vegna syndar þeirrar, er hann hefir drýgt, og mun honum fyrirgefið verða.
3 Móse 5
5.1 Nú syndgar einhver, með því að hann hefir heyrt formælingu og getur vitni borið, hvort sem hann hefir séð það sjálfur eða orðið þess vísari, en segir eigi til, og bakar sér þannig sekt, 5.2 eða einhver snertir einhvern óhreinan hlut, hvort það er heldur hræ af óhreinu villidýri eða hræ af óhreinum fénaði eða hræ af óhreinu skriðkvikindi og hann veit ekki af því og verður þannig óhreinn og sekur, 5.3 eða hann snertir mann óhreinan, hverrar tegundar sem óhreinleikinn er, sem hann er óhreinn af, og hann veit eigi af því, en verður þess síðar vís og verður þannig sekur, 5.4 eða fleipri einhver þeim eiði af munni fram, að hann skuli gjöra eitthvað, illt eða gott, hvað sem það nú kann að vera, sem menn fleipra út úr sér með eiði, og hann veit eigi af því, en verður þess síðar vís og verður sekur fyrir eitthvað af þessu, _ 5.5 verði nokkur sekur fyrir eitthvað af þessu, þá skal hann játa synd sína. 5.6 Og hann skal til sektarbóta fyrir synd þá, sem hann hefir drýgt, færa Drottni ásauð úr hjörðinni, ásauð eða geit, í syndafórn. Og presturinn skal friðþægja fyrir hann vegna syndar hans. 5.7 En ef hann á ekki fyrir kind, þá skal hann í sektarbætur fyrir misgjörð sína færa Drottni tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur, aðra í syndafórn, en hina í brennifórn. 5.8 Hann skal færa þær prestinum, og hann skal fram bera þá fyrr, er til syndafórnar er ætluð. Skal hann klípa höfuðið af hálsinum, en slíta þó eigi frá, 5.9 stökkva nokkru af blóði syndafórnarinnar á hlið altarisins, en það, sem eftir er af blóðinu, skal kreist úr og látið drjúpa niður við altarið. Það er syndafórn. 5.10 En hina skal hann tilreiða í brennifórn að réttum sið. Og presturinn skal friðþægja fyrir hann vegna syndar þeirrar, sem hann hefir drýgt, og mun honum fyrirgefið verða. 5.11 En ef hann á ekki fyrir tveimur turtildúfum eða tveimur ungum dúfum, þá skal hann fram bera að fórnargjöf fyrir misgjörð sína tíunda part úr efu af fínu mjöli í syndafórn. Skal hann eigi hella olíu á það né heldur láta á það reykelsiskvoðu, því að það er syndafórn. 5.12 Hann skal færa það prestinum, og presturinn skal taka af því hnefafylli sína sem ilmhluta fórnarinnar og brenna á altarinu ofan á eldfórnum Drottins. Það er syndafórn. 5.13 Og presturinn skal friðþægja fyrir hann fyrir synd þá, er hann hefir drýgt með einhverju þessu, og honum mun fyrirgefið verða. En hitt fái presturinn, eins og matfórnina.' 5.14 Drottinn talaði við Móse og sagði: 5.15 'Nú sýnir einhver þá sviksemi, að draga undan eitthvað af því, sem Drottni er helgað, þá skal hann í sektarbætur færa Drottni hrút gallalausan úr hjörðinni, sem að þínu mati sé eigi minna en tveggja sikla virði, eftir helgidóms sikli, til sektarfórnar. 5.16 Og það, sem hann hefir dregið undan af helgum hlutum, skal hann að fullu bæta og gjalda fimmtungi meira. Skal hann færa það prestinum, og presturinn skal friðþægja fyrir hann með sektarfórnarhrútnum, og mun honum fyrirgefið verða. 5.17 Nú syndgar einhver og gjörir eitthvað, sem Drottinn hefir bannað, og veit eigi af því og verður þannig sekur og misgjörð hvílir á honum, 5.18 þá skal hann færa prestinum hrút gallalausan úr hjörðinni, eftir mati þínu, til sektarfórnar. Og presturinn skal friðþægja fyrir hann fyrir vangæslusynd þá, er hann hefir óafvitandi drýgt, og mun honum fyrirgefið verða. 5.19 Það er sektarfórn. Hann er sannlega sekur orðinn við Drottin.'
3 Móse 6
6.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 6.2 'Nú syndgar einhver og sýnir sviksemi gegn Drottni og þrætir við náunga sinn fyrir það, sem honum hefir verið trúað fyrir, eða honum hefir verið í hendur selt, eða hann hefir rænt, eða hann hefir haft með ofríki af náunga sínum, 6.3 eða hann hefir fundið eitthvað, sem týnst hefir, og þrætir fyrir það, eða hann með meinsæri synjar fyrir einhvern þann verknað, er menn fremja sér til syndar, _ 6.4 þegar hann syndgar þannig og verður sekur, þá skal hann skila því aftur, sem hann hefir rænt eða með ofríki haft af öðrum eða honum hefir verið trúað fyrir, eða hinu týnda, sem hann hefir fundið, 6.5 eða hverju því, er hann hefir synjað fyrir með meinsæri, og skal hann bæta það fullu verði og gjalda fimmtungi meira. Skal hann greiða það eiganda á þeim degi, er hann færir sektarfórn sína. 6.6 En í bætur Drottni til handa skal hann færa prestinum hrút gallalausan úr hjörðinni, eftir þínu mati, til sektarfórnar. 6.7 Og presturinn skal friðþægja fyrir hann frammi fyrir Drottni, og honum mun fyrirgefið verða, _ hvað sem menn fremja sér til sektar.' 6.8 Drottinn talaði við Móse og sagði: 6.9 'Bjóð Aroni og sonum hans á þessa leið: Þessi eru ákvæðin um brennifórnina: Brennifórnin skal vera á eldstæði altarisins alla nóttina til morguns, og skal altariseldinum haldið lifandi með því. 6.10 Og presturinn skal færa sig í línklæði sín og draga línbrækur yfir hold sitt, taka síðan burt öskuna eftir brennifórnina, er eldurinn hefir eytt á altarinu, og steypa henni niður við hlið altarisins. 6.11 Þá skal hann færa sig úr klæðum sínum og fara í önnur klæði og bera öskuna út fyrir herbúðirnar á hreinan stað. 6.12 Og eldinum á altarinu skal haldið lifandi með því. Hann skal eigi slokkna. Og presturinn skal á hverjum morgni leggja við að eldinum, og hann skal raða brennifórninni ofan á hann og brenna mörinn úr heillafórnunum á honum. 6.13 Eldurinn skal sífellt brenna á altarinu og aldrei slokkna. 6.14 Þessi eru ákvæðin um matfórnina: Synir Arons skulu fram bera hana fyrir Drottin, að altarinu. 6.15 Og hann skal taka af því hnefafylli sína, af fínamjöli matfórnarinnar og olíunni, og alla reykelsiskvoðuna, sem er á matfórninni, og brenna á altarinu til þægilegs ilms, sem ilmhluta hennar fyrir Drottin. 6.16 En það, sem eftir er af henni, skulu Aron og synir hans eta. Ósýrt skal það etið á helgum stað, í forgarði samfundatjaldsins skulu þeir eta það. 6.17 Eigi má baka það með súrdeigi. Ég gef þeim það í þeirra hluta af eldfórnum mínum. Það er háheilagt, eins og syndafórnin og sektarfórnin. 6.18 Allt karlkyn meðal Arons niðja má eta það, frá kyni til kyns ber yður það af eldfórnum Drottins um aldur og ævi. Hver sem snertir það skal vera heilagur.' 6.19 Drottinn talaði við Móse og sagði: 6.20 'Þessi er fórnargjöf Arons og sona hans, sem þeir skulu færa Drottni á smurningardegi sínum: tíundi partur úr efu af fínu mjöli í stöðuga matfórn, helmingurinn af því að morgni og helmingurinn að kveldi. 6.21 Skal tilreiða hana á pönnu með olíu. Þú skalt fram bera hana samanhrærða. Þú skalt brjóta hana í stykki og fórna henni til þægilegs ilms fyrir Drottin. 6.22 Og presturinn, sá af sonum hans, sem smurður er í hans stað, skal tilreiða hana. Er það ævarandi lögmál Drottins, öll skal hún brennd. 6.23 Allar matfórnir presta skulu vera alfórnir. Þær má ekki eta.' 6.24 Drottinn talaði við Móse og sagði: 6.25 'Mæl til Arons og sona hans og seg: Þessi eru ákvæðin um syndafórnina: Á þeim stað, sem brennifórnunum er slátrað, skal syndafórninni slátrað, frammi fyrir Drottni. Hún er háheilög. 6.26 Presturinn, sem fram ber syndafórnina, skal eta hana, á helgum stað skal hún etin, í forgarði samfundatjaldsins. 6.27 Hver sá, er snertir kjöt hennar, skal vera heilagur. Og þegar eitthvað af blóðinu spýtist á klæðin, þá skalt þú þvo það, sem spýtst hefir á, á helgum stað. 6.28 Og leirkerið, sem hún hefir verið soðin í, skal brjóta, en hafi hún verið soðin í eirkeri, þá skal fægja það og skola í vatni. 6.29 Allt karlkyn meðal prestanna má eta hana. Hún er háheilög. 6.30 En enga syndafórn má eta, hafi nokkuð af blóði hennar verið borið inn í samfundatjaldið til friðþægingar í helgidóminum, heldur skal hún brennd í eldi.
3 Móse 7
7.1 Þessi eru ákvæðin um sektarfórnina: Hún er háheilög. 7.2 Þar sem brennifórninni er slátrað, skal og sektarfórninni slátrað, og skal stökkva blóði hennar allt í kring utan á altarið. 7.3 Og öllum mörnum úr henni skal fórna: rófunni, netjunni, sem hylur iðrin, 7.4 báðum nýrunum, nýrnamörnum, sem liggur innan á mölunum, og stærra lifrarblaðinu. Við nýrun skal taka það frá. 7.5 Og presturinn skal brenna þetta á altarinu sem eldfórn Drottni til handa. Er það sektarfórn. 7.6 Allt karlkyn meðal prestanna má eta hana; á helgum stað skal hún etin; hún er háheilög. 7.7 Skal með sektarfórn farið á sama hátt og syndafórn; eru sömu ákvæði um báðar: Presturinn, sem með þeim friðþægir, skal fá þær. 7.8 Presturinn, sem fram ber brennifórn einhvers manns, skal fá skinnið af brennifórninni, sem hann fram ber. 7.9 Og sérhverja matfórn, sem í ofni er bökuð eða tilreidd í suðupönnu eða á steikarpönnu, fái presturinn, sem fram ber hana. 7.10 En sérhver matfórn, olíublönduð eða þurr, skal tilheyra öllum sonum Arons, svo einum sem öðrum. 7.11 Þessi eru ákvæðin um heillafórnina, sem Drottni er færð: 7.12 Ef einhver fram ber hana til þakkargjörðar, þá skal hann auk þakkarfórnarinnar fram bera ósýrðar kökur olíublandaðar og ósýrð flatbrauð olíusmurð og olíublandaðar kökur, hrærðar úr fínu mjöli. 7.13 Ásamt kökum úr sýrðu deigi skal hann fram bera þessa fórnargáfu sína, auk heilla-þakkarfórnarinnar. 7.14 Og hann skal af henni fram bera eina köku af hverri tegund fórnargáfunnar sem fórnargjöf Drottni til handa. Skal presturinn, er stökkvir blóði heillafórnarinnar, fá hana. 7.15 En kjötið af heilla-þakkarfórninni skal etið sama dag sem fórnin er fram borin. Eigi skal geyma neitt af því til morguns. 7.16 Sé sláturfórn hans heitfórn eða sjálfviljug fórn, þá skal hún etin sama dag sem hann fram ber sláturfórn sína. Þó má eta það, sem af gengur, daginn eftir. 7.17 En það, sem verður eftir af kjöti sláturfórnarinnar á þriðja degi, skal brenna í eldi. 7.18 En sé á þriðja degi nokkuð etið af kjöti heillafórnarinnar, þá mun það eigi verða velþóknanlegt, það skal eigi tilreiknast þeim, er fram bar það. Það skal talið skemmt kjöt. Á hverjum þeim, er etur af því, skal misgjörð hvíla. 7.19 Og það kjöt, sem komið hefir við eitthvað óhreint, skal eigi eta, heldur skal brenna það í eldi. Hvað kjötið að öðru leyti snertir, þá má hver, sem hreinn er, kjöt eta. 7.20 En hver sá, sem etur kjöt af heillafórn, sem Drottni er færð, á meðan hann er óhreinn, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni. 7.21 Og hver sem snertir nokkuð óhreint, hvort heldur það er óhreinn maður eða óhrein skepna, eða hvaða óhrein viðurstyggð sem er, og etur þó af heillafórnarkjöti, sem Drottni er fært, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni.' 7.22 Drottinn talaði við Móse og sagði: 7.23 'Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Engan mör úr nautum, sauðum eða geitum megið þér eta. 7.24 En mör úr sjálfdauðum skepnum eða dýrrifnum má nota til hvers sem vera skal, en með engu móti megið þér eta hann. 7.25 Því að hver sá, sem etur mör úr þeirri skepnu, sem Drottni er færð eldfórn af, sá sem etur hann skal upprættur verða úr þjóð sinni. 7.26 Eigi skuluð þér heldur nokkurs blóðs neyta í neinum af bústöðum yðar, hvorki úr fuglum né fénaði. 7.27 Hver sá, er nokkurs blóðs neytir, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni.' 7.28 Drottinn talaði við Móse og sagði: 7.29 'Tala til Ísraelsmanna og seg: Sá sem færir Drottni heillafórn skal sjálfur fram bera fórnargjöf sína fyrir Drottin af heillafórninni. 7.30 Með sínum eigin höndum skal hann fram bera eldfórnir Drottins: Mörinn ásamt bringunni skal hann fram bera, bringuna til þess að veifa henni sem veififórn frammi fyrir Drottni, 7.31 og skal presturinn brenna mörinn á altarinu, en bringuna skal Aron og synir hans fá. 7.32 Og af heillafórnum yðar skuluð þér gefa prestinum hægra lærið að fórnargjöf. 7.33 Sá af sonum Arons, er fram ber blóðið úr heillafórninni og mörinn, skal fá hægra lærið í sinn hluta. 7.34 Því að bringuna, sem veifa skal, og lærið, sem fórna skal, hefi ég tekið af Ísraelsmönnum, af heillafórnum þeirra, og gefið það Aroni presti og sonum hans. Er það ævinleg skyldugreiðsla, sem á Ísraelsmönnum hvílir. 7.35 Þetta er hluti Arons og hluti sona hans af eldfórnum Drottins, á þeim degi, sem hann leiddi þá fram til þess að þjóna Drottni í prestsembætti, 7.36 sem Drottinn bauð að Ísraelsmenn skyldu greiða þeim, á þeim degi, sem hann smurði þá. Er það ævinleg skyldugreiðsla hjá þeim frá kyni til kyns.' 7.37 Þetta eru ákvæðin um brennifórnir, matfórnir, syndafórnir, sektarfórnir, vígslufórnir og heillafórnir, 7.38 sem Drottinn setti Móse á Sínaífjalli, þá er hann bauð Ísraelsmönnum, að þeir skyldu færa Drottni fórnargjafir sínar í Sínaí-eyðimörk.
3 Móse 8
8.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 8.2 'Tak Aron og sonu hans með honum, klæðin og smurningarolíuna, syndafórnaruxann, báða hrútana og körfuna með ósýrðu brauðunum 8.3 og stefn þú saman öllum söfnuðinum við dyr samfundatjaldsins.' 8.4 Og Móse gjörði eins og Drottinn bauð honum, og söfnuðurinn kom saman við dyr samfundatjaldsins. 8.5 Móse sagði við söfnuðinn: 'Þetta er það sem Drottinn hefir boðið að gjöra.' 8.6 Því næst leiddi Móse fram Aron og sonu hans og þvoði þá í vatni. 8.7 Og hann lagði yfir hann kyrtilinn, gyrti hann beltinu og færði hann í möttulinn, lagði yfir hann hökulinn og gyrti hann hökullindanum og batt hann þannig að honum. 8.8 Þá festi hann á hann brjóstskjöldinn og lét úrím og túmmím í brjóstskjöldinn. 8.9 Og hann setti vefjarhöttinn á höfuð honum, og framan á vefjarhöttinn setti hann gullspöngina, ennishlaðið helga, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 8.10 Móse tók smurningarolíuna og smurði tjaldbúðina og allt, sem í henni var, og helgaði það. 8.11 Og hann stökkti henni sjö sinnum á altarið og smurði altarið og öll áhöld þess, svo og kerið og stétt þess, til að helga það. 8.12 Því næst hellti hann smurningarolíu á höfuð Aroni og smurði hann til þess að helga hann. 8.13 Síðan leiddi Móse fram sonu Arons, færði þá í kyrtla, gyrti þá belti og batt á þá höfuðdúka, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 8.14 Þá leiddi hann fram syndafórnaruxann, og Aron og synir hans lögðu hendur sínar á höfuð syndafórnaruxans. 8.15 En Móse slátraði honum, tók blóðið og reið því með fingri sínum á horn altarisins allt í kring og syndhreinsaði altarið, en því, sem eftir var af blóðinu, hellti hann niður við altarið, og hann helgaði það með því að friðþægja fyrir það. 8.16 Því næst tók hann allan innýflamörinn, stærra lifrarblaðið, bæði nýrun og nýrnamörinn, og Móse brenndi það á altarinu. 8.17 En uxann sjálfan, bæði húðina af honum, kjötið og gorið, brenndi hann í eldi fyrir utan herbúðirnar, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 8.18 Því næst leiddi hann fram brennifórnarhrútinn, og Aron og synir hans lögðu hendur sínar á höfuð hrútsins. 8.19 Síðan slátraði Móse honum og stökkti blóðinu allt um kring á altarið. 8.20 Og hann hlutaði hrútinn sundur, og Móse brenndi höfuðið, stykkin og mörinn. 8.21 En innýflin og fæturna þvoði hann í vatni. Síðan brenndi Móse allan hrútinn á altarinu. Það var brennifórn þægilegs ilms, það var eldfórn Drottni til handa, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 8.22 Þessu næst leiddi hann fram hinn hrútinn, vígsluhrútinn, og Aron og synir hans lögðu hendur sínar á höfuð hrútsins. 8.23 Og Móse slátraði honum og tók nokkuð af blóði hans og reið því á hægri eyrnasnepil Arons, á þumalfingur hægri handar hans og á stórutá hægri fótar hans. 8.24 Þá leiddi Móse fram sonu Arons og reið nokkru af blóðinu á hægri eyrnasnepil þeirra og á þumalfingur hægri handar þeirra og á stórutá hægri fótar þeirra. Og Móse stökkti blóðinu allt um kring á altarið. 8.25 Og hann tók mörinn: rófuna, allan innýflamörinn, stærra lifrarblaðið, bæði nýrun og nýrnamörinn og hægra lærið. 8.26 Sömuleiðis tók hann úr körfunni með ósýrðu brauðunum, sem stóð frammi fyrir Drottni, eina ósýrða köku og eina olíuköku og eitt flatbrauð og lagði það ofan á mörinn og hægra lærið. 8.27 Og hann lagði það allt í hendur Aroni og í hendur sonum hans og veifaði því til veififórnar frammi fyrir Drottni. 8.28 Síðan tók Móse það af höndum þeirra og brenndi það á altarinu ofan á brennifórninni. Það var vígslufórn til þægilegs ilms, það var eldfórn Drottni til handa. 8.29 Því næst tók Móse bringuna og veifaði henni til veififórnar frammi fyrir Drottni. Fékk Móse hana í sinn hluta af vígsluhrútnum, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 8.30 Og Móse tók nokkuð af smurningarolíunni og nokkuð af blóðinu, sem var á altarinu, og stökkti því á Aron og klæði hans, og á sonu hans og á klæði sona hans ásamt honum. Og hann helgaði Aron og klæði hans, og sonu hans og klæði sona hans ásamt honum. 8.31 Og Móse sagði við Aron og sonu hans: 'Sjóðið kjötið fyrir dyrum samfundatjaldsins og etið það þar ásamt brauðinu, sem er í vígslufórnarkörfunni, svo sem ég bauð, er ég sagði: ,Aron og synir hans skulu eta það.` 8.32 En leifarnar af kjötinu og brauðinu skuluð þér brenna í eldi. 8.33 Og sjö daga skuluð þér ekki ganga burt frá dyrum samfundatjaldsins, uns vígsludagar yðar eru á enda, því að sjö daga skal fylla hendur yðar. 8.34 Svo sem gjört hefir verið í dag hefir Drottinn boðið að gjöra til þess að friðþægja fyrir yður. 8.35 Og við dyr samfundatjaldsins skuluð þér vera sjö daga, bæði dag og nótt, og varðveita boðorð Drottins, svo að þér deyið ekki, því að svo hefir mér verið boðið.' 8.36 Og Aron og synir hans gjörðu allt það, sem Drottinn hafði boðið og Móse flutt þeim.
3 Móse 9
9.1 Á áttunda degi kallaði Móse fyrir sig Aron og sonu hans og öldunga Ísraels 9.2 og sagði við Aron: 'Tak þér nautkálf í syndafórn og hrút í brennifórn, gallalausa, og leið þá fram fyrir Drottin. 9.3 En til Ísraelsmanna skalt þú tala á þessa leið: ,Takið geithafur í syndafórn, og kálf og sauðkind, bæði veturgömul og gallalaus, í brennifórn, 9.4 og uxa og hrút í heillafórn, til þess að slátra þeim frammi fyrir Drottni, og matfórn olíublandaða, því að í dag mun Drottinn birtast yður.'` 9.5 Og þeir færðu það, sem Móse hafði boðið, fram fyrir samfundatjaldið, og allur söfnuðurinn kom og nam staðar frammi fyrir Drottni. 9.6 Móse sagði: 'Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið. Gjörið það, og mun dýrð Drottins birtast yður.' 9.7 Því næst mælti Móse til Arons: 'Gakk þú að altarinu og fórna syndafórn þinni og brennifórn þinni, og friðþæg þú fyrir þig og fyrir lýðinn. Fram ber því næst fórnargjöf lýðsins og friðþæg fyrir þá, svo sem Drottinn hefir boðið.' 9.8 Aron gekk þá að altarinu og slátraði kálfinum, er honum var ætlaður til syndafórnar. 9.9 En synir Arons færðu honum blóðið, og hann drap fingri sínum í blóðið og reið því á horn altarisins, en hinu blóðinu hellti hann niður við altarið. 9.10 En mörinn, nýrun og stærra lifrarblaðið úr syndafórninni brenndi hann á altarinu, svo sem Drottinn hafði boðið Móse. 9.11 En kjötið og húðina brenndi hann í eldi fyrir utan herbúðirnar. 9.12 Síðan slátraði hann brennifórninni, og synir Arons réttu að honum blóðið, en hann stökkti því allt um kring á altarið. 9.13 Þeir réttu og að honum brennifórnina í stykkjum og höfuðið, og hann brenndi hana á altarinu. 9.14 Og hann þvoði innýflin og fæturna og brenndi á altarinu, ofan á brennifórninni. 9.15 Þá bar hann fram fórnargjöf lýðsins, tók hafurinn, sem ætlaður var lýðnum til syndafórnar, slátraði honum og færði hann í syndafórn, eins og kálfinn áður. 9.16 Hann fram bar og brennifórnina og fórnaði henni að réttum sið. 9.17 Og hann fram bar matfórnina, tók af henni hnefafylli sína og brenndi á altarinu auk morgun-brennifórnarinnar. 9.18 Því næst slátraði hann uxanum og hrútnum til heillafórnar fyrir lýðinn. En synir Arons réttu að honum blóðið, _ en hann stökkti því allt í kring á altarið _, 9.19 svo og mörstykkin úr uxanum og af hrútnum rófuna, netjuna, sem hylur iðrin, nýrun og stærra lifrarblaðið. 9.20 Og þeir lögðu mörinn ofan á bringurnar, en hann brenndi mörinn á altarinu. 9.21 En bringunum og hægra lærinu veifaði Aron til veififórnar frammi fyrir Drottni, svo sem Móse hafði boðið. 9.22 Síðan hóf Aron upp hendur sínar yfir fólkið og blessaði það. Og hann sté niður, er hann hafði fórnað syndafórninni, brennifórninni og heillafórninni. 9.23 Móse og Aron gengu inn í samfundatjaldið, og er þeir komu út aftur, blessuðu þeir fólkið. Birtist þá dýrð Drottins öllum lýðnum. 9.24 Eldur gekk út frá Drottni og eyddi brennifórninni og mörnum á altarinu. En er allur lýðurinn sá þetta, hófu þeir upp fagnaðaróp og féllu fram á ásjónur sínar.
3 Móse 10
10.1 Nadab og Abíhú, synir Arons, tóku hvor sína eldpönnu og létu eld í þær og lögðu reykelsi ofan á og báru fram fyrir Drottin óvígðan eld, sem hann eigi hafði boðið þeim. 10.2 Gekk þá eldur út frá Drottni og eyddi þeim, og þeir dóu frammi fyrir Drottni. 10.3 Þá sagði Móse við Aron: 'Nú er það fram komið, sem Drottinn sagði: Heilagleik minn vil ég sýna á þeim, sem nálægjast mig, og birta dýrð mína frammi fyrir öllum lýð.' Og Aron þagði. 10.4 Móse kallaði á Mísael og Elsafan, sonu Ússíels, föðurbróður Arons, og sagði við þá: 'Komið og berið burt úr helgidóminum frændur ykkar út fyrir herbúðirnar.' 10.5 Og þeir komu og báru þá í kyrtlum þeirra út fyrir herbúðirnar, eins og Móse hafði sagt. 10.6 Og Móse sagði við Aron og við Eleasar og Ítamar, sonu hans: 'Þér skuluð eigi láta hár yðar flaka, eigi heldur sundur rífa klæði yðar, að þér ekki deyið og hann reiðist ekki öllum söfnuðinum. En bræður yðar, allur Ísraelslýður, gráti yfir þeim eldi, sem Drottinn hefir kveikt. 10.7 Og eigi skuluð þér fara út fyrir dyr samfundatjaldsins, ella munuð þér deyja, því að smurningarolía Drottins er á yður.' Og þeir gjörðu sem Móse bauð. 10.8 Drottinn talaði við Aron og sagði: 10.9 'Hvorki skalt þú né synir þínir drekka vín eða áfengan drykk, þegar þér gangið inn í samfundatjaldið, svo að þér deyið ekki. Það er ævarandi lögmál hjá yður frá kyni til kyns. 10.10 Og þér skuluð gjöra greinarmun á því, sem er heilagt og óheilagt, og á því, sem er hreint og óhreint. 10.11 Og þér skuluð kenna Ísraelsmönnum öll þau lög, er Drottinn hefir gefið þeim fyrir Móse.' 10.12 Móse sagði við Aron og þá Eleasar og Ítamar, sonu hans, er eftir voru á lífi: 'Takið matfórnina, sem eftir er af eldfórnum Drottins, og etið hana ósýrða hjá altarinu, því að hún er háheilög. 10.13 Og þér skuluð eta hana á helgum stað, því að hún er hinn ákveðni hluti þinn og sona þinna af eldfórnum Drottins. Því að svo er mér boðið. 10.14 En bringuna, sem veifa skal, og lærið, sem fórna skal, skuluð þér eta á hreinum stað, þú og synir þínir og dætur þínar með þér, því að þetta er sá ákveðni hluti, sem þér er gefinn og sonum þínum af heillafórnum Ísraelsmanna. 10.15 Lærið, sem fórna skal, og bringuna, sem veifa skal, skulu þeir fram bera ásamt mörstykkja-eldfórnunum til þess að veifa því til veififórnar frammi fyrir Drottni. Síðan skalt þú fá það og synir þínir með þér, sem ævinlega skyldugreiðslu, eins og Drottinn hefir boðið.' 10.16 Og Móse leitaði vandlega að syndafórnarhafrinum, og sjá, hann var upp brenndur. Þá reiddist hann Eleasar og Ítamar, sonum Arons, er eftir voru á lífi, og sagði við þá: 10.17 'Hvers vegna átuð þið ekki syndafórnina á helgum stað? Því að hún er háheilög og hann hefir gefið ykkur hana til þess að burt taka misgjörð safnaðarins og friðþægja fyrir þá frammi fyrir Drottni. 10.18 Sjá, blóð hennar hefir ekki verið borið inn í helgidóminn. Þið áttuð þó að eta hana á helgum stað, eins og ég hafði boðið.' 10.19 En Aron sagði við Móse: 'Sjá, í dag hafa þeir fram borið syndafórn sína og brennifórn fyrir Drottin, og mér hefir slíkt að höndum borið. Hefði ég nú etið syndafórnina í dag, mundi Drottni hafa þóknast það?' Og er Móse heyrði þetta, lét hann sér það vel líka.
3 Móse 11
11.1 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði við þá: 11.2 'Talið til Ísraelsmanna og segið: Þessi eru þau dýr, er þér megið eta af öllum ferfættum dýrum, sem eru á jörðinni: 11.3 Öll ferfætt dýr, sem hafa klaufir, og þær alklofnar, og jórtra, megið þér eta. 11.4 Af þeim, sem jórtra og klaufir hafa, megið þér þó ekki þessi eta: Úlfaldann, því að hann jórtrar að sönnu, en er eigi klaufhæfður; hann sé yður óhreinn; 11.5 stökkhérann, því að hann jórtrar að sönnu, en hefir eigi klaufir; hann sé yður óhreinn; 11.6 hérann, því að hann jórtrar að sönnu, en hefir eigi klaufir; hann sé yður óhreinn; 11.7 og svínið, því að það hefir að sönnu klaufir, og þær alklofnar, en jórtrar ekki; það sé yður óhreint. 11.8 Kjöt þeirra skuluð þér ekki eta, og hræ þeirra skuluð þér ekki snerta. Þau skulu vera yður óhrein. 11.9 Af lagardýrum megið þér eta þessi: Öll lagardýr, sem hafa sundugga og hreistur, hvort heldur er í sjó eða ám, megið þér eta. 11.10 En af öllu því, sem kvikt er í vötnunum, og af öllum lifandi skepnum, sem eru í vötnunum, séu öll þau dýr í sjó eða ám, sem eigi hafa sundugga og hreistur, yður viðurstyggð. 11.11 Viðurstyggð skulu þau vera yður. Ekki skuluð þér eta kjöt þeirra, og við hræjum þeirra skal yður stugga. 11.12 Öll lagardýr, sem ekki hafa sundugga og hreistur, skulu vera yður viðurstyggð. 11.13 Af fuglunum skal yður stugga við þessum, _ þér skuluð eigi eta þá, þeir eru viðurstyggð _: örninn, skegg-gammurinn og gammurinn, 11.14 gleðan og valakynið, 11.15 allt hrafnakynið, 11.16 strúturinn, svalan, mávurinn og haukakynið, 11.17 uglan, súlan og náttuglan, 11.18 hornuglan, pelíkaninn og hrægammurinn, 11.19 storkurinn og lóukynið, herfuglinn og leðurblakan. 11.20 Öll fleyg skriðkvikindi ferfætt séu yður viðurstyggð. 11.21 Af öllum fleygum skriðkvikindum ferfættum megið þér þau ein eta, er hafa leggi upp af afturfótunum til þess að stökkva með um jörðina. 11.22 Af þeim megið þér eta þessi: arbe-engisprettur, sólam-engisprettur, hargól-engisprettur og hagab-engisprettur. 11.23 En öll önnur fleyg skriðkvikindi ferfætt séu yður viðurstyggð. 11.24 Af þessum dýrum verðið þér óhreinir. Hver sem snertir hræ þeirra, verður óhreinn til kvelds. 11.25 En hver sá, sem ber hræ þeirra, hann skal þvo klæði sín og er óhreinn til kvelds. 11.26 Hvert það ferfætt dýr, sem hefir klaufir, þó eigi alklofnar, og eigi jórtrar, sé yður óhreint. Hver sem þau snertir verður óhreinn. 11.27 Og öll þau, sem ganga á hrömmum sínum, meðal allra dýra ferfættra, séu yður óhrein. Hver sem snertir hræ þeirra, er óhreinn til kvelds. 11.28 Og sá, sem ber hræ þeirra, skal þvo klæði sín og er óhreinn til kvelds. Þau skulu vera yður óhrein. 11.29 Þessi skulu vera yður óhrein á meðal skriðkvikindanna, sem skríða á jörðinni: hreysivislan, músin og eðlukynið, 11.30 skrækeðlan, kóah-eðlan, leta-eðlan, salamandran og kamelljónið. 11.31 Þessi skulu vera yður óhrein meðal allra skriðkvikindanna. Hver sem snertir þau, þegar þau eru dauð, verður óhreinn til kvelds. 11.32 Sérhvað það, er eitthvert af þeim fellur ofan á, þegar þau eru dauð, verður óhreint, hvort heldur er tréílát, klæði, skinn eða sekkur; öll þau áhöld, sem til einhvers eru notuð. Skal það í vatn leggja og er óhreint til kvelds, þá er það hreint. 11.33 Falli eitthvert af þeim ofan í leirker, þá verður allt, sem í því er, óhreint, og kerið skuluð þér brjóta. 11.34 Allur matur, sem etinn er og vatn er látið í, verður óhreinn, og allur drykkur, sem drukkinn er, verður óhreinn, í hvaða keri sem hann er. 11.35 Og sérhvað það, sem hræ þeirra fellur á, verður óhreint. Hvort heldur er ofn eða eldstó, skal það rifið niður. Það er óhreint, og óhreint skal það yður vera. 11.36 Lindir einar og brunnar, það er vatnsstæður, skulu hreinar vera, en sá, sem hræin snertir, verður óhreinn. 11.37 En þó að eitthvað af hræjunum falli á útsæði, sem á að sá, þá er það hreint. 11.38 En ef vatn er látið á sæðið og eitthvað af hræjunum fellur ofan í það, þá sé það yður óhreint. 11.39 Þegar einhver af þeim skepnum deyr, sem yður eru til fæðu, þá skal sá, er snertir dauðan skrokkinn, vera óhreinn til kvelds. 11.40 Og sá, sem etur af skrokknum, skal þvo klæði sín og er óhreinn til kvelds. Og sá, sem ber skrokkinn, skal þvo klæði sín og er óhreinn til kvelds. 11.41 Öll skriðkvikindi, sem skríða á jörðinni, skulu vera yður viðurstyggð. Eigi skal þau eta. 11.42 Öll þau, er skríða á kviðnum, og öll þau, er ganga á fjórum fótum, svo og allar margfætlur meðal allra skriðkvikinda, er skríða á jörðinni, þau skuluð þér eigi eta, því að þau eru viðurstyggð. 11.43 Látið eigi nokkurt skriðkvikindi gjöra yður sjálfa viðurstyggilega, og saurgið yður ekki á þeim, svo að þér verðið óhreinir af þeim. 11.44 Því að ég er Drottinn, Guð yðar. Og helgist og verið heilagir, því að ég er heilagur. Og þér skuluð ekki saurga sjálfa yður á nokkru því skriðkvikindi, sem skríður á jörðinni. 11.45 Því að ég er Drottinn, sem leiddi yður út af Egyptalandi til þess að vera yðar Guð. Þér skuluð vera heilagir, því að ég er heilagur.' 11.46 Þessi eru ákvæðin um ferfættu dýrin, fuglana og allar lifandi skepnur, sem hrærast í vötnunum, og um allar lifandi skepnur, sem jörðin er kvik af, 11.47 svo að menn viti grein óhreinna og hreinna dýra, svo og ætra dýra og óætra.
3 Móse 12
12.1 Drottinn talaði við Móse og sagði: 12.2 'Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Þegar kona verður léttari og elur sveinbarn, þá skal hún vera óhrein sjö daga. Skal hún vera óhrein, eins og þá daga, sem hún er saurug af klæðaföllum. 12.3 Og á áttunda degi skal umskera hold yfirhúðar hans. 12.4 En konan skal halda sér heima þrjátíu og þrjá daga, meðan á blóðhreinsuninni stendur. Hún skal ekkert heilagt snerta og eigi inn í helgidóminn koma, uns hreinsunardagar hennar eru úti. 12.5 En ef hún elur meybarn, þá skal hún vera óhrein hálfan mánuð, sem þá er hún er saurug af klæðaföllum, og hún skal halda sér heima sextíu og sex daga, meðan á blóðhreinsuninni stendur. 12.6 En þegar hreinsunardagar hennar eru úti, hvort heldur er fyrir son eða dóttur, þá skal hún færa prestinum að dyrum samfundatjaldsins sauðkind veturgamla í brennifórn og unga dúfu eða turtildúfu í syndafórn. 12.7 Skal hann fram bera það fyrir Drottin og friðþægja fyrir hana, og er hún þá hrein af blóðlátum sínum.' Þessi eru ákvæðin um sængurkonuna, hvort heldur barnið er sveinbarn eða meybarn. 12.8 En ef hún á ekki fyrir sauðkind, þá færi hún tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur, aðra í brennifórn, en hina í syndafórn, og skal presturinn friðþægja fyrir hana, og er hún þá hrein.
3 Móse 13
13.1 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði: 13.2 'Nú tekur einhver þrota, hrúður eða gljádíla í skinnið á hörundi sínu og verður að líkþrárskellu í skinninu á hörundi hans. Þá skal leiða hann fyrir Aron prest eða einhvern af prestunum, sonum hans. 13.3 Og prestur skal líta á skelluna í skinninu á hörundinu, og hafi hárin í skellunni gjörst hvít og beri skelluna dýpra en skinnið á hörundi hans, þá er það líkþrárskella. Og prestur skal líta á hann og dæma hann óhreinan. 13.4 En sé hvítur gljádíli í skinninu á hörundi hans og beri ekki dýpra en skinnið og hafi hárin í honum ekki gjörst hvít, þá skal prestur byrgja inni sjö daga þann, er skelluna hefir tekið. 13.5 Og prestur skal líta á hann á sjöunda degi, og sjái hann að jafnmikið ber á skellunni og hafi skellan ekki færst út í skinninu, þá skal prestur byrgja hann enn inni sjö daga. 13.6 Og prestur skal enn líta á hann á sjöunda degi, og sjái hann þá, að skellan hefir dökknað, og hafi skellan ekki færst út í skinninu, skal prestur dæma hann hreinan. Þá er það hrúður, og hann skal þvo klæði sín og er þá hreinn. 13.7 En færist hrúðrið út í skinninu eftir að hann sýndi sig prestinum til þess að verða dæmdur hreinn, þá skal hann aftur sýna sig prestinum. 13.8 Og prestur skal líta á, og sjái hann, að hrúðrið hefir færst út í skinninu, þá skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það líkþrá. 13.9 Nú tekur einhver líkþrárskellu, og skal leiða hann fyrir prest. 13.10 Og prestur skal líta á, og sjái hann, að hvítur þroti er í skinninu og hefir gjört hárin hvít, og lifandi kvika er í þrotanum, 13.11 þá er það gömul líkþrá í skinninu á hörundi hans, og skal prestur dæma hann óhreinan. Hann skal eigi byrgja hann inni, því að hann er óhreinn. 13.12 En brjótist líkþráin út um skinnið og hylji líkþráin allt skinnið frá hvirfli til ilja á þeim, er skellurnar hefir tekið, hvar sem prestur rennir augum til, 13.13 þá skal prestur líta á, og sjái hann, að líkþráin hefir hulið allt hörund hans, þá skal hann dæma hreinan þann, er skellurnar hefir tekið. Hann hefir þá allur gjörst hvítur og er þá hreinn. 13.14 En þegar er ber á kviku holdi á honum, skal hann vera óhreinn. 13.15 Og prestur skal líta á kvika holdið og dæma hann óhreinan. Kvika holdið er óhreint. Þá er það líkþrá. 13.16 En hverfi kvika holdið og gjörist hvítt, þá skal hann ganga fyrir prest. 13.17 Og prestur skal líta á hann, og sjái hann að skellurnar hafa gjörst hvítar, þá skal prestur dæma hreinan þann, er skellurnar hefir tekið. Þá er hann hreinn. 13.18 Nú kemur kýli í hörundið, út í skinnið, og grær, 13.19 og kemur í stað kýlisins hvítur þroti eða gljádíli ljósrauður, þá skal hann sýna sig presti. 13.20 Og prestur skal líta á, og sjái hann, að dílann ber lægra en skinnið og hárin í honum hafa gjörst hvít, skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það líkþrársótt, sem brotist hefir út í kýlinu. 13.21 En ef prestur lítur á hann og sér, að engin hvít hár eru í honum og hann er ekki lægri en skinnið og hefir dökknað, þá skal prestur byrgja hann inni sjö daga. 13.22 En færist hann út í skinninu, skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það líkþrársótt. 13.23 En ef gljádílinn stendur í stað og færist eigi út, þá er það kýlis-ör, og prestur skal dæma hann hreinan. 13.24 En ef brunasár kemur á hörundið og brunakvikan verður að gljádíla ljósrauðum eða hvítum, 13.25 þá skal prestur líta á hann. Og sjái hann, að hárin í gljádílanum hafa gjörst hvít og ber hann dýpra en skinnið, þá er það líkþrá, sem hefir brotist út í brunanum, og skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það líkþrársótt. 13.26 En ef prestur lítur á hann og sér, að engin hvít hár eru í gljádílanum og hann er ekki lægri en skinnið og hefir dökknað, þá skal prestur byrgja hann inni sjö daga. 13.27 Og prestur skal líta á hann á sjöunda degi. Hafi hann þá færst út í skinninu, skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það líkþrársótt. 13.28 En ef gljádílinn stendur í stað og hefir eigi færst út í skinninu, en dökknað, þá er það brunaþroti, og skal prestur dæma hann hreinan, því að þá er það bruna-ör. 13.29 Nú tekur karl eða kona skellu í höfuðið eða skeggið. 13.30 Þá skal prestur líta á skelluna, og sjái hann, að hana ber dýpra en skinnið og gulleit visin hár eru í henni, þá skal prestur dæma hann óhreinan. Þá er það skurfa, það er líkþrá í höfði eða skeggi. 13.31 Og er prestur lítur á skurfuskelluna og sér, að hana ber ekki dýpra en skinnið og engin svört hár eru í henni, þá skal prestur byrgja inni sjö daga þann, er skurfuskelluna hefir tekið. 13.32 Og prestur skal líta á skelluna á sjöunda degi, og sjái hann, að skurfan hefir eigi færst út og engin gulleit hár eru í henni og skurfuna ber eigi dýpra en skinnið, 13.33 þá skal hann raka sig, en skurfuna skal hann ekki raka, og prestur skal enn byrgja inni sjö daga þann, er skurfuna hefir tekið. 13.34 Og prestur skal líta á skurfuna á sjöunda degi, og sjái hann, að skurfan hefir eigi færst út í skinninu og hana ber ekki dýpra en skinnið, þá skal prestur dæma hann hreinan. Og hann skal þvo klæði sín og er þá hreinn. 13.35 En ef skurfan færist út í skinninu eftir að hann hefir verið dæmdur hreinn, 13.36 þá skal prestur líta á hann. Og sjái hann, að skurfan hefir færst út í skinninu, þá skal prestur ekki leita að gulleitu hárunum. Þá er hann óhreinn. 13.37 En ef jafnmikið ber á skurfunni og svört hár hafa sprottið í henni, þá er skurfan gróin. Hann er þá hreinn, og prestur skal dæma hann hreinan. 13.38 Nú tekur karl eða kona gljádíla, hvíta gljádíla í skinnið á hörundi sínu, 13.39 þá skal prestur líta á. Og sjái hann, að gljádílarnir í skinninu á hörundi þeirra eru dumb-hvítir, þá er það hringormur, sem hefir brotist út í skinninu. Þá er hann hreinn. 13.40 Nú verður einhver sköllóttur ofan á höfðinu, þá er hann hvirfilskalli og er hreinn. 13.41 Og ef hann verður sköllóttur framan á höfðinu, þá er hann ennisskalli og er hreinn. 13.42 En sé ljósrauð skella í hvirfilskallanum eða ennisskallanum, þá er það líkþrá, er út brýst í hvirfilskalla hans eða ennisskalla. 13.43 Prestur skal þá líta á hann, og sjái hann að skelluþrotinn í hvirfilskalla hans eða ennisskalla er ljósrauður, á að sjá sem líkþrá í skinninu á hörundinu, 13.44 þá er hann maður líkþrár og er óhreinn. Prestur skal sannlega dæma hann óhreinan. Líkþrársóttin er í höfði honum. 13.45 Líkþrár maður, er sóttina hefir, _ klæði hans skulu vera rifin og hár hans flakandi, og hann skal hylja kamp sinn og hrópa: ,Óhreinn, óhreinn!` 13.46 Alla þá stund, er hann hefir sóttina, skal hann óhreinn vera. Hann er óhreinn. Hann skal
Verlag: BookRix GmbH & Co. KG
Texte: This bible can either be read online or downloaded onto your pc as well as every kind of e-reader. It is made available in e-pub format. It can and should be spread in every way, selling it is, however, prohibited.
Bildmaterialien: www.malvorlagen.de
Tag der Veröffentlichung: 11.04.2013
ISBN: 978-3-7309-4765-4
Alle Rechte vorbehalten